Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
19.10.2007 | 19:20
Áðan skrapp ég í Bónus við Smáralind. Það var mikil örtröð á bílastæðinu. Fólk þurfti lífsnauðsynlega að berja sér leið inn í Toys'R'Us enda sjálfsagt fullt af merkilegum vörum þar í hillum sem þurfa að komast upp í hillur heima.
Inni í Bónus hjó ég sérstaklega eftir því að ég heyrði ekki eina einustu manneskju tala íslensku, en samt var búðin troðfull. Þegar ég kom að kassanum spurði ég afgreiðslustúlkuna hvort hún ætti rafhlöður. Hún hristi höfuðið og yppti öxlum og sagði með sterkum austur-evrópskum framburði,
"I don't speak."
Ég benti á rafhlöðu í rakvélapakka og spurði á ensku. Hún hristi höfuðið, til merkis um að þær væru ekki til, held ég.
Þegar út kom streymdi fólk inn og út úr Toys'R'Us og ég vissi ekki alveg hvernig mér átti að líða. Ég hef ferðast mikið um heiminn, en alltaf haft á tilfinningunni að hvar sem ég kom, þá væri ég staddur í viðkomandi landi. En núna þegar ég skrepp út í búð á Íslandi finnst mér ég ekki vera staddur á Íslandi. Í dag, öðrum dögum fremur, finnst mér heimurinn vera að breytast.
Mér verður hugsað til bernskuáranna þegar frændi minn var kaupmaður á horninu í miðbænum, og þegar ég þekkti afgreiðslufólkið í KRON með nafni og þau mig. Það þótti jafnvel merkilegt að einn í bekknum var ættaður að einhverju leyti frá Bandaríkjunum og annar danskur í aðra ættina. Við höfum aðeins þroskast síðan þá. Það er sjálfsagt stutt í það að íslenskan deyr dauða sínum og við verðum enskumælandi þjóð.
Best að ljúka þessum pistli á ljóði eftir Jónas Hallgrímsson sem spratt fram í huga minn þegar ég horfði á risastórt Toys'R'Us skiltið fyrir utan Bónus í Smáralind.
ÍSLAND
Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu,
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð, og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginnn heim.
Það er svo bágt að standa' í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvurt ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Athugasemdir
Ég lendi æ oftar í því að fá minni þjónustu en ég ætlaði mér. Í Bónus spyr ég einskis lengur, en ég lenti í því í Vesturbæjarlauginni í vikunni að ég bað um nótu fyrir kaupum mínum á sundkortinu og afgreiðslustúlkan svaraði bjagað og hálfflóttaleg að það lokaði kl. tíu. Ég yppti þá líka mínum öxlum og hætti við að ganga eftir nótunni. Annars borgar vinnan íþróttastyrk.
Berglind Steinsdóttir, 19.10.2007 kl. 23:59
Þetta er slæm þróun. Við Íslendingar eigum að vera stolt af okkar þjóðerni og halda sem lengst í þessa fallegu tungu.
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 08:26
Vil minna fólk á að tala varlega um þessi mál til að verða ekki útrópaðir rasistar.
Gleymum því því ekki að útlendingarnir eru hingað komnir til að bjarga okkur. Þeir eru tilbúnir til að vinna fyrir miklu lægra kaup, sem er gott fyrir fyrirtækin.
Ef það er gott fyrir fyrirtækin þá er það gott fyrir alla, ekki satt?
Jóhann (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 09:38
Vissulega er það rétt hjá þér Jóhann, að til er mikið af fólki sem skortir umburðarlyndi gagnvart þeim sem hafa annað en pólitískt réttar skoðanir. Þetta er hins vegar veruleiki á Íslandi í dag. Þjóðir hafa farið í stríð til að verja menningarlegan arf sinn, en einhvern veginn virðist okkur sama um allt nema það sem gerir lífið létt og þægilegt.
Nytjahyggjan er það siðferði sem virðist ráða ríkjum á Íslandi í dag. Það er vissulega hægt að réttlæta hana út að ákveðnu marki, en það verður líka að mega gagnrýna hana. Annars erum við komin í ógöngur.
Ég er sammála þér Oddur Ingi, og held að það sé ekkert slæmt við það að vera stoltur af því að vera Íslendingur og okkar menningararfi. Ef það kallast rasismi, þá er ljóst að eitthvað vantar upp á hæfni til gagnrýnnar hugsunar. Við eigum að geta rætt saman án þess að ásaka hvert annað fyrir skoðanir okkar, sama hverjar þær eru.
Berglind, þetta er þróun sem heldur stöðugt áfram. Ég held reyndar að það sé ekki nóg að senda útlendinga í íslenskunám, það verður líka að vera vilji og þolinmæði til staðar á meðal íslenskra borgara til að hjálpa þeim að læra málið. Það er auðvelt að grípa til enskunnar, en eins og veraldarsagan kennir okkur, frá ýmsum nýlendum jarðarinnar, þá geta tungumál dáið séu þau ekki varin.
Og ég verð að spyrja hversu virði íslenska tungumálið er fyrir okkur? Erum við tilbúin til að láta það deyja drottnum sínum?
Hrannar Baldursson, 20.10.2007 kl. 12:52
ég var bara að segja að ég vil ekki tapa okkar einstaka tungumáli...
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 18:19
Ég skildi þig þannig, Oddur Ingi, og deili þessari tilfinningu með þér.
Hrannar Baldursson, 20.10.2007 kl. 18:57
Guð hjálpi okkur að halda tungumálinu okkar á lífi.
Ásdís Sigurðardóttir, 20.10.2007 kl. 21:35
Já ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja...
Ég ætlaði einmitt að leggja leið mína í "Við erum leikföng" í dag. Ég sá fyrir mér að það væri gott fyrir námslánabudduna mína að nýta mér afslætti í tilefni opnunarinnar við kaup á jólagjöfum. Þegar að búðinni kom gat ég ekki annað en starað í forundran á biðröðina sem lá meðfram húsinu öllu í átt að McDonald's. Námslán eða ekki námslán, ég held ég kaupi Lego á fullu verði í annarri leikfangabúð og nýti dýrmætan tímann í eitthvað annað.
Hvað útlendingana varðar þá hef ég sjálf verið útlendingur í ókunnu landi og þurft að sæta fordómum vegna þess og þ.a.l. hef ég alltaf svolitla samúð með útlendingum hér. Ég vona að ég gleymi aldrei tilfinningunni sem ég upplifði að vera mállaus og að stundum væri, í besta falli, komið fram við mig eins og barn en oft svo miklu verr en það. Það var nefnilega hollt að vera hinum megin við borðið.
Svo er það þetta með fyrirtækin - þau græða á tá og fingri (allt virðist vera réttlætanlegt til þess að græða pening, alveg sama á hverjum þú treður til að ná í aurinn) en vilja ekki borga mannsæmandi laun og enda því með að ráða til sín útlendinga sem koma hingað í leit að betra lífi, aðeins til þess að oft sé traðkað á þeim fyrir að vinna vinnu sem Íslendingar vilja oft ekki vinna (meðal annars vegna þess að launin eru svo lág og líka vegna þess þeir hafa metnað til annars). Þar af leiðandi er ég kannski ekki alveg sammála því sem Jóhann sagði um að það sem væri gott fyrir fyrirtækin væri gott fyrir alla.
Eitt að lokum í þessari löngu tölu... Lengi lifi íslenskan.
Gerða M (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 23:24
Þetta er þróun, slæm þróun. En útlendingarnir eru ekki komnir hingað til að vinna vinnu sem við viljum fyrir lægri laun en við. Nei það er ekki fólk til á Íslandi til að vinna þessi þjónustustörf svo að það þarf að flytja inn starfsfólk, síðan er mikið af milli-liðum sem flytur fólkið til landsins sem græðir tá og fingri.
Sökin liggur alfarið á stjórnendum fyrirtækja og Alþingis og þar af leiðandi á herðum okkar. Við Íslendingar höfum valið það að enginn í Bónus tali Íslensku, að maður getur ekki farið á veitingahús og pantað á íslensku matinn sinn.
Í því landi sem auður og peningar skipta mestu máli í sambandi við ákvarðanir þá hlýtur þessi þróun að verða að veruleika. Að fólk frá Austur Evrópu er að afgreiða okkur í Bónus er bara ein af afleiðingunum á þessu. Og hugsið síðan aðeins um hvernig umræðan hefur verið um elliheimilinn og starfsmenn þess síðustu árin... og þetta á eftir að fara lengra.
Við Íslendingar erum of uppteknir við að græða til þess að mennta börnin okkar og sjá um gamla fólkið og hvað þá að þjónusta eitthvað fólk í búð.. og Íslensk menning.. iss piss.. ekki er hægt að verðleggja hana og ef það er hægt þá væri eflaust einhver búinn að reikna það út að það væri meira virði að leggja niður íslenska tungu og taka upp þá engilsaknesku.
Jens Ívar (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.