Versta hugsanlega refsingin?

chains-19176_1920

Hver ætli væri versta hugsanlega refsins sem manneskja gæti fengið? Líkamlegur sársauki? Löng fangelsisvist? Dauðadómur? Einelti?

Hvað um það að vera látinn algjörlega afskiptalaus í þessum heimi? Hvað ef þegar þú ferð út í búð tekur enginn eftir þér, hvorki annað fólk í bænum né afgreiðslufólkið. Ekki einu sinni sjálfsalarnir. Þú tækir vörurnar sem þú þarft og ferð út úr búðinni án þess að borga því enginn afgreiðir þig, enginn tekur eftir þér.

Hvað ef þú færir í partý hjá vinum þínum, og enginn virti þig viðlits? Þegar þú talaðir, svaraði enginn. Þegar þú segðir brandara, myndi enginn hlæja, ekki einu sinni brosa. Þegar þú færir heim, kveddi þig enginn.

Þú leitar að starfi og enginn svarar umsóknum þínum. Þú sækir um í skóla, en engin svör. Heimurinn væri bara eins og þegar Palli var einn í heiminum, fyrir utan það að það væri fullt af fólki, en enginn tæki eftir þér. Eins og þú værir vofa, ósýnileg vera sem flakkar á mörkum lífs og dauða.

Segðu mér, væri einhver refsing verri en þessi? Að skipta nákvæmlega engu máli í samfélaginu? 

Ef það er eitthvað til í þessu, að þetta væri jafnvel verra en að vera dæmdur í fangelsi eða á geðdeild, og jafnvel verra en að vera dæmdur til dauða, því að minnsta þá fengi maður einhverja athygli, af hverju gerum við ekki meira af því að gefa öllum athygli?

Eftir að hafa verið fjarri Íslandi í meira en tíu ár, og kem aftur heim, sé ég í sjónvarpinu og heyri í útvarpinu allt sama fólkið og var í fjölmiðlum áður fyrr, fyrir utan að nokkrir nýir hafa bæst í hópinn. Það er eins og þetta sé einhver elíta, fólk sem er sýnilegt, á meðan annað fólk er það ekki. Og þetta fólk sem er sýnilegt, það fær athygli, það er nóg að það sé frægt til að vera spurt spurninga sem þau hafa ekkert erindi til að svara. Þetta er ekki bara svona á Íslandi. Þessi skrípaleikur á sér stað um alla veröld. Þetta er eitthvað mannlegt, en samt í grunninn svo grimmt, eitthvað svo geimverulegt og klikkað. Athyglin er nefnilega einhvers konar næring sem er okkur flestum holl, nema þegar við förum að girnast hana og viljum eignast hana alla fyrir sjálf okkur eins og Narsissus í gömlu sögunni.

En aftur að pælingunni, ef að vera látinn afskiptalaus er svona hræðilega vont, gætum við gert eitthvað til að hinir ósýnilegu verði sýnilegri, eða fengju rödd, val til að vera með í heimi hinna sýnilegu? Væri heimurinn eitthvað betri fyrir vikið?

Eru okkur kannski takmörk sett fyrir því hvað við getum gefið mikla athygli? Kostar hún eitthvað?

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta eru áhugaverðar pælingar og margar hliðar á þessu. Ég held að þjóðfélaginu sé hættara við stöðnun þar sem alltaf sama elítan fær pláss í fjölmiðlum, og eitthvað er að í slíku þjóðfélagi. Ég er sammála því að þetta er mjög þreytandi, og er held ég meira áberandi nú en oft áður. 

Ég tel að þetta sé eitthvað skylt þessari "slaufunarmenningu" ,"hætta við menningu", "hunzunarmenningu"... hvað sem á að kalla þetta fyrirbæri, að sumir listamenn, fræðimenn eða álitsgjafar eru viðurkenndir sem í lagi, en aðrir ekki, eða marktækir.

Erum við kannski komin í sömu spor og fólkið í miðaldarmenningunni og endurreisnarmenningunni þegar nornabrennur tíðkuðust? 

Það er nokkuð til í félagsfræðinni sem heitir félagsleg útskúfun og hefur verið notað frá ísöldunum hugsanlega, er til í öllum frumstæðu samfélögunum og virðist fylgja okkur enn. Það er þessi villimennska að hunza suma. Rannsóknir félagsfræðinga hafa leitt í ljós að þetta getur verið banvænt í sumum tilfellum fyrir þá sem fyrir þessu lenda, lífsvilji þeirra dvín, og margir af þeim svelta sig til bana eða eitthvað slíkt.

Svona erum við nú frumstæð í grunninn, því miður. 

Hin spurningin er heimspekilegri og erfiðara að svara henni, hvaða refsing er verst, og kannski ekki hægt að svara því. Ég hins vegar er Nýalssinni, og fylgi kenningum dr. Helga Pjeturss, en hann hélt því fram að himnaríki og helvíti væru á öðrum hnöttum, sem þýðir að breytnin leiðir okkur þangað sem við eigum skilið að fara. Í þeim kenningum er það einnig að þeir sem koma illa fram við aðra gjalda þess síðar með einhverjum hætti, og þeir sem beita svona einelti alveg örugglega líka.

Okkar þjóðfélag er ekki fullkomið, og mér finnst oft að þetta fólk sem hefur völd og er með útópískar hugmyndir um fullkomið þjóðfélag sem það ætlar að búa til geti líka gert mistök.

Ingólfur Sigurðsson, 14.4.2021 kl. 08:40

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir stórskemmtilega athugasemd Ingólfur. Ég hef ekki lesið nýjaldarspeki Helga Péturs, en hún hljómar vissulega skemmtilega. Að aðrar plánetur hafi einhver astralhlutverk önnur en að vera astraltertur á himnum er virkilega skemmtileg pæling.

Og jú, það felst sjálfsagt einhver villimennska í því að hampa sumum en öðrum ekki, sérstaklega ef slík athygli er ekki bara eitthvað sem fólk þráir, heldur eitthvað sem fólk þarf til að finnast það hluti af samfélaginu.

Hrannar Baldursson, 14.4.2021 kl. 11:48

3 identicon

Er maður með þína athyglisþörf dómbær á hvað öðrum finnst um minni athygli? Ert þú ekki eins og alkaholistinn sem segir verstu refsinguna vera að hefta aðgengi að áfengi?

Vagn (IP-tala skráð) 14.4.2021 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband