Af hverju höfum við ekki ennþá lært að vinna saman?

critical-thinking

 

"Við erum borin í heiminn lasburða, og þurfum styrk; bjargarlaus, þurfum við aðstoð; galin, þurfum við rökhugsun. Allt þetta skortir okkur við fæðingu; allt sem við þurfum til að verða mennsk, er gjöf menntunar.

Þessi menntun kemur til okkar frá náttúrunni, frá mönnum, og frá öðrum fyrirbærum. Innri vöxtur líffæra okkar og gáfna tilheyrir menntun af náttúrunnar hendi, hvernig við lærum að nota þennan vöxt er menntun af manna völdum, það sem við lærum af reynslu um umhverfi okkar er menntun tengd fyrirbærum."

Jean-Jacques Rousseau, Emile. 

 

Hefurðu nokkurn tíma velt fyrir þér af hverju börn fara í skóla. Ég meina, virkilega velt því fyrir þér, af dýpt, velt því vandlega fyrir þér?  

Okkur finnst sjálfsagt að senda börn okkar í skóla, fyrst í leikskóla, síðan barnaskóla, þar á eftir gaggó, og síðan framhaldsskóla og þar á eftir í háskóla ef vel hefur gengið á skólaferlinum, og þar geta börnin fengið jafnvel orðið af doktorum sem ílengjast mögulega alla sína ævi í skólastofnun.

Eru skólar nauðsynlegir? Hvað læra börn í skólum?

Við byrjum á því að læra bókstafi og að telja. Lestur og reikningur eru þannig grundvallarnám. En á sama tíma lærum við að sitja í skólastofu með fjöldanum öllum af ókunnugu fólki, og okkur er ætlað að læra þá list að umgangast þetta fólk af virðingu. Misjafnlega tekst til.

Það virðist stundum flækjast fyrir fólki hvernig börn læra að bera virðingu fyrir hvert öðru. Stundum mætti halda að hún yrði til af sjálfri sér, og þá einatt í kappleikjum. Þeir duglegustu í kappleikjunum vinna sér hugsanlega inn meiri virðingu en hinir sem geta minna.  Af dýrkun okkar á kappleikjum og samkeppni kennum við börnum okkar að sigurvegararnir eru þeir sem virðingar njóta. Það er tilgangurinn sem helgar meðalið.

Sé þetta satt, þá er það sorgleg staðreynd.

Við eigum það til að gleyma því að styrkleiki okkar finnst ekki í samkeppni, heldur fyrst og fremst í samvinnu. Þetta sýnist mér hafa gleymst að einhverju leiti í íslenskri samfélagsmynd... eða ætti ég að kalla þetta samkeppnismynd?

Þeir sem skora framúr, þeir sem græða mest, þeir sem eru kosnir, hinir útvöldu, þeir erfa ríkið. Hinir fylgja þeim eftir og ráða ekki neinu. Með því að einbeita okkur að þeim örfáu sem skara framúr, gleymum við heildinni sem stendur á bakvið einstaklinginn, og gleymum jafnvel þeim verðleikum sem sérhver manneskja hefur að geyma, óháð getu eða framúrskaranleika.

Ef við skoðum fjölmiðla, þá þarf ekki lengi að fletta til að sjá hvernig foringja-, fjármála- og frægðardýrkun ræður þar ríkjum. Og ekki nóg með það, heldur virðast flestir, ef ekki allir, sáttir við þetta ástand, finnst það eðlilegt, og telja það bara vera svona og eigi að vera svona af því að það er svona.

En gleyma því að þetta er sprottið úr menntun okkar, skólun okkar. Við erum það sem við lærum. Við stefnum að ákveðnum markmiðum, og séu markmiðin galin, þá verðum við galin.

Mig grunar að markmið okkar séu svolítið galin. Og að við verðum svolítið galin í skólun okkar. 

Gætirðu hugsað þér Ísland þar sem börn læra að ræða saman og hugsa saman, og vaxa frá hinum galna heimi, þeirri framtíða sem virðist bíða barna á Íslandi og um víða veröld frá vöggu til grafar? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Áhugaverð hugleiðing. Þekking sem til er um lýðræðið ætti líka að auðvelda okkur samstarfið. Sitjandi ríkisstjórn ætlaði að leggja upp með aukið samstarf minnihluta, niðurstaðan var að það var ekki einu sinni hægt að ná samstarfi og lýðræðislegi vinnu innan ríkisstjórnarflokkana.

Í forsetakosningunum er aftur lagt upp með samstarf, en það trúir enginn lengur. 

Lýðræðisleg vinna stuðlar að virðingu meðal fólks. Andstaða hennar er siðblinda. Þá gildir eiginhagsmunastefna, plott, athyglissýki, óheildindi, plott og oftast nær lauslæti með sýniþörf. Á meðan siðblindan hefur völdin, verður aldrei samvinna eða lýðræðislegt starf. 

Sigurður Þorsteinsson, 27.9.2012 kl. 19:46

2 identicon

Sæll  Don Hrannar.
Skemmtilegar pælingar hjá þér. 
Sem grunnskólakennari er ég sannfærður um að í grunn- og leikskólum er lögð mjög mikil áhersla á samvinnu.
Enginn kann allt og allir kunna eitthvað.
Það sem mér finnst mjög furðulegt, og tengist þessum pælingum þínum, er að Íslendingar eru fámenn þjóð og við getum samt ekki komið okkur saman um nokuurn skapaðan hlut. Við virðumst skiptast í a.m.k. 2 hluta í flestum málum og mjög heit rifrildi skapast um þessi mál, sama hver þau eru.
Í grunn erum við þó sammála í grunnafstöðu til samfélagsmála, s.s. samhjálp!

Bjarki Jóhannesson (IP-tala skráð) 28.9.2012 kl. 00:33

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þessi grein vekur fleiri spurninar en svör,en við samt eigum hana hjá okkur,og skoðum og hugleiðum svörin!!!!!!/kveðja

Haraldur Haraldsson, 28.9.2012 kl. 16:28

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar athugasemdir.

Halli: Rétt er það að ég er lagnari við að finna góðar spurningar en góð svör.

Hrannar Baldursson, 29.9.2012 kl. 07:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband