The Hobbit: An Unexpected Journey (2012) *****

 hobbit_an_unexpected_journey_comic_con_poster

"The Hobbit: An Unexpected Journey" er stórgóð skemmtun fyrir alla þá sem komnir eru á táningsaldur í fjölskyldunni. Eins og flestum ætti að vera kunnugt, er þetta fyrsta kvikmyndin af þremur sem unnin er úr skáldsögunni "The Hobbit" eftir J.R.R. Tolkien. Ég hef lesið bókina minnst fimm sinnum og var meira en sáttur við hvernig Peter Jackson tók á efninu. Aftur tekst honum að grípa andrúmsloftið sem ég hafði ímyndað mér við lestur bókarinnar, og bætt við atriðum sem aðeins auka við gildi sögunnar, en draga ekki úr henni.

Kvikmyndin fer frekar hægt í gang, rétt eins og bókin, og fannst mér það ágætis tilbreyting frá stanslausum hasar. Samt var hvert einasta atriði gott og áhugavert á sinn hátt. 

Gandalf (Ian McKellan) býður hobbitanum Bilbo Baggins (Martin Freeman) í ferðalag ásamt þrettán dvergum í leit að heimili, en fyrir 60 árum hafði drekinn Smaug hrakið dvergana úr ríki sínu og varðveitir nú fjársjóð þeirra. Leiðtogi dverganna, Thorin Oakenshield (Richard Armitage) hefur heitið því að finna dvergunum heimili á ný, en til að það verði mögulegt þarf að stela einum grip úr fjársjóði drekans. Til þess verks hefur Bilbo verið ráðinn.

Á leiðangri sínum mæta félagarnir fjölmörgum ógnum, og þá sérstaklega frá orkum og vörgum, goblum, tröllum, risum, og einhverri enn stærri ógn sem lúrir einhvers staðar á bakvið alla illskuna sem hetjurnar berjast gegn. Það má alls ekki gleyma Gollum (Andy Serkis), en Serkis kemur með magnaða túlkum á hinni ólánsömu skuggaveru, sem hefur verið þróuð enn meira með þrívíddartækni en áður hefur sést.  

The_Hobbit-_An_Unexpected_Journey-jane16-new

Eftir að hafa fylgst svolítið með gagnrýni á Hobbitanum, var mér hætt að lítast á blikuna. Gagnrýnendur höfðu sumir hverjir hakkað hana í sig. Ég fór samt í bíó með fjölskylduna, enda fengið margar ánægjustundir úr bókum Tolkien, og "Lord of the Rings" þríleiknum. Við fengum öll eftirminnilega skemmtun út úr þessari og hlakkar til að sjá þá næstu jólin 2013.

Ef einn galli var á myndinni, ef galla má kalla, er skýrleiki hvers einasta ramma. Áhorfið var svolítið eins og að horfa á LED flatskjá, nema bara í þrívídd. Þetta venst hins vegar fljótt, og engin ástæða til að fara á límingunni vegna slíkra tæknilegra mála. Leikstjórinn tók þá ákvörðun að prófa tækni þar sem teknir eru upp 48 rammar á sekúndu, í stað 24. Þetta virkar vel í þrívídd. Peter Jackson útskýrir sjálfur ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun á Facebook síðunni 48 Frames Per Second.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Semsagt fín sunnudagsmynd á RÚV

Ómar Ingi, 16.12.2012 kl. 23:34

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hobbitinn er alveg frábær skáldsaga, en ég held að ég sleppi því að sjá hana myndrænt fyrr en allar þrjár kvikmyndirnar verða tiltækar.

Verður það fyrr en árið 2014?

Kolbrún Hilmars, 17.12.2012 kl. 18:09

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Júlí 2014 skilst mér. :)

Hrannar Baldursson, 17.12.2012 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband