Hannes Hólmsteinn: glæpamaður eða tæknileg mistök?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lengi verið umdeildur maður, enda fremsti boðberi frjálshyggjunnar sem ruddi sér leið inn í íslenskt samfélag í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Þó að ég hafi ekki stúderað stjórnmálaspeki af mikilli dýpt, sé ég ekki betur en að þegar hann talar um ríkisfjármál notist hann óspart við þær grundvallarhugmyndir sem fyrst birtust í riti John Rawls: Um Réttlæti. Kannski hef ég rangt fyrir mér, en það litla sem ég hef lesið í því riti fjallar um hvernig skynsamlegra er að auka fjármálafrelsi í hverju ríki því að hinir ríku verða kannski ríkari, en meira fellur af borðum þeirra, þannig að hinir fátækari verða einnig ríkari. Jafn mikilvægt er að ríkið takmarki ekki þetta athafnafrelsi. 

Ég er í meginatriðum sáttur við þessa kenningu og finnst hún mun betri en þær sem snúa að meiri stýringu og auðjöfnuði meðal fólks. Samt er spurning hvort að þeir sem notið hafa þessa frelsið hafi farið vel með það. Stóra spurningin er hvort að ríkið skuli skipta sér af þegar athafnafrelsið hefur verið misnotað, og hvernig þá. Ég held að ég skilji af hverju ríkisstjórnin er svona passív þessa dagana, ég held að hún sé að reyna að framfylgja stefnu frjálshyggjunnar og skipta sér sem minnst af athafnalífinu. Aftur á móti held ég að stundum þurfi að skipta sér af, stundum þarf að grípa inn í, það má bara ekki verða að vana.

Ég þekki Hannes ekki af eigin raun, hef aldrei rætt við hann, og hef reyndar aldrei haft sérstakan áhuga á því, fyrr en í gær þegar ég fylgdist með Kastljósþættinum. Þar kom hann mjög vel fyrir, sýndi auðmýkt, viðurkenndi sekt sína og lofaði að bæta fyrir hana. Hannes Hólmsteinn Gissurarson fær stóran plús í minn kladda eftir þessa frammistöðu. Ég hef heyrt fólk sem þekkir hann ekki af raun tala um að þar fari hrokafullur maður sem hlusti ekki á þá sem eru ósammála honum.

0608-01Hrokafulla yfirstéttarmanneskju sá ég ekki, og hef ekki séð þegar hann hefur borið á góma í fjölmiðlum eða í hans ritum. Hins vegar vottar fyrir töluverðu sjálfsöryggi - sem ég myndi frekar kalla dygð en löst. Ef hann hefur einhvern tíma verið hrokafullur, þá sýndi hann það ekki núna. 

Hannes hefur sterkar skoðanir og fylgir þeim eftir. Hann hefur stundum rangt fyrir sér og fer stundum of geyst. Þannig er farið með alla einstaklinga í þessum heimi sem gera eitthvað af viti. Munurinn er kannski sá að Hannes Hólmsteinn þorir að segja það sem hann er að hugsa, og margt af því sem ég hef séð hann hugsa (lesið eftir hann) er bara nokkuð flott.

Þegar talað er um Hannes Hólmstein og dómsmálin, þá get ég ekki annað séð en að hann sé fórnarlambið í þessum málum báðum. Í ákærumálinu á Englandi er honum stillt upp við vegg og bundinn inn í gaddavírsgirðingu fyrir grein sem birtist eftir hann á netinu, reyndar á ensku. Þýðir það að greinar sem skrifaðar eru á ensku eru ákæranlegar frá Englandi, bara vegna tungumálsins?

Þýðir þetta að þegar komin eru á markað nógu þróuð forrit sem geta þýtt greinar beint af íslenskum vefsíðum yfir á ensku, að hægt verði að ákæra þá sem skrifuðu greinarnar hvaðan sem er í heiminum? Getur slíkt nokkurn tíma gengið upp?

Hann er ekki kærður eftir íslenskum lögum, heldur enskum, sem mér finnst svolítið merkileg firra. Mér er sama hversu slæma hluti Hannes hefur skrifað í þessari grein. Aðförin að honum er hinn sanni glæpur. Það er spurning hvort að rétt væri fyrir hann að leita álits mannréttindardómstóls Sameinuðu Þjóðanna.

Um það að nota frásagnir Halldórs Laxness um eigin æsku í bók um Halldór Laxness, að miklu leyti óbreyttar: Ég er ekkert viss um að ég hefði ekki fallið í sömu gryfju sjálfur, þar sem ég hefði varla talið að efni æskuminninga Halldórs væri höfundarréttarvarið. Ég veit reyndar ekki hversu mikið Hannes sjálfur kom að útgáfu bókarinnar, en kannast við að hann hafi verið með starfsmenn á launum hjá sér í heimildarleit og fræðilegum samantektum. Mér finnst merkilegt að Hannes skuli taka á sig alla sökina, og ekki kenna neinum af starfsmönnum um það sem illa fór. Minni sálir hefðu sjálfsagt stokkið á tækifæri til þess. 

Sérstaklega fannst mér glæsilegt hjá Hannesi þegar hann tjáði að hann hefði engan raunverulegan skaða hlotið af þessu máli, enda hafi hann fylgt sinni sannfæringu og ekki brotið gegn henni, og þó að hann tapi peningum hafi hann ekki tapað sínum heilindum. Stórglæsilegt! 

Sama hvaða mannkosti eða galla Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur að geyma, þá sé ég þessi brot sem ekki annað en tæknileg mistök, og mér finnst flott hjá honum að ætla að endurútgefa fyrsta bindið til að leiðrétta þau. Það er ljóst að Hannes braut höfundarréttarlög, það er einnig ljóst að hann taldi sig ekki vera að gera það, og að hann hefur af auðmýkt viðurkennt eigin sekt og lofað að bæta þann skaða sem hann hefur valdið. Frá mínu sjónarhorni séð er skaðinn sem hann hefur valdið nákvæmlega enginn. Réttlátur dómur að mínu mati hefði verið að krefja Hannes til að leiðrétta mistök sín og í mesta lagi borga eigin málskostnað. Ekki meira. Dómurinn yfir honum er of harður á meðan alvöru glæpamenn ganga lausir um landið og er sleppt úr haldi þrátt fyrir að þeir geti hugsanlega verið hættulegir öðru fólki.

Að mínu mati skaðar Hannes Hólmsteinn ekki orðspor Háskóla Íslands með þessu máli, heldur styrkir hann vegna framkomu sem sýnir að maðurinn er sannur fagmaður og heill í gegn. Allir gera einhvern tíma mistök. Allir. Ekki allir eru tilbúnir að horfast í augu við þau og gera sitt besta til að leiðrétta þau.

Anna Karen skrifaði ágætan pistil í dag um og lét skemmtilegt myndband frá Pet Shop Boys fylgja með. Gullkornið í grein hennar var þetta:

"Vinkona mín sagði sko fyrir mörgum árum að hún gæti ekki annað en vorkennt Hannesi Hólmsteini þegar hún sæi hann uppí Háskóla. Hann virtist alltaf eitthvað svo leiður og niðurlútur, ég sá það líka, einsog hann væri með heiminn á herðum sér (þetta var þegar fyrsta dómsmálið var í algleymingi og hitt rétt að byrja). Þegar hún sagði þetta kom það mér samt á óvart því hún er svo mikil vinstrimanneskja, en gott og vel, ég þjáist af manngæsku líka og kinkaði bara kolli, hálf skoðanalaus þó." (Anna Karen)

Að lokum vil ég óska Hannesi og hans fjölskyldu alls hins besta og vona að eftir standi enn sterkari fræðimaður, rithöfundur og manneskja, því þeir erfiðleikar sem drepa ekki, þeir gera mann aðeins sterkari.

Hvaða rétt höfum við til að fordæma Hannes Hólmstein Gissurarson sem ótýndan glæpamann? 

 

Stutt teiknimynd um réttlæti: 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hrannar, hann er samt fræðimaður - og fræðari. Hvernig gat honum brugðist dómgreindin svona hrapallega? Ég man eins og gerst hefði í gær þegar Ragnheiður Finnsdóttir, umsjónarkennari minn í grunnskóla, lagði áherslu á að t.d. við ritun heimildaritgerða læsi maður sér til og skrifaði síðan eigin texta með eigin ályktunum. Það væri algjörlega bannað að skrifa orðrétt eftir öðrum.

