Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 18. sæti: Blade Runner
6.11.2007 | 22:35
18. sætinu nær Blade Runner í leikstjórn Ridley Scott. Kolsvört og drungaleg framtíðarsýn þar sem risastór auglýsingaskilti og fljúgandi bílar leika aukahlutverk innan um manneskjur í eltingarleik við vélmenni.
Blade Runner (1982) ***1/2
Blade Runner er gerð eftir smásögunni 'Do Androids Dream of Electric Sheep?' (Dreyma vélmenni rafrollur?) eftir Philip K. Dick, þann sama og skrifaði smásöguna sem Total Recall er gerð eftir, 'We Can Remember it For You Wholesale' (Við munum það fyrir þig á heildsöluverði). Kvikmyndin er drungaleg framtíðarsýn. Vélmenni, sem hönnuð hafa verið til að líkjast manneskjum nákvæmlega eru notuð sem þrælar til að vinna erfiðisstörf. Þessi vélmenni geta ekki lifað lengur en fjögur ár í senn.
Nú gerist það að nýjustu útgáfurnar af vélmenna sem kallast 'replicants' taka upp á því að hugsa sjálfstætt, og þroska með sér tilfinningar eins og ást og þrá til að lifa. Þessi þrá til að lifa verður til þess að nokkur vélmennin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að framlengja eigin líf. Það kostar blóðug átök. Roy Batty (Rutger Hauer) er leiðtogi þessara rafrænu vera, en Rick Deckard (Harrison Ford) er þeirra helsta hindrun. Hann er fenginn til að leita vélmennin uppi og útrýma þeim. Í rannsókn sinni uppgötvar hann að hugsanlega hefur líf þeirra meira gildi en hann hafði áður gert sér grein fyrir, og þarf að takast á við undirstöðu trúar sinnar um lífið og tilveruna.
Segjum að mannkynið slysist til að búa til vél sem hefur sams konar tilfinningar, hugsanir, þrár og vilja til að lifa að eilífu, rétt eins og manneskja og gæti hugsanlega verið með sál, hefðum við rétt til að taka slíka vél úr sambandi þegar okkur þóknast, bara vegna þess að við bjuggum hana til?
Ef við höfum þennan rétt, hefur skapari okkar þá ekki rétt til að taka okkur úr sambandi þegar honum sýnist, án þess að velta sér upp úr samviskubiti og væli?
Ridley Scott skapar framtíðarsýn þar sem tæknin hefur farið langt fram úr mannfólkinu og það er farið að gjalda fyrir það. Hvert einasta atriði er skemmtilega útfært. Það er stutt í að út komi endanleg útgáfa Ridley Scott á Blade Runner, en hana er til dæmis hægt að panta á amazon.co.uk.
Blade Runner er góð mynd, en frekar drungaleg og þunglyndisleg á köflum. Harrison Ford og Rutger Hauer eru eftirminnilegir í hlutverkum sínum, og þá sérstaklega Hauer, sem hið ofurmannlega vélmenni. Önnur eftirminnileg persóna er lögreglumaðurinn Gaff (Edward James Olmos) sem býr stöðugt til og skilur eftir sig pappírsdýr út um allt.
Nokkrar spurningar:
- Ef þú starfaðir við að framkvæma skítverk fyrir lögregluna, að útrýma vélmennum sem hafa alla sína stuttu ævi unnið skítverk fyrir annað fólk, og unnið sér til dauðadóms að þau leita eftir leið til að komast lífs af, færi þá eins fyrir þér ef þú uppgötvaðir að þú værir vélmenni, forritað til að deyja eftir ákveðinn dagafjölda?
- Hvað myndir þú gera ef þú vissir að líf þitt myndi fjara út eftir viku, af mannavöldum?
- Myndriðu láta það yfir þig ganga eða gera eitthvað í málinu?
- Er réttlætanlegt að grípa til vopna þegar verið er að verja eigið líf?
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 8.11.2007 kl. 16:58 | Facebook
Athugasemdir
Frábær mynd! Bara með þeim betri sæfæ-kvikmyndum sem gerðar hafa verið.
En 18. sæti?! Það er nú eitthvað dularfullt.
Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 23:28
edward james olmos er góður leikari. og daryl hannah er sæt...
jú, og myndin er góð. right.
arnar valgeirsson, 6.11.2007 kl. 23:46
Þórður. Þetta er náttúrulega bara mín skoðun, hvað mér finnst. Og ég veit að til er fólk sem er ósammála mér. En þannig er þetta bara. Allar myndirnar í 1.-17. sæti finnst mér betri en Blade Runner. Þú verður bara að bíða og sjá.
Arnar, vissulega er Blade Runner mjög góð mynd. Reyndar fannst mér Daryl Hannah ekki standa sig neitt frábærlega.
Hrannar Baldursson, 7.11.2007 kl. 01:05
Auðvitað er þetta þín skoðun, ég bíð bara spenntur. Ég hef gaman af svona listum.
Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 12:25
Ein besta Sc Fi Mynd allra tíma í 18 sæti ?
5 útgáfur á leiðinni til ykkar til að melta.
Þú vissir að Rick Dekart var svo Replicant, en það skýrist í einni útgáfunni.
Ómar Ingi, 7.11.2007 kl. 20:34
Hrannar, þú veldur mér vonbrigðum. Þetta er ein af mínum uppáhalds með öllum sínu leyndu atriðum, eins og Rocky veggspjaldið í sjoppunni. En ég bíð spenntur eftir því að sjá hvaða meistarastykki ýta henni svona neðarlega á listanum þínum.
Marinó G. Njálsson, 8.11.2007 kl. 22:45
Já, ein besta Sci-Fi myndin í 18. sæti þar sem mér finnst allar þær myndir sem eru í sætunum 17 fyrir ofan betri.
Marínó, ég hef náttúrlega ekki sundurgreint Blade Runner út í smæstu atriði, en vissulega fór mikil og góð hugsun í gerð hennar. Samt finnst mér vanta herslumuninn upp í hinar 17. Hugsaðu þér, það er nokkuð af afbragðs sci-fi myndum sem ná ekki einu sinni inn á þennan lista. Spurning hvort ég ætti ekki að víkka þetta upp í topp 50, eða jafnvel 100, til að ná inn öllum þeim sem eru þess virði að sjá.
Ég kannast ekki við Rocky veggspjalds-atriðið í sjoppunni og átta mig engan veginn hvað það hefur að gera í Blade Runner myndinni. Skemmtilegur punktur sem þýðir að ég verð að gefa henni enn eitt tækifærið þegar nýja útgáfan kemur út - og kíkja þá á aukaefnið með.
Hrannar Baldursson, 9.11.2007 kl. 01:17
Topp 10 -50 -100 listar eru alltaf einstaklingsbundnir og verða aldrei öllum til geðs , til dæmis finnst mér þetta fáranlegt með Blade Runner hjá þér en virði þína skoðun nema hvað ekki væri nú gaman ef allir hefðu sama smekk og skoðanir.
Það er gaman af þessum listum þá er eitthvað til að tala um
Ómar Ingi, 9.11.2007 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.