The Adventures of Robin Hood (1938) ***1/2

Bretakonungur, Ríkharður Ljónshjarta (Ian Hunter) hefur farið í krossferð með riddurum sínum. Þegar hann er handsamaður af óvinum gripur bróðir hans Jón prins (Claude Rains) tækifærið og ætlar að sölsa undir sig völd landsins. Hann fær gráðug aðalmenni með sér í lið, og réttlætir stóraukna skatta á almúgafólk með því að segjast ætla að nota peninginn til að borga bróður sinn lausan, á meðan hið sanna er að hann ætlar að nota peninginn til að sölsa undir sig ríkið allt. Hans nánasti samstarfsmaður eru Guy frá Gisbourne (Basil Rathbone), en hann girnist auk valda, lafði Marion (Olivia de Havilland).

Það eina sem stendur í vegi fyrir sigri þessara illmenna er riddarinn ungi Hrói Höttur, eða Robin frá Locksley, eða Robin Hood (Errol Flynn). Þegar hann verður vitni að kúgun þeirra sem völdin hafa gagnvart þeim sem varla geta borið hönd fyrir höfuð, tekur hann að sér að leiða þá sem enn eru trúi Ríkharði Ljónshjarta og hugsjónum hans.

Hrói setur skýrar reglur. Það má stela en aðeins til þess að gefa þeim fátæku. Allir þeir sem fylgja honum þurfa að sverja Ríkharði Ljónshjarta eið, verja þá sem lítils mega sín og berjast fyrir sigri hins góða í heiminum. Meðal félaga Hróa eru hinn skrautlegi Will Scarlett (Patric Knowles), hinn hávaxni kraftaköggull Litli Jón (Alan Hale) og munkurinn Tóki (Eugene Pallette).

Dag einn hertekur flokkur Hróa flutningalest sem flytur með sér mikil auðævi. Meðal farþega er lafði Marion. Hrói verður strax hrifinn af henni, og fljótt kemur í ljós að það er gagnkvæmt. Menn Jóns prins taka eftir þessu og leggja gildru fyrir Hróa, keppni í bogfimi, þar sem Marion afhendir verðlaunin - gildra sem Hrói Höttur getur ekki staðist.

Ævintýri Hróa Hattar eru bráðskemmtileg og litrík. Myndin er tekin upp í Panavision kerfinu, og hún lítur út eins og hún sé glæný, þó að 70 ár verði frá frumsýningu hennar 14. maí næstkomandi. Helstu gallarnir við myndina er að stundum er leikur frekar stífur, og bardagaatriðin algjörlega ótrúverðug. Samt er drifkrafturinn í gorminum Flynn hrífandi og það skemmtilegur að hann drífur söguna áfram með hressileikanum einum saman.

Það er óhætt að mæla með þessari stórskemmtilegu útgáfu af ævintýrum Hróa Hattar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Jæja er þetta orðið einelti , við bara alltaf SAMmála núna

Ómar Ingi, 14.3.2008 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband