Meðan bærinn okkar brennur
14.1.2024 | 15:12
Nú er eldgos komið inn í Grindavík og hús farin að brenna.
Við konan mín fórum í pottinn okkar í gær. Það væri kannski ekki í frásagnir færandi nema að potturinn er í Grindavík og hugsanlega var þetta í síðasta skipti sem hægt er að nota hann, enda rafmagn, hiti og heitt vatn í uppnámi og líklegt að flestar pípulagnir verði fljótar að skemmast, sérstaklega ef það frystir mikið aftur og ástandið muni lengi standa yfir; nema náttúrulega ef húsið verði farið undir hraun og jafnvel allur bærinn brunninn.
Við höfum í rúmlega tvo mánuði, frá rýmingu 10. nóvember, verið á hálfgerðum vergangi ásamt flestum öðrum Grindvíkingum. Sumir hafa búið á mörgum heimilum og sumir neyðst til að flytja aftur í bæinn þar sem ekkert húsnæði hefur verið laust. Við erum meðal þeirra heppnu, fengum húsnæði gegnum fjölskyldu og vini. En ekki eru allir jafn heppnir.
Mikið hefur verið rætt um æðruleysi Grindvíkinga. Það hefur verið misjafnlega mikið eins og gengur og gerist, og kannski finnst fólki það mikið því fólk heldur áfram að lifa lífinu og heldur höfði þó að gangan sé löng, óvís og mikil.
Síðustu ár hef ég lesið mikið af heimspeki Epíktetar, og skrifað út frá henni spurningu hvern einasta dag í rúm tvö ár og svarað þeim sjálfur, og nýlega tekið að birta þessar spurningar á Facebook síðu mína og fengið góð viðbrögð frá fjölskyldu, vinum og kunningjum. Þessi dagbókarskrif hafa haft einhver áhrif út á við, en ennþá meiri áhrif inn á við. Ég finn hvernig innri styrkur hefur aukist, hvernig skýrleiki hugsunar, óháð aðstæðum, helst skarpur, og er ánægður með hversu mikla einbeitingu ég hef þrátt fyrir allt.
Tilgangurinn með slíkri heimspeki er að móta aðstæður fyrir lífshamingju sama hvað gengur á í lífinu. Og eitt af því sem hún kennir fólki er að rækta með sér æðruleysi, og þá með því að vinna í sjálfu sér, átta sig á hvað því þykir mest virði í heiminum, og þá með sérstaka nánd á það sem við ráðum yfir sjálf, frekar en ytri hlutum. Því við getum stjórnað því hvort við verðum vitur, hugrökk, réttlát og skapgóð; aðeins ef við ræktum þessar dyggðir.
Þó að fólk upplifi Grindvíkinga sem hugrakkt fólk sem tekur hlutunum af æðruleysi, þá er það samt aðeins upplifun. Fólkið í Grindavík er eins og alls staðar, við erum allskonar. Okkur langar að kíkja í heitan pott eða upp í sófa eftir vinnudag, okkur langar að sitja í góðum stól með góða bók, okkur finnst skemmtilegt að hittast og borða saman. Okkur finnst gott að geta gengið út í búð og spjallað við kunningja, okkur finnst leiðinlegt að rífast yfir hversu illa gengur með ruslahirðu, en okkur finnst það samt betra en að bíða í óvissu.
Þegar jarðskjálftar og eldgos ryðjast inn í líf okkar, þá er aðeins eitt hægt að gera, að ná stjórn á sjálfum sér og stjórna því sem maður hefur vald yfir, og það er ekki mikið meira en manns eigið val.
Við höfum heyrt frá yfirvöldum að þau ætli að grípa okkur. Þau hugsa greinilega um okkur, en það væri gott að fá fljótlega hugmyndir um hvað við getum gert til lengri tíma. Eigum við að tapa öllum okkar eignum ef við veljum að búa utanbæjar? Eða eru yfirvöld tilbúin að leggja til hugmyndaríkar og góðar ráðstafanir sem tryggja það að fólk þurfi ekki að byrja aftur á byrjunarreit í lífinu, og halda áfram þar sem frá var horfið, þó það verði á nýjum stað?
Æðruleysi Grindvíkings er vissulega mikið og aðdáunarvert, og þannig er það líka með flesta Íslendinga. Við vitum að við komumst aldrei af á þessu skeri ef við hjálpuðumst ekki af í gegnum erfiðleika, ef við leggjumst ekki öll á árarnar, ef við stöndum ekki saman. Því við erum öll á þessu landi til að hjálpast að með einum eða öðrum hætti, að komast í gegnum lífið, kannski ekki áfallalaust, en með úrræði sem við getum öll sætt okkur við.
Athugasemdir
Vissi ekki að þú byggir í Grindavík. Hélt að þú ættir heima í Noregi. Ég þekki þá semsagt einhvern frá Grindavík. (Á ekki að nota þessa forsetningu)
Gangi ykkur allt í haginn.
Sæmundur Bjarnason
Sæmundur Bjarnason, 16.1.2024 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.