Traustir leikarar í ofurhetjumyndum
16.4.2007 | 23:34
Ljóst er að ævintýramyndir um ofurhetjur fara vaxandi í Hollywood. Nú er hver A-leikarinn á eftir öðrum farinn að taka að sér aðalhlutverk í þessum myndum. Þetta þýðir vonandi að þessar myndir verði teknar alvarlega og að takist að dýpka þær á hliðstæðan hátt og gerst hefur á síðum teiknimyndaskáldsagna.
Edward Norton í The Incredible Hulk, eða Hulk 2. Edward Norton hefur tvisvar sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. Í fyrra skiptið fyrir sakborninn sem Richard Gere þarf að verja í Primal Fear (1996) og í seinna skiptið fyrir stórleik sinn í American History X (1998) sem fordómafullur nýnasisti sem er knúinn til að horfast í auga við eigin fordóma. Hann hefur stöðugt gert áhugaverða hluti síðan. Spennandi verður að fylgjast með honum berjast við að hamla græna risann í hlutverki Bruce Banner. Frábært val á leikara í áhugavert hlutverk.
Eric Bana lék aðalhlutverkið í Hulk, sem leikstýrð var af Ang Lee. Mér þótti sú mynd frekar léleg, græni risinn virkaði frekar væminn og barátta hans við föður sinn fór út í tóma steypu.
Nicolas Cage í Ghost Rider. Mér fannst Ghost Rider vel heppnuð, og þakka því að mestu leik Nicolas Cage, sem var góð þungamiðja í sögu sem var tómt rugl. Rétt eins og Harrison Ford í Star Wars, tókst mér að ná jarðsambandi í gegnum hann. Cage hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, í fyrra skiptið vann hann fyrir leik sinn sem alkóhólisti með sjálfseyðingarhvöt á háu stigi í Leaving Las Vegas (1995). Í seinna skiptið lék hann tvíburabræður í Adaptation (2002), en þá vann hann ekki Óskarinn.
Christian Bale í The Dark Knight hefur aldrei verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, en ég er viss um að það komi að því. Hann hefur leikið eftirminnileg hlutverk, og þá sérstaklega í American Psycho (2000) og The Machinist (2004) en hann er aðferðaleikari (method actor) sem lifir sig inn í þau hlutverk sem hann leikur, rétt eins og Robert DeNiro var frægur fyrir á sínum tíma, áður en hann fór að slaka á.
Robert Downey Jr. í Iron Man er eitt mesta vandræðabarn Hollywood, en jafnframt einn fremsti leikarasnillingur sem birst hefur. Hann hefur stöðugt verið í vandræðum vegna dóps og alkóhólisma, og hefur ástand hans stundum haft slök áhrif á dómgreind hans í hlutverkavali. Hann hefur lent í fangelsi og meðferðarheimilum vegna þessa vanda, en virðist vera að hífa sig aftur á fyrri stall. Það er vel við hæfi að hann leiki Iron Man, en Tony Stark, milljarðamæringurinn í vélbúningnum er einmitt glaumgosi sem á við áfengisvanda að glíma (a.m.k. í teiknimyndasögunum). Einnig er hann með gangráð til að halda hjartanu gangandi sem þýðir að hann er algjörlega hjálparvana án búningsins. Robert Downey Jr. hefur einu sinni verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, og þá fyrir stórkostlegan leik í Chaplin (1992) en þar breyttist hann einfaldlega í Charlie Chaplin. Einnig tók hann lagið Smile fyrir og flutti það stórvel.
Þú getur séð flutning Robert Downey Jr. á Smile úr myndinni Chaplin með því að smella á myndbandið hér fyrir neðan.
Edward Norton leikur Hulk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook
Athugasemdir
Ekki séð allar þessar myndir en sammála um að þetta eru frábærir leikarar og sérstaklega finnst mér Christian Bale góður. Leiður á Cage reyndar...
Hulk var nú bara lala mynd en Lee er nú skemmtileg týpa og óhræddur við að gera nýja hluti. tiger og dragon var nú bara aldeilis sérlega frábær td.
Svo finnst mér Eric Bana bara ekkert spes leikari, satt að segja. en það er jú bara mitt álit!
arnar valgeirsson, 17.4.2007 kl. 00:04
Edward Norton var ,,andstyggilega," frábær í Primal Fear. Hann hafði svo sannarlega tök á því hlutverki. Hann er INN hjá mér.
Eric Bana þekki ég ekki,en Nicolas Cage fer af einhverjum ástæðum hræðilega í taugarnar á mér og höfðar alls ekki til mín.
Um Cristian Bale gildir það sama og um Eric Bana.
En Robert Downey Jr. er fínn, reyndar stundum mjög góður. Hann hefur einhverja töfra bæði sem leikari og söngvari.
Fór í fyrradag að sjá, "The Good Shepard, ég er enn að melta þessa mögnuðu CIA mynd.
Takk fyrir þessar umsagnir og reyndar þær allar, SMILEY setti sko algjölega´púnktinn yfir i-ið. Flott. Sóldís
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 17.4.2007 kl. 09:56
Christian Bale er áhugaverður leikari, sem fer stöðugt vaxandi. Vissir þú að hann var litli guttinn í Empire of the sun?
Jón Steinar Ragnarsson, 17.4.2007 kl. 11:53
Horfir þú á myndir með mr Bean.??
Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2007 kl. 21:33
Arnar og Jón Steinar: Ljóst að við erum sammála um Christian Bale. Og jú, ég vissi að hann var litli strákurinn í Spielbergmyndinni Empire of the Sun. Einnig er skemmtilegt hvað hann virðist lítið hafa breyst frá því að hann var smástrákur, svona útlitslega séð. Ég áttaði mig á þessu þegar ég horfði á Empire of the Sun fyrir nokkrum árum að þetta var sami leikarinn og í American Psycho.
Ásdís - ég hef séð einhverja þætti og eina mynd um Mr. Bean og játa að mér finnst hann oft ansi skondinn. Ég hef þó ekki enn séð nýju myndina með honum, en væri ekkert á móti því að skella mér á hana.
Sóldís: Takk kærlega.
Hrannar Baldursson, 19.4.2007 kl. 19:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.