Dýrmætasta sameign Íslendinga?
10.10.2021 | 19:02
"Oft er sagt að tungumálið sé dýrmætasta sameiginlega eign okkar Íslendinga. Önnur dýrmæt sameign eru hugmyndir og skoðanir á lífinu og tilverunni, sjálfum okkur og heiminum." (Páll Skúlason, Pælingar II, 1989)
Mig langar að pæla aðeins. Hugmyndin er alls ekki að svara þeim spurningum sem ég spyr, heldur hvetja þá sem lesa til að velta þessu líka fyrir sér, og gaman væri að sjá í athugasemdum hvort einhver hafi svör við einhverjum af þeim spurningum sem ég spyr. Það er örugglega einn og einn lesandi sem hefur gaman af þessu, jafngaman og ég hef af því að velta þessu lauslega fyrir mér, eins og litlum steini á þúfu og skoða aðeins hvað felst undir honum.
Tungumálið
Það er nokkuð augljóst að íslenska málið er eitt af okkar dýrmætustu sameignum, þó að málið virðist eiga mikið undir högg að sækja undanfarið, þar sem erfitt er að finna þann veitingastað eða hótel þar sem hægt er að bjarga sér á íslensku einni saman, innanlands. Þar sem íslenska tungan, augljósasta sameign okkar, kannski fyrir utan óveiddan fiskinn í sjónum stafar greinilega ógn af enskunni, væri kannski áhugavert að líta aðeins á þá hluti sem eru ekki jafn óþreifanlegir.
Hinn óveiddi fiskur í sjónum
Ólíkt Norðmönnum mega Íslendingar ekki leita sér eftir sjávarfangi á skipulagðan hátt nema eiga kvóta fyrir honum. Hvort við höfum leigt eða selt þessa sameign fáeinum einstaklingum veit ég ekki, en umræðan virkar frekar skrítin. Einhver sagði einhvern tíma að þjóðin gæti ekki átt neitt þar sem hún hefur ekki kennitölu fyrirtækis eða einstaklings. Hvernig ætli málum sé farið í dag? Má ég kaupa mér trillu eða togara og fara út á sjó og veiða í íslenskri lögsögu? Má ég það ef ég sel ekki aflann, nota hann bara sjálfur?
Hugmyndir og skoðanir um lífið og tilveruna
Skoðanir Íslendinga um lífið og tilveruna eru allskonar, en samt öðruvísi en annarra þjóða. Okkur virðist frekar annt um að hlusta á rök og vísindi, við stefnum að jöfnuði að því er virðist óháð stjórnmálaflokki, við höfum ekki mikinn áhuga á stéttaskiptingu og viljum geta verið stolt yfir afrekum okkar í sameiningu. Við elskum það þegar strákarnir og stelpurnar okkar gera góða hluti á alþjóðlegum vettvangi og nærumst mikið á sameiginlegum sigrum. Einnig stöndum við þétt saman þegar við töpum. Er þetta nærri lagi?
Hugmyndir og skoðanir um sjálf okkur
Hvert og eitt okkar hefur rétt til að hugsa sjálfstætt. Við megum trúa því sem við viljum, hvort sem það er byggt á trúarbrögðum eða vísindum. Hins vegar viljum við helst ekki að trúarbrögð og vísindi stangist á, því sagan hefur sýnt okkur að á endanum verða vísindin yfirleitt ofan á, sama hversu mikil þrjóska og einurð stendur á bakvið kreddur og hindurvitni. Við teljum flest okkar gott að vera sjálfstæð, finnst réttlátt að kynin séu jöfn, finnst að börn okkar eigi að fá menntun og að fullorðnir eigi að fá tækifæri til að fóta sig hvar svo sem þeir eru staddir félagslega. Við getum verið gríðarlega eigingjörn, og við getum líka haldið af ofstæki með félagsliði, stjórnmálaflokki eða trúfélagi, en á endanum erum við flest til að vega og meta hvar við stöndum út frá skynsamlegum rökum frekar en hreinni tilfinningu. Er þetta nærri lagi?
Hugmyndir og skoðanir um heiminn
Hvernig ætli Íslendingar líti á heiminn? Sjáum við hann útfrá árstíðum okkar, útfrá því hvað sumarið á Íslandi er bjart, hlýtt (stundum) og skemmtilegt, en veturinn myrkur, kaldur og drungalegur? Hefur það áhrif á hvernig við metum hvert annað og mannlíf á Jörðu? Hefur það hvað við erum fámenn áhrif á hvernig við sjáum heiminn? Hefur aðgengi okkar að hreinu vatni og lofti áhrif á hvernig við skynjum og skiljum heiminn? Hefur aðgengi okkar að heimsfréttum, samfélagsmiðlum, Internetinu, sjónvarpsefni og tölvuleikjum einhver áhrif á hvernig við sjáum og skiljum heiminn? Erum við önnur þjóð í dag heldur en fyrir hundrað árum? Erum við önnur þjóð í dag en fyrir þúsund árum? Hvernig verðum við eftir hundrað eða þúsund ár, ennþá sama þjóðin, með sameiginlega sýn á heiminum? Eða breytumst við einfaldlega út frá tíðarandanum og náttúrunni og heimsmynd okkar með?
Athugasemdir
Við virðum forfeður okkar sem lögðu æru og dugnað iað mjaka okkur fram á leið. Svefdrukkinn heilinn kann ekkert betra á þessari stundu, Gott að sja her gamalkunna .
Helga Kristjánsdóttir, 11.10.2021 kl. 03:06
Þetta eru ein 5 eða 6 blogg. Þetta með fiskinn fannst mér sérlega athyglisvert (hafði lítið velt því fyrir mér).
Krakkar (strákar) mega veiða á bryggjusporðum (enginn amast við því) Ef fullorðnir gera það sama eru þeir litnir hornauga (skrítnir) Hvernig ætli standi á þessu?
Tungumálið hugsa ég að sé ekki í meiri hættu núna en oft hefur verið.
Sæmundur Bjarnason, 11.10.2021 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.