Er hægt að spilla góðum vilja?

Getur manneskja sem hefur góðan vilja ekki verið vond á neinn hátt? Slík manneskja getur ekki unnið illverki, getur ekki stungið fólk í bakið með lygum og prettum eða hnífum, getur ekki lagt á ráðin um heimsyfirráð sem geta kostað milljónir lífið, getur ekki einu sinni rænt banka, nema það sé til að gefa hinum fátæku. 

Hugsum aðeins um aðra mannkosti, þá má alla nota til góðs eða ills. Þannig er farið með greind, snilligáfu, dómgreind, hugrekki, ákveðni og þrautseigju, það er hægt að snúa því öllu á hvolf. Hugrekki er aðeins eitthvað sem notað er til að framkvæma þegar við erum hrædd, óháð því hvort það sem við ætlum að gera er af hinu góða eða illa. Greind getur verið notuð til að setja saman geggjuð Excel skjöl sem síðan eru notuð til góðs eða ills, hugsanlega í almannaþágu, hugsanlega í þágu einkahagsmuna. Þrautseigja getur verið aðdáunarverð, en þegar hana skortir gagnrýna hugsun, umbreytist hún í þrjósku sem auðvelt er að misnota til ills.

Það má kannski prófa aðeins frekar þessa fullyrðingu að góður vilji leiði alltaf til góðs. Getur manneskja viljað vel en verið svo afvegaleidd að henni takist ekki að framkvæma í samræmi við vilja sinn? Gæti einhvern skort svo mikla þekkingu að góður vilji hans snúist upp í andhverfu sína? Getur góður vilji með falskri trú leitt til einhvers ills? 

Hugsum okkur þýska alþýðu sem lifði gegnum nasisma Hitlers. Þó að nasisminn sem slíkur hafi augljóslega verið illur í sjálfum sér, þar sem fólk var miskunnarlaus aðgreint út frá kynþætti, trú og heilsu, og komið verr fram við það en nokkurri skepnu. Ég get ímyndað mér að fólk sem lifði í þessu vonda ríki hafi ekki getað trúað því sem gekk á, óháð því hvort að vilji þeirra var góður eða illur. Spurningin vaknar hvort að þegar fólk uppgötvaði þessa illsku, þegar það varð upplýst, ef það var ennþá með góðan vilja, hefði það getað látið þetta líðast áfram?

Niðurstaða mín hérna er sú að góður vilji getur aðeins verið nýttur til ills ef sá sem hefur þennan góða vilja skorti nauðsynlega þekkingu til að átta sig á veruleikanum.

Þetta þýðir að góður vilji og góð menntun fara hönd í hönd. Góður vilji stendur ekki einn og sér. Sjálfsagt væri betra að manneskja með góðan vilja hefði líka mannkosti eins og greind, snilligáfu, dómgreind, hugrekki, ákveðnu og þrautseigju, til að áhrif hennar yrðu sem mest og best.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hitler var að reyna að bjarga heiminum.
Frá Gyðingum og Kommúnistum.  Segir hann sjálfur.

Sumir segja að sé göfugt að bjarga heiminum.  Góður ásetningur.

Þannig að það var ekki illa meint.

Jæja samtökin segja líka að þeim gangi gott eitt til, en... ég hef lesið Mein Kampf, og mér lýst ekkert á hvert þeir eru að fara.

Flestir reyndar, sem ég hef hitt sem hafa heims-bj-rgunar-hugmyndir, þeir eru á leið til hver sinnar útgáfur af helvíti með sig og alla sína fylgismenn.

Svo já, vel meinandi fólk getur alveg unnið verstu illvirki.  Segi ég.

Ásgrímur Hartmannsson, 4.4.2021 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband