Um öfund: "Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það sem náungi þinn á."

Eða:

Þú skalt ekki girnast einbýlishús annarra Íslendinga. Þú skalt ekki girnast konur sem eru í sambandi með öðrum, ekki i-podinn eða DVD græjurnar, né jeppa hans eða tjaldvagn, né nokkuð það sem gaurinn á."

kirkjaÉg hætti að ástunda kirkju eftir að ég byrjaði að hlusta almennilega á það sem predikari nokkur sagði í Kópavogskirkju fyrir um 15 árum síðan. Sífellt minntist hann á hversu syndugt fólk væri, og að allir væru syndugir - svo stóð fólk á fætur og þuldi syndajátninguna, en mér leið einfaldlega illa, því að ég gat engan veginn samþykkt þetta, og ef ég hefði flutt syndajátninguna fannst mér að ég væri þá að ljúga að sjálfum mér, en ég tel það rangt að ljúga að sjálfum sér, því að ég hafði sett mér að breyta rétt; og synd í mínum huga væri röng breytni. Hvaða vald hefur predikari í púlti til að segja mér að ég hafi breytt rangt, eða syndgað, þegar það var alls ekki satt?

Ein af dauðasyndunum sjö er öfund. Öfund innifelur í sér girnd á eigum eða samböndum annarra. Þegar einn öfundar annan er um algjörlega huglægt fyrirbæri að ræða. Það er mannlegt að girnast það sem maður má ekki fá. Er hægt að stjórna því á annan hátt en að gerast dýrlingur? Er venjulegt fólk sem sér i-pod nágranna síns og hugsar með sér: "My precioussss... my darling precioussss... i-pod," er þetta, eða Gollum í Lord of the Rings, einfaldlega syndugt vegna þess að það girnist viðkomandi hluts sem er í eigu annars? Eða verður girndin aðeins að synd þegar viðkomandi framkvæmir áætluin sem stefnir að því að hluturinn eða sambandið skipti um eigendur?

Er hægt að stjórna eigin öfund? Er það hægt án þess að afstilla lísspekina alla, að forgangsraða gildismatinu á annan en efnislegan máta? Auðvelt er að öfunda fólk fyrir hluti sem það á, eða aðstæður sem það lifir við; en getum við öfundað annað fólk fyrir önnur gildi? Til dæmis kann ég ósköp vel að meta það að ég er ég sjálfur og ekki einhver annar. Gæti ég einhvern tímann öfundað einhvern annan fyrir það eitt að vera ekki ég?  Ég held ekki.

Ég velti fyrir mér hvort að öfund feli í sér einhverja breytni, en tilfinning mín er sú að hún geri það ekki. Ef þessi tilfinning mín fyrir merkingunni á öfundarhugtakinu er rétt, þá er boðorðið í fyrirsögninni ósanngjarnt gagnvart mannlegu eðli. Ég held að það sé hverjum manni eðlilegt að þrá  hluti og sambönd sem aðrir eiga, en að girnast nákvæmlega þann hlut og það samband sem viðkomandi á; það er synd.

Þrá er sterk löngun. Tilfinning mín fyrir hugtakinu segir mér að maður geti ekki þráð hluti eða skepnur; aðeins ímynd, breytni eða stöðu, en þessi tilfinning mín getur verið ónákvæm og öðrum fundist annað; þegar þrá verður aftur á móti gagnkvæm er komin forsenda fyrir ást. Ég get þráð það að ást mín verði endurgoldin, ég get þráð að verða heimsmeistari í skák.  Ef ég segist þrá aðra manneskju, eins og svo oft kemur fram í ljóðum "ég þrái þig", þá held ég að þráin tengist frekar athöfnum og stöðu, eða ímynd, heldur en manneskjunni sjálfri.

Girnd er sterk löngun, sem felur í sér ætlun. Sá sem ætlar sér eitthvað vill eitthvað. Þarna blandast inn spurningin um vilja. Vilji maður framkvæma illt verk, er maður þá sjálfvirkt syndugur; eða er það ekki fyrr en verk fylgja viljanum sem syndin spilar inn í dæmið?

Ég held að engin synd eða röng breytni séu sjálfvirkt innifalin í öfund, illum vilja, girnd eða þrá. Slíkt er bara eðlilegur þáttur í mannlegri tilveru. Aftur á móti getur einstaklingur valið um hvort að hann láti eftir þessum hvötum, eða haldi aftur af þeim. Þar liggur munurinn á góðu og illu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt er á tæru að vera eins fullkomin og guð á að vera myndi ekki gefa út svona óljósar og fáránlegar reglur.

DoctorE (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 13:44

2 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

í sálfræðinni n.t.t. í hugrænni atferlismeðferð er talað um ósjálfráðar hugsanir.  Þa' eru hugsanir sem koma upp án þess í raun að við getum stjórnað þeim, dæmi um slíka hugsun væri t.d. "ég á eftir að klikka" 20 sek áður en maður labbar upp í púlt, eða "flott brjóst" þegar maður sér glæsilega og brjóstagóða konu labba fram hjá sér.  Erfitt ef ekki nánast ómögulegt er að stjórna slíkum hugsunum algjörlega, það er að koma í veg fyrir að þær komi.  Hins vegar getum við stjórnað því nokkuð vel, með ákv tækni hversu mikil áhrif þessar ósjálfráðu hugsanir hafa á okkur, hegðun okkar og tilfinningar.

Ef við skoðum þetta með öfund í huga þá getum við sennilega ekki stjórnað því að hugsa um að manni langi í eitthvað sem aðrir eigi, búa yfir e.t.c. Við getum hins vegar stjórnað því hvernig sú hugsun hefur áhrif á tilfinningar okkar og hegðun.

Öfund er tilfinning sem hefur hugsanarinnihald eins og allar tilfinningar.  Við breytum því ekki að hugsanir sem tengjast öfundartilfinningunni komi upp en við getum stjórnað því hversu sterk tilfinningin verður og hvernig við högum okkur í kjölfarið.

Humm kannski svoldið ruglingslegt... vona að eitthvað hafi komist til skila. 

Hafrún Kristjánsdóttir, 2.6.2007 kl. 14:37

3 identicon

Makes perfect sense Hafrún.

Sálfræðin var ekki nógu advanced þegar biblían var skrifuð.

DoctorE (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 14:53

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innlitskvitt. 

Ásdís Sigurðardóttir, 2.6.2007 kl. 17:42

5 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Til hamingju, að finnast þú vera hinn fullkomni maður sem aldrei hefur breytt illa og aldrei hugsað rangt, að vita hvað er rétt og hvað er rangt. Hélt að hann væri ekki, til held hann sé ekki til?

Með kveðju

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 2.6.2007 kl. 18:18

6 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Breittu eftir bestu getu.Gerðu öðrum ekki það sem vilt ekki að aðrir geri þér,og mundu þú ert ekki fullkominn.Við leitum samt fullkomnunar vegna guðs og viljum líkjast Jesú krist.

Annað óskar hann ekki af þér og elskar þig án skilyrða og því er Jesú guð og guð er vissulega í okkur öllum,rétt og rangt þú veist hvenær þú brýtur á samviskunni og siðferði þínu ekki flækja heldur let go and let god.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 2.6.2007 kl. 21:06

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE: Málið er að vegir Guðs eru víst samkvæmt kenningunni órannsakanlegir, og því í fullkomnu samræmi ef hann hendir frá sér drögum að boðorðum, rétt eins og manneskjan virðist hafa verið drög að guðum.

Hafrún: Alls ekkert ruglingslegt, heldur eðlilegt. Við skynjum áreiti og bregðumst við því á bæði ósjálfráðan og sjálfráðan hátt samtímis. Fallegar stelpur finnst mér fallegar sama hvað ég reyni að bæla þessa hugmynd. Aftur á móti get ég stjórnað því hvort að ég fylgi hvötunum eftir eða bæli þær niður.

Ásdís: Takk fyrir heimsóknina.

Sigríður: Hmm... ég var nú ekki farinn að ræða um fullkomleika, sem væri reyndar áhugavert viðfangsefni. Það eina sem ég sagði er að ég tryði því ekki að allir væru sjálfkrafa syndugir, eða mannverur með illan vilja, sem breyta rangt. Það þarf ekki nema eina manneskju til að vera ekki þannig, og ég tel mig þekkja þónokkrar slíkar. Að sjálfsögðu hafa allir hugsað rangt (eða illa), það er bara hluti af öllu námsferli, - en það að allt fólk breyti rangt  trúi ég ekki sjálfur.

Úlfar: þakka heilræðin, en samt. Hvernig vitum við að það sé þetta sem Guð vill ef vegir hans eru órannsakanlegir? Hvernig vitum við að Guð sé algóð vera sem vill að manneskjur breyti eins og hann? Hvað ef Guð væri svoldið brögðóttur og tæki upp á að blekkja okkur stöku sinnum, bara uppá húmorinn? Væri hann samt ennþá algóður? Hvernig stendur á því að stundum passar engan vegin saman það sem okkur finnst, það sem við skynjum og það sem við hugsum? 

Ég er alls ekki að flækja málin. Ég spyr bara spurninga, og ef málin eru skýr, þá eru spurningarnar bara eins og þoka sem hægt er að blása í burt með sannleikanum. Ef greiðist ekki hins vegar ekki úr flækjunni, þá er kannski tilefni að hafa áhyggjur; ef flækjan breytist í hreint svartnætti og hnausþykka þoku- verðum við þá ekki bara að byrja aftur á upphafsreit?

Hrannar Baldursson, 3.6.2007 kl. 00:34

8 Smámynd: arnar valgeirsson

þetta eru skemmtilegar pælingar Don og þess virði að pæla í. Mér þykir leitt að segja að ég held að þú verðir ekki heimsmeistari i skák og verður því bara að öfunda þessa dúdda sem eru á toppnum.. en ég er ekki að segja að þú sért ekki góður í skák he he. Auðvitað stendur maður sig að því að öfundast annað veifið en einhvernveginn vill maður nú alltaf vera bara maður sjálfur og gott að vera sáttur við það, þrátt fyrir hitt og þetta.

gott innlegg hjá Hafrúnu. ég hef einmitt stundum lent í þessum ósjálfráðu hugsunum, og dæmið um brjóstin hefur jú einmitt poppað upp. Líka þetta með að standa fyrir framan fólk og tala. Sjitt hvað það getur verið erfitt.

Þó undarlegt sé er ég sáttastur við mig af öllum. Gæti þó alveg hugsað mér marga hluti á betri veg........

arnar valgeirsson, 3.6.2007 kl. 01:30

9 identicon

Mér finnst asnalegt að ég sé ekki að skilja eftir gáfulegt komment - en heilabúið leyfir það ekki í dag. Það er allt í lagi svona á sunnudögum, ekki satt Don minn? :)

Vildi bara segja takk fyrir síðast - gaman að sjá þig sömuleiðis. Ég er greinilega "fundin" með mitt misgáfulega blogg ;)

 Kv,

Karókídrollan

Lovísa (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 12:42

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Arnar: Takk fyrir þetta. Var að koma af landsmótinu í skólaskák. Ég hef aldrei séð jafn harða keppni áður. 11 kappskákir á 4 dögum! Við í Salaskóla förum á HM núna í sumar þannig að draumurinn um heimsmeistaratitilinn er ekkert endilega úti.

Takk sömuleiðis Lovísa. Ég hef þá skoðun að svo framarlega sem að kommentin koma frá hjartanu, þá eru þau gáfuleg.

Hrannar Baldursson, 3.6.2007 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband