Af hverju að halda barninu í okkur lifandi?
25.4.2021 | 11:14
Stundum heyri ég frasann að mikilvægt sé að halda barninu í sjálfum sér lifandi. Yfirleitt játa ég því bara, finnst það sjálfsagður sannleikur, eitthvað svo augljóst, en þegar maður veltur því fyrir sér er merkingin kannski alls ekki augljós og síðan spurning hvort að þetta sé yfir höfuð satt.
Þegar við tölum um barnið í sjálfum okkur hljótum við að túlka þetta svolítið eftir eigin höfði. Mér dettur ekki fyrst í hug krakki með kúk í bleyjunni öskrandi að hann langi í sleikjó, heldur eitthvað dýpra, að þetta sé þessi eiginleiki að skima sífellt umhverfið, vera alltaf til í að læra eitthvað nýtt og undrast yfir nýjum hlutum.
Við erum þá að tala um þessa barnslegu forvitni, þennan áhuga fyrir að spyrja um hlutina af einlægni, og fylgja spurningunum eftir með því að spyrja nánast hverja einustu lífveru sem á vegi manns verður, og ekki síst af öllu spyrja sjálfan sig.
Ég hef í sjálfum mér reynt að viðhalda þessari forvitnu, þessari undrun, í stað þess að dæma hlutina út frá eigin stöðu í veruleikanum, reyna að átta mig á fyrirbærunum út frá ólíkum sjónarhornum. Til dæmis þegar vinur minn í Dubai var að fræða mig um Ramadan, þar sem fólk má ekki borða á meðan sólin skín í heilan mánuð, þá spurði ég hann hvort að fólk yrði ekki svakalega pirrað við þessar kringumstæður. Hann sagði mér að vissulega væri fólk pirrað yfir daginn en hakkaði sig svo í sig mat á nóttunni. Stundum væri fólk svolítið pirrað þessa dagana, en samt hafði fastan ákveðið gildi, að sýna hefðbundnum gildum virðingu með því að breyta eigin hegðun í ákveðið tímabil. Mér finnst þetta mjög áhugavert.
Það sama gerist þegar maður heimsækir ólíka menningarheima, eða jafnvel skoðar aðeins betur okkar eigin, og jafnvel þegar maður skoðar eigin hug aðeins betur, eða les bækur og greinar, horfir á sjónvarpsþætti og bíómyndir, allt getur þetta hleypt í gang þessari undrun sem mér finnst ómetanlegt að hafa. Stundum reyndar finn ég hjá sjálfum mér að ég hef ekki tíma til að gefa hlutunum gaum, hef ekki tíma til að láta tímann standa kyrr, ekki tíma til að stoppa aðeins í núinu, því ég er meðvitaður um að ég er á leiðinni eitthvert annað. Og það að vera alltaf á leiðinni eitthvert annað getur stolið bita af þessari barnslegu forvitni, og ef maður er alltaf of upptekinn, þá endar maður á því að missa af því sem aðeins á sér stað í núinu.
Öll þessi augnablik eru eitthvað dýrmætt. Þetta geta verið augnablik með nánum vinum eða fjölskyldu, eitthvað sem við missum af því við erum upptekin við að sinna skyldum okkar, sjá fyrir fjölskyldu okkar, vinna vinnuna okkar, standa sig. En þetta kostar allt. Við þurfum að vega og meta hvað er einhvers virði í lífinu, og stundum þurfum við að hægja aðeins á okkur, finna barnslegu forvitnina, barnið í sjálfum okkur, leyfa okkur að sitja inni í bíl þegar rignir og horfa á dropana leka niður rúðuna.
En hugsaðu þér hvað verður um þá sem tapa þessu barni í sjálfum sér. Ég velti fyrir mér hvað verður um slíkt fólk. Er það fólkið sem getur ekki hætt að eltast við veraldleg gæði? Er það barnið í okkur sem sættir sig einfaldlega við þá djúpu ánægju og þakklæti sem fylgir því að vera meðvituð um að við höfum fengið tækifæri til að vera til og deila lífinu í þessum tíma og þessu rúmi?
Mynd: Rudy og Peter Skitterians á Pixabay
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.