Eru ekki gagnrýnin hugsun og frelsi forsendur lýðræðisríkis?
30.10.2010 | 07:32
Frelsi er grundvöllur mannréttinda og lýðræðis. Því er afar óheppilegt að þessu fína hugtaki sé blandað inn í hagfræðimódelin "frjálshyggja" og "nýfrjálshyggja", sem hafa fengið afar neikvæðan blæ eftir fjármálahrunið. Frelsið var nefnilega ekki sökudólgurinn, heldur misnotkun á frelsinu og skortur á viðbrögðum. Skilnings-, þekkingar- og siðleysi höfðu mun meiri áhrif en frelsið á það ástand sem Íslendingar þurfa að kljást við í dag. Hugsanlega brást flest sem gat brugðist.
Grundvallarstefna alls náms í lýðræðissamfélagi ætti að vera undirbúningur barna fyrir að taka þátt í lýðræðissamfélagi þar sem frelsi er virt og ákvarðanir hafa áhrif á annað fólk. Þetta er gert með því að koma virkri gagnrýnni hugsun inn í kennsluaðferðir, og þá þarf að gæta sín á að þekkja vel hvað gagnrýnin hugsun er - því eins og mörg önnur hugtök, þá er hægt að finna falsspámenn sem teikna gagnrýna hugsun upp sem eitthvað skrípi sem hún alls ekki er. Til allrar hamingju hef ég sjálfur fengið nóg tækifæri til að vinna við gagnrýna hugsun í skólastarfi, fyrst í heimspekikennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hugfimi við Iðnskólann í Reykjavík, einnig við Selásskóla um stutt skeið, í skákþjálfun við Salaskóla og við námsstofnanir í Bandaríkjunum, Mexíkó, Costa Rica og nú síðast í Noregi. Ég sé nemendur og kennara sem beita gagnrýnni hugsun undantekningarlaust blómstra.
Virk beiting gagnrýnnar hugsunar er til bóta bæði fyrir skólastarf og samfélag, sem og einstaklinginn sem beitir henni, en það þarf stöðugt að gæta ákveðins jafnvægis til að hún virki sem aðferðarfræði í kennslu. Ég hef orðið var við stefnu þar sem gagnrýnin hugsun er að mínu mati notuð á kolrangan hátt sem eitthvað tilfinningalaust verkfæri til að skera í sundur hugtök án umhyggju fyrir þeim sem að greiningunni koma eða þeim sem fyrir henni verða. Ég hef megna óbeit á slíku. Það er ekki gagnrýnin hugsun, heldur innantóm gagnrýni, einhvers konar leikur þar sem virðing fyrir manneskjunni er ekki höfð í heiðri.
Á meðan gagnrýni er eins og beittur hnífur sem getur verið notaður til að skera í sundur alls konar vefi óljósra hugtaka, eða til að skera í sundur skýr tengsl hugtaka við önnur hugtök; þá er gagnrýnin hugsun yfir þetta hafin. Sá sem beitir gagnrýnni hugsun er umhugað um að rannsaka viðfangsefnið án þess að skaða það, og án þess að skaða heilindi þess sem rannsakar, og miðar að því að átta sig á hvernig fyrirbærið sem rannsakað er passar inn í bæði mun stærra samhengi og hvaða áhrif það hefur á sitt nánasta umhverfi. Þess vegna getur gagnrýnin hugsun aldrei staðið ein og sér, heldur verður að beita með nægilegu ímyndunarafli til að þú getir séð fyrir mögulegar afleiðingar og áhrif, og nægilegri umhyggju til að þú getir ákveðið hvort rétt sé að gera það sem þig langar að gera.
Til dæmis virðast útrásarvíkingar, stjórnmálamenn og bankamenn sem settu fjölda íslenskra heimila á hausinn hafa verið afar greindir. Þeim tókst að greina fjármálakerfið á þann hátt að þeim tókst að græða gífurlegar fjárhæðir, en á móti virtust þeir hvorki hafa ímyndunarafl né áhuga til að velta fyrir sér hvaða áhrif þeirra gífurlegi gróði í afleiðuviðskiptum hefði á aðra íslenska þjóðfélagsþegna. Þegar hugsunin er ekki gagnrýnin að fullu, heldur bara að hluta, fyrir smá heild eða einingu, þá snýst hún upp í andstöðu sína. Án umhyggju og ímyndunar verður hún að tæki til að ná völdum, einræðisvopni.
Ég tala um umhyggju. Að gagnrýnin hugsun geti ekki án umhyggju verið. Góð skilgreiningin á slíkri umhyggju er að finna í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, þar sem umhyggja fyrir mannvirðingu sérhverrar manneskju er höfuðatriði, en þó þarf að kafa dýpra, því umhyggju þarf einnig að sýna gagnvart samfélagi og náttúru. Gagnrýnin hugsun er langt frá því að vera einfalt fyrirbæri og að það tekur sérhvern einstakling mikla vinnu og nám til að ekki bara fara vel með gagnrýna hugsun, heldur skilja hvað gagnrýnin hugsun er.
Gagnrýnin hugsun getur ekki starfað og verið virk án grundvallarfrelsis. Krepputímar eru afar hættulegir fyrir slíka hugsun, því þegar fólk líður skort hefur það ekki áhuga á henni, heldur vill fyrst og fremst komast af.
Hver einasta manneskja þarf málfrelsi, sama hvar viðkomandi er staddur í samfélaginu, hvort sem viðkomandi er atvinnulaus, innfluttur, fatlaður, aldraður, barn, unglingur, eða bara ósköp venjuleg manneskja sem vil láta lítið fyrir sér fara, eða tilheyrir öðrum minnihlutahópi sem á erfitt með að tjá sig opinberlega.
Trúfrelsi er einnig mikilvægt, og þá er ég ekki bara að tala um frelsi til að trúa ekki, heldur frelsi til að stunda eigin trú og tjá hana í friði fyrir ofsóknum annarra.
Að lokum er það frelsið til að vera í friði fyrir áreiti annarra, frelsi frá ótta og ógnum. Það er ekkert athugavert við að fólk fái að vefja sig og börn sín inn í bómull og vera í næði frá umhverfinu.
Fjórar myndir um frelsi eftir Norman Rockwell tjá vel þessa umgjörð frelsis sem lýðræðið getur ekki verið án. Án frelsis lendum við í klóm einræðis. Hugsanlega er Ísland einræðisríki í dag og einvaldurinn auðvaldið. Ég vil leyfa myndum Rockwell að eiga síðasta orðið.
Tjáningarfrelsi
Trúfrelsi
Frelsi frá fátækt
Frelsi frá ótta
Athugasemdir
Hér er mjög þörf greining á ferðinni.
Grundvallarmál.
Þakka þér fyrir að deila þessum hugleiðingum með okkur, þær eru allar réttar að mínu mati.
Þú tekur á þig óeigingjarna vinnu við að miðla þessum sannindum til þjóðarinnar. Eikki veitir af gagnrýnni hugsun til að fá einhvern botn í tilveru dagsins í dag.
Lifðu heill góði félagi !
Sigurður Alfreð Herlufsen, 30.10.2010 kl. 11:39
Kærar þakkir félagi góður.
Hrannar Baldursson, 30.10.2010 kl. 13:40
Stjórnmálaglaepamenn sköpudu umhverfi sem leyfdi sidspillingu og glaepum ad thrífast. Kvótakerfid er hrein glaepastarfsemi. Kvótakerfid var uppafid ad hruninu. Eftir ad glaepamennirnir sáu ad their komust upp med kvótaglaepakerfid án thess ad vera refsad af sofandi kjósendum misstu their alla virdingu fyrir landsmönnum og skiptu bönkunum á milli sín.
Um var og ER ad raeda EIGNIR landsmanna allra. Thjódin var sofandi og heimsk. Hún kaus Sjálfstaedisflokkinn og Framsóknarflokkinn aftur og aftur. Ad endingu voru menn svo brattir ad their upp á einsdaemi einir og sér án adkomu annara samthykktu ad stimpla "med velvild Íslands" á strídsbrölt Bandaríkjamanna í Írak.
Thad er ödruvísi í Noregi. Eins og thú veist thá geta allir séd hvad fólk hefur í tekjur og jafnvel hve audugt fólk er. Thad er audveldlega gert á netinu med thví ad skrifa in nafn vidkomandi. Thar er allt opid og eftirlit miklu betra. Thar eru líka miklu betri fjölmidlar og almenningur er VAKANDI. Sidferdislega haerri standard einfaldlega.
http://skattelister.aftenposten.no/skattelister/start.htm
Svona er nú thad (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.