Hverju getum við stjórnað og hverju getum við ekki stjórnað?

Stundum velti ég því fyrir mér hvað það er sem við ráðum yfir í þessum heimi og kemst jafnan að því að það er út frá ákveðnu sjónarhorni gríðarlega mikið, öll manns innri tilvera, og á sama tíma gríðarlega lítið, öll manns ytri tilvera.

Það er svo margt sem ég hef ekkert vald á og líf snýst að miklu leyti um. Til dæmis hef ég frekar lítil áhrif á eigin líkama. Ég hef ekkert um það að segja hvenær hann kemur inn í þennan heim eða hvenær hann hverfur úr þessum heimi. Á meðan ég lifi lífinu get ég þó byggt upp venjur og lífshætti, ef ég geri það af skynsemi er ég líklegri til að hafa heilbrigðari líkama, en sum okkar hafa þó alls enga stjórn yfir því. Sumir fá sjúkdóma sem enginn ræður við, en við reynum þó að finna leiðir til að sigrast á þeim og höfum heilar vísindagreinar sem einbeita sér að því, en það er varla á valdi einstaklingsins. Það eina sem einstaklingurinn getur gert er að átta sig á hverju hann eða hún hefur vald yfir og hafa áhrif á það. 

Það sem við stjórnum algjörlega eru til dæmis viðhorf okkar, hvort við þróum með okkur húmor, hvernig við metum lífið og tilveruna, hvar við finnum gildin. Það virðist vera sama hvað ytri takmarkanir eru miklar, það er alltaf pláss fyrir innra frelsi, þar sem við finnum leiðir til að njóta lífsins.

Sjálfur hef ég gengið gegnum ýmislegt í þessu lífi og kynnst vel hverju ég hef stjórn á og hverju ekki. Ég hef til dæmis engin völd yfir því hvernig þú, lesandi góður, tekur því sem þú ert að lesa, né ræð ég yfir miðlinum sjálfum sem þú ert að lesa. Ég ræð hins vegar í hvaða átt ég horfi og hvernig ég tjái mig (eftir bestu getu), og ég vel að horfa inn á við, út frá því hvernig heimspekingar gegnum aldirnar hafa skráð niður upplýsingar um eigin innviði, heim hugsana sem skipta í raun aðeins þá máli sem meta slíkar pælingar.

Með lestri á heimspeki lendi ég stöðugt í því að uppgötva eitthvað nýtt innra með mér, og finnst stundum svolítið leitt að hugsa til þess að ekki allir finni þessa hluti hjá sér, en man svo að gleðjast yfir því aftur að ég sjálfur hef þó þessa gáfu. Reyndar held ég að við getum þetta öll, en svona pælingar krefjast áhuga, og hugsanlega kemur þessi áhugi á því sem við erum ekki fyrr en eitthvað alvarlegt bjátar á, að við upplifum ástvinamissi, verðum alvarlega veik eða liggum fyrir dauðanum. Þannig hófust mínar heimspekilegu pælingar á unglingsaldri, og þær festu rætur þegar ég áttaði mig á að á þeim tíma réð ég ekki við að hugsa hlutina rökrétt til enda. Enn þann dag í dag er þessi takmörkun til staðar, en rökhugsunin verður sífellt traustari með góðri ástundum og meiri þroska.

Þetta er einmitt það sem heillar mig við skák. Þar er maður að leita hugmynda innan 64 reita og möguleikarnir eru endalausir. Við að tefla lærir maður allskonar hugmyndir um hvernig hægt er að tefla betur, en það að tileinka sér þessar hugmyndir, koma þeim inn í taflið á meðan maður teflir, koma þeim fram í fingurgómana, krefst mikillar þjálfunar og ástundunar. Sífellt hefur verið skemmtileg togstreita í sjálfum mér, því ég tefli bæði til að skemmta mér og til að læra, en vandinn er sá að þegar ég tefli með því hugarfari að skemmta mér, læri ég ósköp lítið, og þegar ég tefli til að læra, skemmti ég mér ekki mikið. Það þarf að finna eitthvað jafnvægi þarna eins og í öllu.

Hugsanlega er þetta líka ástæðan fyrir því að ég hef algjörlega heillast af fræðslu og námi í sjálfu sér, og þessari tvískiptingu um fagmennskuna sem felst í að útvega góða fræðslu, og svo þann innri heim nemandans sem felst í að nýta sér þessa fræðslu. En þarna þarf maður einmitt að hafa í huga leiðbeiningar stóuspekinnar, að maður hefur í raun takmarkað vald sem fræðari - þar sem það er eitthvað í sjálfu sér utan okkar valdsviðs, við getum þó gert okkar besta. Valdið í námi er hjá nemandanum sem nýtir sér fræðsluna, hann hefur einmitt völd til að hafna henni algjörlega, jafnvel með óbeit, og ákveða að læra ekki neitt, eða taka hinn pólinn og nýta sér hana af fullum krafti, átta sig á að þetta er tækifæri til að rækta eigin eiginleika, og gera það.

Jarðskjálftarnir sem skekja landið okkar þessa dagana er dæmi um eitthvað sem er utan okkar valdsviðs, og ef við trúum að við getum gert eitthvað við þeim erum við að blekkja okkur sjálf. Við getum hins vegar haft áhrif á hvernig jarðskjálftarnir hafa áhrif á okkur. Við getum stjórnað stressinu sem við upplifum þegar hillur hristast í kringum okkur og við hoppum hægindastólnum. Til þess þurfum við að gera greinarmun á því sem er að gerast og hvernig við tökum því sem er að gerast. Ef við áttum okkur á að við þolum ekki að lifa við slíkar aðstæður, getum við flutt eitthvað í burtu, kannski tímabundið, á meðan ástandið varir, eða við getum gert eins og margir á Suðvesturhorninu hafa gert undanfarið, bitið í skjaldarrendurnar og gert sitt besta til að þola ástandið. Það skiptir nefnilega máli frá degi til dags að átta sig á hverju við getum stjórnað og hverju ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Alþingi hefur t.d. valmöguleika hvort að það vil

blása til sóknar með JÁKVÆÐU SKÁTA-STARFI  í landinu

eða hvort að það vil eyða sínum tíma, orku og pening

í  vitleysu eins og að blása til sóknar með

kynrænu sjálfræði sem að er líklegt til að

auka á alla ringulreið í landinu.

Jón Þórhallsson, 14.3.2021 kl. 12:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu eykur það alla ringulreið í landinu ef Jón Þórhallsson skiptir um kyn eða lesbíum fjölgar mikið í skátafélaginu Hraunbúum í Hafnarfirði. cool

Kynrænt sjálfræði - Stjórnarráð Íslands

Lög á sviði mannréttinda og jafnréttis

Þorsteinn Briem, 14.3.2021 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband