Norræn hógværð: eitthvað sem Íslendingar mættu læra?

Í Noregi og Danmörku, og hugsanlega víðar á norðurlöndum, er nokkuð til sem kallað er ‘janteloven’, en það virðist vera ríkjandi viðhorf að gera lítið úr yfirburðum einstaklinga sem hafa náð langt á einhverju sviði, og gert grín að þeim þegar þeir reyna að sýna sig sem eitthvað betri en annað fólk. Dæmi var þegar frægur norskur knattspyrnumaður, sem ég held að hafi spilað með Liverpool, keyrði um á flottum sportbíl, og í stað þess að hljóta aðdáun fyrir, hlaut hann háð.

Þar sem ég bjó lengi í Noregi hefur þessi siður hugsanlega fest sig í sessi hjá mér. Mér finnst ekkert merkilegt við að vera ríkur og frægur, en þegar einhver gerir hlutina vel og af hógværð, þá leyfi ég mér að njóta þess. 

Það sem hefur komið mér einna mest á óvart eftir flutninginn heim, er hversu mikið virðist ýtt undir samkeppni og græðgi, eins og þetta séu einhverjar dyggðir, frekar en eitthvað sem grefur undan samfélaginu. Ég sé bankana græða eins og aldrei áður, og þá sem eiga mikið gera allt til að græða meira, án þess að huga að sanngirni gagnvart þeim fátækari, sem hafa tekið lán fyrir húsnæði sínu, og sem eru líklegir til að jafnvel tapa eignum sínum og lífsviðurværi ef græðgin nær sömu hæðum og hún gerði í Hruninu, því sem rak mig upphaflega til Noregs, í skjól fyrir þessu óveðri sem græðgin getur verið.

Þar fann ég raunverulegt skjól. Þar er sómakennd meðal þeirra sem stjórna. Þar verður fólk ósátt þegar einhver tekur alltof mikið fyrir sjálfan sig, bara vegna þess að hann getur það. Og slík hegðun hefur afleiðingar.

Ef Norðmenn og Danir geta verið skynsamir þegar kemur að veraldlegum eignum, af hverju virðast Íslendingar eiga svona erfitt með það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband