Leiða sannanir til þekkingar?
5.3.2021 | 23:19
Í færslunni "Er einhver þekking svo áreiðanleg að engin skynsöm manneskja gæti efast um hana?" var hversu flókið mál það er að tala um þekkingu út frá beinni reynslu, sem þýðir sjálfsagt að þekking er ekki eitthvað áþreifanlegt sem maður hefur skynjað beint. Þekking er þá eitthvað annað.
Í athugasemdum minntust lesendur á sannanir í tengslum við lotukerfið, stærðfræði og afstæðiskenningu Einsteins.
Sannanir eru frekar flókið fyrirbæri og ólíkar eftir aðstæðum. Þegar stærðfræðingur sannar að 2+2 séu 4, er það ekki alveg á sama hátt og saksóknari gerir þegar hann sannar að dæma skuli ákveðna manneskju fyrir glæp. Í dæmi stærðfræðingsins þarf aðeins að gefa sér ákveðnar reglur, eða lögmál stærðfræðinnar, til að sanna dæmi. Síðan er það annað mál hvort að stærðfræðin sé bara lokað kerfi, eða sjálfstæður hluti af heiminum? Hvort ætli stærðfræðin sé hluti af mannlegri hugsun eða heiminum sjálfum? Ætli hún sé uppgötvun eða uppfinning? (Ég leyfi mér að spyrja villt og galið en svara ekkert endilega strax því mig langar til að halda mig við meginefnið).
Í dæmi sakamálsins þarf ýmislegt að passa saman til að dæmið gangi upp, en það er einmitt lykilmálið, sannanir virka í lokuðum kerfum. Lög og reglur eru lokað kerfi, og til að dæma fólk, þarf að fara eftir þessum lögum og reglum. Fyrst þarf að uppgötvast að glæpur hafi verið framinn, sem þarf sjálfsagt að skilgreina. Síðan þarf að finna mögulega sökudólga, og reyna að átta sig á heildarmynd málsins. Loks fær hugsanlega einhver manneskju stöðu grunaðs, og þá þarf saksóknarin að afla nógu mikilla gagna, í formi sönnunargagna, samskipta, skjala og vitna, sem sýna ekki aðeins að lög hafi verið brotin, heldur einnig að ákveðin manneskja hafi brotið þau, og reynir sjálfsagt að átta sig á ástæðunum fyrir því, til að geta sannfært dómara um að þessi rök séu rétt. Leiðin að sannleikanum í málinu er flókin, því sakborningur hefur einnig verjanda, sem miskunnarlaust reynir að finna gloppur í saksókninni, því að ein lítil mistök geta verið nóg til að vekja vafa um að sönnunin sé gild.
Það er í raun aðeins hægt að sanna ýmislegt eftir slíkum lokuðum kerfum, til dæmis í skákdæmum er hægt að sanna að annar aðilinn verði mát í þriðja leik, aðeins með því að finna réttu leikina.
Maður hlýtur á endanum að velta þessu yfir í veruleikann og spyrja hvaða kerfi það er sem við notum til að átta okkur á hvað er satt eða ekki. Því ferlið til að finna út úr því hvað er satt, hlýtur að vera tengt sönnunum. Er það ekki?
Það liggur beinast við að benda á tungumálið. En svo kemur fljótt í ljós sá galli að tungumálið er menningarlegt fyrirbæri og mörg hugtök skilin á alls konar hátt, og þar að auki er eitt tungumál kannski eitthvað allt annað fyrirbæri en annað tungumál. Hver ætlar að segja mér að eitt orð þýði það sama á öllum tungumálum, en beri aðeins ólík hljóð og stafi, til að tákna það nákvæmlega sama, án blæbrigða?
Þannig að tungumálið gengur ekki upp. Samt er það hugsanlega okkar öflugasta tæki. En hugsanlega er eitthvað meira sem býr að baki tungumálinu, þetta sem gerir okkur mögulegt að þýða orð úr einu tungumáli í annað, og öfugt. Þetta er svona eins og tungumál á bakvið tungumálin, en hvað væri það?
Eru það hugtök sem þýða alltaf það sama, eru hugtök eins og hugmyndir, en orð birtingarmyndir þeirra? Ef svo er, og þetta ef er stórt, hvernig getum við tengt öll þessi hugtök saman og skilið hvert annað, eða að minnsta kosti sannað að eitthvað sem við höldum að sé satt, sé satt?
Slíkt kerfi er til, við köllum það rökfræði. Sumir hafa haldið því fram að rökfræði sé ákveðin gerð stærðfræði, og aðrir að stærðfræði sé ákveðin gerð rökfræði, og enn aðrir að þetta séu aðskilin fyrirbæri. Stærðfræðin reiknar út tölur, en rökfræðin reiknar út orð. Og það eru sannanir í rökfræði, og ákveðnar formúlur sem þarf að fylgja. Í rökfræðinni eru spennandi fræði um rökvillur sem hjálpa okkur að skilja hvenær einhver að plata okkur, og við lærum smám saman að flokka niður það sem er satt og greina það frá því sem er ósatt.
Og einhvern veginn reynum við manneskjurnar að tengja allar þessar hugmyndir, bæði það sanna og hið ósanna, saman í eina heildarmynd sem við köllum svo sannleikann, sem að sjálfsögðu er síbreytilegur út frá sjónarhorni manneskjunnar, sem hvern dag getur öðlast nýjar upplýsingar sem breyta á einhvern hátt skilning hennar á sannleikanum.
Það er freistandi að segja að sannleikurinn sé til staðar, óháð manneskjunni, að hlutir séu sannir eða ósannir, óháð okkur. En sú tilraun reynist merkingarlaus, því að fullyrðingar um hugtök eru nauðsynlegar til að ákvarða um hvað er satt eða ekki.
Hugsanlega er til einhver sammannlegur hugtakaheimur sem við þurfum að komast í snertingu við til að komast í snertingu við sannleikann. Hugsanlega felst hann í fræðiritum, heimspekipælingum, fréttum dagsins, ljóðum, og öllu því sem ber fyrir vit okkar; og öll erum við sífellt að gera tilraun til að höndla þennan sannleika.
Vandinn reynist samt sá, að þeir sem telja sig loks hafa höndlað sannleikann, það eru þeir sem hafa tapað tengslum við hann.
Athugasemdir
Í sjö stigum hinnar vísindalegu aðferða er aldrei minnst á sönnun. Vísindi eru alltaf opin í báða enda. Rétt eins og í sakamálum. Líkindin eru yfirgnæfandi þar til annað kemur í ljós.
Orðið sönnun er bara merkimiði ekki stippill á endanleika.
Einhver póstmódernísk afstæðishyggja er bara heilafretur í drullusokkum sem hafa ekkert fram að færa og munu sennilega aldrei bæta neinu við þekkingu manna. Strámaður ofinn af þeim sjálfum til að rífa niður sjálfir.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.3.2021 kl. 00:55
Leiða sannanir til þekkingar?
Þekking er ekki endanleg. Ef þú gengur í myrku herbergi og finnur gólf undir fæti er líklegast að þér sé óhætt að taka annað skref. Það getur brugðist, en ef þú gengur út frá því að það bregðist, ferðu ekki fet. Þekking líkt og sannanir er það sem samkvæmt öllum ályktunum og breytum virðist hægt að treysta...þar til annað kemur í ljós.
Það er engin vissa um hvað aðdráttaraflið er í raun og veru, en það að það er þarna er fullvissa um að þú fellur ef þú gengur fram af bygginu en flýgur ekki. Er undantekning á þessu? Það kemur bara í ljós. Þessvegna eru þetta kallaðar kenningar. Theory of gravity, theory of germs, theory of evolution etc.
Svona geldar heimspekivangaveltur gætu í theoríunni leitt til einhvers nytsamlegs, en það hefur hinsvegar ekki sýnt sig fram að þessu. En hver veit? Þreifaðu með fætinum í myrkrinu og reyndu að finna gólf. Kannski myndast það ef þú þreifar nógu lengi.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.3.2021 kl. 01:13
Nútíma heimspeki er sprottin úr hugum absynthvímaðra drullusokka á kaffihúsum sem rembdust við að finna spurningar sem engin leið er að svara með vissu. Hvað er lífið? Hvað er Ástin? Etc.
Engum af þessum spurningum gerðu þeir sjálfir heiðarlega tilraun til að svara. Það hefði kostað að þeir hefðu þurft að láta renna af sér.
Ég leyfi mér að segja að heimspekingar séu litið annað en klæðalausir keisarar.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.3.2021 kl. 01:25
Jón Steinar: Góð ábending að kíkja á vísindalegar aðferðir, sem að sjálfsögðu snúast um að byggja upp þekkingu, og hvernig þær hafa ekkert með sannanir að gera. 'Sönnun' er að sjálfsögðu brúkleg í lokuðum kerfum, en að segja eitthvað vera 'vísindalega sannað' sýnir djúpan misskilning á eðli vísinda og þekkingar.
Ég veit ekki hvort að heimspekilegar vangaveltur leiði nauðsynlega til einhvers nytsamlegs fyrir aðra en þá sem stunda þær, og með nytsamlegu getur það verið einfaldlega að átta sig betur á eigin hugmyndum eða njóta þess að velta þeim fyrir sér. Hins vegar er ég viss um að það að ræða saman og styðjast við rök getur hjálpað mikið við að átta sig á eigin hugmyndum og annarra, og getur hjálpað fólki að átta sig á víðara samhengi hlutanna.
Hugsanlega eru heimspekingar ekki eins og fólk er flest, en það hefur reyndar loðað svolítið við þessa stétt frá örófi alda. Þeir hafa verið ofsóttir fyrir að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið, fyrir að ræða hluti sem eru óþægilegir, afhjúpa blekkingar, svolítið eins og ætlast er til af fréttafólki, en í aðeins stærra samhengi. Ég man ekki betur en gegnum árin þar sem við höfum skipst á hugmyndum, og þú alls ekki alltaf verið sammála mér, þá höfum við, Jón Steinar, gert svolítið af þessu. Þá vaknar spurningin, hver er heimspekingurinn sem þú talar um? Eru það allir sem vilja hugsa um eitthvað annað en dægurmálin, hvaða fólk er þetta? Ég spyr, því mér sýnist þú hafa gríðarlegan áhuga á málefninu og myndað þér sterkar skoðanir.
Hrannar Baldursson, 6.3.2021 kl. 09:34
Leiða sannanir til þekkingar?
Það hlýtur að þurfa að ræða hvert tilvik fyrir sig.
Jón Þórhallsson, 6.3.2021 kl. 15:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.