Raging Bull (1980) ****

Í mínum huga hefur Raging Bull helst verið fræg fyrir þrennt, og þrátt fyrir þessa frægð hef ég frestað því að horfa á hana þar til í kvöld:
  1. Robert DeNiro þyngdi sig um tæp 30 kíló fyrir hlutverkið.
  2. Margir gagnrýnendur fullyrða að myndin hefði átt að vinna Óskarinn árið 1980 í staðinn fyrir Ordinary People.
  3. Martin Scorcese hefði átt að taka Óskarinn sem besti leikstjórinn, en Robert Redford tók gripinn það árið, einmitt fyrir Ordinary People.

RagingBull01Ég er sammála þessum gagnrýnendum og skil reyndar vel af hverju Scorcese var verðlaunaður sem besti leikstjórinn fyrir The Departed þrátt fyrir að hún hafi ekki verið besta kvikmynd ársins 2006, en mig grunar að myndir eins og Raging Bull og Taxi Driver, sem eru í raun klassískar, hafi gefið honum byr undir báða vængi, og held að hann hefði unnið að lokum með nánast hvaða mynd sem er, það var nóg að hún minnti á fyrri frægð.

Raging Bull fjallar um boxarann Jake LaMotta á 4. og 5. áratugum 20. aldarinnar, en hann var fullur af þrá til að sanna sig fyrir öllum heiminum og með þessari sjálfselsku tókst honum að fylla sig slíkri heift að ekkert gat hamið hann, hvorki í hringnum, einkalífinu né í eigin hugarheimi.

Jake LaMotta átti aðeins einn vin, bróður sinn, sem hann lagði nánast í einelti. Einnig fór hann illa með bæði fyrri eiginkonu sína og þá síðari. Hann var fullur kvenfyrirlitningar og hroka, og með ofsóknarbrjálæði af verstu gerð. Hann gat ekki litið af konunni sinni án þess að trúa því að hún svæfi með einhverjum öðrum.

Kannski hefði myndin betur mátt heita: "Raging Bully," því þannig hagaði Jake LaMotta sér, í það minnsta samkvæmt túlkun Robert DeNiro. Leikur DeNiro er reyndar hrein snilld. Hann verður að Jake LaMotta, óútreiknanlegur og stórhættulegur öllum þeim sem koma nálægt honum. Maður hefur stöðugt á tilfinningunni að hann sé til að kýla næsta mann í rot sem hann grunar um einhverja græsku. Þannig lifir hann lífinu og eyðileggur það fyrir sjálfum sér.

RagingBull02Þessi skortur á fyrirhyggju og þessi endalausa heift draga hann smám saman í svaðið, og á endanum er hann ekkert annað en skopmynd af sjálfum sér. Raging Bull minnir að mörgu leyti á Óþelló eftir William Shakespeare, sögu um mann sem eyðileggur allt sem hann elskar vegna afbrýðisemi og óttanum yfir að tapa því. Þannig harmleikur er líf Jake LaMotta, sem minnir okkur á að slíkar sögur endurtaka sig sí og æ.

Þessi heift og afbrýðisemi, og hvernig þau leika mannsálina sem er þeim haldin, er kjarninn í Raging Bull, sem ég get ekki annað en kallað hreina snilld. Það er ekki einn veikur hlekkur í allri myndinni - allir leikarar standa sig stórvel, kvikmyndatakan er mögnuð, bardagarnir eru vel gerðir. Hún er öll góð.

 Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ég verð að minna hér á klippinguna, sem aflaði Thelmu Schoonmaker verðskuldaðra Óskarsverðlauna. Alger tímamótatilþrif í klippiherberginu þar, ekki síst í bardagaatriðunum. Manni verður orða vant yfir snilldinni. Og rétt segirðu - Raging Bull er talsvert betri mynd en Ordinairy People. Rétt eins og GoodFellas er miklu betri mynd en Dances With Wolves.

Jón Agnar Ólason, 1.3.2007 kl. 22:21

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er sammála því að klippingin er stórgóð í Raging Bull greinilegt að flestir sem að henni komu lögðu sig alla í gerð myndarinnar. GoodFellas og Dances With Wolves eru báðar stórgóðar myndir og erfiðara að gera upp á milli þeirra að mínu mati en á milli Ordinary People og Raging Bull. Ljóst er þó að vinsældir leikaranna Robert Redford annars vegar og Kevin Costner hins vegar hljóta að hafa hrifið til sín einhver atkvæði þegar kom að Óskarsvalinu.

Hrannar Baldursson, 1.3.2007 kl. 22:44

3 identicon

Þetta er ein af betri myndum sem fram hafa komið á sjónarsviðið. Elska DeNiro í þessari mynd, ótrúlega góður.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 16:05

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gaman að sjá hvað þú fylgist vel blogginu hjá mér, Oddur. 

Hrannar Baldursson, 2.3.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband