Ömurlegasta veitingahús... í heimi?

korte 

Í gær fórum við út að borða. Þetta var í gömlu húsi. Það var ákveðinn sjarmi yfir því. Brakaði í tröppunum upp á aðra hæð og það virkaði svolítið þröngt. Áður hafði verið þarna nokkuð slakt veitingahús, en okkur var tjáð að búið var að skipta út öllu gamla starfsfólkinu og endurnýja það algjörlega.

Kvöldið byrjaði vel. Að borðinu komu fjórir þjónar. Hægt var að velja einn af þessum fjórum til að þjónusta út kvöldið. Við völdum þjón sem við kölluðum okkar á milli Herra Ísland. Hann rétti okkur matseðil, sem hafði aðeins fjóra aðalrétti og fjöldann allan af aukaréttum.

Þetta leit vel út. Það var meira að segja kertaljós á borðinu sem gerði andrúmsloftið verulega heillandi. Þegar kom að því að panta var þjónninn okkar upptekinn við annað borð, þannig að við óskuðum eftir annarri manneskju til að þjóna okkur á meðan.

Það var á þessu augnabliki sem martröðin byrjaði.

Þjónustustúlka, afar myndarleg, kom brosandi að borði okkar og sagði okkur að við hefðum þegar valið þjón fyrir kvöldið, að hann væri því miður upptekinn í augnablikinu en við fengjum þjónustu þegar kæmi að okkur. Stúlkan fór að barnum þar sem hún fór að spjalla við hina þjónana tvo sem höfðu ekkert að gera heldur.

Herra Ísland var aðeins of vinsæll, því hann þjónustaði þrjú borð áður en hann kom aftur til okkar. Við vorum að sjálfsögðu himinlifandi þegar hann loks kom til okkar. Við pöntuðum bæði aðalrétt með víni hússins. Þjónninn tók brosandi við pöntuninni og hvarf inn í eldhús. Hann birtist aftur og var enn valinn sem þjónn nýrra gesta. Hinum þremur var ennþá hafnað af hverjum einasta gesti. Það þótti mér merkilegt.

Nú leið og beið. Við spiluðum smá "Angry Birds Star Wars II" á meðan við biðum, en loks kom maturinn, eftir eina og hálfa klukkustund. Steikin mín var brennd. Hún var bókstaflega svört. Steik hennar var það hrá að þegar hún var snert með gafli lak blóð á diskinn. Vínið var lítið skárra. Við reiknuðum með rauðvíni sem hentaði matnum, en þess í stað fengum við furðulegasta hvítvín sem um getur. Það var þykkt sem lýsi og hafði svipað bragð.

Ég reyndi að ná athygli, rétti upp hönd, en Herra Ísland var upptekinn við önnur borð. Hinir þjónarnir hunsuðu okkur algjörlega. 

Eftir hálftíma bið var langlundargeði mínu nóg boðið. Ég stóð upp frá borðinu og fór með diskinn að eldhúsdyrunum. En þá fyrst brá Herra Ísland við og stoppaði mig. Hann brosti vingjarnlega, var virkilega ljúfur í fasi, og spurði hvort eitthvað væri að.

Ég sagði honum hvað var að, og hann tók kurteisilega bæði diskana og glösin, og sagðist koma aftur að vörmu spori, og bað mig að fá mér sæti.

Ég settist.

Korteri síðar kom maður að borði okkar og sagðist hafa fengið kvörtun frá okkur. Hann sagðist stjórna veitingastaðnum. Við játtum þessu, og vorum orðin frekar pirruð, og lýstum atburðarrásinni. Hann virtist hlusta á okkur, en þegar við höfðum lokið máli okkar lagði hann reikninginn á borðið, þar sem við vorum rukkuð um matinn sem við höfðum ekki borðað, vínið sem við höfðum ekki drukkað, og sérstakt þjónustugjald.

Ég sagðist ekki ætla að borga þetta.

"Þá er ég hræddur um að við þurfum að fá lögregluna á staðinn," sagði maðurinn. Ég harðneitaði að borga og var orðinn það hávær að það heyrðist örugglega næstum í mér við næsta borð, og ég sagði mjög ákveðinn að við myndum ekki borga krónu og værum farin.

Við stóðum upp frá borðinu, en þá smellti stjórinn fingrum og innan úr eldhúsinu kom þetta líka vöðvabúnt. Hægt væri að kalla hann Hulk. Hann lagði fingur á öxl mína og þrýsti mér þannig aftur í sætið. Á sama tíma gaf stjórinn þjónustufólkinu merki.

Fáeinum mínútum síðar sáum við blá ljós blikka í glugganum og inn gekk par af lögreglumönnum. Þau komu að borði okkar og spurðu hvort að eitthvað væri að.

Við útskýrðum mál okkar, og lögregluþjónarnir virtust hlusta. Eftir útskýringarnar spurðu þau Herra Ísland hvort við færum með rétt mál, og hann játaði því. Þá kom höggið sem sló við öllu öðru. Lögregluþjónarnir sögðu okkur að borga, þar sem við höfðum valið rétt af matseðlinum, fengið hann á borðið en síðan hafnað honum. Það væri algjörlega á okkar ábyrgð og veitingastaðurinn í fullum rétti. Við höfðum kosið. Það að rétturinn var ekki nákvæmlega eins og lýst var á matseðlinum var ekki okkar mál, heldur einkamál veitingastaðarins.

Ég vildi að sjálfsögðu ekki sýna lögreglunni mótþróa og greiddi með kreditkorti mínu. Konan mín var ekki sátt og horfði á mig með slíkum vandlætingarsvip að ég stórskammaðist mín þegar ég skrifaði undir reikninginn.

Ég ákvað að skrifa um þessa reynslu þegar heim var komið og láta vita hvað þessi veitingastaður heiti svo að fólk gæti forðast hann.

Þessi veitingastaður heitir "Íslensk stjórnmál" og því miður nokkuð ljóst að þessi stutta saga hefur varla mikil áhrif, enda aðeins enn eitt bloggið þar sem kvartað er yfir ástandi sem "við" kusum yfir okkur. Líklegt er að veitingastaðurinn verði áfram opinn að minnsta kosti þrjú ár til viðbótar, og líklega töluvert lengur, því ekki er ég einn um mitt langlundargeð.

Þar að auki er ég svolítið gleyminn.

 

Mynd: Alþingishúsið um jól, frá vefsíðunni "Yule in Iceland".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill hjá þér Hrannar...svo lýsandi fyrir ástandið

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 13:58

2 identicon

Er þetta svona staður þar sem maturinn er verðlagður um leið og maður kemur í dirnar og það líka að þjónustan er að verða eins og annað á þessum frábæru veitingasöðum út um allt land sem sagt enginn metnaður:p/s hefur sem sagt verið frábær upplifun eða hitt þó heldur.

sigurður kristjánsson (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 14:01

3 Smámynd: Sölvi Breiðfjörð

Hahaha þetta fanst mér vera flottur pistill :)

Sölvi Breiðfjörð , 15.3.2014 kl. 10:05

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Stalonum þessum!!!!!Kveðja

Haraldur Haraldsson, 16.3.2014 kl. 18:25

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég vil þakka öllum þeim 4905 einstaklingum sem heimsóttu síðuna í vikunni. Tek þetta sem hvatningu til að blogga oftar. :)

Hrannar Baldursson, 16.3.2014 kl. 22:45

6 identicon

Þetta er vanhæf ríkisstjórn og hvað þá veitingastaður??

Jésús Kristur (IP-tala skráð) 6.5.2014 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband