Drive Angry (2011) **
11.2.2012 | 22:44
Fantasíusplatterhasarmyndin "Drive Angry" er full af klisjum, slökum leik og samanstendur af frekar þunnum söguþræði, en inniheldur samt nokkra snilldarpunkta, og þeir eru tvennu að þakka. Kvikmyndatökufólkið, tæknimenn og hljóðmenn eru greinilega fagfólk, og einn leikarinn er hreinn snillingur sem stelur hverri einustu senu sem hann birtist í.
William Fichtner leikur "The Accountant" eða Bókhaldara frá helvíti sem passar upp á að sálir sem sleppa þaðan komi til baka. Hver einasta sena hans er margfalt betur skrifaðuð en allt annað sem birtist í þessari kvimynd. Sjálfsagt hefur hann fengið að semja eigin frasa, því þeir eru bara alltof flottir fyrir svona slaka mynd. Ef hægt væri að klippa saman bara þau atriði sem "The Accountant" birtist í, þá væri strax komið svolítið svalt hugtak sem sniðugt væri að byggja á, kannski heila kvikmynd.
Nicolas Cage leikur eina slíka sál sem sloppið hefur úr vítisvist helvítis, en dvöl hann þar samanstendur af stöðugu niðurhali upplifunar þeirra sem hann elskar, kvölum þeirra og sorg í jarðlífinu. Frá helvíti verður hann vitni að því hvernig djöflatrúarhópur misþyrmir og drepur dóttur hans, sem er nógur hvati til að hann brjótist úr úr helvíti, reddi sér svölum bíl og taki til við að útrýma öllu genginu.
Nicolas Cage má muna sinn fífil fegurri, en hann leikur í hverri b-og c- myndinni á fætur annarri með hangandi hendi, en gerir það samt nógu vel til að vera margfalt betri en gaurar eins og Steven Seagal, Van Damme og aðrir á sömu línu, hugsanlega með undantekningum. Hann virðist þessa dagana vera að berjast við Jason Statham um hasarhlutverkin. Í þetta sinn leikur hann John Milton, ekki höfund Paradísarheimtar, heldur mann sem reyndist slæmur eiginmaður en góður faðir, sem endaði í helvíti og slapp síðan.
Stórt hlutverk er leikið af Amber Heard, konu sem Milton þarf sífellt að bjarga, en er samt svo mikil hörkukona að hún gengur frá einhverjum illmennum sjálf. Hún hefur sjálfsagt átt að vera einhvers konar Sarah Connor úr "Terminator" myndunum, en passar einhvern veginn ekki inn í söguna þannig að ég fatti.
Ég myndi gefa "Drive Angry" fleiri stjörnur ef hún væri ekki jafn smekklaus og hún reynist vera. Það er frekar mikið af óþarfa splatter og nekt, sem ég reikna með að virki ágætlega til að trekkja að áhrifagjarna unglinga, sérstaklega þegar þetta er sýnt í þrívídd.
"Drive Angry" er ekki svo léleg að ég sjái eftir að hafa horft á hana, en get alls ekki mælt með henni fyrir aðra en þá sem hrífast af splatter og þesskonar smekkleysu. Mér sýnist hún vera undir áhrifum frá "Wild at Heart" eftir David Lynch og "Supernatural" þáttunum sem innihalda svartan bíl, líkan þeim sem í myndinni hefur skrifað á númeraplöturnar "DRV ANGRY".
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.