Eastern Promises (2007) ***1/2

Nikolai (Viggo Mortensen) er bílstjóri og útfararstjóri, eða með öðrum orðum hreingerningarmaður rússnesku mafíunnar í London. Hann starfar fyrir hinn óreglusama Kirill (Vincent Cassel) son mafíuforingjans.Semyon (Armin Mueller-Stahl). Kirill lætur myrða vin sinn án samráðs við föður sinn, en þessi vinur hans hafði verið að halda því fram að Kirill væri samkynhneigð fyllibytta. Nikolai þarf að hreinsa upp sönnunargögnin eftir morðið.

Annars staðar í borginni deyr unglingsstúlka af barnförum á sjúkrahúsi. Hún skilur eftir sig dóttur og dagbók, sem ljósmóðirin Anna (Naomi Watts) tekur með sér heim. Þar sem að bókin er á rússnesku fær hún frænda sinn til að þýða hana fyrir sig. Hún finnur nafnspjald í bókinni sem leiðir hana á heimili mafíuforingjans, og fljótlega veit hann um bókina og að frændi hennar er að lesa hana. Í bókinni segir unglingsstúlkan frá því hvernig Semyon hafði nauðgað henni og haldið henni nauðugri og dópað upp með heróíni.

Semyon fær Nikolai til að þagga niður í Önnu og fjölskyldu hennar, en málið er ekki það einfalt, því að Nikolai ber virðingu og hugsanlega einhverjar tilfinningar til Önnu, en á sama tíma komast bræður mannsins sem Kirill lét myrða, að því hverjir sökudólgarnir eru. Semyon vill að sjálfsögðu ekki láta drepa son sinn, og gefur því Nikolai það verkefni að deyja í stað sonar síns, án þess náttúrulega að segja Nikolai frá því. En Nikolai hefur meira til brunns að bera en nokkurn grunar, og hefur aðeins meiri metnað en að vera bílstjóri og útfararstjóri mafíuforingja.

Eastern Promises er meistaraleg söguflétta frá David Cronenberg sem borgar sig ekki að útskýra um of. Hún er uppfull af trúarlegum tilvísunum, og þá sérstaklega í húðflúrum þeim sem Nikolai hefur um líkamann allan. Yfir brjóstkassann er húðflúraður kross, og hegðun hans og viðmót gefa alls ekki til kynna að hann sé harðsvíraður glæpamaður. Hann er nær því að vera heilagur maður eða munkur, sem þarf að gera hræðilega hluti til að ná markmið sem bæta skal heiminn. Hann er maður sem fórnar sér fyrir málstaðinn.

Ef einhvern veikan hlekk er að finna í Eastern Promises, þá myndi ég helst benda á óvenju slakan leik Naomi Watts. Hún les sig einfaldlega í gegnum hlutverkið og myndina, á meðan þeir Vincent Cassel og Viggo Mortensen gefa sig alla og Viggo jafnvel meira en það til að gera hlutverki sínu almennileg skil.

Eastern Promises situr í mér og hvetur mig til umhugsunar um siðferði og fórnir sem sumir einstaklingar færa til að bæta samfélagið á einhvern hátt. Og mér verður hugsað til þess hvernig gott siðferði og fórnir fyrir betri heimi virðast verið orðin  hugtök alltof fjarlæg fólki sem er sokkið í líf sem snýst um fátt annað en að eignast sem mest af hlutum og þægilegri aðstöðu en allir hinir. Við búum í skrítnum heimi, og fáum áhugaverða áminningu í þessari mynd um það hvernig fer þegar venjulegt fólk lendir í hringiðu hinnar eilífu baráttu hins góða og illa.

Sýnishorn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Ég varð fyrir vonbrigðum með þessa mynd og ég átta mig ekki alveg á útnefningunum til verðlauna.

Söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur, framvindan og endirinn klisjukenndur og leikur í meðallagi.

Kannski skemmdi það fyrir að ég horfði á tært meistaraverk, No Contry for Old Men, kvöldinu áður en það á ekki að skemma fyrir...

Víðir Ragnarsson, 27.1.2008 kl. 00:49

2 Smámynd: Ómar Ingi

Víðir skil vel að þú hafir ennþá verið að melta mestaratstykkið No Country For Old men , en tilnefningar hafa verið venjulegast fyrir leik Viggo Mortensen og ef þú skilir illa af hverju hann er að fá tilnefningar þá skil ég ekki hvert þú ert að fara ?

Hann er vel að þeim tilnefningum komin finnst mér, en auðvitað er smekkur manna misjafn.

hilsen

Ómar Ingi, 27.1.2008 kl. 19:23

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er sammála því að Viggo Mortensen sýnir sérlega sterkan leik, og að hann sé meginundirstaða Eastern Promises. Ég viðurkenni að margt í söguþræðinum var fyrirsjáanlegt, fyrir utan endirinn og merkingu hans - sem kveikti reyndar fleiri spurningar en slökkti. Samt fannst mér hann passa. Gerðar hafa verið betri glæpamyndir, en Eastern Promises kemst á topp 20 hjá mér yfir slíkar myndir.

Hrannar Baldursson, 27.1.2008 kl. 19:58

4 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég er sammála með að myndin var aðeins fyrirsjáanlegri en ég átti von á en engu að síður með betri tryllum sem gerð hefur verið undanfarið. Maður gerir líka ósjálfrátt kannski meiri kröfur til frumleika hjá Cronenberg en kannski flestum öðrum

En Viggo Mortensen átti stórleik í þessari mynd og vel að útnefningum kominn.

Kristján Kristjánsson, 27.1.2008 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband