10 bestu ofurhetjumyndirnar: 10. sæti: Hellboy (2004)
4.7.2007 | 00:53
Nú langar mig að búa til lista yfir 10 bestu ofurhetjumyndir sem gerðar hafa verið fyrir bíó. Ef gerðar hafa verið fleiri en ein mynd um viðkomandi ofurhetju mun ég aðeins nefna þá sem mér finnst best í röðinni. James Bond, Indiana Jones og John MacClane flokkast ekki sem ofurhetjur í þessari upptalningu, þar sem að ofurhetjan þarf helst að hafa einhverja sérstaka krafta eða einkenni sem aðskilur hana frá öllum öðrum hetjum. Jones er fornleifafræðingur, Bond er njósnari og MacClane er lögga. Ofurhetjumyndir fjalla um þá sem eru fyrst og fremst ofurhetjur, og svo eitthvað annað; en ekki öfugt.
Ég ætla ekki að skrifa eiginlega gagnrýni fyrir hverja mynd, heldur draga fram þá þætti sem mér finnst gera viðkomandi mynd þess virði að kíkja á hana.
10. besta ofurhetjumyndin að mati Donsins er Hellboy frá 2004, sem leikstýrð var af snillingnum Guillermo del Toro. Ég viðurkenni fúslega að þetta er engan veginn fullkomin ofurhetjumynd og hefur þónokkuð af göllum, en hún er samt frumleg og vel gerð. Möguleikarnir eru miklir og hún leyfir sér að sýna sérstakan karakter.
Það eru nokkrar ofurhetjur í þessari mynd, en aðal gaurinn er Heljarguttinn, eldrauður náungi með horn á hausnum sem hann hefur sorfið af, því hann vill ekki líkjast skrattanum um of. Hann kom inn í mannheima gegnum hlið sem nasistar opna til heljar; og rétt áður en bandamönnum tekst að loka hliðinu og stoppa illmennin, skríður Heljarguttinn, sem lýkist helst rauðum apa með gífurlega stóra krumlu út úr hliðinu. Prestur tekur guttann að sér og elur hann upp í kaþólskri trú. Þannig er strax orðin til nokkuð þversagnarkennd persóna; skrattakollur úr helvíti sem langar að enda í himnaríki og ætlar að vinna sér inn fyrir ferðinni þangað með því að berjast gegn illum öflum sem herja á jarðarbúum.
Ron Perlman er stórgóður og bara nokkuð fyndinn sem Heljarguttinn, og er hann bara nokkuð sannfærandi sem góða skrýmslið sem lúskrar á vondu skrýmslunum. Tæknibrellurnar eru óaðfinnanlegar, en helsti veikleiki myndarinnar er frekar slakt handrit og klisjukenndur söguþráður (þrátt fyrir frumleika) og slakar aukapersónur og leikarar, fyrir utan Ron Perlman og John Hurt í hlutverki prestsins. Illmennin eru líka skemmtilega gerð, en samt ekki nógu klók til að skapa neina almennilega spennu.
Vil líka láta vita að því að hægt er að fá 4 DVD diska útgáfu af Superman The Movie (sem verður reyndar ofar á topp 10 listanum mínum) á um kr. 400 (með sendingarkostnaði), sem með tolli og skatti ætti að kosta í mesta lagi um kr. 1000,- í heildina þegar heim er komin. Ég hef sett hlekk á þetta góða verð á forsíðu síðunnar Philosophy in the Movies, og verður þetta tilboð þar, uns verðið hækkar. Götuverð á þessari útgáfu er kr. 2400,- í Bandaríkjunum, þannig að ég tel þetta vera einstaklega gott tilboð.
Kíktu á sýnishorn úr Hellboy hérna:
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 01:09 | Facebook
Athugasemdir
Þú kannski veist það en Del Toro er einmitt í tökum núna á Hellboy 2: The Golden Army.
Ég er mikill Hellboy aðdáandi og hef lesið myndasögurnar í gríð og erg. Var svo heppinn að hitta Ron Perlman hér á landi og tók við hann viðtal. Fínn gaur en minni en hann lítur út fyrir að vera á skjánum. Ég hef ennig verið í email sambandi við Del Toro sem alveg ótrúlega góður maður, virkilega opinn og viljugur að svara öllum spurningum. Sendi mér meir að segja handritið af Devil's Backbone áður en hann hóf tökur. Fáránlega góður gaur.
Hellboy myndin er eins og þú sagðir gölluð og ég var satt að segja frekar vonsvikinn þegar ég sá hana fyrst. Ef til vill of miklar væntingar en svo tók ég hana í sátt þegar maður viðurkenndi að hún átti aldrei að vera neitt meira en skemmtileg ævintýramynd.
Ómar Örn Hauksson, 4.7.2007 kl. 01:53
Blessaður Ómar.
Já, kannast við það. Reyndar er ég mikill aðdáandi Del Toro. Mér finnst El Laberinto del Fauno (2006) og El Espinazo del Diablo (2001) meðal bestu mynda sem gerðar hafa verið.
Það væri gaman að spjalla við Guillermo.
Hrannar Baldursson, 4.7.2007 kl. 11:44
Hef aldrei haft áhuga á ofurhetjum en því meira gaman af hasarhetjum eins og John McClane og Indiana Jones. Þarf að kíkja á Hellboy við tækifæri.
Steingerður Steinarsdóttir, 5.7.2007 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.