Trú eða þekking?
15.10.2021 | 21:04
Hvernig vitum við hvað af því sem við trúum er trú og hvað þekking?
Áður en þessu er svarað veltum aðeins fyrir okkur hvað hugtökin þýða.
"Trú" er eitthvað sem við höldum að sé satt, að það miklu marki að við teljum okkur vita það fyrir víst, það er mögulega satt og mögulega ekki, en við höfum ekki sönnunargögn til staðar sem réttlæta það að þessi trú sé sönn, og þar af leiðandi þekking. Sama hversu sannfærð við erum um að eitthvað sé satt, gerir algjör sannfæring hlutinn ekki sannan.
"Þekking" er eitthvað sem vitum að er satt, en þessi þekking er réttlætanleg með sönnunargögnum sem eru til staðar fyrir þá grennslast fyrir um staðreyndir og rök að baki þekkingarinnar.Þekking hefur ekkert með sannfæringu að gera, heldur er sumt sem við einfaldlega vitum og getum síðan rökstutt út frá staðreyndum og rökum.
Það sem flækir þetta mál er að búin hafa verið til kerfi utan um þessi hugtök, trú og þekkingu, annað kerfið er kallað trúarbrögð og hitt vísindi.
Annað sem flækir málið er umfang trúar annars vegar og þekkingar hins vegar. Trúin hefur engin takmörk, getur náð yfir upptök alheimsins, eðli Guðs, grunnhvatir allra manneskja, og svo framvegis. Þekking nær hins vegar alls ekki svona langt, því hún þarf að byrja á einhverju sem við skynjum og getum sannreynt, sem passar inn í hugtakaheim okkar og er rökrétt. Þannig getum við rökstutt ýmislegt um upptök alheimsins, en getum ekki sannað það endanlega. Hins vegar má vel vera að við þekkjum lögmál sem gera okkur fært að gera okkur hugmynd um hvernig hlutirnir eru, en þessar hugmyndir eru kallaðar kenningar.
Trú krefst ekki sönnunar, það sem við trúum krefst einungis þess að einhverju sé trúað.
Þekking krefst sönnunar og hugtakakerfis, eins og til dæmis að vatn sé búið til úr vetni og súrefni. Það er reyndar auðvelt fyrir þann sem ekkert skynbragð hefur á efnafræði að efast um að þetta séu sannindi. Á sama hátt er ekkert mál fyrir vísindamanninn að efast um sannindi sem felast í trúarbrögðum.
Þeir sem eru trúaðir safnast í hóp og kallast söfnuður. Þeir sameinast í trú sinni og það er fátt eða ekkert sem getur vakið efasemdir hjá þeim.
Þeir sem hafa þekkingu eru annars konar, þeir safnast í hóp og kallast vísindamenn. Þeir sameinast í trú á lögmálum sem eiga við um svið þeirra fræðigreinar, og sannfæring þeirra er aldrei hundrað prósent örugg, það er alltaf rúm fyrir vafa, því það er sífellt hægt að læra meira um þennan heim.
Það er eins og þeir sem trúi, trúi að þeir hafi þekkingu, en þeir sem hafa þekkingu, trúi ekkert endilega að þeir hafi þekkingu.
Að sjálfsögðu eru þetta aðeins vangaveltur á föstudagskvöldi, og ég reyni ekki að sannfæra neinn um eitt eða neitt, heldur langaði mig einfaldlega að skoða betur þessar pælingar sem veltast um í mér.
Þessi blogg eru ekki skrifuð fyrst og fremst til að fræða, heldur til að læra, til að hefja samræðu, til að spá í hlutina. Mér finnst gott að deila þessum pælingum, en þær eru alls ekki einhver endanlegur sannleikur. Þær eru hins vegar skref í löngum göngutúr míns eigin hugar.
Athugasemdir
Þetta eru allt saman mjög góðar hugleiðingar hjá þér.
-------------------------------------------------------
"Trú" er eitthvað sem við höldum að sé satt, að það miklu marki að við teljum okkur vita það fyrir víst, það er mögulega satt og mögulega ekki, en við höfum ekki sönnunargögn til staðar sem réttlæta það að þessi trú sé sönn, og þar af leiðandi þekking".
------------------------------------------------------------------------------
Trúir þú því t.d. að Kristur hafi verið uppi fyrir 2000 árum
og gert öll kraftaverkin sem að getið er um í Nýja-Testamentinu?
Y/N?
Jón Þórhallsson, 15.10.2021 kl. 22:00
"Þekking vor er í molum". Þessi orð standast enn í dag. Leonard Susskind - Arguments for Agnosticism?
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 15.10.2021 kl. 22:50
"Þekking" er eitthvað sem vitum að er satt, en þessi þekking er réttlætanleg með sönnunargögnum sem eru til staðar fyrir þá sem grennslast fyrir um staðreyndir og rök að baki þekkingarinnar. Sönnun með því að endurtaka aftur og aftur sömu tilraun og fá ætíð sömu niðurstöðu.
Þekking þarf sannarlega að byrja á einhverju sem við skynjum og getum síðan sannreynt væntanlega með tilraunum.
Sá sem eignast trú á Jesú Krist sem frelsara sinn þarf sönnunargögn til að taka við trúnni. Og hann hefur fengið slík sönnunargögn. Að baki trú viðkomandi eru rök og staðreyndir í hans lífsgöngu. Hann hefur t.d. beðið Guð um að hjálpa sér í neyð, oftar ein einu sinni, og hann hefur verið bænheyrður. Hann veit að ekki getur verið um tilviljanir að ræða. Hann hefur því öðlast þekkingu á Guði og er jafnfram þekktur af Guði. Hann hefur samt aðeins takmarkaða þekkingu, en hann heldur áfram í trú í leit að nánari þekkingu á Guði og syni hans Jesú Kristi.
Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli 17. kafla 3. Versi: En það er hið eilífa líf að að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 16.10.2021 kl. 01:06
" Hvernig vitum við hvað af því sem við trúum er trú og hvað þekking? "
Áður en þessu er svarað veltum aðeins fyrir okkur hvað er trú og hvað er þekking?
Hver eða hvað ákveður hvað trú er eða hvað þekking er?
Heiðar Þór Leifsson (IP-tala skráð) 16.10.2021 kl. 03:45
Ég hef bæði haft áhuga á kristni og heiðinni trú. Það er merkilegt að mjög seint fóru trú og heimspeki að aðgreinast, og ekki á hinum heiðna tíma.
Það er alveg rétt að ekki virðist hægt að sanna það vísindalega að Jesús Kristur hafi verið til, en ég hallast að því að slíkar goðsagnir hafi haft við rök að styðjast og að goðsagnapersónur fleiri en hann hafi verið til. Tökum til dæmis Artúr konung, eða fornu, norrænu guðina. Þetta er ekki hægt að sanna, en það sem skildi eftir sig svona mikil áhrif í hugum eftirlifendanna gefur vísbendingu um einhvern veruleika að baki.
Það er oft sagt að trúarbrögðin hafi verið skaðvaldur og komið af stað styrjöldum. Það er kannski ekki alveg svo víst, samspil menningarþátta, sum menningarsamfélög hylla stríðsrekstur og þá geta trúarbrögðin hjálpað til við að skapa múgæsingu í þá átt.
En það held ég að sé alveg rétt að kristin trú og siðfræði hafa gert fólk betri oft. Eins er það með heiðna trú að það er óþarfi að dæma alla út frá gjörðum fáeinna. Árás víkinga á kirkjuna í Lindisfarne árið 793 er er oft notuð til að sannfæra menn um grimmd víkinga.
Við vitum hins vegar ekki hvort þetta var eins fámennur öfgahópur og talibanar nútímans, í samanburði við aðra sem aðhyllast islamstrú, eða hversu stór hópur víkinga var svona blóðþyrstur.
En svo er annað með trú og þekkingu, að vísindamenn nútímans eru ekki eins frjálsir andlega og halda mætti. Þeir skipast í meginstraumsvísindamenn annarsvegar og svo andspyrnuvísindamenn hinsvegar. Í loftslagsfræðunum er það alkunna, og orðið áberandi.
Heimspekingar og heimspekilega lærðir menn held ég að standi utanvið pólitíska flokkadrætti í þekkingu og vísindum, því það er inntak menntunar þeirra.
Oft í sögunni hafa andspyrnuvísindamenn hrint af stað meiri framförum en meginstraumsvísindamenn. Giordano Bruno er dæmi um þannig andspyrnuvísindamann og Galileo. Þá var það talið eðlilegt að halda fram jarðmiðjukenningum og öðrum kreddum.
Ég held að nútíminn hafi bæði grætt og tapað á aðskilnaði vísinda og trúar. Góðmennskan sem ég fékk að kynnast hjá eldri kynslóðunum í mínu uppeldi var einstök. Hún kom vegna þess að enginn af þeirri kynslóð lét sér detta í hug að hægt væri að berjast gegn feðraveldinu eða öðrum stoðum samfélagsins, að ekki mætti upphefja manninn á kostað óbreytanlegra gilda, eins og þeim sem trúarbrögðin boða.
Ingólfur Sigurðsson, 16.10.2021 kl. 16:13
Hrannar Baldursson þú varpaðir þeirri spurning fram hvort manneskjan sé til eða bara hugarburður.
Biblían segir okkur að sumir MENN séu raunverulega til. Þeir ERU til og þeir VERÐA til um eilífð, enda hafa þeir einnig VERIÐ til frá eilífð. Þessir men komu hingað til dvala um stutta stund frá ríki himnanna. En aðrir MENN eru ekki til vegna þess að þeir eru aðeins hugarburður Djöfulsins og því tímanlegt fyrirbæri, þeir eru blekking sem játast aldrei sannleikanum, frelsaranum Jesú Kristi svo að þeir eignist afturhvarf, eins og hinir fyrrnefndu gera. En Jesús Kristur er hinn fullkomni maður sem VAR, ER og VERÐUR. Hann dvaldi hér á jörðinni eins og við gerum. Það er hann sem opnar þeim, sem trúa á hann, leið til baka.
Þeir svöruðu honum (Jesú): Faðir vor er Abraham. Jesús segir við þá: Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.Þér vinnið verk föður yðar. Þeir sögðu við hann: Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð. Jesús svaraði: Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir, (ykkar faðir).En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.
Jóhannesarguðspjall 8. kafli versin 39-45.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 16.10.2021 kl. 19:09
trú + þekking = viska
Án trúar hverfur hugsun okkar í suðið.
þekking er ályktanir sem dregnar eru af einföldunum sem byggjast í grunni á trú þess sem hugsar.
Trú er hluti af mannlegu eðli, sá segist ekki trúa er bara búin að skipta trúnni út fyrir eitthvað annað eins og vísindi eða rökhyggju sem verður þá hans trú.
Guðmundur Jónsson, 18.10.2021 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.