Bloggað frá Bandaríkjunum # 3: Þegar 'ekkert' blómstrar

Í gær, þegar heimspekihópurinn byrjaði að ræða um ekkert, var eins og þau hefðu óljósa hugmynd um hvað ekkert væri; þar sem að í fyrri samræðum hafði komið fram að sumir trúi því að þegar þeir deyi, taki ekkert við. Þannig að þau vildu komast að því hvað þetta ekkert væri og hvort hægt væri að gera sér skýra hugmynd um hvað ekkert sé.

17279990.IntoNothingness

Þau komust að þeirri niðurstöðu að einungis sé hægt að gera sér óljósa hugmynd um fyrirbærið ekkert, en útilokað að sjá það fyrir sér. Til dæmis áttuðu þau sig á því að ekkert hefði enga eiginleika, og þar af leiðandi enga liti; og þá spurning hvort að ekkert væri gegnsætt - og fyrst ekkert er hinu megin við ekkertið sem þau sjá í gegn; hvað væri þá mögulegt að sjá? Svo áttuðu þau sig á því að ef einhver væri til staðar til að skynja ekkert, þá væri varla um ekkert að ræða; því að einhver til að skynja er eitthvað, en ekki ekkert.

Útfrá þessu fóru þau að velta sér hvort að ekkert væri þá eins og að vera milli tveggja spegla, eða innan í spegli sem er sívalningur, eða innan í spegli sem er hnöttur. Þá áttuðu þau sig á því að það þyrfti ljós til að sjá eitthvað í speglinum, og fóru að velta fyrir sér hvort hægt væri að setja myndavél sem gæti séð í myrkri inn á milli speglanna, en áttuðu sig þá á því að myndavélin sjálf hefði þá áhrif á skynjunina, rétt eins og í kenningum skammtafræðinnar. Það var gaman að sjá allar þessar hugmyndir blómstra, og hvernig þær spruttu ljóslifandi fram úr hugarheimi nemendanna, og ákafann og gleðina sem fylgdi því að velta þessum hugmyndum fyrir sér.

Ég held að fátt sé jafn upplífgandi og að uppgötva þessa dýpt sem hver einasti mannhugur virðist geyma. Við erum öll haf, af ekki bara upplýsingum og hugmyndum, heldur hugsunum sem við rétt snertum lauslega þegar við reynum að tjá þessar hugsanir með skrifum, tali, listum, athöfnum eða hverslags tjáningu. 

Eftir pælingarnar um ekkert fóru nemendur að velta fyrir sér skynjunum og huganum, og hvort betra sé að treysta því sem maður skynjar með skilningarvitunum, eða huganum. Þau reyndu að átta sig á hvort að maður sjái hlutina eins og þeir raunverulega eru, eða hvort sýnin sé í raun alltaf skökk. Samkvæmt kenningum sjónfræðinga túlkar heilinn það sem við skynjum; og það myndefni sem við fáum inn um augun birtist heilanum í raun á hvolfi - þannig að einn nemandi fór að velta fyrir sér, af fullri alvöru, hvort að þegar við héldum að fólk gengi um gólf, þá væri það hugsanlega að ganga á loftinu. Þetta voru skemmtilegar pælingar, og sérstaklega vegna þess að hópurinn fylgdi þessari hugmynd, reyndi að sjá hana fyrir sér, varð frekar ringlaður, og áttaði sig á að það eru takmörk fyrir áreiðanleika skynjunarinnar. 

Taj_Mahal-lge

Frá mánudegi hefur hópurinn rætt saman um heimspekileg málefni. Ég hvet nemendurna til að búa til sínar eigin spurningar, en vel ákveðna texta til að gefa þeim efni til að spyrja um.

Á fyrsta degi þurfti nánast að draga spurningarnar úr kokinu á þeim, en í gær kepptust þau um að skrá spurningar á töfluna til að koma eigin hugmyndum á framfæri. 

Dagur 1: Sannleiksgildi alhæfinga og hvort að hugurinn fylgi ákveðnum reglum.

Dagur 2: Verund og tilvist

Dagur 3: Ódauðleiki sálarinnar: eru sál og líkami eitt eða aðskilin?

Dagur 4: Ekkert og hvernig við skynjum 

Spurningar sem nemendurnir hafa skrifað á livefreeblog:   

 
Ég reikna með að fleiri greinar bætist við í dag, og þá sérstaklega um Ekkert og Skynjanir. Aðrir hópar á námskeiðinu hafa byrjað að nota þessa skemmtilegu tækni. Ég hvet hópinn minn til að kenna öðrum hópum hvernig þetta er notað. 

Þrátt fyrir miklar efasemdir sumra stjórnenda um að gefa nemendum aðgang að opnu neti, og það var þess vegna sem ég keypti mér mitt eigið vefsvæði á http:livefreeblog.com, þá er ljóst að Wiki-hugmyndin er heldur betur að slá í gegn! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður Hrannar,
Er munur á því að sjá ekkert annars vegar og því að sjá ekki neitt hins vegar? :)

Hafðu það gott í útlandinu og sjáumst þótt síðar verði,

Birgir Hrafn

Birgir Hrafn (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 13:55

2 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

varðandi skynjun þá er það flókið fyrirbæri.  stundum sjáum/skynjum við það sem er ekki til.  Ég var einmitt að kenna krökkum í háskóla unga fólksins þetta á mánudaginn.  Öll horfðu þau á mynd og sáu svarta depla á henni sem voru ekki til staðar á myndinni en þau skynjuðu þá samt... öll.  Eru þessir deplar þá til?  Sýndi þeim líka mynd þar sem þau skynjuðu allt á hreyfingu en engin hreyfing var til staðar.  Var þá hreyfing eða ekki?

Stundum nema skynfæri okkar líka eitthvað, upplýsingarnar koma inn í augun fara gegnum sjóntaugina osfv en heilinn tekur ekki við upplýsingunum.  Dæmi:  Rannsókn var gerð við Harvard (af íslendingi m.a.).  Þátttakendur áttu að fylgjast með liði í hvítum búning kasta á milli sín körfubolta.  Þátttakendur áttu að telja hversu oft þau náðu að senda á milli sín.  Annað lið var á myndbandinu. Lið í svörtum búningi.  Liðsmenn voru að trufla hvíta liðið við sendingarnar.  Í miðju myndbandi kom maður í górillu búning inn á skjáinn, var þar í smá stund, barði sér á brjóst osfv.  Þegar myndbandið var búið voru þátttekndur (þeir sem áttu að telja sendingar) spurðir hvort að þeir hefðu séð eitthvað óvennjulegt.  Ótrúlega stór hluti, að mig minnur röskur helmingur, tók ekki eftir górillunni!!!  Fókusins var á hvíta lítinn.  Alveg er samt pottþétt að þau sáu gróiluna, hún fór inn á sjónsviðið. 

Hafrún Kristjánsdóttir, 15.6.2007 kl. 15:24

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæl Hugrún

Værirðu til í að senda mér þessa mynd og górillumyndbandið á HBaldursson@gmail.com? Ég hefði gaman af að prófa þetta. Ef þér tekst að senda þetta í dag, sýni ég þeim myndina á eftir. Annars á mánudag.

Bestu kveðjur!

Hrannar

Hrannar Baldursson, 15.6.2007 kl. 18:36

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hafrún! Þú gætir reyndar líka bætt við síðu á wikisíðunni, þar sem allir hafa virkan aðgang að henni, og sett inn þessa mynd með skýringum á ensku. Ef þú nennir. :)

Hrannar Baldursson, 15.6.2007 kl. 18:37

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæll Hrannar. Veistu, alveg síðan ég var lítil hefur þetta verið ein af mínum uppáhalds hugsunum að pæla um þetta "ekkert" má ég stela parti af greininni þinni og setja inn á mitt blogg, birti nafn þitt sem höfund???kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 15.6.2007 kl. 19:13

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ásdís! Að sjálfsögðu máttu það. Mín er ánægjan.

Hrannar Baldursson, 15.6.2007 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband