Hver er munurinn á hugsun, gagnrýnni hugsun og umhugsun?
27.7.2012 | 18:57
Hugsun er kallað það fyrirbæri sem á sér stað þegar við tökum ákvarðanir. Þessar ákvarðanir geta verið misjafnlega góðar, og virðast tilviljunarkenndari eftir því sem hugsunin á bakvið þær er minni. Þannig mætti segja að við hugsum á þrjá ólíka vegu. Við getum sleppt hugsunarleysinu, sem yfirleitt birtist sem innsæi, fordómar, þrjóska eða jafnvel heimska, hvað svo sem það er.
Hugsun án umhugsunar virðist vera sem streymandi fljót, tengt þeim áreitum sem skynfæri okkar taka við í sífellu, og í athöfnum okkar renna hugsanir okkar saman við þessi áreiti. Dæmi um slíka hugsun er þegar við tökum manneskju algjörlega til fyrirmyndar, við hermum eftir því sem hún gerir, ekki vegna þess að það sem hún gerir er eitthvað gott eða merkilegt, heldur einfaldlega vegna þess að ef einhver gerir eitthvað ákveðið, þá er viðkomandi búinn að opna möguleikann fyrir því að aðrir geri það sama.
Umhugsun er næsta stig hugsunar, þegar manneskja sem horfir á aðra manneskju gera eitthvað, eða segja eitthvað, og í stað þess að apa eftir fyrri manneskjunni, þá staldrar viðkomand við og veltir hlutunum fyrir sér. Þetta getur orðið til þess að betri ákvarðanir eru teknar, og ekki apað eftir öllu frá hverjum sem er.
Gagnrýnin hugsun er ennþá æðra stig hugsunar. Munurinn á gagnrýnni hugsun og umhugsun er sú að umhugsunin á það til að vera tilviljunarkennd, á meðan gagnrýnin hugsun er kerfisbundin, að ákveðnu marki. Hinn gagnrýni hugsuður gerir sér grein fyrir hvort hann hafi þekkingu eða skilning á fyrirbæri, lætur þekkingu sína og skilning tala í gegnum eigin verk, getur einnig rannsakað og rýnt betur í eigin skilning, þekkingu og verk. Hann getur einnig tengt þessar hugmyndir öðrum hugmyndum og áttað sig þannig á óvæntum hliðum eigin þekkingar, og loks eftir slíka rannsókn verður viðkomandi tilbúinn til að taka ákvörðun sem byggir á viðkomandi þekkingu, skilningu og verkum. Og ekki nóg með það, hann áttar sig á að honum getur skeikað, þó að hann hafi unnið rannsókn sína vel, og er alltaf tilbúinn að endurskoða eigin dóma, sem og dóma annarra.
Það er fyrst þegar gagnrýnin hugsun er unnin í hópi fólks, sem hún verður að mögnuðu verkfæri, ekki aðeins til að bæta þekkingu sérhvers þátttakenda, heldur einnig til að mynda samræðu sem getur þróað þekkingu, skilning og verk sem framkvæmd fyrirtækis eða stofnunar.
Ég veit ekki hvort til sé enn æðra stig hugsunar eða hugsunarleysis, einhvers konar uppljómun eða innsæi; og er satt best að segja ekki viss um hver munurinn er á innsæi, fordómum, þrjósku og heimsku.
Í daglegu lífi reikna ég með að manneskjur stundi afar takmarkað gagnrýna hugsun, einfaldlega vegna þess að það kostar mikla vinnu og aga. Gagnrýnin hugsun er grundvallarstarfsemi í hátæknifyrirtækja og háskólum, í kennslu, þróun, forritun, verkfræði, og þar fram eftir götunum.
Ætli fólk almennt nenni að beita gagnrýnni hugsun? Er ekki miklu auðveldara að fylgja félögunum, eða staldra við og skoða hlutina aðeins betur, og taka síðan ákvörðun? Nennum við að kafa nógu djúpt til að taka vitrar ákvarðanir, nennum við að ræða saman af viti, rannsaka okkar eigin hugmyndir, eins og til dæmis fyrir lýðræðislegar kosningar á þingflokkum eða forseta?
Er það ástæða þess að almenningsálitinu er meira stjórnað af trú og pólitík en gagnrýnni hugsun? Leti? Skortur á aga? Þá er ég ekki aðeins að tala um íslenskt samhengi, heldur alþjóðlega þrælkunarhneigð til leti, agaleysis og skilyrðislausrar hlíðni gagnvart yfirvaldi, hvaða yfirvaldi sem er.
Athugasemdir
Góð færsla, takk.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir (IP-tala skráð) 28.7.2012 kl. 19:18
Skemmtilegt viðfangsefni, sem ég hef lengi iðkað, vegna áhuga á heimspeki og því tengdu hugsanaferli.
Svo sannarlega er þessi ástundun erfið, vegna þess að maður þarf að hafa munninn lokaðan í tiltekin tíma!
Ekki hafa skoðun á takteinum á sekúntubroti, til að taka orðið af viðmælandanum.
Miklu árangursríkara er að binda tunguna fasta og hugsa málið í einhvern tíma og koma þá með álit ef viðundnai niðurstaða er fundin.
Þegar fólk sem er fljóthuga kemur fram með vanhugsaða hugmynd, þá hefur viðkomandi tilhneiginu til að verja þessa fljóthugsuðu skoðun fram í rauðan dauðann.
Hann gæti samt í millitíðinni verið búin að átta sig á villu síns vegar, en vegna þess að hann hefur alltaf rétt fyrir sér, þá er hið fyrsta fljóthuga álit einnig hið rétta og að gagnrýna hið rétta er einfaldlega stílbrot hið mesta!
Svo vel vill til að þú ert menntaður til rökhugsunar og hefur því forsendur til að fylgja máli þínu eftir með faglegum og skipulögðum hætti.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 4.8.2012 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.