Aðeins um sjálfstæði okkar og frelsi

crown-2284849_1920

Við fögnum sjálfstæði okkar sem þjóðar, höldum þjóðhátíðardag þar sem við fögnum með blöðrum, fánum, skrúðgöngum og tónlist. Þjóðir sem upplifa slíkt frelsi undan stjórn annarra þjóða, eiga það sameiginlegt að fagna slíkum dögum. Okkur finnst ekki gott að láta utanaðkomandi stjórna því hvernig við lifum lífi okkar, hverju við trúum, hvað við borðum, hvaða tungumál við tölum, hvernig við hugsum og hvernig við ákveðum að búa sundur eða saman. Við fögnum þessu frelsi.

En það er ekki bara eitt frelsisstríð í lífi okkar, þessi barátta um sjálfstæði þjóðar, þær eru margfalt fleiri. Við þurfum líka að berjast fyrir frelsi okkar sem einstaklingar innan samfélags, og þá einatt þau okkar sem eru ólík flestum, hvort sem það er vegna trúar, húðlitar, fyrri menningar, heilsu eða hvernig við hugsum. Við fögnum þannig í lífi okkar dögunum sem marka hærri aldur, sem einhvern tíma þótti merki um meiri virðingu, þroska og jafnvel visku. Hvort það sé ennþá merkingin, hér og nú, er önnur saga. 

En af einhverjum sökum þurfum við alltaf að hafa einhverja sem drottna yfir okkur í þessu lífi, það geta verið lánardrottnar, yfirmenn og stjórnvöld, en þessi yfirvöld eru hlutar af samningum sem við göngum að. Við förum fæst tilneydd út í slíkar aðstæður, þó að fólk vissulega gæti fagnað þeim degi þegar það skuldar ekki neitt, stendur á eigin fótum og finnst það engum háður. 

En það er samt sumt innan með okkur sem drottnar yfir okkur, nánast sama hvað við gerum. Þetta eru tvíburarnir sársauki og nautn. Við sækjumst eftir nautninni sem kemur í margs konar formi, sem góður matur eða drykkur, góð bíómynd, góður elskhugi, gott páskaegg eða gott ferðalag, jafnvel ganga að gosi. Sársaukinn getur líka verið allskonar, það er sífellt eitthvað sem veldur honum, annað hvort innan frá eða utanfrá. Innri sársauki getur komið úr depurð, stressi, svefnleysi og kvíða á meðan sá ytri getur komið frá sködduðum taugum, sárum, meiðslum eða átökum við eitthvað sem er harðara en við ráðum við.

Stóra spurningin er hvort við séum þrælar þessara tilfinninga, sársaukans og óttans, eða er þetta eitthvað sem við getum ráðið við? Ennþá stærri spurning er hvort að þetta sé eitthvað sem við ættum að ráða við.

Stóuspekingurinn Epíktet reyndi að lifa lífi sínu þannig að hvorki sársauki né nautn hefðu áhrif á hvernig hann lifði lífinu eða hugsaði um lífið og tilveruna. Hann taldi sig geta náð hamingju óháð þessum tilfinningum. Sagan segir að hann hafi lifað góðu lífi í Grikklandi þar til Rómverjar ruddust þar inn, aðskildi hann frá eiginkonu og börnum og drógu hann nauðugan til Rómar. Hann sá fjölskyldu sína aldrei aftur. Samt gat hann sætt sig við þetta og lifað góðu og hamingjusömu lífi, en hann lifði ekki lífinu sem hann vildi lifa, heldur því lífi sem hann lenti í að lifa. Hann fagnaði frelsinu gegn eigin hvötum, og taldi að með því að geta stjórnað því láta ekki eigin hvatir stjórna sér, aðeins þannig gæti hann fagnað alvöru frelsi. 

Það getur verið hollt að velta fyrir sér sjálfstæðisbaráttunni sem gerist innan með okkur og sem einungis okkar eigin gagnrýna hugsun getur tekið á.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband