Af hverju reisum við turna?
18.9.2010 | 17:32
Turnar eru eitt af undrum veraldar sem ég skil ekki. Í fljótu bragði kannast ég við fimm gerðir hárra turna:
- Kirkjur eða trúarbragðaturnar
- Bankar eða fjármálastofnanir
- Hótel eða ferðamannagildrur
- Útsýnisturnar eða varðstöðvar
- Píramídar
- Skraut, listaverk eða minnisvarðar
Ég ímynda mér að áður en turn er byggður kemur fyrst eitthvað fólk með hugmynd um að byggja skuli turn og síðan þarf slík ákvörðun að vera samþykkt af einhverjum fleirum. Stórt verkefni fer í gang. Mörg mannár fara í skipulag og smíði, og loks þegar byggingin er tilbúin þarf að hugsa um viðhaldið.
Sonur minn byggði eitt sinn turn úr legókubbum. Hann sagðist hafa gert það af-því-bara. Þegar hann ætlaði loks að taka hann í sundur, ákvað hann að kasta leikföngum í hann. Honum að óvörum hrukku leikföngin af turninum. Hann bifaðist ekki. Turninn var traustari en okkur hafði grunað. Okkur fannst það frekar töff. Það tók hann hálftíma að byggja þennan turn, þannig að ekki var þetta neitt stórmál.
En allir hinir turnarnir. Til dæmis Turninn á Smáratorgi. Hann hýsir endurskoðunarfyrirtæki, veitingastað, líkamsræktarstöð, banka, leikfangaverslun og eitthvað fleira. Hann er vel merktur Deloitte, en Deloitte er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í að gefa stórfyrirtækjum ráð í stjórnum eða fjármálum. Ég veit samt ekki hver ákvað að byggja turninn. Og ekki veit ég af hverju.
Ég giska á að kirkjuturnar séu byggðir til að starfsfólk kirkjunnar fái betri yfirsýn yfir söfnuð sinn, en sumir halda því fram að svona turnar séu byggðir til að mynda brú frá jörð til himnaríkis.
Bankamenn byggja turna því þeir sjá sig í samkeppni við alla hina. Sá sem vinnur í hæsta turninum og á hæstu hæð, hann vinnur. Þetta er náttúrulega bara ágiskun. Mér dettur ekkert annað í hug.
Gríðarlega há hótel eru sjálfsagt byggð þannig til að vera áberandi auglýsingaskilti. Því stærra sem hótelið er, því líklegra er að túristar taki eftir því.
Útsýnisturnar eru að sjálfsögðu byggðir til að fylgjast með aðkomufólki.
Sjálfsagt flokkast Frelsisstyttan í New York og Eiffelturninn sem skraut eða listaverk, táknmyndir um eitthvað sem skiptir máli, Frelsisstyttan þá vonandi fyrir frelsi, og Eiffelturninn sjálfsagt bara minning um mann sem hét Eiffel.
Eini píramídinn sem ég hef klifrað upp á, Chichen Itza í Mexíkó, held ég að hafi verið notaður sem útsýnisstúka fyrir konung þegar fylgst var með knattleikjum þar sem leikmenn reyna að koma bolta í gegnum lítið gat en geta aðeins komið við boltann með mjöðmunum.
Svo eru náttúrulega til fleiri turnar. Merkjaturnar sem koma áfram útvarps, sjónvarps eða netmerkjum. Svo eru líka turnar nauðsynlegir til að bora í jörð eftir olíu frá borpöllum. Sjálfsagt flokkast vitar líka sem turnar, en þeir vara sæfarendur við að þeir séu nálægt landi og hjálpa þeim að staðsetja sig.
World Trade Center turnarnir voru merki um mátt hins alþjóðlega efnahagskerfis. Þeir eru eyðulagðir með sorglegum afleiðingum af hryðjuverkamönnum árið 2001 og enn í dag er hið alþjóðlega efnahagskerfi að hrynja.
Turnar eru öflug tákn, jafnvel samstöðumerki. Ef nógu margar hendur taka sig saman um að byggja turn fyrir ákveðinn tilgang, þá hlýtur það að merkja að viðkomandi hópur fólks hafi völd í nágrenni við turninn, og að turninn sé leið til að sýna slík völd.
Í "Lord of the Rings" eftir J.R.R. Tolkien voru tveir turnar tákn um ill stórveldi sem voru að safna kröftum gegn öllum þeim sem ekki gengu í lið með öflunum sem turnana byggðu. Þannig eru turnar táknmyndir fyrir hrátt afl, og þegar um hrátt afl er að ræða, skiptir minna máli fyrir suma hvort það sé gott eða illt - aðal málið er að komast í lið með líklegustu sigurvegurunum.
Þannig eru íslenskir stjórnmálaflokkar. Mest virðing er borin fyrir hæsta turninum í súluritinu. Þeir sem byggja hæsta turninn með öflum atkvæða, fá öll völdin í landinu, og fá að gera það sem þeim sýnist, eru hafin yfir lög og reglur, geta lagt fjölskyldur, heimili og fyrirtæki í rúst með því að veifa litla fingri, og finnst það sjálfsagt bara gaman og eðlilegt.
Hugsanlega hefur engum spurningum verið svarað með þessum vangaveltum, en vangavelturnar hafa þó átt sér stað, og að minnsta kosti ég sjálfur mun hugsa mig tvisvar um og velta hlutunum fyrir mér næst þegar ég rekst á turn.
Athugasemdir
Horfðu til himins
Ómar Ingi, 18.9.2010 kl. 18:09
Reðurstákn, ef eitthvað er til í freudískum hugsanahætti?
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 18.9.2010 kl. 18:49
Eini turninn sem ég man eftir að hafa farið uppí af sjálfsdáðum er Sívaliturn í Kaupmannahöfn og þangað kom ég fyrst einn og svo hef ég komið þar nokkrum sinnum með ungu fólki og er ástæðan að mestu sögulegs eðlis.
En Kaupmannahöfn, fyrrum höfuðborg okkar hefur þrjú tákn í mynd gamalla íslendinga fyrir utan Íslandsbryggju, en þau eru Tívolí, litla sæta afslappaða hafmeyjan og Sívaliturn.
Hann er þarna enþá og geimir spor og anda margra sem áttu þar létt og þung spor.
Hrólfur Þ Hraundal, 18.9.2010 kl. 20:10
Ómar: Það gæti verið hugmyndin með kirkjunum.
Carlos: Sjálfsagt.
Hrólfur: Hef farið efst í þennan turn með konu og börnum. Útsýnið var fínt, það var á aðfangadegi fyrir nokkrum árum.
Hrannar Baldursson, 18.9.2010 kl. 21:24
Sæll Hrannar.
Er það ekki frekar svarið frá Carlos sem gæti verið hugmyndin með kirkjunum.
Dingli, 18.9.2010 kl. 21:51
Kirkjuturnar og háreistar kirkjur eru tilbúin viðmið gerð af valdastétt préláta til að sannfæra fólk um smæð sína og lítilfengleik þann, sem þeir boða. Ekkert háleitt þar. Hroki, drottnunargirni og mannfyrirlitning.
Hótel og skrifstofubyggingar? Nú til að koma sem mestu fyrir á sem minnstum landskikum. Þeir eru dýrir í borgum.
'utsýnisturnar og varðturnar skýra sig sjálfkrafa.
Minnismerki er sami hrokinn og hjá kirkjunnar mönnum. Oftast reist af myndefninu sjálfu eða skjallbandalagi þess. Við erum miklir og þið lítil.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2010 kl. 23:40
Það má eiginlega setja samasemmerki milli þess sem er háreist án praktískra ástæðna, að þar fari minnstir manna á jarðríki.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2010 kl. 23:42
háir turnar eru góð nýting á landi.. hótel eru byggð upp á við því það er ódýrasta fyrirkomulagið.
fyrr á öldum voru turnar annað hvort guðlegir eða hernaðarlegir.. fátt annað.
að byggja upp hefur oftast orðið lausnin þegar þregnir að landi.. í rómaborg hinni fornu voru flest hús í miðbænum 4 - 5 hæðir ..en lækkuðu þegar kom í úthverfin..
að búa í háhýsi er oft merki um fátækt.. nema þú búir á afstu hæð ;)
Óskar Þorkelsson, 19.9.2010 kl. 07:08
Hrannar, mér sýnist Carlos vera með ágæta skýringu.
Varðandi kirkjuturna þá er til gömul saga af því að konunungur nokkur lagði af stað í stríð frá kasóléttri drottningu sinni. Hann bauð að ef barnið væri drengur yrði reistur turn á dómkirkjuna. Konungur gæti þá séð turninn úr talsverðri fjarlægð á bakaleiðinni og fengi þeim mun fyrr að vita kyn barnsins. Við endurkomu konungs reyndust vera tveir turnar á kirkjunni enda fæddist drottningu tvíburar, báðir drengir. Tákngildi turnsins er augljós í þessari sögu!
Annars þykir mér sennilegast að turnar við kirkjur hafi verið hernaðarlegs eðlis í bland, kirkjuturnar hér í Danmörku voru t.d. reistir sem smá virki og eini inngangurinn í kirkjuna lá talsvert hátt uppi í miðjum turni en tréstigi lá þangað upp.
Skemmtilegustu turnarnir eru eflaust turnaskógurinn sem reis í Bologna á síðmiðöldum. Eftir að Rómarveldi hið vestari leið undir lok hvarf borgarbyggð að mestu úr N-Ítalíu en með vaxandi velmegun hófst gullöld borganna á ný upp úr 10. öld.
Á 12. öld söfnuðust hinar auðugri fjölskyldur Pó dalsins saman innan borgarmúra Bolognu-borgar og af einhverri ástæðu tóku menn að reisa mikla turna, hver fjölskylda fyrir sig. Þegar mest var er talið að minnst 100 og hugsanlega hátt í 200 turnar, frá 40 og allt að 90 metrar á hæð, hafi fyllt borgina. Hallgrímskirjuturn er víst aðeins 80 metrar! Koparstunga frá þessum tíma sýnir furðulega borgarmynd, sannkallaðan turnaskóg. Enginn veit í raun hvers vegna þessi turnasamkeppni hófst en talið er að hver turn hafi verið allt að 10 ár í byggingu.
Flestir voru turnarnir illa byggðir og hófu fljótlega að hrynja niður aftur. Mikill meirihluti þeirra er því horfinn í dag en meira eða minna heilar leifar 20 turna er enn að finna í borginni. Áberandi eru tveir turnar í miðborginni, annar þeirra er mjög svo skakkur og virðist vera að falla á hliðina. Hinn er nokkurn veginn beinn og opinn fyrir ferðamenn. Mjög skemmtileg upplifun að klifra upp 90 metra í timburstiga innan í tómum og skökkum turni!
Wikipedia grein um turnana í Bologna og koparstunga af turnaskóginum
Fyrir þá sem hafa lesið Terry Pratchett þá er spurning hvort hann hafi haft háskólann í Bologna í huga sem fyrirmynd að Unseen University. Háskóli þessi er auðvitað sá elsti á byggðu bóli (segja þeir sjálfir) en hann er algjörlega ósýnilegur! Í raun dreifist hann yfir mikinn fjölda bygginga í miðborginni en engin þeirra líkist skólabyggingu eða er merkt háskólanum. Þegar við bætist rammskakkur risaturn án nokkurs tilgangs (Tower of Art?) þá er samlíkingin furðu góð.
Brynjólfur Þorvarðsson, 19.9.2010 kl. 09:46
Einn er sá turn Hrannar, sem þú minnist ekki á. Ef til vill vegna þess að hann er huglægur. Kannski er slíkur turn sá hættulegasti af þeim öllum. Hér er ég að tala um hinn svo kallað fílabeinsturn.
Að búa í fílabeinsturni þýðir í dag að hafa lífsmáta sem felur í sér flótta frá heimi hversdagsleika og daglegra vandamála inn í heim háleitra hugmynda og sjálfshygðar, eins og orðabókin skýrir það.
En er við í daglegu tali segjum að einhver búi í fílabeinsturni, meinum við gjarnan eitthvað allt annað. Við meinum frekar að einhver sé einangraður frá fjöldanum, sé gjarnan hrokafullur og úr sambandi. Við gefum sem sagt orðatiltækinu neikvæða merkingu.
Orðatiltækið að búa í fílabeinsturni á rætur sínar að rekja til Salómonssálma í Biblíunni. Í sjöunda sálmi sem seinna var hermdur upp á Maríu móður Krists segir; Háls þinn rís stoltur, líkur turni úr fílabeini. Náungi að nafni Honorius notaði þessa kenningu fyrstur svo vitað sé, þar sem sagði Maríu Mey vera skínandi og hreina sem fílabein.
Þakka annars skemmtlegar pælingar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.9.2010 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.