2. Óskarsverðlaunin: The Broadway Melody (1929) *1/2
11.3.2007 | 16:44
Ég hef ákveðið að horfa á allar myndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. The Broadway Melody frá 1929 er mynd númer tvö í röðinni.
Ég get vel skilið af hverju The Broadway Melody var vinsæl og þótti góð árið 1929. Hún er meðal fyrstu myndanna sem nýttu talsetningu, dansa og sönga vel, auk dramatíkur. Hún á heiður skilinn fyrir að vera fyrsta dans- og söngvamyndin; en almennt er litið á hana sem slökustu af öllum þeim kvikmyndum sem hafa fengið Óskarsverðlaun sem besta mynd ársins.
Málið er að dansarnir og söngvarnir hafa elst mjög mikið, og manni hreinlega leiðist við að fylgjast með þeim árið 2007. Dramað er ekki heldur neitt sérlega gott miðað við það besta í þeim geira, en sjálfsagt þótti það brúklegt árið 1929. Anita Page og Bessie Love skila sínum hlutverkum vel.
Tvær systur ætla að leggja New York að fótum sér með söngvum og dönsum. Tengiliður þeirra í borginni er Eddie Kearns (Charles King), sem hefur áhuga á að koma atriði þeirra inn í sýningu sem hann er að setja upp. Hank Mahoney (Bessie Love) er trúlofuð Eddie, en þegar hann hittir Queenie Mahoney (Anita Page) fellur hann fyrir henni. Dramað snýst um að sætta þau innri átök sem eiga sér stað hjá þessum þremenningum. Hank er snaggaraleg, hæfileikarík og bráðgáfuð stúlka sem fljót er að stökkva upp á nef sér, en Queenie er aftur á móti gullfalleg ljóska sem bræðir hjarta hvers manns.
The Broadway Melody fjallar fyrst og fremst um harðan heim skemmtanalífsins á öðrum áratug 20. aldarinnar, hvernig frægð og frami geta stíað bestu vinum í sundur, hversu hverful ástin getur verið í þessum glansmyndaheimi, og hvernig hæfileikar þýða ekkert endilega glimrandi velgengni þegar vantar upp á persónutöfrana. Það er nokkuð um glæsilegar sviðsmyndir og ljóst að reynt er að endurvekja í kvikmyndum þá tilfinningu sem Florenz Ziegfeld tókst að skapa með dans- og söngleikjum sínum í Broadway leikhúsum. Þó að ekki hafi tekist neitt stórkostlega vel í þessari atrennu, þá leggur The Broadway Melody mikilvægan grunn sem nauðsynlegt var að leggja til að hægt væri síðar að búa til söngvamyndir eins og The Sound of Music, My Fair Lady, The Fiddler On The Roof, Mary Poppins, Molin Rouge og núna síðast Dreamgirls.
Því miður get ég ekki mælt með The Broadway Melody sem góðri skemmtun fyrir hvern sem er. Aftur á móti er hún áhugaverð í ljósi sögulegs mikilvægis hennar. Ef maður gæti sett sig í spor manneskju sem sá þessa mynd árið 1929, gæti maður ímyndað sér að þeirri manneskju gæti hafa þótt myndin frábær - en ég get engan veginn gert það - er bara ég sjálfur hérna árið 2007 og finnst myndin einfaldlega ekki góð.
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 19.5.2007 kl. 20:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.