My Name is Nobody (1973) ***1/2

Jack Beauregard (Henry Fonda) er mesta byssuskytta Villta Vestursins, hann er það snöggur að þegar hann skýtur þremur skotum hljómar eins og um eitt skot hafi verið að ræða. Hann er orðinn þreyttur á stanslausum byssubardögum, og vill hætta með því að koma sér úr landi. Til þess þarf hann hins vegar að innheimta pening sem Sullivan bróðir hans (Jean Martin) skuldar honum. Sullivan er hins vegar ekki á því að borga Jack peninginn og hefur ráðið leigumorðingja til þess að drepa hann og alla vini hans, sama hvert hann fer.

Á ferð sinni rekst Jack á Nobody, eða Engan (Terence Hill) eins og hann kallar sig, en ef einhver er skjótari en Jack með framhleypuna í öllu Villta Vestrinu, þá er það hann. Í fyrstu heldur Jack að Enginn sé bara enn einn byssubófinn sem vill verða frægur fyrir að drepa hann, en Enginn er með miklu háleitari markmið, hann vill fyrst koma málum þannig fyrir að Jack sigri í skotbardaga gegn 150 byssubófum, og eftir það langar hann að taka kallinn í einvígi.

Sjón Jack er farin að förlast, enda kominn á efri ár og hann veit að komist hann ekki fljótlega úr landi verði hann skotinn af einhverjum heppnum óvini. Það er lán í óláni að hann skuli rekast á Engan, því Enginn vill halda honum á lífi svo að hann geti tekið þátt í skotbardaganum mikla.

Þetta er svolítið öðruvísi vestri. Hann er blanda af alvarlegum spaghettí vestra og léttu spaugi. Henry Fonda sér um að gera söguna og aðstæðurnar trúverðugar, en Terence Hill heldur uppi húmornum, og gerir það afar vel - enda með fína reynslu úr Trinity myndunum frægu. Leikstíll hans minnir töluvert á Jackie Chan, þó að hann sé engin Kung-Fu hetja. Þessi mynd hefði alveg eins getað heitið: "Ég heiti Lukku Láki".

My Name is Nobody er fín skemmtun, en vegna undarlegra klippinga í stóra bardaganum og alltof augljósrar hraðspólurnar til að láta hlutina gerast hratt, hrapar hún aðeins í verði. Hún er samt fín skemmtun og alltaf, og ég endurtek ALLTAF, stórgaman að fylgjast með Henry Fonda. Goðsögnin Sergio Leone framleiddi og átti hugmyndina að myndinni og Ennio Morrecone samdi stórgóða kvikmyndatónlist fyrir hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Rámar í þessa, man ekki betur en að ég hafi kunnað hana utanbókar í den

Gleðilega páska Gísli

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.3.2008 kl. 23:14

2 Smámynd: Skafti Elíasson

haha þetta er æðisleg mynd ég hef haldið uppá hana í mörg ár, það er fyndið að einhver annar muni eftir henni en ég. Músíkin í henni er líka frábær sérstaklega lagið sem fylgir Nobody.

Skafti Elíasson, 20.3.2008 kl. 00:09

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

þessi mynd er tær snilld - hef haldið upp á hana lengi.

Óðinn Þórisson, 20.3.2008 kl. 09:26

4 Smámynd: Ómar Ingi

Tónabío , Stjörnubío eða Austurbæjarbío ?

Man ekki alveg marr er svo ungur   En ég man eftir snillidinni.

Ómar Ingi, 20.3.2008 kl. 12:15

5 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Þetta er ein af þessum gersemum sem maður heldur að enginn þekki nema maður sjálfur. Æðislegt að sjá þennann pistil :-)

Kristján Kristjánsson, 20.3.2008 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband