Sú sorglega staðreynd að við erum varla til
7.5.2021 | 20:46
Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvað við erum smá, bæði þegar kemur að rúmi og tíma? Þegar við sjáum fyrir okkur Fjöldi manneskja á jörðinni er að nálgast átta milljarða. Það er varla að maður kunni að skrifa töluna: 8000000000. Og pældu í því að hver einasta af þessum manneskjum hefur þessa dýpt sem við sjáum flest í sjálfum okkur. Til eru um 9 milljónir dýrategunda á landi og í sjó, Næstum fimm milljarða farsíma eru til í heiminum, þar af um fjórar milljarðar snjallsímar. Það eru ekki nema átta plánetur í sólkerfinu okkar, en vísindin hafa uppgötvað um 3200 sólkerfi þarna úti einhvers staðar, og hvert sólkerfi hefur nokkrar plánetur. Þannig að við erum hvert og eitt frekar lítil í stóra samhenginu.
Þegar kemur að tíma erum við ennþá smærri. Það má reyndar deila um hvort að við höfum verið englar eða sálir áður en við fæddumst og eftir að við deyjum, en gerum ráð fyrir að við vitum ekkert um það, þá erum við að tala um milljónir ára áður en við verðum til í þessum heimi, svo lifum við lífi okkar, vonandi til hins fyllsta, hvað sem það þýðir fyrir hvert og eitt okkar, og eftir að við deyjum, verðum við áfram ekki til í milljónir ára. Eftir líf okkar verðum við kannski bergmál í hjörtum einhverra þeirra sem lifa okkur af, en brátt verður þetta fólk líka að bergmáli, og þannig hverfum við.
Þrátt fyrir þessa smæð okkar, er lif okkar margbreytilegt og flókið. Við leitum að merkingu í lífinu, sumir meira en aðrir. En við lifum lífinu áfram og gerum okkar besta, bæði sem einstaklingar og samfélag, til að vera besta mögulega útgáfan af sjálfum okkur. Við erum eins og lítil ljós sem gleðja í myrkrinu. Stundum þegar við horfum á logann, tökum við eftir birtunni frá honum og hitanum, en stundum tökum við aðeins eftir myrkrinu sem umlykur hann.
Við eltum ýmislegt í þessu lífi. Sumir keppast við að tryggja sér öryggi, fjármagn, ánægju, sumir vilja einfaldlega tengjast öðrum, en aðrir vilja bara vera einir og útaf fyrir sig. Og öll hugsum við einhvern veginn um þennan heim. Við eigum okkar eftirlætis lit, bragð, lykt og snertingu, við eigum okkar uppáhalds minningar og hugsanir, sum gleymum við okkur í ímyndunum og draumum, og aðrir í sögum, sumum skálduðum, öðrum sem eru sannar.
Við eigum okkar fjölskyldu, vini, kunningja, bekkjarsystkin, vinnufélag og allskonar og hvert samband við allar þessar manneskjur er ólíkt. Eitt það furðulegasta sem gerist að við erum ekki saman persónan í augum neins annars, og í eigin augum erum við svo eitthvað allt annað en nokkur annar getur upplifað.
Þegar fólk pælir í svona hlutum eru sumir sem yppta bara öxlum og glotta, aðrir leggjast í þunga þanka, enn aðrir reyna að ræða þessa hluti við félaga sína til að átta sig betur á hvernig þessi veröld er og hvernig við finnum merkingu í henni, og ef við finnum ekki merkingu, hvernig við búum hana til.
Þessi tilvist okkar er undarlegt ferðalag. Ég elska hvert einasta augnablik í þessu ferðalagi og reyni að verja tímanum vel með því að lesa, læra, upplifa og finna fyrir þessari tilvist, og með því víkkar sjónarhornið og betra verður að velja hvernig maður vill lifa þessu blessaða lífi. Sumir hafa fyrir löngu fundið svarið við þessari spurningu og öðrum dettur ekki einu sinni í hug að spyrja, sumir velta sér upp úr svona pælingum, en aðrir velta þeim fyrir sér.
Mér finnst æðislegt að geta skrifað svona hugsanir og velt þeim fyrir mér í rituðu máli, reynt að tengja þær við þig sem lest þetta og svo leyfa þessu bara að sjatna í eigin huga, og hugsanlega breyta því að einhverju leyti hvernig við sjáum heiminn, og mögulega hafa nákvæmlega engin áhrif.
Mynd: WikiImages frá Pixabay
Athugasemdir
Einkvers staðar sá ég að sálirnar væru 60 milljarðar. Reyndar hef ég séð aðrar, en þessi er minnistæðust.
Er það eftir sóknarvert fyrir sál í dýri að fæðast sem maður.
Getur sálin frekar tjáð sig í mannslíkama?
Indverjar sögðu að lífið, efnisheimurinn væri blekking.
Vísindi á vesturlöndum segja það sama. Gott er að kynna sér tveggja rifu tilraunina.
slóð
Þá sér augað okkar myndina í geislaskjánum sem Nikola Tesla talaði um, í víðunni, víðáttunni, sem er aðeins til í auganu hjá okkur. Erum við þá settir eða höfum valið að fara í sýndarveruleika námskeið, skóla, sem á að geta hjálpað okkur í lífinu?
8.4.2020 | 12:32
Egilsstaðir, 08.05.2021, Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 8.5.2021 kl. 01:41
Það er gleðileg staðreynd að það er leitun að jafn fámennu samfélagi og Íslandi, sem hefur þrátt fyrir allt meiri áhrif á heimsvísu en við, meðal annars með því að hafa jafn mörg atkvæði í ótal alþjóðlegum samtökum og stofnunum og fjölmörg þúsund sinnum stærri landsvæði.
Ómar Ragnarsson, 8.5.2021 kl. 12:51
Afsakið, síðasta setningin á að vera svona: "jafnmörg atkvæði í ótal alþjóðlegum samtökum og stofnunum og mörg þúsund sinnum fjölmennari lönd.
Ómar Ragnarsson, 8.5.2021 kl. 12:58
Varð hinn "vitiborni maður" til vegna ótrúlegrar tilviljunar eða "slysni" sem ekki verður skýrð út frá kenningu Darwins: Zufall Mensch? Der kleine Schritt zum großen Gehirn | MDR DOK
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 9.5.2021 kl. 14:24
Takk fyrir góðar athugasemdir. :)
Hrannar Baldursson, 9.5.2021 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.