The Cabin in the Woods (2011) ****
1.6.2012 | 16:19
"The Cabin in the Woods" er stórgóð skemmtun fyrir þá sem hafa einhvern tíma haft gaman af slassermyndum, en það er sú gerð hrollvekja þar sem nokkrum unglingum er safnað saman og þeim síðan slátrað af einhverju skrímsli eða skrímslum. Hér er tekið í eyrun á þessu hugtaki og því snúið niður svo úr verður mikill hasar, mikil læti, miklar tæknibrellur, og eftirminnilegar persónur.
Eins og búast má við af leikstjóra "The Avengers", Josh Whedon, sem skrifaði handritið að þessari mynd ásamt leikstjóranum Drew Goddard, er húmorinn sterkasta hlið myndarinnar. Persónurnar lenda hver á eftir annarri í skelfilegum aðstæðum, haga sér stundum frekar heimskulega - og oft ekki beint í karakter, en það er hluti af leiknum.
Myndmálið er ofhlaðið og skrautlegt, og þegar myndinni lauk fannst mér eins og ég hefði séð allar slassermyndirnar í einni. En hvílík skemmtun.
Ég spilli engu þegar ég segi aðeins frá upphafi sögunnar, en fimm ungmenni sem virðast í fyrstu passa frekar vel inn í söguna sem staðlaðar arkitýpur, reynast hver annarri skemmtilegri og með óvæntar hliðar, sem þó forða þeim ekki frá þeim hrakalegu örlögum sem tengjast skógarkofanum ógurlega. Ég er heldur ekki að spilla neinu þegar ég segi að óafvitandi eru þessi ungmenni þátttakendur í raunveruleikaþætti þar sem stjórnendur gera sitt besta til að koma þeim í aðstæður sem líklegar eru til að verða þeim að bana. Allt þetta kemur í ljós á fyrstu mínútum myndarinnar.
Dæmi um eitt magnað og reyndar frekar kinkí atriði, sem virðist frekar einfalt, í upphafi myndar, er þegar einn af unglingunum, Holden (Jesse Williams), kemur í herbergi sitt í kofanum og sér þar ógnvekjandi málverk sem sýnir lömb leidd til slátrunar. Hann fjarlægir málverkið, en á bakvið það er gegnsær spegill. Hinu megin við spegilinn er stúlkan sem hann þráir, Dana (Kristen Connolly), að klæða sig úr. Þetta atriði er sérstaklega vel útfært og gerir persónurnar ljóslifandi og spennandi, sérstaklega í ljósi viðbragða þeirra Holden og Dana. Þetta er bara eitt lítið dæmi um frumlegt atriði, en þannig er öll þessi mynd, hlaðin mögnuðum atriðum.
Annað gott atriði er þegar Jules (Anna Hutchinson) fer í sleik við vel tenntan og uppstoppaðan úlfshaus. Það er þegar búið að sýna áhorfendum að eitthvað undarlegt er á gangi í kofanum, og ein persónan hafði kallað úlfinn elg, sem er reyndar vísun í "Evil Dead 2", mynd þar sem uppstoppaður elgshaus lifnaði til lífsins.
Ef hægt væri að líkja "Cabin in the Woods" við einhverjar aðrar kvikmyndir, mætti segja að hún sé jafningi "Evil Dead 2", en það er töluvert vísað í þá snilld, og síðan í goðsöguna um Pandoru og kassann hennar.
Chris Hemsworth, sem þekktari er í hlutverki Thor, leikur kláran íþróttamann og er sjálfsagt skærasta stjarna myndarinnar, en hún var kvikmynduð árið 2009, rétt áður en frægðarsól þessa ágæta ástralska leikara fór að stíga. Skemmtilegasta persónan er Marty (Fran Kranz), sem virkar í upphafi eins og uppdópað fífl, en leynir á sér. Richard Jenkins og Bradley Whitford eru bæði fyndnir og ógnvekjandi í hlutverki þáttarstjórnenda.
Það magnaða er að spennan stigmagnast, húmorinn heldur sér, og fjölbreytileikinn stökkbreytist og heldur út til enda. Einnig dýpkar sagan og aðstæðurnar eftir því sem nær dregur endinum. Mögnuð mynd!
Þetta er sumarið hans Josh Whedon!
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:33 | Facebook
Athugasemdir
Einni stjörnu of mikið.
Ómar Ingi, 3.6.2012 kl. 11:46
Kannski hálfri stjörnu of mikið, en alls ekki einni. ;)
Hrannar Baldursson, 3.6.2012 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.