Tónleikar Sir Cliff Richard 28.3.2007

2006c_cover Það var um miðjan áttunda áratuginn að söngvamyndin “Summer Holiday” var sýnd á Ríkissjónvarpinu. Ég tók hana upp á spólu, en systir mín komst yfir hana og spilaði nánast daglega næstu árin. Hún er ennþá með alla textana á hreinu.

Fyrr í vetur var mér boðið að fara með fjölskyldu minni á tónleika með Cliff Richard. Ég var fljótur að segja “Nei, takk,” enda datt mér ekki í hug að borga um kr. 12.000 til að sjá kallinn á sviði. Þó að hann hafi átt nokkur fín lög, þá var ég langt frá því að leita þau uppi og kallast aðdáandi. Þá setti bróðir minn fram boð sem ég einfaldlega gat ekki hafnað. Hann bauðst til að borga brúsann. Ég var samt efins, en samþykkti að lokum að skella mér með.

Af þessu tilefni gaf ég foreldrum mínum diskinn “Cliff Richard - Two’s Company: The Duets,” í jólagjöf, en hann kom út fyrir áramót. Síðan gaf ég þeim safndisk með gaurnum, en móðir mín hefur alltaf verið mikill aðdáandi.

Cliff Richard hefur verið að frá því á dögum Elvis Presley og Bítlanna. Þá var hann stjarna. Hann er það enn í dag fyrst hann fyllti Laugardalshöllina.

Komið var að kvöldinu mikla, og ég gat varla stillt mig af tilhlökkun, því að daginn eftir myndi ég fara á forsýningu kvikmyndarinnar Hot Fuzz, eftir þá sömu og gerðu snilldarsjónvarpsþættina Spaced og rómantísku uppvakningagrínmyndina Shawn of the Dead. Mig hlakkar enn til, því ég fer á Hot Fuzz núna á eftir.

cliffrEn hvað um það. Fjölskyldan fór út að borða á Red Chili. Þar fékk ég mér Chicken Fajitas, eða það sem á spænsku kallast Fajitas de pollo, en það sem kom mér helst á óvart var að maturinn bragðaðist meira eins og austurlenskur réttur en mexíkóskur, þar sem að kjúklingurinn hafði legið í súrsætri sósu. Hrísgrjón fylgdu með og ég er ekki frá því að tortillabrauðið hafi verið búið til úr hrísgrjónadeigi.

Maturinn var samt mjög góður.

Við gengum frá Suðurlandsbraut að Laugardalshöllinni. Cliff byrjaði á mínútunni átta - engin upphitun, ekkert svoleiðis, bara Cliffarinn sjálfur mættur á sviðið. Hann er fæddur 14. október árið 1940 og er því kominn á besta aldur. Í stað þess að birtast á sviðinu, hægfara og skakkur eins og hrum gamalmenni eiga að haga sér, gaf hann náttúrulögmálunum byrginn, stökká sviðið, dillaði sér eins og unglingur og hélt slíku fjöri í næstum þrjár klukkustundir.

Cliff Richard  hafði ekki tapað flauelsmjúkri röddinni, né sjarmerandi brosinu. Á milli laga sagði hann stuttar sögur og blandaði smá heimspekilegum pælingum inn á milli, sem voru það góðar að ég gat varla beðið eftir að lögunum lyki til að ég gæti hlustað á manninn.


Þegar Cliff flutti "Summer Holiday" ætlaði allt að verða vitlaust í Höllinni!

Frammistaða Cliff Richard og hljómsveitar var afar góð. Þó að áhorfendur, sem margir voru komnir á efri árin, hafi oft verið svoleitið sein til að klappa (vegna gigtar hélt systir mín elskuleg fram), þá sýndu þeir kappanum mikinn stuðning, og var ljóst að flestum í salnum leið bara nokkuð vel. Ég hefði þó sjálfsagt litið nokkuð oft á klukkuna ef ég hefði tekið hana með, en það er meira vegna eigin áhuga en ágæti þeirra sem á sviðinu voru.

Upp komu nokkrir skemmtilegir atburðir sem gaman væri að segja frá. Samt er þetta kvöld í þannig móki að áreiðanleika þess sem ég upplifði má svosem draga í efa.

Fyrst og fremst, þá dáðist ég að fagmennsku Cliff Richard, og hversu vel hann flutti lögin sín. Það var eftirtektarvert hversu tignarlegur hann er og fullur virðingar. Í ræðum hans milli söngatriða hafði maður á tilfinningu að þar færi maður sem ber mikla virðingu fyrir heilindum eins og hreinskilni, trúfestu, samkvæmni og slíku. Þarna var dygðugur maður á sviðinu, gott fordæmi, sem er mjög sjaldgæft að sjá meðal vinsælla skemmtikrafta. Vel útreiknaðir mjaðmahnykkir hans og dansspor komu mér einnig á óvart, og skammaðist ég mín nánast fyrir að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég hefði ekki haldið út klukkutíma sjálfur á því tempói sem kallinn var á.

Það voru einhverjar grúppíur uppi við sviðið, sem köstuðu til hans rósum, en hann týndi þær samviskusamlega upp og fleygði þeim undir borð. Einnig kastaði einhver hvítri peysu upp á sviðið. Eða það hélt ég þar til útskýrt var fyrir mér að það væri hefð fyrir því að kvenkyns aðdáendur kappans köstuðu nærfatnaði upp á svið til hans. Miklir aðdáendur þar.


Hér flytur Cliff Richard 'Congratulations' í Eurovision árið 1968, en hann tók þetta lag í Laugardalshöll við mikinn fögnuð áheyrenda, sem létu ekki sitt eftir liggja og sungu með.

Ræður Sir Cliff voru góðar. Sérstaklega fannst mér áhugavert þegar hann bar saman tónlistarbransann frá því að hann byrjaði og þess sem er að gerast í dag. Hann minntist fyrst á að tækninni hefði fleygt það ógurlega fram að nú væri hægt að gera nánast hvað sem er í stúdíói fyrir frekar lítinn pening. En svo minntist hann á hvernig bisnessinn hafði breyst; að í dag birtust margar ungstjörnur, brunnu hratt út og væru horfnar alltof fljótt. Hann sagði frá því þegar hann var að byrja, að fyrsta lagið hans náði 2. sæti á vinsældarlista - en önnur lög á næstu plötum náðu ekki nálægt því jafn góðum árangri - og sífellt virtust vinsældir hans dala. En framleiðandinn hvatti hann áfram og loks á fimmtu plötu náði hann 1. sæti í fyrsta sinn. Hann hélt því fram að framleiðendur nútímans gæfust of fljótt upp á þeim sem næðu ekki alltaf toppárangri, og það væri miður.

Einnig talaði hann svolítið um ástina og lífið; að ástin væri stundum erfiðari en lífið sjálft, þar til að maður áttaði sig á því að ástarsambönd - sama hvernig þau færu, væru vel þess virði að upplifa þau, - þau væru aldrei mistök, mistök væru ekki til þegar ástin væri annars vegar, heldur að brestir komi á ástarsambönd sem við mannfólkið ráðum ekkert við - og þá væri ekkert betra en að læra á þeirri erfiðu kennslustund sem við upplifum eftir slík rof. Ég hef á tilfinningunni að Cliff hafi brennt sig illilega á ástinni snemma á lífsleiðinni.

Ég sé ekki eftir að hafa farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Verulega ljúf og innileg færsla þetta hjaþér Hrannar, jú jú kappinnvar og er listamaður. Því miður komst ég enganvegin á þessa tónleika þótt mikið vildi hafa gefið fyrir, takk fyrir þessa umsögn, takk fyrir mig.

Sigfús Sigurþórsson., 30.3.2007 kl. 00:37

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir það, partner.

Hrannar Baldursson, 30.3.2007 kl. 11:43

3 identicon

Æ já það var svo gaman - ég hef heyrt sögur af því að sumir eru ennþá að reyna að standa upp úr sætunum sínum og Laugardalshöll er í miklum vandræðum og farnir að hóa í lyftara til að ferja liðið!

Góð færsla

Lucky Lips (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband