Af hverju eiga leiðtogar að vera heiðarlegir?
5.9.2010 | 21:19
Við þurfum ekki á vísindum og heimspeki að halda til að vita hvað við þurfum að gera til þess að vera heiðarleg og góð, já, jafnvel vitur og dygðug. (Kant)
Heiðarleiki er siðferðilegt hugtak. Ásakir þú manneskju um óheiðarleika, getur viðkomandi ekki varið sig með lagabókstaf. Sé manneskjan ekki heiðarleg, eru miklar líkur fyrir að henni sé nokkuð sama um hvort hún sé heiðarleg eða ekki, en ósátt við að vera kölluð óheiðarleg þar sem slíkur stimpill svertir mannorðið. Ímyndin virðist mikilvægari en sannleikurinn fyrir sumt fólk.
Það sem einkennir heiðarlega manneskju er einkum að viðkomandi reynist heilsteypt, hreinskilin og er treystandi. Aftur á móti einkenna lygar, svik eða glæpir hina óheiðarlegu.
Það er eitt að vera heiðarlegur, og annað að þykjast vera heiðarlegur. Það að þykjast vera heiðarlegur og vera það ekki, er óheiðarlegt í sjálfu sér. Það er hægt að koma upp um slíkan óheiðarleika þó að erfitt sé, með því að finna ósannindi í málflutningi, sambandsleysi á milli þess sem viðkomandi segir og þess sem hann gerir, og með sönnunargögnum um þjófnaði eða aðra glæpi.
Hin heiðarlega manneskja fylgir lögum og reglum. Strangheiðarleg manneskja fylgir ströngustu lögum og reglum. Heiðarlegar manneskjur eru ekki vinsælar í hópum sem ekki eru heilsteyptir, því þær geta bent á gloppur sem geta valdið óþægindum. Ég geri þær kröfur til fólks í ábyrgðarstöðum að það eigi að vera strangheiðarlegt. Það má ekkert flekka mannorð þeirra. Það er afar auðvelt að flekka mannorð óheiðarlegrar manneskju, en mun erfiðara þegar um heiðarlega manneskju er að ræða. Samt er það víst þannig að þegar skít er skvett á fólk, þá verða allir svolítið skítugir. Skíturinn verður sjálfsagt mest áberandi á hinum heiðarlegu til að byrja með, en þeim reynist auðveldara að hreinsa hann burt, heldur en þeim sem eru óheiðarlegir.
Það er líka óheiðarlegt að þykjast vita eitthvað sem maður veit ekki. Stundum getur maður talið sjálfan sig vita eitthvað án þess að vita það í raun. Þá hafa manns eigin fordómar hugsanlega þvælst fyrir góðri þekkingarmyndun. Þegar maður telur sjálfum sér trú um að maður þekki eitthvað, en þekkir það svo ekki í raun, þá er maður að blekkja sjálfan sig, sem þýðir að viðkomandi er ekki heiðarlegur gagnvart sjálfum sér. Sú manneskja sem ekki er heiðarleg gagnvart sjálfri sér getur ekki verið heiðarleg gagnvart öðru fólki, því hún getur ekki treyst á eigin þekkingu.
Um daginn vakti Marinó G. Njálsson athygli á því að þáverandi viðskiptaráðherra sýndi óheilindi, að hann laug að þjóð sinni, með þeim afleiðingum að orðspor Gylfa Magnússonar sem ráðherra og sem fræðimaður hefur borið mikinn skaða af, eða ætti í það minnsta undir eðlilegum kringumstæðum að hafa borið skaða af. Það er ekki vegna ásakana Marinós að orðspor Gylfa skaðast, heldur vegna þess að Gylfi hélt í lygina og gerir það enn.
Aðrir ráðherrar sögðust treysta Gylfa og síðan nokkrum dögum síðar fýkur hann úr starfi. Þarna er skýr tvískinnungur á ferð, sem sýnir óheilindi, sem er skýrt merki um óheiðarleika. Því ber okkur skylda til að vera gagnrýnin gagnvart öllu sem frá leiðtogum kemur. Af hverju eru litlar lygar varðar, til annars en að fela stóru lygarnar?
Hafa aldrei verið gerðar kröfur um heiðarleika til íslenskra leiðtoga? Fá þeir að stela, svíkja og ljúga eins og þeim sýnist? Er það hluti af leikreglunum í gjörónýtum leik? Ef svo er, þá eru viðkomandi ekki leiðtogar þjóðarinnar, heldur miklu smærri heildar.
Er það ástæðan fyrir því að hrunvaldar hafa komist upp með alla sína glæpi, þó að komist hafi upp um hvað þeir og leiðtogar þjóðarinnar gerðu af sér? Til er rannsóknarskýrsla sem sýnir vel hvernig þjóðfélag Íslendingar hafa búið við. Verði ekkert gert til að breyta þessu, verður rannsóknarskýrslan að leiðbeiningum um hvernig hægt er að komast upp með sviki og pretti í stórum mæli, og hvernig hægt er að ná og halda völdum í spilltu samfélagi, svona eins og í "Prinsinum" eftir Machiavelli.
Það hefur verið illa gefið í leik þar sem úrslitum hefur verið hagrætt. Heiðarlegt fólk tapar miklu á kostnað þeirra óheiðarlegu, og hinum óheiðarlegu dettur ekki í hug að taka á sig kostnað vegna eigin glæpa; slíkt er ekki eðlislægt manneskju sem ekki er heilsteypt í siðferði sínu.
Í dag er Ísland ranglátt samfélag. Það leikur enginn vafi á því. Rannsóknarskýrslan sannar það. Skortur á aðgerðum fyrir heimilin sannar það. Lygar leiðtoganna sanna það.
Hverjir munu segja hingað og ekki lengra og leita réttlætis fyrir þegna landsins? Réttlæti felst ekki aðeins í því að glæpamönnum sé refsað, heldur líka í að fórnarlömbum verði bættur skaðinn og sýnt fram á að fólk verði verndað gagnvart samskonar glæpum til framtíðar. Að banna súlustaði, ljósabekki, breyta drykkjusiðum, takmarka tjáningafrelsi og deila um kynjahlutföll eru ekki forgangsatriði á krepputímum. Ekki frekar en þegar haldnar voru ræður um að selja áfengi í verslunum, og ótækar vinaráðningar ráðherra varðar með kjaftæði og klóm.
Á meðan við sjáum merki um óheilindi, svik, lygar og þjófnað meðal þeirra sem þykjast ætla að hafa vit fyrir öðrum þegnum, dýpkar kreppan. Það verður ekki fyrr en hreinsað hefur verið til og raðað hefur verið upp á nýtt, að Íslendingar geta unnið sig út úr því ástandi sem orðið hefur til fyrst og fremst vegna óheilinda, lyga, svika og þjófnaðar.
Veritas vos liberabit
Athugasemdir
Takk fyrir frábæran pistil.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.9.2010 kl. 23:56
Ég ætla að kjósa Pál Skúlason, háskólaprófessor, í næstu forsetakosningum, hvort sem hann verður í framboði eða ekki.
Billi bilaði, 6.9.2010 kl. 09:23
Frábær lesning.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.9.2010 kl. 09:37
"Réttlæti felst ekki aðeins í því að glæpamönnum sé refsað, heldur líka í að fórnarlömbum verði bættur skaðinn og sýnt fram á að fólk verði verndað gagnvart samskonar glæpum til framtíðar".
Það var þetta sem fór úrskeiðis eftir Hrun, meirihluti þjóðarinnar skyldi ekki að það væri ekki nóg að gera upp við hina seku, það varð líka að bæta fórnarlömbunum skaðann. Og í stað þess að gera slíkt, þá komust valdhafar upp með að koma á flot flökkusögunni að fórnarlömbin hefðu sjálf getað kennt sér um hvernig fyrir þeim væri komið.
Og almenningur, það er meirihluti hans trúir þeirri sögu.
Takk fyrir góðan pistil.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.9.2010 kl. 10:15
Takk fyrir góðar kveðjur.
Hrannar Baldursson, 6.9.2010 kl. 15:24
Hversu oft heyrist ekki andsvarið "þetta er jú bara pólitík" þegar bent er á óheiðarleika í málflutningi og starfi stjórnmálamanna. Það er eins og það sé viðurkennt að í pólitík gildi aðrar siðferðisreglur en almennt í samfélaginu. Það er í lagi að tala illa um pólitíkusa, ata þá auri og kalla þá öllum illum nöfnum, af því að þeir eru í pólitík. Þetta er einhverskonar leikur sem allir taka þátt í og um leið og honum sleppir, eru allir "bestu skinn" inn við beinið.
Af þessu má draga þá ályktun að samfélagið sé sátt við að óheiðarleiki sé hluti af stjórnsýslu og stjórnmálum. Allir viðurkenna að stjórnmálstarf byggir meira á því sem sýnist vera rétt, heldur en því sem raunverulega er rétt og eru tilbúnir að taka þátt í því af heimum hug.
T.d. vita allir að um leið og þú setur X við staf stjórnmálflokks í kosningum, ertu að gefa honum þitt persónulega valdsumboð til að taka ákvarðanir í þínu nafni. Þér er vel kunnugt um að starf frambjóðenda er ekki alltaf "strangheiðarlegt" er kærir þig kollóttann því hinir flokkarnir eru ekkert betri.
Um leið og þú tekur þátt í þessu ertu orðin hluti að vandamálinu en ekki lausninni.
Svanur Gísli Þorkelsson, 6.9.2010 kl. 15:39
Gott innlegg að vanda og sérlega gott framlag í umræðu dagsins. Jóhanna og Steingrímur halda því fram að botninum sé náð, og mikill árangur hafi náðst í uppbygginu efnahagsmála hjá núverandi ríkisstjórn. Fullyrðingarnar eru vart komnar í loftið, þegar tölur koma frá Hagstofu Íslands, sem benda til þess að þau Jóhanna og Steingrímur hafi verið að ljúga að þjóðinni. ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru sammála um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar, en spunameistararnir reyna að sannfæra fólkið í landinu um annað. Aðeins hörðustu flokkshestar stjórnarflokkana trúa, almenningur ekki. Óheiðarleiki?
Lánamálin eru annað mál. Stjórnvöld hafa reynt að sverta þá sem koma fram með gagnrýni. Óheiðarleiki?
Áframhaldandi spuni í Icesave, þar sem skella á hundruð milljarða álögum á almenning. Óheiðarleiki?
Stjórnmálaflokkarnir virðast ekki hafa lært neitt af hruninu. Þeir eru í klónum á spunameisturum, sem þjóðin vill hvorki heyra né sjá.
Sigurður Þorsteinsson, 6.9.2010 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.