Fyrir nokkrum árum var lagastúdent fundinn sekur um að nota sér efni annarra í lokaritgerð án þess að taka það fram. Hann fékk mjög bágt fyrir, að vonum.

Berglind Steinsdóttir, 4.4.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Rétt hjá þér Berglind, og það er á hreinu að Hannes Hólmsteinn vann vinnuna ekki rétt. Mér finnst refsingin einfaldlega alltof hörð og ekki í samhengi við önnur afbrot í samfélaginu.

Rétt er að lagastúdent afritaði lokaritgerð fyrir nokkrum árum, en hann fékk ekkert rosalega bágt fyrir. Hann fékk annað tækifæri, útskrifaðist og starfar í dag sem lögfræðingur.

En það er alltaf gaman að heyra í þér. 

Hrannar Baldursson, 4.4.2008 kl. 21:29

3 Smámynd: Ómar Ingi

Jón Ólafsson viðskiptajöfur eða Glæpamaður ?

Ómar Ingi, 4.4.2008 kl. 22:04

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Kæri Hrannar nú finnst mér þú hlaupa illilega á þig, hafa ekki kynnt þær málin. Og látið sefjast af sjónvarpsþættinum- enda var hann til þess gerður. Umburðarlyndi hefur lengi vel verið stærsti kostur íslensku þjóðarinn en ruglar æði oft dómgreind hennar. Það er einungis fjölskylda Halldórs sem hefur lögsótt hann- en Helga Kress hefur sýnt fram á að hann hefur stolið enn meir frá Peter Hallberg. Hvað ef afkomendur hans lögsækja hann líka? Hannes Hólmesteinn er óskabarn þeirra sem hafa völdin á Íslandi og án efa réðu þeir líka dapurlegri ákvörðun rektors. Það er ekkert til að hrópa yfir. Hugleiddu að minnsta kosti hvort þú hafir ekki látið blekkja Þig?

María Kristjánsdóttir, 5.4.2008 kl. 00:42

5 Smámynd: Landfari

Ég fæ eki betur séð en Hannes hafi sýnt framá að það eru komin ný viðmið hvað telst ritstuldur og hvað ekki.

Ég sé ekki betur Halldór sjálfur hefði verið dæmdur ef þau viðmið sem nú eru í gildi hefðu verið brúkuð í hans tíð.

Það má kanski segja að það eigi að gera meiri kröfur til Hannesar því hann er jú fræðimaður en Halldór "bara" rithöfundur.

Þó ég verði nú seint talinn til stuðningsmanna Hnnesar þá get ég ekki neitað því að hann virðst hafa lært af mistökum sínum. Það gera nú ekki allir þverhausar.

Landfari, 5.4.2008 kl. 08:28

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Jón Ólafsson er viðskiptajöfur þar til annað kemur í ljós.

María: Ég hef kynnt mér málin nógu mikið til að mynda mér skoðun  og efast um að umburðarlyndið sé að flækjast fyrir mér í þessu máli, heldur réttlætiskenndin. Ég hafði hugleitt hvort að þetta væri blekking hjá Hannesi Hólmsteini, en trúi ekki að svo sé.

Landfari:  Þetta er nákvæmlega málið.

Hrannar Baldursson, 5.4.2008 kl. 16:21

7 Smámynd: Ómar Ingi

Þar til annað kemur í ljós HAHAHAHAHAHA

Fyndin

Ómar Ingi, 5.4.2008 kl. 17:03

8 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Ég skil ekki af hverju aðstandendur Laxness geta ekki bara verið ánægð með að það vilji einhver leggja á sig alla þessa vinnu til að fjalla um skáldið.

Og af hverju má ekki hver sem er hafa aðgang að bréfum Halldórs, nema einhver séra Kress? 

Viðar Freyr Guðmundsson, 6.4.2008 kl. 01:26

9 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Hef verið illa fjarri góðu gamni. Og enn mjög upptekin. Ég er ekki refsiglöð manneskja, held ég. Og hef reyndar oft vorkennt Hannesi. En þetta mál snýst ekki um að vorkenna Hannesi Hólmsteini eða ekki. Þó búið sé að setja það þannig upp. Meira um það síðar-

María Kristjánsdóttir, 6.4.2008 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband