10 bestu ofurhetjumyndirnar: 9. sæti: Unbreakable (2000)


Í Unbreakable uppgötvar David Dunn (Bruce Willis), fjölskyldufaðir um fimmtugt sem starfar við öryggisvörslu, eftir að hann lifir af lestarslys sem verður 131 manni að bana; að hann er ekki eins og fólk er flest. Hann hefur ekki fengið á sig eina einustu skrámu og er óendanlega sterkur - það hafði bara aldrei reynt á það. Eins og flest ofurmenni, hefur hann einn veikleika, og í hans tilfelli er vatn það eina sem getur drepið hann.


David verður var við mann sem virðist elta hann út um allt. Þessi náungi er Eliah Price eða Mr. Glass (Samuel L. Jackson), maður sem er svo brothættur að nánast hvert einasta bein í líkama hans hefur einhvern tíma brotnað. Hann setti saman þá kenningu að eina útskýringin á veikum líkama sínum væri sú að æðri máttarvöld hlytu að hafa gert andstæðu hans sem væri jafn sterk og hann var veikur. Hann er tilbúinn til að sanna þessa kenningu sína, sama hvað það kostar.

Á meðan David leitar leiða til að nýta ofurkrafta sinna á hetjulegan hátt, reynir Price að ná sínum sjálfselsku markmiðum; og þannig verða til öfl sem berjast hvert gegn öðru, hið góða og hið illa.


Unbreakable er í sjálfu sér ekkert sérstaklega spennandi mynd eða vel gerð, en hugmyndirnar á bak við hana eru góðar. Hvað ef Dabbi á götunni uppgötvaði einn góðan veðurdag að hann hefur ofurkrafta og ekkert geti unnið honum tjón? Hvað myndi Dabbi gera við þessa krafta? Væri hann skuldbundinn til að bæta samfélagið með verkum sínum, eða gæti hann lifað lífi sínu óbreyttu eftir að hafa öðlast þessa nýju þekkingu?

Þessar pælingar eru stórskemmtilegar og eru það sem gerir Unbreakable að fínni skemmtun. Ekki hasaratriði fljúgandi ofurhetja í latexbúningu, heldur pælingar um það hvort að allt hafi merkingu í veröldinni, og hvort að allt tengist einhvern veginn saman, og hvernig þá?

 Kíktu á kynningarmyndband um Unbreakable:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hann er hjá mér í 8 sæti. Hlakka til að sjá hvernig listinn heldur áfram. 

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 16:45

2 identicon

Já þessi mynd kveikti einmitt hjá mér einhverjar svipaðar pælingar og þess vegna fannst mér hún góð.

Betri helmingurinn minn var hins vegar alltaf þeirrar skoðunar að þessi mynd hefði hætt þegar hún ætti að vera að byrja

Það var alveg sama hvernig við ræddum þetta fram og tilbaka við gátum aldrei orðið sammála - og stundum verða hlutirnir bara að vera þannig.

Ég var allavegana þrælánægð að sjá þessa mynd á listanum hjá þér.

Gerða M (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 18:34

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð mynd. En verð að segja að ég var að koma af Die Hard 4 mega gaman og lætin frábær. Ég skemmti mér konunglega.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.7.2007 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband