Eru þeir sem ljúga og blekkja tómir heimskingjar?
15.5.2021 | 22:12
Til eru fjórar leiðir til að taka þátt í samræðu.
Leið 1: Þú getur virt reglur rökfræðinnar og stuðst við staðreyndir og vel rökstuddar hugmyndir. Þeir sem tilheyra þessum hópi bera virðingu fyrir sannleikanum og sjá hann sem einhvers konar leiðarljós, þó að þeir þekki hann ekki að fullu. Hins vegar þekkjum við ýmsar leiðir til að komast nær sannleikanum, og til að komast nær honum þurfum við ekki aðeins að þekkja þessar reglur heldur einnig fylgja þeim eftir í einlægni.
Leið 2: Þú þekkir reglur rökfræðinnar, en ákveður að fylgja þeim ekki eftir, heldur notar rökvillur og ríkt myndmál til að hljóma sannfærandi. Þú getur fengið orðsport fyrir að vera virkilega klár og góður að gera þig skiljanlegan á mannamáli. Og þú veist að besta leiðin til að sannfæra fólk um ósannindi er að segja næstum því sannleikann, snúa aðeins frá honum þegar þú hagnast á því.
Leið 3: Þú kannt ekki reglur rökfræðinnar og þér er nákvæmlega sama um þær. Þú vilt að brjóstvitið fái að ráða og trúir bara því sem þér dettur í hug að trúa, helst því sem þér líkar best hverju sinni. Þú gerir engan greinarmun á fræðilegum hugmyndum og samsæriskenningum og ert alveg til í að fylgja samsæriskenningum einfaldlega vegna þess að þær eru auðskiljanlegar og falla vel inn í þína heimsmynd. En samsæriskenningar eru ekkert annað en blekkingar, sögur sem ganga upp út frá ákveðnu sjónarhorni en eru ekki í samræmi við veruleikann.
Leið 4: Þú kannt ekki reglur rökfræðinnar en leitar samt sannleikans í einlægni. Svo framarlega sem þú gefur þér ekki einhver ákveðin svör, ertu líklegur til að læra smám saman hvernig góð hugsun virkar.
Þeir sem fylgja leiðum 1 og 4 gera samfélagslegt gagn. Þar eru vísinda- og fræðimenn, sérfræðingar á ýmsum sviðum og fullt af fólki sem leitar sannleikans á einlægan hátt, óháð hvort að viðkomandi hafi prófgráðu til þess eða ekki.
Leiðir 2 og 3 eru hins vegar gríðarlega varasamar, en reynast stundum vinsælli en sannleiksleitin hugsanlega vegna þess að leiðin að sannleikanum er frekar leiðinleg, hún krefst mikillar vinnu. Spekingar og fræðimenn geta rökstutt hluti fram og til baka í mörg þúsund ár án þess að ná ákveðinni niðurstöðu. En leiðir 2 og 3 gefa sér ákveðinn sannleika. Það er miklu auðveldara þegar maður gefur sér svarið fyrirfram að vera sannfærandi og gera lítið úr þeim sem segja sannleikann. Vandamálið er að þegar maður gefur sér sannleikann eru 100% líkur á að maður hafi rangt fyrir sér, því að maður gefur sér fullkomna heildarmynd og á svör við öllu, á meðan sönn þekking fer sífellt stækkandi og nær aldrei utan um allan sannleikann.
Það hefur verið svo merkilegt undanfarið með falskar fréttir. Leið 1 bendir á falskar fréttir og útskýrir með rökum af hverju eitthvað er ósatt. Leiðir 2 og 3 svara að leið 1 sé falsfrétt, og þurfa ekki að rökstyðja það. Þeir kasta bara fram lygum og bulli og vonast til að eitthvað festist. Og það er nóg fyrir fólk sem nennir ekki að hafa fyrir sannleikanum. Því hver nennir því svosem? Er ekki nóg að hlusta á yfirvaldið, þá sem stjórna?
Reyndar hefur það gerst að yfirvaldið lýgur og til að réttlæta eigin lygar getur reynst gagnlegt að segja alla ljúga, engan virða sannleikann og ferlið að honum, og skjóta á þá sem vinna að sannleikanum, því þá þurfa þeir að eyða tíma í að verja sig með traustum rökum.
Það er engin furða að fólk víða um veröld átti sig ekki á hvað er satt og hvað er logið, hverjum skal treysta og hverjum ekki, en það er hægt að átta sig á þessu. Það krefst mikillar vinnu og yfirlegu, það krefst gagnrýnnar hugsunar og samræðu.
Til skamms tíma vinna lygar og bull, en til lengri tíma vinnur sannleikurinn. Það er eins og lygar og bull skolist í burtu með árunum, kannski vegna þess að lygararnir á endanum deyja og lygar þeirra með þeim, en sannleikurinn stendur alltaf eftir þar sem hann er ekki háður þeim sem segja satt, hann er stærri en fólkið sem leitar hans.
Svarið við spurningunni Eru þeir sem ljúga og blekkja tómir heimskingjar? tel ég vera skýrt JÁ, en við áttum okkur kannski ekkert á því til skamms tíma. Það kemur smám saman í ljós. Tíminn sýnir okkur á endanum hverjir stóðu réttu megin við sannleikann.
Athugasemdir
Falsfréttir og staðleysur hafa alltaf verið til, en á síðustu árum hefur magn þeirra og útbreiðsla margfaldast mörg hundruð falt, bæði í lestri og eins í að læka og dreifa.
Gott dæmi er frétt fyrir tveimur árum um að rafbíll hefði valdi stærsta bílahúsbruna á Norðurlöndum í Stavanger, og hefur ekki enn tekist að kveða niður, af því að henni er dreift áfram, jafnvel þótt fyrir liggi að eldsuppptökin voru í gömlum Opel Zaphira dísil.
Nú er magnið af svona fréttum orðið slíkt, að enginn hefur nokkur tök á því að leita upp hið sanna.
Samkvæmt skoðanakönnunum telja 70 prósent kjósenda Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum því að Trump hafi verið rændur sigri með kosningasvikum.
Ómar Ragnarsson, 16.5.2021 kl. 11:58
"En samsæriskenningar eru ekkert annað en blekkingar, sögur sem ganga upp út frá ákveðnu sjónarhorni en eru ekki í samræmi við veruleikann"
Sannleikurinn er einfaldlega samsæriskenning á meðan meirihlutinn trúir honum ekki.
Ómar Ragnarson er mjög gott dæmi um efni bloggsins, þegar hann sleppir að benda á að í könnununum sem hann vitnar í segja 20-30% demókrata þetta líka um 55-65% bandríkjamanna.
Kannski les hann bara fyrirsagnir og flokkast þá með heimskingjunum í rökræðunum sem hann vitnar til.?
Guðmundur Jónsson, 16.5.2021 kl. 12:38
Ég held að ónauðsynlegt sé að fara í manninn frekar en boltann. Síðuhafi gerir ráð fyrir fjórum leiðum, mér finnst eins og mögulega megi gera ráð fyrir fimm eða fleiri leiðum, millistigum á milli 2 og 3 og 1 og 4. Það er þetta með sannleikann, staðreyndir, veruleikann og vel rökstuddar hugmyndir. Ég er vissulega sammála því að rétt sé að beita þeim kenningum og staðreyndum sem maður treystir, en þar er ekki allt klippt og skorið. Þeir sem fylgjast með framförum í nútímavísindum vita að til dæmis skammtafræðikenningarnar eru orðnar mjög ótrúlegar og gera ráð fyrir víddum, samhliða alheimum, óendanlegum möguleikum, osfv.
Á tímum Newtons var þetta einfaldara. Samt, engu að síður nokkuð auðvelt að gera sér grein fyrir að flestar samsæriskenningar eru utan við mörk þess mögulega, rétt er það. Nokkrar þeirra hljóma þannig að þær gætu verið mögulegar.
Ómar og Guðmundur deila um tölur. Það er líka deilt um aðferðirnar við skoðanakannanir.
Mikilvægur boðskapur þessa pistils finnst mér vera að sem samfélag þurfum við sameiginlegar reglur. Mögulega munu sumar samsæriskenningar endurnýja þann veruleika sem við lifum í með tímanum, en ef fleiri en 50% af þjóðinni fer að trúa samsæriskenningum er hætta á uppreisnum, borgarastyrjöldum, osfv.
Dæmin úr fasistaríkjum fortíðarinnar sýna að stjórnvöld með hæpinn meirihluta eða sem sátu í óþökk þjóðarinnar beittu aðferðum til að þagga niður í öðrum. Bandaríkin er dæmi um land þar sem samsæriskenningar eru svo vinsælar að það hriktir í vísindasamfélaginu.
Ísland er samfélag þar sem við gætum virt náungann. Jafnvel Búsáhaldabyltingin var krúttleg. Mér finnst jákvætt og gott ef sumir sjálfstæðismenn halda með Palestínumönnum og sumir Píratar vilji sjálfstæði og þjóðerniskennd.
Við getum flokkað þá sem ljúga og blekkja í marga flokka:
1) Þeir sem gera það vegna þess að þeir trúa á það sem þeir segja, og trúa vegna tilfinningasemi en ekki rökhyggju. Hafa kannski vit en nota það takmarkað.
2) Þeir sem vita að þeir fara með vitleysu en njóta þess að þyrla um moldviðri og vekja rifrildi.
3) Þeir sem vita ekki um hæpnar forsendur, hafa ekki vit til að greina þar á milli.
4) Þeir sem búa yfir öðrum upplýsingum en flestir en láta þær ekki uppi og eru með skoðanir sem seinna munu verða viðurkenndar. Dæmi um slíkt fólk eru þeir sem halda að byltingakenndar hugmyndir séu hættulegar þjóðfélagsfriðinum. Darwin hræddist mjög viðbrögðin við kenningum sínum, og laug frekar með þögninni þangað til hann loksins gaf út sínar kenningar.
5) Mótþrói eins og Katrín Jakobsdóttir viðurkenndi að vera haldin í síðasta þætti Gísla Marteins, fólk sem veit betur en vill bara vera á móti, og blekkja viljandi.
Ingólfur Sigurðsson, 16.5.2021 kl. 13:29
Ég gluggaði aðeins í hitt dæmið sem Ómar nefnir um brunann í Stafanger.
Bruninn atvikaðist þannig að eldur kom upp í díselbíl í bílageymslu sem venjuleg er ekki vandamál, en þetta varð að stórbruna vegna þess að í bílageymslunni voru líka rafmagnsbílar sem erfitt er að ráða við í eldi.
Brunmálayfirvöld í Stafangri sögðu svo fréttamönnum að eldsupptök væru ókunn en bruninn hafi verið svona mikill vegna rafmagnsbíla sem voru í húsinu. Þegar í ljós kom að upptökin voru í díselbíl varð allt vitlaust og framleiðendur rafmagnsbíla (og Ómar) segja núna að fréttirnar hafi verið rangar á þeim forsendum að upptökin voru í díselbíl, sem er klárlega bara lygi.
Þannig eru bæði dæmin sem Ómar nefnir, hálfsannleikur / lygi, sögð til að hygla einhverjum málstað og eyðleggja vitræna rökræðu.
Guðmundur Jónsson, 17.5.2021 kl. 01:22
Áhugavert dæmið um falsfrétt. Nokkrir félagar mínir áttu bíla sem brunnu á flugvellinum þegar eldurinn braust út. Ég hafði samband við vin minn sem sagði mér að honum þætti undurleg sú skýring að kviknað hafði í díselbíl sem var verið að setja í gang. Hann hélt að líklegra væri að upptökin áttu sér stað í rafhlöðu rafmagnsbíls.
En formleg rannsókn segir að Opel Astra sem verið var að setja í gang hafi verið orsökin. Ég sé enga ástæðu til að rengja það.
Tengill í rannsóknarskýrsluna á ensku: https://www.researchgate.net/profile/Ragni-Fjellgaard-Mikalsen/publication/346717386_Evaluation_of_fire_in_Stavanger_airport_car_park_7_January_2020/links/5fcf6db192851c00f85bee48/Evaluation-of-fire-in-Stavanger-airport-car-park-7-January-2020.pdf
Hrannar Baldursson, 17.5.2021 kl. 20:33
Djöfullinn er enginn heimskingi. Hans eðli er að ljúga, stela, slátra og eyða. Hann er illskan sjálf, allt hið vonda. Þeir sem ljúga og blekkja gera það ekki vegna heimsku heldur til að ávinna sér eitthvað og eru oft bráðgreindir menn, þó aldrei á við Djöfulinn sjálfan, en frá honum fá þeir innblástur sinn.
En eru þá ekki til góðir menn sem ekki ljúga og blekkja? Biblían segir nei við því. Jesús segir sjálfur: Enginn sé góður nema Guð.
En finnst þá yfirleitt eitthvað gott í mönnum? Já það gerir það, þá er það vegna þess að Heilagur andi Guðs hefur áhrif á þá menn. Margir hafa einnig gefist Jesú Kristi, frelsast og þá býr Jesús í þeim svo að þeir framkvæma hið góða og þar með tala Sannleikann.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 31.5.2021 kl. 22:42
Djöfullinn er enginn heimskingi. Hans eðli er að ljúga, stela, slátra og eyða. Hann er illskan sjálf, allt hið vonda. Þeir sem ljúga og blekkja gera það ekki vegna heimsku heldur til að ávinna sér eitthvað og eru oft bráðgreindir menn, þó aldrei á við Djöfulinn sjálfan, en frá honum fá þeir innblástur sinn.
En eru þá ekki til góðir menn sem ekki ljúga og blekkja? Biblían segir nei við því. Jesús segir sjálfur: Enginn sé góður nema Guð.
En finnst þá yfirleitt eitthvað gott í mönnum? Já það gerir það, þá er það vegna þess að Heilagur andi Guðs hefur áhrif á menn. Margir hafa einnig gefist Jesú Kristi, frelsast og þá býr Jesús í þeim svo að þeir framkvæma hið góða og þar með tala Sannleikann.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 31.5.2021 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.