Af hverju verðum við ósammála?
10.3.2021 | 22:00
Í síðustu færslu skrifaði ég aðeins um rasisma og gagnrýna hugsun og fannst áhugavert hvernig umræður í athugasemdum fóru í umræður um fordóma gagnvart samkynhneigð og síðan túlkun á kristnu siðferði. Ég hafði gaman af að fylgjast með og fór að velta fyrir mér af hverju þeir sem ræddu saman virtust vera ósammála um svo margt, en svo áttaði ég mig á að kannski voru þeir með samræðunni að bera hugsanir sínar saman til að stilla þær aðeins af.
Ef hugsanir eru byggðar á síendurteknu stagli, eins og kennisetningum sem hefur verið þvingað inn í hugann, þá breytist sjálfsagt lítið í eigin hugarfari, en ef viðkomandi byggir hugsanakerfi sitt á skilningi, sem er nokkuð sem lærist vel í samræðu, þá eru líkur á að fólk hugsi sinn gang eftir að hafa rætt hlutina, og í framhaldinu endurhugsi þær fullyrðingar sem þeir álitu sannar og lögðu á minnið. Slík endurskoðun er alls ekki auðveld, en er vel þess virði, og gefur lífinu sífellt ný lög af hugmyndum til að velta fyrir sér.
Þegar við lærum eitthvað nýtt, ákveðum við stundum að vista þessar upplýsingar í langtímaminninu. Leiðin til þess er að nota fullyrðingar sem við reiknum með að eru sannar, og leggja þær á minnið, hugsanlega með því að staglast á þeim eða hugsa um merkingu þeirra út frá ólíkum sjónarhornum. Önnur aðferðin er betri en hin.
Við semjum setningar sem hafa merkingu, hvert og eitt okkar gerir það, síðan tjáum við þessar setningar þegar það er viðeigandi. Þá gerist svolítið undarlegt. Manneskjan sem við tölum við skilur fullyrðinguna hugsanlega á allt annan hátt en við meintum. Samt finnst okkur að hin manneskjan ætti að skilja það sem við sögðum nákvæmlega eins og við meintum.
Þessi rangtúlkun eða misskilningur er engum að kenna, það er ekki hægt að kenna um óskýru málfari eða slökum hugsunum, heldur hefur ólíkt fólk vald á ólíku tungumáli. Þó að við búum í sama samfélagi, jafnvel sama bæjarfélagi, erum í sömu fjölskyldu, jafnvel tvíburar, þróa ólíkt tungumál sem hver og einn einstaklingur skilur, og sem enginn annar skilur á sama hátt. Þetta er eðlilegur hluti af hvernig við þroskumst, og útskýrir líka að hluta af hverju fjarlægar þjóðir þróa með sér gjörólík tungumál. Það er blanda af landfræðilegum aðskilnaði, aðskilnaði gegnum tíma, og því að fólk þroskast á eigin forsendum að við þróum með okkur ólíkan skilning á veruleikanum sem brýst fram í ólíkri notkun okkar á tungumáli..
Það er í raun furðulegt að við skulum yfir höfuð geta skilið aðrar manneskjur að einhverju marki. Hversu djúpt og hversu vel okkur gengur að skilja aðra manneskju út frá því hvernig hún hugsar er svo önnur saga. Hvort við getum nokkurn tíma skilið aðra manneskju yfir höfuð er svo ennþá stærri spurning, því hugsanlega mótum við aðeins okkar eigin skilning á eigin forsendum í stað þess að meðtaka það sem önnur manneskja segir og meinar.
Athugasemdir
Af hverju verðum við ósammála?
Finnst Þér það rökrétt að 2 karlar geti gift sig
og sofið saman sem hjón?
Jón Þórhallsson, 10.3.2021 kl. 22:20
Jón Þórhallsson vill náttúrlega verða ástar- og uppáferðastjóri ríkisins í ástarmálaráðuneytinu.
Þorsteinn Briem, 10.3.2021 kl. 22:58
Jón: fer það ekki eftir hvernig við skilgreinum giftingu og hjón?
Hrannar Baldursson, 11.3.2021 kl. 17:51
Hvers hlutverk á það að vera að meta hvað sé rétt og rangt í
líffræðilegri kynlífsfræðslu og góðu siðferði?
Jón Þórhallsson, 11.3.2021 kl. 18:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.