Sjaldgæf snilld: The Avengers (2012) *****
30.4.2012 | 05:37
Það er ekki oft sem myndir ná fullu skori hjá mér. Minnir að Avatar hafi verið nálægt því. En "The Avangers" slær ekki eina einustu feilnótu, byggir á persónum sem hafa verið á kreiki í marga áratugi, og nær að vera frábær skemmtun. Þetta er ein af þessum sýningum þar sem þú ferð út úr fullum sal og allir í kringum þig ljóma af ánægju. Ekki síðan ég sá "Borat" með vinnufélögunum um árið hef ég heyrt jafn marga hlæja í bíó.
Josh Whedon, maðurinn á bakvið "Buffy The Vampire Slayer", "Angel", "Firefly", "Serenity" og "Dollhouse", sem einnig skrifaði handritið á bakvið "Toy Story" og "Alien Resurection" hefur unnið þrekvirki með "The Avengers". Hann gerir nákvæmlega það sama og hann hefur gert alla tíð gert, gefur hverri einustu persónu það mikla athygli og sýnir þær í þannig ljósi að þér getur ekki annað en líkað við þær, og byggir þær upp á skondnum samtölum, samskiptum og slagsmálum.
"The Avengers" er litrík og í hinni er gríðarlega mikill hasar, en húmorinn er mesti styrkleiki hennar. Öllum aðalpersónum eru gerð góð skil, oftast betri en í fyrri myndum. Eina persónan sem virkar frekar litlaus í þessum stóra hópi er Nick Fury í meðförum Samuel L. Jackson, sem því miður er líkari Mace Windu úr "Star Wars" heldur en Jules úr "Pulp Fiction". Thor, Loki, Hulk, Black Widow, Captain America, Iron Man, Hawkeye og Agent Coulson eiga öll eftirminnileg augnablik.
Söguþráðurinn er sá að Loki, hinn bitri norræni guð, hefur þörf til að ná völdum einhvers staðar í heiminum, þar sem honum mistókst að ná völdum í Ásgarði, ákveður að ná heimsyfirráðum yfir jörðinni. Hann gerir samning við herskáar geimverur og finnur leið til að opna hlið sem gerir þeim kleift að ráðast á jörðina með stuttum fyrirvara. Til að gera þessa árás mögulega þarf Loki á orkukubbi að halda sem er í vörslu S.H.I.E.L.D. og tekst honum að ná þessum kubbi.
Verður það til þess að Nick Fury, stjóri S.H.I.E.L.D. sem er einhvers konar hátækni njósnasamfélag fyrir Bandaríkin, kallar á aðstoð ofurhetjanna sem hann hefur rekist á í gegnum tíðina.
Af öllum ofurhetjunum í myndinni er ein þeirra sem heppnast langbest. Það hafa þegar verið gerðar um hana tvær kvikmyndir, sú fyrri leikstýrð og Ang Lee með Eric Bana í titilhlutverkinu, afar misheppnuð, og sú seinni með Edward Norton í hlutverkinu, mun betri en sú fyrri en samt engin snilld, og nú loksins tekst Mark Ruffalo að gera Hulk verulega góð skil, með sama húmor og birtist í teiknimyndasögunum sjálfum. Samskipti Hulk við Loka eru óborganleg.
Ég ætla ekki að blaðra meira um þessa mynd. Þetta er ein af þessum myndum sem þú verður að sjá í bíó. Hún er á svipuðum gæðaskala og upphaflegu "Star Wars" myndirnar og "Lord of the Rings", og slær þeim jafnvel við.
Skelltu þér í bíó og taktu með þér góðan vin eða fjölskyldumeðlim. Ég bauð konu minni og börnum; þau margþökkuðu fyrir sig og gátu varla hætt að tala um myndina. Þeim fannst hún öllum frábær.
Þetta gerist sjaldan.
Athugasemdir
AMEN
Ómar Ingi, 30.4.2012 kl. 08:07
Það eina góða við Avatar var að sjá 3D tæknina; Myndin sem slík af hroðaleg steypa.. marg stolið og stælt í gegnum tíðina.
Þannig að ég set fyrirvara á súperkarlamyndina þína :)
DoctorE (IP-tala skráð) 30.4.2012 kl. 11:28
Allt í lagi að efast DoctorE, en í myndinni er lína sem þú myndir sjálfsagt hrífast af: "Puny god!"
Hrannar Baldursson, 30.4.2012 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.