The Matador (2005) ***1/2

Julian Noble (Pierce Brosnan) er leigumorðingi að atvinnu. Líf hans er algjörlega innantómt. Í raun má segja að Noble sé James Bond sem búinn er að skipta um atvinnurekanda og tapa sjálfsvirðingunni. Hann á sér ekki heimili, stundar kynlíf án þess að ná sambandi við konurnar, og drekkur alltof mikið. Þegar hann áttar sig á að hann er algjörlega vinalaus fer hann að þrá samband við aðra manneskju, einhvern sem hann getur talað við og hlustað á, hann þarf vináttu.

Danny Wright (Greg Kinnear) er ósköp venjulegur og ljúfur maður sem fer til Mexíkó í viðskiptaerindum. Viðskiptin ganga hins vegar ekki alveg smurt fyrir sig.

Þeir Noble og Wright hittast á hótelbar í Mexíkóborg og spjalla saman um daginn og veginn. Í ljós kemur að Noble virðist algjörlega tilfinningasnauður þegar Wrigth segir honum frá dauða sonar síns, en hann er niðurbrotinn maður eftir að hafa misst djásn lífs síns í rútuslysi þremur árum áður. Neisti kviknar á milli þeirra félaga. Eðli þessa neista kemur ekki í ljós fyrr en í lok myndarinnar.

Noble býður Wright á eftirminnilegt nautaat, og útskýrir eigin sín á virðinguna sem felst í drápinu á nautinu, þessu sérstaka sambandi milli þess sem drepur og þess sem er drepinn. Síðan trúir hann honum fyrir við hvað hann starfar.Í fyrstu trúi Noble honum ekki, en Wright sannfærir hann með því að láta Noble velja fórnarlamb meðal áhorfenda og sýnir honum hversu auðvelt getur verið að taka líf hvers sem er og komast upp með það. Sambandi þeirra virðist ljúka þegar Wright neitar að taka þátt í launmorði á næsta fórnarlambi Noble, eða áhorfandanum er talið trú um það þar til meira kemur í ljós.

Leiðir skilja og báðir halda sinni iðju áfram, þar til sá dagur kemur að Noble getur ekki lengur drepið. Þá þarf hann að leggja á flótta undan yfirmönnum sínum. Eina afdrepið sem honum dettur í hug er heima hjá Wright.

Húmorinn er góður, og Pierce Brosnan er betri en nokkurn tíma fyrr. Greg Kinnear er sannfærandi og áhugaverður sem venjulegi fjölskyldufaðirinn. Ljóst er að það mun borga sig að fylgjast með leikstjóranum, Richard Shepard, í náinni framtíð; því honum tekst að vekja forvitni áhorfandans og koma skemmtilega á óvart þegar leyndarmálið er afhjúpað, um hvað gerðist milli þeirra félaga á hótelherbergi um miðja nótt í Mexíkóborg.

The Matador er ein af betri myndum sem ég hef séð um vináttu. Það vill svo skemmtilega til að hún minnir mig nokkuð á aðra mjög góða mynd um launmorðingja og vináttu, The Killer í leikstjórn John Woo, og spurning hvort að það sé tilviljun að The Matador og The Killer sé sama hugtakið á tveimur ólíkum tungumálum?

The Matador er mynd sem óhætt er að mæla með, en þó með þeim fyrirvara að það er nokkuð um nekt og gróft orðbragð, enda tilheyrir heimur vændis og örvæntingar öllu því sem Julian Noble stendur fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þessa greiningu. Nú er bara að sjá myndina þegar hún kemur á DVD, er hætt að geta farið í bíó, en reyni þó ca. 2svar á ári og tek þá bara með mér púða og dót til að stilla mig af.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.11.2007 kl. 16:10

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Hljómar vel.

Steingerður Steinarsdóttir, 4.11.2007 kl. 17:35

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

The Matador er komin út á DVD.

Hrannar Baldursson, 4.11.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband