10 vinsælustu blogg ársins 2011
26.12.2011 | 20:29
Þegar kemur að áramótum er við hæfi að líta yfir farinn veg, sjá hvort það hafi snjóað eitthvað í förin, hvort manni hafi tekist að róta upp smá möl, eða horfa vonsvikinn í baksýnisspegilinn á malbik sem virðist ósnertanlegt í sinni harðneskju, og horfa jafnframt fram á veginn og velta fyrir sér hvort maður geti dregið einhvern lærdóm af árinu sem er að líða.
Á liðnu ári hef ég ferðast mikið um heiminn, en ekki skrifað neitt sérstaklega mikið um þessi ferðalög. Skemmtilegustu ferðirnar voru án nokkurs vafa heimsókn til Mexíkó og síðan ökuferð gegnum Evrópu til Ungverjalands á Nissan Micra síðustu páska. Ég hef horft minna á kvikmyndir, teflt minna, og bloggað minna en fyrri ár, en á móti lagt mikla orku í að byggja mér og minni fjölskyldu heimili í Noregi.
Það kemur mér stöðugt á óvart þegar ég heyri frá hinni íslensku ríkisstjórn hversu litlu máli henni virðist vara húsnæðisvandinn, atgervisflóttinn og neyðin sem vex á Íslandi, og virðist í algjörri afneitun, en þess í stað vísa til talnareiknings í Excel eins og þar sé hinn heilaga sannleika að finna. Sjálfur er ég sæmilega hæfur í Excel og kann að gera ýmsar formúlur og kannast við hvernig hægt er að láta hlutina líta út á einn veg eða annan með smá tilfæringum á sjónarhornum.
Vonandi að sannleikurinn komi fram fyrr eða síðar og Íslendingar fari að átta sig á hvað Norðmenn eru að græða gífurlega á öllum þessum duglegu Íslendingum sem komnir eru í góð störf hérna megin við sundið. Ég kvarta ekki því ég tel mig vera réttu megin við girðinguna. Hins vegar læt ég heyra í mér þegar mér sýnist stjórnvöld vera að villa um með áróðri í stað vandaðs rökstuðnings. Nokkuð sem er algjör óþarfi á þessum erfiðu tímum.
Þá er það listinn:
10. sæti: Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið?
Vangaveltur um hvort hagsmunir eða réttlætið eiga að ræða þegar teknar eru ákvarðanir í mikilvægum málum fyrir almannaheill.
Kjarni málsins:
Sett eru lög: þú skalt ekki stela. Ef þú stelur verður þér refsað með sekt eða fangelsisvist. Ef ekki bara þú, heldur hver sem er stelur, skal refsað með sekt eða fangelsisvist. Hvort er með þessum lögum verið að passa upp á hagsmuni eða verið að gæta réttlætis? Er verið að passa upp á hagsmuni þeirra sem eiga mikið eða eiga lítið? Tja, það er verið að gæta hagsmuna beggja. Ef aðeins væri verið að gæta hagsmuna annars aðilans, þá væri það ranglátt. Icesave samningurinn gætir hagsmuna takmarkaðs hóps Íslendinga og hunsar algjörlega stóran hóp. Það er ranglátt í sjálfu sér.
9. sæti: Greiðsluvandi heimila og velferðarráðuneytið: "Eru lánþegar bara fáfróðir vitleysingar?"
Velti fyrir mér "áfrangaskýrslu velferðarvaktarinnar", þar sem ég velti fyrir mér vafasömum ályktunum sem teknar eru meira með orðaflaumi en rökstuðningi.
Kjarni málsins:
Það er eins og þeir sem stóðu að þessari rannsókn átti sig ekki á þeim óásættanlegu lausnum sem viðskiptabankarnir stjórna, og telji vanþekkingu hafa meiri áhrif á dómgreind manna, heldur en skynsemi og góð dómgreind. Ég held einmitt að flest fólk í þessari erfiðu stöðu hafi ágætis dómgreind, og sé þreytt á að heyra hvað stjórnvöld telja almenning vera heimskan og fáfróðan. Fólk vill lausn á þessum vanda, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hlusta ekki. Ég tel þann heimskan sem ekki vill hlusta. Ég tel þann heimskan sem telur sig vita allt, geta allt, og stjórna öllu betur en allir aðrir. Því miður er of mikið af slíku fólki við völd á Íslandi í dag. Þetta fólk þarf að læra að hlusta. Það þarf að læra auðmýkt. Það þarf að vinna með fólkinu, ekki á móti því.
8. sæti: Jóhanna Sigurðardóttir í Kastljósi (2011) 1/2
Horfði á frekar lélegt og dapurlegt Kastljósviðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur og deildi mínum vangaveltum hér á blogginu.
Kjarni málsins:
Þegar hún var síðar spurð út í verðtrygginguna, fannst mér áhugavert að hún hugsaði bara um eina hlið málsins, virtist nákvæmlega sama um þá sem staddir eru í skuldafangelsi í dag, og virðist ekki skilja mikilvægi þess að leysa þetta fólk úr viðjum vandans.
7. sæti: Viltu fórna ömmu þinni til að verða rík(ur)? Uppskrift að fjármálafléttu sem virkar
Vangaveltur um svikamyllur fjármálafyrirtækja.
Kjarni málsins:
Engum hefur verið refsað fyrir þessa hegðun. Hún er lögleg á Íslandi. Sem er skömm. Djúp og ljót skömm. Framkvæmdu þessa fléttu og þú getur orðið rík manneskja. Sum okkar myndu aldrei framkvæma slíkar fléttur, enda höfum við eitthvað sem kallast samviska og annað sem kallast réttlætiskennd sem stoppar okkur. En samviskan og réttlætiskenndin er ekki öllum gefin. Því miður. Og fólkið með samviskuna og réttlætiskenndina þarf að borga og þjást vegna þessara fléttubjálfa. Er um of mikið beðið þegar krafist er að þetta ranglæti hætti? Það á að leyfa fjármálafyrirtækjum að hrynja vegna lélegrar stjórnunar, í stað þess að halda þeim og þeirra eigendum uppi á ofurlaunum með verðtryggingunni, hærri sköttum á borgara, og stöðugan niðurskurð í embættismannakerfinu. Það eina sem mun standa eftir þegar kemur að skuldadögum eru svartir turnar fjármálastofnana sem standa auðir. Allt annað verður í rjúkandi rúst.
6. sæti: Birgitta Jónsdóttir á forsíðu Wired.com
Tók eftir Birgittu á forsíðu Wired.com, einni af þeim síðum sem ég les nokkuð reglulega. Þetta var tengt Wikileaks málinu. Þetta mál grunar mig að hafi orðið til þess að Birgitta reynir að halda núverandi ríkisstjórn gangangi, enda vel varin af öðrum þingmönnum á meðan fjaðrafaukið stóð yfir. Það er miður, því það er eins og mestallt púðrið hafi fokið úr Birgittu eftir þetta mál.
Kjarni málsins:
Það er merkilegt hvernig leynd er réttlætt til að vernda opinbera starfsmenn, á meðan íslenskur veruleiki segir okkur að leyndin hafi verið notuð til að vinna skuggaverk bakvið tjöldin, þá af einhverjum stjórnmálamönnum, opinberum starfsmönnum, útrásarvíkingum, eigendum banka og starfsmönnum þeirra.
5. sæti: Ólík viðhorf: Landflótta lánþegi og aðstoðarmaður forsætisráðherra
Vangaveltur eftir að nafni minn úr forsætisráðuneytinu reyndi að gera lítið úr mínum pælingum í eldhúskrók hans á Facebook. Hann virðist hafa tilhneigingu til að fara í manninn, en ekki boltann, þegar rökin fara að halla á hann.
Kjarni málsins:
Ég tel verðtryggingu rangláta vegna þess að hún tryggir aðeins lánveitanda, en lánþegi hefur enga tryggingu. Hækki verðlag, hækkar lánið, en ekki geta lánþega til að greiða af láninu því að laun eru ekki verðtryggð. Afleiðing þessa er ójöfnuður.
4. sæti: Mikil er grimmd Íslendingsins
Velti fyrir mér kæruleysi eða tómlæti þeirra sem hafa sloppið bærilega undan hruninu.
Kjarni málsins:
Fólk tók lán fyrir húsnæði. Það þótti eðlilegt. Síðan hrundi fjármálakerfið. Sökin var hjá fjármálastofnunum og ríkinu. Innistæður voru tryggðar í botn. Þannig að þeir sem áttu pening urðu ekki fyrir ónæði. Hins vegar tvöfölduðust allar verðtryggðar skuldir og hækka enn. Engin útkomuleið önnur en gjaldþrot, og ekki hefur enn reynt á ný gjaldþrotalög, þar sem mögulegt er að viðhalda kröfum gagnvart fólki að eilífu. Gjaldþrot fyrir manneskju er ekki það sama og gjaldþrot fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki er bara kennitala. Manneskja er líf
3. sæti: Heilaþvegið Ísland?
Velti fyrir mér atgervisflótta frá Íslandi og reikna út hvað hann kostar í milljörðum, því það virðist vera það eina sem stjórnvöld skilja: peningaupphæðir og prósentutölur.
Kjarni málsins:
Það væri áhugavert að sjá það í nákvæmlegum útreikningum hversu mikils virði hver einasta dugleg og vel menntuð manneskja er, sem frá Íslandi flytur. Sérhver slík manneskja kostar sjálfsagt að minnsta kosti 10 milljónir króna á ári. 10 brottfluttir kosta þá um 100 milljónir og 100 brottfluttir verða að milljarði. Sjálfsagt má meta höfuðstól hverrar manneskjur upp á hundrað milljónir.
2. sæti: Annað stærsta bankarán aldarinnar í gangi á Íslandi; hvar er Superman?
Velti fyrir mér af hverju í ósköpunum húsnæðislán þurfi að hækka svona gríðarlega hratt, þannig að útilokað sé að venjuleg manneskja geti borgað af þeim. Skil ekki reikninginn hugsanlega vegna þess að hvorki forsendur né reiknireglur eru gefnar upp.
Kjarni málsins:
Sérstakur saksóknari er á kafi í gömlum máli og engar fréttir úr þeim bæ. Fjármálaeftirlitið virðist lamað. Efnahagsbrotadeild lögreglunnar hefur sameinast sérstökum þannig að þar eru starfsmenn sjálfsagt að aðlagast nýjum vinnustað, læra á Word upp á nýtt og svoleiðis, en enginn virðist þess megnugur að bæði sjá ránið sem er í gangi og stoppa það.
1. sæti: Besta aprílgabb dagsins
Aprílgabb sem ég setti inn til að sjá hvort vinsældir bloggs míns séu meira tengdar áhuga á vönduðum vangaveltum eða hreinni forvitni. Markaðsfræðingurinn í mér segir að alvarlegar vangaveltur séu ekki líklegar til vinsælda nema maður sitji á þingi eða hafi atvinnu af fjölmiðlum. Hins vegar skjótast brandarar auðveldlega efst á vinsældalistann.
Velti fyrir mér hvort ég ætti að taka eitt ár þar sem ég reyni að gera þetta blogg vinsælt, svona meðvitað...
Kjarni málsins:
Þannig hljómaði aprílgabbið mitt í fyrra og ég ákvað að nota það aftur í dag. Ég held að engin af mínum greinum hafi fengið jafn mikinn lestur og þetta einfalda aprílgabb fyrir ári, og sjálfsagt hef ég sjaldan lagt jafn litla vinnu í eina grein. Ég er forvitinn að vita hvort þessi verði jafn vinsæl.
Játning: Ég stal hugmyndinni að þessu bloggi af síðu Eyglóar Harðardóttur, alþingismanns.
Myndina fékk ég að láni frá The Art Newspaper
Flokkur: Fjölmiðlar | Breytt 16.12.2014 kl. 18:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.