Að horfast í augu við eigin galla

bulls-eye-1044725_960_720

Ekkert okkar er fullkomið. Við höfum einhverja galla og langanir sem við felum, ekki bara fyrir öðrum, heldur sjálfum okkur líka. Fátt er erfiðara en að horfast í augu við sjálfan sig, átta sig á eigin göllum, eigin ófullkomleika, og af hugrekki takast á við þá, í stað þess að fela þá.

Við göngum mörg í grímubúningum gegnum lífið. Látum eins og við sjálf séum ekki til, enda er flest það sem við framkvæmum á yfirborðinu, sem og flest það sem við segjum. Djúpa sjálfið birtist ekkert endilega öðrum en okkur sjálfum og þeim sem við treystum mest, og hugsanlega ekki einu sinni okkur sjálfum eða þeim sem við treystum, því við getum farið að trúa að við séum aðeins það sem við gerum, hvernig við högum okkur og það sem við segjum, en ekki þetta mikla djúp sem býr öllu þessu að baki.

Þessi djúpa manneskja bak við tjöldin. Galdrakarlinn í Oz. Við þekkjum hann öll. Hann býr innra með okkur. Stundum getum við gleymt að hann sé til, en samt er hann þarna. Stundum spyr hann spurninga sem við þurfum að fá svör við. Sum finnum við svörin á þægilegum stöðum, í ferlum sem samfélagið og menningin hefur búið til, en sum okkar erum tilbúin að kafa dýpra, horfa í okkar eigið sjálf og deila með öðrum.

Ég hef ferðast mikið um heiminn og sífellt undrast hvað manneskjan er djúp. Ég furða mig á öllum þeim furðuverkum sem við höfum þróað: skýjakljúfa, flugvélar, internetið, snjallsíma, tungumál sem henta hverjum menningarheimi, sóttvarnir og margt fleira. Við sjáum þessa snilligáfu sem býr innra með okkur öllum í þeirri merkilegu sköpun sem mannkynið framkvæmir. Þessi dýpt liggur á borðinu, yfirborðinu. Við getum virkjað hana í okkur sjálfum.

Á Íslandi er leiðin greið að slíkri virkjun. Við höfum öll aðgang að einu besta skólakerfi sem hægt er að hugsa sér. Sama hvar við erum stödd, óháð aldri og fyrri menntun, þá er alltaf leið fyrir okkur til að virkja þennan huga okkar og kafa dýpra í hvað það hugðarefni sem okkur langar til. Við öðlumst slíka menntun einnig með að leggja á okkur í starfi eða sem foreldri, eða jafnvel sem vinur eða sjálfboðaliði í björgunarsveit. 

Við erum gríðarlega klók sem heild, en stundum gleymum við okkur í göllum okkar sem einstaklingar, og föttum ekki eða viljum ekki viðurkenna að hvorki heimurinn né við sjálf getum verið fullkomlega það sem við viljum að hann eða við séum. 

Fyrirgefðu þér þína eigin galla, samþykktu að þeir séu til staðar, skoðaðu þá, reyndu að kynnast þeim, þekktu þá, láttu þér ekki standa á sama um þá, og þá verða þeir smám saman að styrkleikum. En gallarnir innan með okkur eru endalausir, og þó gott sé að læra um þá og átta sig á þeim, og breyta þeim í styrkleika, er alls ekki gott að velta sér upp úr þeim og láta þá lama sig.

Bestu listamenn okkar ná þessu. Þeir finna þessa galla og þessa löngun, og án þess að skammast sín draga þeir þá fram í dagsljósið og eru sterkari fyrir vikið. Við erum hrædd við að láta dæma okkur, bæði af öðrum en ekki síst að dæma sjálf okkur, því ef þú veltur því fyrir þér, þegar einhver fellir dóm um þig eða frammistöðu þína, þá er ekki verið að dæma þig sem manneskju, þessa djúpu þig, því aðeins ein manneskja er fær um að dæma þig, og það ert þú sjálf.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband