Indiana Jones and the Last Crusade (1989) ***

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull er frumsýnd á Íslandi í dag, og því við hæfi að skrifa nokkur orð um framhaldsmynd númer tvö. Fyrri framhaldsmyndin var ekki nógu skemmtileg til að ég nenni að horfa á hana aftur. 

Indiana Jones and the Last Crusade hefst á stuttmynd um ævintýri hetjunnar á unglingsárum, en þar fer River Phoenix heitinn með hlutverk hetjunnar. Tónninn er léttur og hraðinn mikill.

Indy er í reiðtúr með skátafélögum sínum um Miklagljúfur en þar rekst hann óprúttna náungi sem hafa fundið Coronada krossinn, 500 ára forngrip sem Indy ákveður að eigi heima á safni. Hann stelur forngripnum af gaurunum og leggur á æsilegan flótta, þar sem í ljós kemur af hverju hann er hræddur við snáka, hvernig hann fann svipuna sína og örið á hökunni, og síðast en ekki síst hvernig hann fékk hattinn góða. Gaurarnir ná hins vegar krossinum af honum.

Nokkrum árum síðar nær Indy krossinum aftur einhvers staðar úti á reginhafi, sprengir skip í tætlur og sleppur einn lifandi úr sjónum.

Þegar heim er komið og hann aftur farinn að fræða háskólanemendur um fornleifafræði berast honum þær fregnir frá auðkýfingnum Walter Donovan (Julian Glover) að faðir hans, Prófessor Henry Jones (Sean Connery) hefur horfið við leit að hinum heilaga kaleik. Áður en Henry hvarf sendi hann Indy dagbók sína í pósti. Indy notar hana til að finna gröf riddara í Feneyjum, sem hefur að geyma nánari upplýsingar um staðsetningu hins heilaga kaleiks.

Riddarasögur segja að sá sem drekkur úr hinum heilaga kaleik öðlist eilíft líf. Það vekur áhuga nasista, sem sjá fyrir sér her sem getur lifað að eilífu og fengið sár sín læknað með vatni úr hinum heilaga kaleik. Indy hefur tvo trygga aðstoðarmenn og vini með í för, þá Marcus Brody (Denholm Eliot) og Sallah (John Rhys-Davies), og eina svikula vinkonu, Dr. Elsa Schneider (Alison Doody). Indy þarf að frelsa föður sinn úr höndum nasista og vera á undan þeim í að hirða hinn heilaga kaleik úr höndum miðaldariddara.

Þó að Last Crusade sé fín kvikmynd, þá kemst hún ekki í hálfkvist á við Raiders of the Lost Ark, sem var mun betur uppbyggð með knöppum og frumlegum frásagnastíl Það eru vissulega flott atriði í Last Crusade, en þau virka samt bara sem atriði, og það er vissulega húmor, en hann virkar oft frekar tilgerðarlega. Frumkraftur upprunalegu myndarinnar er einfaldlega ekki lengur til staðar, þar sem húmorinn var notaður til að létta aðeins á spennunni. Í Last Crusade er spennan ekki mikil, enda tónninn það léttur að maður veit að ekkert hræðilegt getur komið fyrir. Í Raiders of the Lost Ark hafði maður hins vegar á tilfinningunni að hvað sem er gæti gerst, og hvað sem er komið fyrir hvern sem er.

Ég ætla ekki að skrifa sérstaklega um mynd númer tvö í bálknum, Indiana Jones and the Temple of Doom, enda get ég ekki mælt með henni, þrátt fyrir að í henni séu nokkur flott atriði. Sem heild heldur sú mynd ekki vatni, og kenni ég þar mest um pirrandi leik Kate Capshaw og frekar stefnulausri leikstjórn Spielberg og slöku handriti. Samt er Harrison Ford mjög góður í þeirri mynd, sem og hinum tveimur.

 

Leikstjóri: Steven Spielberg

Einkunn: 8

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Farðu í bíó

Ómar Ingi, 23.5.2008 kl. 03:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband