Leyndardómurinn að baki velgengni ofvirknislyfja (methylphenidate) eða réttlæting nytjahyggjunnar
13.12.2007 | 23:01
Ég rakst á þessa grein sem skrifuð var árið 1991 af Lawrie Reznek. Hún er úr ritinu The Philosophical Defence of Psychiatry (Heimspekileg málsvörn geðlæknisfræðinnar) og titluð The Virtues of the Medical Paradigm eða Dygðir hinna læknisfræðilegu viðmiða.
Þessar hugmyndir voru notaður til að réttlæta notkun á ofvirkniklyfjum, eins og Rítalíni og Concerta, ekki aðeins fyrir ofvirk börn, heldur fyrir öll börn sem haga sér illa eða eiga erfitt með að stjórna sér. Réttlætingin felur í sér að allir græða, nema einstök börn sem fara illa út úr þessu. Er það í góðu lagi svo framarlega sem að það kemur heildinni vel? Er í lagi að fórna fáeinum óþekktaröngum fyrir skilvirkara samfélag?
Í samfélagi lendum við sífellt í fyrirbæri sem ég vil kalla Vandamál um afbrigðileika. Til dæmis, frá því að skólar voru fundnir upp hafa verið börn í þeim sem hafa ekki einbeitt sér að vinnunni, hafa truflað kennslustundir og hafa alltof mikla orku til að kennararnir geti stillt þá af.
Árið 1957 uppgötvaði Maurice Laufer sjúkdóminn hyperkinetic impulse disorder eða mikil röskun líkamlegra hvata. Einkenni þessa sjúkdóms voru ofvirkni, léleg einbeiting og hvatvísi. Slíkur geðsjúkdómur hefur marga kosti.
Í fyrsta lagi gerir hann okkur fært að annast slíka afbrigðilega hegðun með lyfjum - milljónir barna hafa verið deyfð með methylphenidate (sem Rítalín og Concerta eru búin til úr - DHB). Í öðru lagi er truflun í skólastofu læknuð - kennarar geta nú notað tíma sinn fyrir áhugasamari nemendur. Í þriðja lagi geta foreldrar forðast þá sektarkennd sem tengist því að gefa af sér slakara afkvæmi eða mistakast að ala það rétt upp. Þeir geta útskýrt slakan árangur hans eða hennar í skóla með því að vísa í sjúkdóm sem kallar á meðhöndlun. Í fjórða lagi græða hin börnin á minni látum í skólastofunni. Í síðasta og ekki sísta lagi fylgja þessu margar hagstæðar leiðir.
Lyfjafyrirtæki græða þar sem þau framleiða og selja uppgefnum foreldrum lyf sín. Og ef lyfjafyrirtækin græða, þá græðir samfélagið - störf verða til hjá lyfjafyrirtækjunum, og þetta þýðir að fleiri meðlimir samfélagsins hafa laun til að eyða, og þannig blómstrar allt samfélagið.
Það sem byrjaði sem vandamál fyrir foreldra, kennara, og önnur börn endar með því að hagnast öllum nema þeim sem eru á endanum róuð og þvinguð niður af lyfjunum. Með því að uppgötva sjúkdóminn ofvirkni er hægt að leysa mörg vandamál sem afbrigðileg börn stofna til. (Reznek, 1991, p. 17)
Þessi röksemdafærsla er sambærileg við þau rök nasista að gyðinga þurfti að taka úr umferð því að þeir voru til of mikilla óþæginda í Evrópu. Einnig eru þessi rök sambærileg réttlætingu á dauðarefsingu í Bandaríkjunum, þar sem dauðarefsing er talin nauðsynleg til að fæla aðra mögulega glæpamenn frá glæpum, og einnig til að tryggja að mögulegum fórnarlömbum þeirra í framtíðinni verði bjargað með þessum hætti.
Það sem gerir rökin sambærileg er að verið er að hugsa um að losa alla aðra en viðkomandi ofvirkum einstaklingi, gyðingi eða glæpamanni við þjáninguna sem fylgir því að hafa svona afbrigðilega einstaklinga í samfélaginu. Ég er samt alls ekki að líkja ofvirkum saman við glæpamenn eða gyðinga, eða gyðingum við glæpamenn eða ofvirka, eða glæpamenn við ofvirka eða gyðinga. Þvert á móti, samkvæmt ofangreindum rökum verður hinn ofvirki, glæpamaðurinn eða gyðingurinn í Þýskalandi nasismans að fórnarlömbum nytjahyggjunnar. Reyndar má einnig líkja þessu við nornaveiðar á hinum myrku miðöldum, veiðar á kristnu fólki í fornu Róm og kommúnistaveiðum á McCarthy tímabilinu.
Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tel ofvirkniklyf gagnleg þeim sem eru sannarlega greindir með ofvirkni, og þá ekki aðeins útfrá félagslegum þáttum, heldur einnig út frá heilaskönnun á heilum sem ekki hafa þegar fengið ofvirkniklyf - því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt.
Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða.
Textinn á frummálinu:
In society, we are frequently faced with what I will call the Problem of Deviants. For example, ever since schools were invented there have been children that have not concentrated on their work, have disrupted their lessons, and have had too much energy for their teachers to contain. In 1957, Maurice Laufer discovered the disease of hyperkinetic impulse disorder which was characterized by over-activity, poor concentration and impulsivity. Such a mental illness has many advantages. First, it enables us to treat such deviant behaviour with drugs millions of children have been sedated with methylphenidate. Second, the classroom disruption is cured teachers can now devote their time to more rewarding pupils. Third, the parents can avoid the guilt associated with producing an inferior child or with failing to raise their child correctly. They can explain away his or her poor school performance by reference to a disease that needs treatment. Fourth, the other children are able to benefit from the decrease in classroom disruption. Last and not least, there are many valuable spin-offs. Drug companies benefit, making and selling their drugs to exhausted parents. And as drug companies benefit, so society benefits jobs are created by the drug companies, and this means more members of society have salaries to spend, and so society as a whole prospers. What started off as being a problem for parents, teachers, and other children, ends up benefiting everyone except those who end up being sedated and depressed on the drugs. By discovering the disease of hyperactivity, the many problems generated by deviant children are solved. (Reznek, 1991, p. 17)
Ekki gleyma því hversu viðkvæmt líffæri heilinn sjálfur er, því það er með honum sem við lærum stöðugt meira um leyndardóma hans og heimsins, eins og vel er kynnt í myndbandinu hér á eftir.
Athugasemdir
Það er mikið sem ég hef um að hugsa núna. Takk fyrir þessa fræðslu.
Ásdís Sigurðardóttir, 13.12.2007 kl. 23:52
Mætti ég biðja þig um að bæta inn í pistil þinn hvaðan heimildir þínar koma, þar sem kemur fram að þú ert hvorki læknis- né sálfræðimenntaður, fyrir þessu:
"... því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt.
Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða."
Ég er ekki að segja að þetta geti ekki verið rétt hjá þér en það er bara of mikið af svona skrifum í umferð þar sem upplýsingar eru fengnar á vafasömum stöðum og bornar áfram eins og vandaðar og almennt viðurkenndar staðreyndir. Það er lykilatriði þegar þú skrifar um eitthvað sem hefur mátt líða fyrir óvandaða umfjöllun, að hafa heimildir þínar á hreinu og taka þær fram til að bæta ekki á þá fordóma sem þegar eru fyrir í samfélaginu.
Mjög miklar breytingar geta líka orðið á 16 árum þannig að mér finnst óábyrgt að nota þetta gamla grein til að reyna að koma höggi á það hvernig málin standa í dag. Af hverju vísarðu ekki í einhver nýrri gögn eins og til dæmis Consensus yfirlýsinguna (hún er frá 2002) sem Matthías Halldórsson vísar í í athugasemdaþræðinum við fyrri færslu þína.
Annað sem virðist hafa farið fram hjá þér er að stór partur þeirra sem gerðu athugasemdir við fyrri færslu þína til að mótmæla þeim rangfærslum sem þar voru og til að verja notkun á rítalíni, tóku það fram að þeir væru með adhd eða 5 einstaklingar af 21.
5 til viðbótar gerðu athugasemd til að verja greiningu á adhd og óbeint lyfjanotkunina, þeir einstaklingar gætu vel verið með adhd án þess að vilja taka það fram vegna fordóma sem spretta út frá svona illa unnum færslum eins og hér hjá þér.
21 gerði athugasemd í heildina, þar af 9 sem vilja ala áfram á fordómum gegn þessu þó að það komi ekki fram á hverju þeir byggja sína sleggjudóma, utan eina konu sem vísar í vafasamar vefsíður. Sú tekur það fram að fólk sjái það bara sem það vilji sjá. Hún mætti gjarnan taka það til sjálfrar sín líka. Af þessum 9 var eitt foreldri sem aldrei fékk greiningu á sínu barni og miðað við það að bætt uppeldi gerði gagn hjá henni þá eru hverfandi líkur á því að barn hennar hafi verið með adhd, í það minnsta ekki á alvarlegu stigi.
Tveir foreldrar barna með adhd komu fram og ég gat ekki séð annað en einlægan ásetning hjá þeim konum fyrir því að hugsa fyrst og fremst um þarfir barna sinna og líðan.
Af hverju kom ekki hinn illa innrætti foreldra- eða kennarafjöldi fram til að verja þetta í stórum stíl, af hverju voru notendur rítalíns meira áberandi en foreldrarnir/kennararnir?
Ég legg til að það næsta sem þú gerir, áður en þú skrifar enn eina færslu um þessi mál, verði að lesa yfir Consensus yfirlýsinguna. Í beinu framhaldi af því ættirðu að gera þér far um það að fræðast um þetta frá þeim sem áhyggjur þínar virðast vera yfir, börnunum sem hafa verið alin upp á lyfjagjöf. Eða ef þú hefur tök á að fræðast um þetta frá fagaðila sem hefur kynnt sér töluvert meiri gögn en þú gætir hafa gert þessa síðustu daga.
Bestu kveðjur
-Kristín Kristjánsdóttir
Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 11:24
Kristín, þar sem að þú minnist á mína færslu frá fyrra innleggi þá vil ég benda þér á að ég skrifa ekki um þessi mál að gamni mínu, heldur vegna þess að þetta snertir mig og vegna þess að ég er búin að eyða mörgum árum í að lesa mig til um þetta.
Þegar stimpillinn er kominn þá er ekki lengur við snúið. Allir, og ég meina ALLIR, líta svo á að eina leiðin til að "lækna" þennan "sjúkdóm" sé með lyfjum. Ég fór að lesa mig til í þeirri trú að ég væri að leita að lausn sjúkdóms. Það sem ég fann var áróður lyfjafyrirtækja, rannsókna styrkta af lyfjafyrirtækjum og rökleysur byggðar á smættarkenningum. Sjúkdóms valdið er með greipar sínar vafðar fast um heila kynslóð. Það er verið að sjúkdómsvæða heila kynslóð af börnum undir því yfirskyni að það sé eitthvað að þeim, en sá dómur er byggður á afar vafasömum forsendum. Greiningin er mismunandi eftir því hver gefur hana. Hvernig getur þetta útskýrt sjúkdóm sem fólk á að ganga MEÐ? Taktu nú eftir, það er verið að segja að fólk sé MEÐ eitthvað, en þetta eitthvað er ekki mælanlegt nema með huglægum greiningum einstaklinga. Mér finnst eðlilegt að fólk stígi varlega undir svoleiðis kringumstæðum, en svo hefur ekki verið gert. Eins og tölur benda til þá eru börn á Íslandi greind og lyfjuð meira enn annarsstaðar í heiminum. Öfgarnar eru þvílíkar. Auk þess er ekki hægt að tala um þessi mál vegna uber viðkvæmni þeirra sem að halda fast í þessa greiningu. Hvers vegna veit ég ekki. Ég hefði haldið að foreldrar og aðrir aðstandendur hefðu áhuga á að sjá og skilja allar hliðar, en það er eins og fólk vilji ekki heyra neitt nema að það styðji sjúkdóms kenningarnar, þrátt fyrir holurnar alls staðar í þeim. Og að ég tali nú ekki um lyfjanotkun og það gráa svæði.
Hrannar, takk fyrir að halda þessu gangandi, enda er þörfin auðsjáanlega mikil.
Linda (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:19
Linda,
Ef þú ert búin að vera að kynna þér þetta til fjölda ára, hvernig stendur þá á því að þú heldur því enn fram að sérfræðingar telji að um sjúkdóm sé að ræða? Það er alveg klárt mál hjá þeim sem vinna við að greina þetta eða rannsaka að þetta er talið vera röskun en ekki sjúkdómur.
Þetta er þar með í sama flokki og einhverfa til dæmis. Telur þú einhverfu vera uppskáldað fyrirbæri þar sem greining einhverfu fer fram með svipuðum aðferðum og greining ofvirkni og athyglisbrests?
Þetta er ekki sjúkdómur og þeir sem til þekkja og hafa kynnt sér vönduð gögn ættu að vita það að þar er þetta aldrei talið vera sjúkdómur. Ég hvet þig, eins og Hrannar, til að lesa Consensus yfirlýsinguna jafnframt því að leita fræðslu um þetta frá þeim aðilum sem hafa rannsakað þetta, greinst með þetta eða unnið eitthvað í kringum þetta. Ekki treysta á þær internet heimildir sem þú hefur hengt þig í hingað til því það lítur út fyrir að þar hafir þú verið full valkvæm í þinni leit.
Ég byrjaði í sömu fordómum og þú, en einmitt vegna þeirra fór ég á námskeið hjá Grétari Ingibergssyni geðlækni sem er líklega manna fróðastur á Íslandi um þessi mál, þegar mér bauðst það í gegnum vinnustað minn. Hann hefur t.d. komið að rannsóknum um adhd auk þess að hafa sérhæft sig í þessu með því að leita fanga víða að til að auka bæði skilning sinn og annarra á þessu.
Það er hins vegar margt á huldu enn um þessa röskun, alveg eins og með einhverfuna. Einhvern tímann var fólk sem var með flogaveiki einungis haldið illum öndum.
Vilt þú vera með í því liði að stökkva á skýringu sem hentar þér af því að hún er sú skýring sem við höfum haft á þessu hingað til, eins og þeir gerðu sem meðhöndluðu flogaveiki fyrr á tímum sem illa anda, eða viltu hlusta á þau gögn sem eru komin fram um þetta og stíga varlega til jarðar í því að dæma þetta endanlega þar til við vitum meira?
Þetta mál snýst um vanlíðan fólks sem upplifir sig að einhverju leyti fatlað eða gífurlega utanveltu því það er ekki fært um það að fúnkera í nútíma samfélagi eins og samfélagið krefst af þeim. Það er mjög ódýr afgreiðsla að segja bara "fólk er einfaldlega misjafnt og það á ekki að steypa alla í sama form". Staðreyndin akkúrat í dag er sú að þú ert dæmdur hart af samfélaginu fyrir þau einkenni sem fylgja þér vegna þessarar röskunar. Þess vegna þarf að koma til einhver meðferð, þjálfun og/eða fræðsla fyrir viðkomandi. Og ekki síður fyrir óviðkomandi.
Rannsóknir sýna að lyfjagjöf gagnast mörgum og fyrir þá sem standa í þessum sporum þá er þetta það heftandi að það er ekki verjandi að hafna lyfjameðferð þegar hún gagnast og eins og adhd einstaklingar bera vitni um í sífellu, bætir lífsgæði þeirra margfalt. Bara af því að einhverjir utanaðkomandi sem hræðast óvissu vilja geta afgreitt hlutina annað hvort svarta eða hvíta.
Það er óvissa um þetta að mörgu leiti en það þýðir ekki að við eigum að afskrifa þá vitneskju sem þegar er komin fram bara af því að hún hefur ekki enn útskýrt þetta að fullu.
Hlustum á þá sem hafa þessa greiningu og hættum að eltast við illa ígrundaða fordóma okkar. Við tökum ekki eitthvað úrræði sem sannanlega gagnast fólki í dag (sannanlega í gegnum rannsóknir) bara af því að það er ekki hægt að útskýra það á áþreifanlegan hátt fyrir þér eða öðrum hvernig það virkar.
Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 15:02
Það er hiti í fólki hér, svo mikið er víst.
Skrítið hvernig ekki má ræða hlutina án þess að allt fari í bál og brand. ADHD, trúmál, útlendingar á Íslandi. Enginn má opna munninn án þess að verða úthrópaður af hinum eða þessum hópnum.
Sem fyrrverandi kennari hef ég haft einstaklinga inni í stofu hjá mér sem svo sannarlega hafa verið haldnir þessari röskun og ekki veitt af lyfjum til þess hreinlega að funkera, ekki bara í skólastofunni hjá mér, heldur líka í samfélaginu. Hins vegar hef ég líka haft börn sem voru á þessum lyfjum og maður spurði sig, hvers vegna? Kannski voru það fordómar í mér, fordómar á þessari röskun, ég bara veit það ekki en ég veit að ég er ekki yfir fordóma hafin.
Ég hef stundum velt fyrir mér hvað ég myndi gera ef sonur minn myndi greinast ofvirkur. Sannleikurinn er sá að ég hef ekki hugmynd, ekki glóru. Ég veit ekki hverjum ég á að trúa. En umræðan er og verður þörf og mikilvægt er að hafa hana háttvísa og málefnalega.
Hrannar ég er sammála Kristínu að einu leyti. Hvaðan hefurðu heimildirnar fyrir því að að svo stór hluti drengja greinist ofvirkur hér á landi? Ekki það ég minnist þess að hafa séð svipaðar tölur en rétt er að taka heimildirnar fram engu að síður.
Gerða M (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 20:56
Ég geri ráð fyrir að svara spurningum um heimildir á morgun. Hef einfaldlega ekki haft tíma í bloggið í dag.
Hrannar Baldursson, 15.12.2007 kl. 01:06
Kristín,
Ég sagði ekki að sérfræðingar telji þetta vera sjúkdóm (þótt sumir geri það), en almennt þá er talað um þetta sem sjúkdóm. Það er talað um "mental illness" og "mental disorder" á svipuðum nótum. En skiptir það einhverju máli svona yfirhöfuð fyrir börnin? Hvort þau eru greind með sjúkdóm eða með röskun? Er þetta í alvöru það sem þér finnst skipta máli? Skilgreiningar sem að koma frá "fagaðilum" sem að eru með svo stór egó að umræðan gengur út á þeirra skilgreiningar, ekki hvort þessar skilgreiningar hjálpi fólki. Segðu mér eitt, fyrst þú ert svona staðráðin í því að þetta sé ekki sjúkdómur, heldur "röskun", við hverju er verið að gefa lyf? Afhverju Ritalín eða Concerta? Afhverju ekki bara Valíum til að róa börnin? Eða Haldol til að slökkva alveg í þeim? Afhverju er vandamálið að stækka en ekki minnka við alla þessa lyfjagjöf?
Áhugavert hvernig þú orðar eftirfarandi,
"Ég hvet þig, eins og Hrannar, til að lesa Consensus yfirlýsinguna jafnframt því að leita fræðslu um þetta frá þeim aðilum sem hafa rannsakað þetta, greinst með þetta eða unnið eitthvað í kringum þetta".
Þú heldur greinilega að við séum bara að bulla út í loftið og að við vitum ekkert í okkar haus. Hrannar er með Masters gráðu og hefur unnið með börnum. Hvað ef ég segi þér að ég er háskólamenntaður fagaðili? Að ég hef unnið í kring um þetta og jafnframt rannsakað þetta? Að ég sé orðlaus yfir því á hversu lágu plani rannsóknir og skýringar samstarfsaðila séu, hvernig þeir láta matreiða upplýsingar ofan í sig án þess að nota hausinn á sér. Eða ef ég segði þér að ég ætti barn með þessa greiningu? Myndirðu þá tala svona niður til mín (og Hrannars)? Það er alveg ótrúlegt hvað fólk sem fer á námskeið hjá geðlæknum telur sig hafa mikla kunnáttu og þekkingu. Geðlæknar í eðli sínu leita að geðrænum vandamálum. Það er það sem þeir gera. Þarafleiðandi sjá þeir heiminn út frá þeim skilgreiningum. Þeir sjá geðræna sjúkdóma (eða raskanir) þegar þeir leita að þeim með þeim skilgreiningum sem þeir hafa í DSM (eða ICD). Eins og smiður með hamar sem að leitar að nöglum, þá leitar geðlæknir að geðrænum vandamálum. Svona einfalt er það.
En ok, röskun, sjúkdómur, hvort sem er, þá er verið að skilgreina börn sem biluð á einhvern hátt. Það er eitthvað að þeim, ekki umhverfinu. Við skellum skuldina á börnin. Við (fagaðilarnir) erum svo upptekin af því að sjá heiminn út frá okkar skilgreiningum að við lokum á þá möguleika að kannski sé ekki eitthvað að börnunum, heldur skilgreiningunum okkar. Kannski hafa viðbrögð barnana með eitthvað annað að gera en "röskun" eða "sjúkdóm". Getur verið að við séum að skilgreina vitlaust vandamál?
Þetta er auðvitað það sem að gerist í þessari umræðu, og það er að fólk hengir sig á skilgreiningar og orð eða frasa. Skilgreiningar um frávik eða sjúkdóma eða raskanir. Orð eins og "fordómar". Þessu er hent framan í fólk sem að spilar ekki með og verður til þess að stöðva alla umræðu. Ef maður sér þetta ekki svona, þá er maður með fordóma og á móti foreldrum. Það er það flottasta. Eða maður er ekki nógu vel lesinn.
Ég mæli með því að þú lesir þig aðeins betur til. Þú þarft að skilja hugmyndafræðina á bakvið sjúkdómsvæðingu, rannsóknaraðferðir, og skilgreiningar á sjúkdómum og röskunum í stað þess að taka matreiddar hugmyndir annara (geðlækna) og áframsenda í þessu formati. Það myndi hjálpa ef þú læsir allavega sjálfar rannsóknirnar, skoðaðir hver gerir þær og hver borgar fyrir þær, og spyrðir sjálfa þig grundvalla spurningar varðandi skilgreiningarnar og hvaðan þær koma.
Gangi þér vel.
Linda (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 18:36
Þú ýjar að því Linda að hugsanlega sért þú háskólamenntaður fagaðili, þú verður bara engu færari um það að segja eitthvað um þetta ef þú ert með gráðu í tölvunarfræði eða guðfræði. Alveg eins og Hrannar er hvorki læknis- né sálfræðimenntaður.
Þið eruð hins vegar bæði vel gjaldgeng í svona umræður, burtséð frá menntun ykkar eða skorti þar á, ef hugsun ykkar er ekki valkvæm því þá er hún strax farin að ýta undir þá fordóma sem eru nægir fyrir varðandi þetta.
Ef þú hefur unnið við rannsóknir þessu tengdu þá skil ég ekki að þú nefnir það ekki því það yrði augljóslega fengur fyrir umræðuna. Ef þú átt barn með þessa greiningu þá væri fróðlegt að heyra um reynslu þína þar en það hefur ekki komið fram og því get ég ekki gengið út frá því. Þú skrifar ekki undir fullu nafni þannig að þú ert ekki endilega að openbera þig með því.
Að koma með svona vangaveltur "hvað ef" er eftir minni reynslu oftast notað til að slá ryki í augu fólks og veik tilraun til þess að ljá fullyrðingum vægi þegar ekki er hægt að bakka þær upp með gögnum eða rökum.
Þú segir að það skipti ekki máli hvort þetta er röskun eða sjúkdómur. Það er ekki rétt. Umræðan skilar okkur mestu eftir því sem við erum nákvæmari í því að hafa staðreyndir í málinu á hreinu. Það er alveg klárt að þetta getur aldrei kallast sjúkdómur. Þú sérð það strax að nálgun við sjúkdóm eða nálgun við einhvers konar fötlun er algerlega sitt hvor hluturinn.
Ég hef orðið vör við það að fólk veltir vöngum yfir því hvort rétt sé að kalla þetta röskun, hvort þetta sé stimplað sem slíkt því þetta er ekki normið, þ.e. það er ekki meirihlutinn sem er svona heldur mikill minnihluti. Ég er ekki nógu vel að mér í þessu til að fullyrða að þetta eigi bara að vera kallað röskun en ekki fjölbreytileiki í heilastarfsemi fullfrískra einstaklinga.
Það skiptir líka kannski ekki mestu máli hvort þetta er röskun eða persónuleikaeinkenni, því það verður nokkuð örugglega ekki leyst í þessari umræðu, það sem skiptir máli núna er að þeir sem eru greindir með þetta fara í þá greiningu því þetta hamlar þeim í lífi sínu og þeim vantar úrræði til að skilja þetta betur og fræðslu til að ná betri tökum í sínu lífi. Ef það kemur í ljós að það sé ekki hægt að flokka þetta sem röskun í framtíðinni þá getum við þó grætt meiri skilning á fyrirbærinu í milli tíðinni sem vonandi verður til þess að bæta lífskjör fólks sem upplifir sig svona. Það gæti t.d. leitt til þess að samfélagið geri meira ráð fyrir þessum fjölbreytileika í skólakerfi og öðru.
Þú spyrð af hverju róandi sé ekki notað á þessi börn. Róandi virkar þveröfugt á adhd manneskju miðað við aðra. Áfengi er til dæmis róandi en það virkar ekki þannig á adhd einstakling. Hann getur orðið snælduvitlaus eftir lítið magn af áfengi og það er algengt að þessir einstaklingar hafi bara gefist upp á því að fá sér í glas því þau áhrif sem aðrir fá út úr áfengi þau upplifir hann einfaldlega ekki, en verður þess í stað stjórnlaus og jafnvel sér til skammar í hvert skipti. Aftur velti ég því fyrir mér af hverju þú veist þetta ekki ef þú hefur kynnt þér þetta mikið.
Ef fólk treystir sér til að takast á við þetta án lyfja þá get ég ekki séð neitt að því, en ef fólk kynnir sér hlutina ekki nægilega þá gæti það verið að hafa af barni sínu verðmætt verkfæri sem barnið yrði þakklátt fyrir að fá að nota.
Þú talar um sjúkdómsvæðingu og auðvitað eigum við að vera á verði í hvert skipti sem hugmyndir koma fram sem kollvarpa þeim sem hafa staðið traustum fótum til lengri tíma á undan þeim. En oft hafa þær bara staðið traustum fótum því við vissum ekki betur. Margir reyna að gera þetta orð sjúkdómsvæðingu að grýlu til að þagga niður umræðu um hluti sem þarfnast þess að vera ræddir.
Að mörgu leiti er læknisfræðin ekki að sjúkdómsvæða allt og alla heldur að afhjúpa sífellt meiri þekkingu um manneskjuna. Við getum t.d. notað svona greiningu, um að við séum með adhd, til að slengja henni fram sem afsökun fyrir öllu sem við stöndum ekki undir og hreinlega gefist upp, eða við getum notað hana sem tækifæri til að skilja okkur betur verða mun sterkari í kjölfarið þegar við höfum lært inn á það hvernig við vinnum í kringum þær hamlanir sem við upplifum af þessu. Hvort við veljum að gera, er varla læknisfræðinni að kenna heldur okkur sjálfum.
Ég var að vinna í nokkurn tíma í apóteki. Þar áttaði ég mig fyrst á þeirri staðreynd að fólk skiptist að miklu leyti í tvo hópa þegar kemur að lyfjum, eða líklegast þrjá. Fyrsti hópurinn notar lyfin og þá greiningu sem það fær sem skjöld til að fela sig á bakvið og verða í vissum skilningi þrælar lyfjanna. Hinn hópurinn eru meistarar lyfja sinna frekar en þrælar, þeir nýta lyfin þegar við á til að bæta lífsgæði sín án þess að það fari að skilgreina sig sem manneskjur út frá því. Þriðji hópurinn eru svo þeir sem eru svo hræddir við stóru vondu lyfjafyrirtækin að þeir þjást frekar en að nýta sér þá stórkostlegu þekkingu og hjálp sem læknis- og lyfjafræðin geta fært okkur, hvort sem það er í bland við heilbrigt líferni og forvarnir eða ekki.
Mér finnst mjög merkilegt hvað fólk er ginkeypt fyrir grýlunni um spillingu lyfjafyrirtækjanna, þau eiga víst svo mikilla hagsmuna að gæta, á sama tíma og óhefðbundnar lækningar blómstra og fólk er rukkað um ótrúlegar upphæðir þar fyrir einföldustu hluti eins og gagnslausar vatnsformúlur (homeopatia) eða létt klapp á líkamann (bowen). Vissulega getur einhver spilling þrifist innan lyfjageirans en þar er þó miklu kostað til eftirlits á meðan nákvæmlega ekkert eftirlit er með óhefðbundnu lækningunum. Í verstu tilfellum þá finnst mér eins og sumir haldi að það sé sjálfkrafa innbyggt inn í starfsfólk lyfjafyrirtækja eitthvert illt innræti á meðan heiðarleiki sé default stillingin á því fólk sem býður upp á heimatilbúin fræði.
Jæja, nú fer ég að vera búin að segja mitt í þessu þannig að ég þakka fyrir skemmtilegar og fjörugar umræður Linda og þér Hrannari fyrir að hafa áhuga á þessu.
Bestu kveðjur
-Kristín Kristjánsdóttir
Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 12:45
Þakka þér Kristín sömuleiðis. Það er alltaf gott (og hollt) að fara í gegn um rökin sem eru á bakvið hugmyndir okkar. Þú augljóslega kemur að þessu frá þínum reynsluheimi og ég mínum, þannig að við báðar sjáum þetta út frá því.
Ég ætlaði mér ekki að slá ryki í augun á þér, eins og þú gafst í skyn. Ég er samt í þeirri óþægilegu aðstöðu að vinna innan geirans og hef séð einstaklinga lenda í einelti ef það vogar sér að láta í ljós hugmyndir sem að passa ekki inn í þann þrönga ramma sem skilgreindur hefur verið fyrir blessuð börnin og foreldra þeirra. Ég vinn því með mínu fólki eins og ég get, og geri það í friði, af einlægni og með þá reynslu sem ég hef. Þannig að þó það sé ekki beint afsökun fyrir því að koma ekki fram undir nafni, þá kannski útskýrir það eitthvað.
Ég er sammála því að öfgarnar ganga ansi langt í allar áttir. Ég á þá við bæði varðandi markaðssetningu lyfjafyrirtækjanna, hugmyndir um náttúrulegar lækningar og hræðsluáróður frá báðum hliðum. En eitt er víst á hreinu, að ef fólk skoðar ekki hvað er að gerast á bakvið rannsóknirnar þá getur það ekki skilið það og umræðan hefur litast af þessu. Hugtakið "rannsóknir sýna", eða "benda til" er notað sem einskonar sönnunargagn, en það er því miður götótt.
Takk fyrir mig Hrannar. Hittumst kannski síðar í líflegum umræðum :-)
Linda (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.