The Wire (2002-2008) *****
29.8.2010 | 19:04
17. maí síðastliðinn setti Jón Gnarr það sem skilyrði til samstarfs við Besta Flokkinn að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka hefðu séð sjónvarpsþættina "The Wire". Ég hafði ekki séð þá og skildi ekki af hverju. Nú hef ég séð þá og tel mig skilja hvað borgarstjórinn var að hugsa.
"The Wire" fjallar um spillingu og hvernig hún eyðileggur líf fólks, hvar sem er í samfélaginu. Allar ákvarðanir sem teknar eru á einu þrepi samfélagsins hafa áhrif á önnur. Fókus þáttanna er á jaðarmenningu: skipulagða glæpastarfsemi og verr skipulagða lögreglustarfsemi og félagslegt kerfi sem er komið í hundana.
Yfirmenn í lögreglu Baltimore hafa hagrætt tölfræðilegum upplýsingum í mörg ár. Þeir nappa smáglæpamenn á kostnað þeirra stóru. Það er ekki fyrr en McNulty rannsóknarlögreglumaður fær algjört ógeð á þessum aðferðum og tekst að koma í gang rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi að eitthvað virðist ætla að breytast.
Þættirnir flétta saman fjölmörgum sögum úr öllum lögum samfélagsins. Meðal þeirra er borgarfulltrúinn Carcetti sem ákveður að bjóða sig fram til borgarstjóra. Heimilislausi dópistinn Bubbles sem þráir ekkert heitar en að komast út úr vitleysunni. Ræninginn Omar sem gengur um með haglabyssu undir síðum frakkar og sérhæfir sig í að ræna glæpamenn. Við fáum að fylgjast með glæpaforingjunum Avon Barksdale, String, Marlo og Grikkjanum; lögfræðingnum sem kennir þeim að forðast dóma, fjölmörgum lögreglumönnum í vestur-umdæmi og morðmálum, og sérstaklega sérsveitinni "Stórfelldir Glæpir".
Þessi sérsveit hefur það markmið að finna upplýsingar um skipulagða glæpastarfsemi og klófesta foringjana. Á leið sinni að glæpamönnunum þarf þessi hópur lögreglumanna að takast á við ýmis vandamál, þá sérstaklega pólitík og skaðlega skammsýni yfirmanna sem kæra sig um ekkert annað en fallegar tölur á pappírum fyrir hvern ársfjórðung, mönnum sem er nákvæmlega sama um hvort að árangur náist gegn glæpum, og hugsa um fátt annað en eigin frama.
Þessi sérsveit er skrautleg. Helsti drifkrafturinn í henni felst í snillingnum Lester Freamon, sem er svona ef þú púslaðir saman Morgan Freeman og Sherlock Holmes og fengir út nútíma persónu. McNulty er einnig fyrirferðarmikill, en hann lifir fyrir að leysa mál. Gallinn er að hann er bitur út í kerfið, og tilbúinn að gera allt til að leysa málin. Hann er líka algjörlega stjórnlaus þegar kemur að áfengi og konum. Svona nokkurs konar Dirty Harry, bara skítugri. Aðrar góðar persónur er hinn óþolandi þurs Herc, góða löggann Carver, hinn seinheppni Prez, Kima Greggs, varðstjórinn Landsman og morðlöggan Bunk. Ég gæti skrifað langa grein um allar þessar frábærar persónur sem fram koma í þáttunum en það er ekki markmiðið með þessari grein.
Markmiðið með greininni er að velta fyrir mér af hverju Jóni Gnarr finnst nauðsynlegt að samstarfsfólks sitt sé viðræðuhæft um þá. Mér sýnist það augljóst. Það er þessi hugsunarháttur sem tengist því að hugsa um borgarbúa annað hvort sem tölustafi eða sem manneskjur.
Þeir sem hugsa um borgarbúa sem tölustafi hafa öfluga tölfræði á bakvið sig til að styrkja sig í sessi. Hinir sem hugsa um borgarbúa sem manneskjur þurfa að horfa upp á einstaklinga þjást, þurfa að átta sig á þeirri ógurlegu fjarlægð við hið mannlega sem virðist nauðsynleg til að geta stjórnað ferlíki eins og borg.
Stóri slagurinn snýst um kerfið og tölurnar sem það þarf á að halda til að virka, og hvernig það valtar áfram yfir allt og alla sem sýna ekki samvinnuhug.
"The Wire" fjallar líka á dapurlegan hátt um að tilgangsleysi þess að vera fastur í kerfi, sama hvort það sé pólitík, skóli, verkalýðsfélag, lögregla eða glæpasamtök, og hversu erfitt er að slíta sig út úr slíku kerfi og lifa lífinu sem frjáls manneskja, og hvernig frelsið felst meira í viðhorfi fólks til lífsins og sjálfsþekkingu, en valdi þeirra yfir öðrum manneskjum. Þættirnir fjalla líka um breytingar á tækni og viðhorfum, og hvernig slíkt hefur áhrif á samfélagsmyndina.
Ég get ekki annað tekið undir meðmæli Jóns Gnarr, að ómetanlegt væri að hafa samstarfsfélaga í stjórnmálum sem hafa horft á og velt vandlega fyrir sér "The Wire", en þeir eru án vafa meðal bestu sjónvarpsþátta sem framleiddir hafa verið.
"The Wire" er hörkugott drama. Margar góðar persónur falla í valinn, persónur sem manni er ekki sama um, og ekkert er dregið úr ljótleika morða eða málfars. Þú getur ekki misst af einum einasta þætti án þess að missa af þræðinum. Besta leiðin til að horfa á þessa þætti er að kaupa þá á DVD og horfa á þá í réttri röð.
Athugasemdir
..er hægt hlaða þeim niður frá netinu?
Óskar Arnórsson, 29.8.2010 kl. 21:51
Ég gerði það sama og þú og get tekið undir þessa greiningu hjá þér. Þessi sería er einkar vel gerð. Hún er í allt öðrum gæðaflokki en megnið af þáttaröðum um löggur, dóp og glæpi sem ég hef þó kvalið mig til að horfa á. Megnið af því er rusl. Eins og þú segir eru margar sögur vafðar inn í hana og hún hristir vel upp víða þó hún sé ekki beinlínis ádeilukennd. Fyndið er t.d hvernig þeir sýna að FBI hafi engan tíma fyrir dóprannsóknir lengur því að þeir séu svo uppteknir við hryðjuverkastríðið. Allt púðrið fari í það. Þetta var víst ekki mjög vinsælt meðal vissra kreðsa í US. Sennilega of satt til að vera gott eins og kom í ljós við eftirmála fjármálakrísunnar. FBI dró nær alla sérfræðingana úr rannsóknarvinnu á efnahagsbrotum yfir í hryðjuverkapakkann. Fyrir vikið fengu fjármáladrengirnir frítt spil til að æfa sig með sub-prime afleiður og annað sukk allt þar til sápukúlan sprakk.
Ólafur Eiríksson, 30.8.2010 kl. 02:52
Óskar: Það er sjálfsagt hægt að hlaða þeim niður á netinu, en það fer eftir hvar þú ert staddur í heiminum á hvaða kjörum þú færð niðurhalið. Ég fór út á bókasafn og tók diskana að láni. Það er ókeypis hérna í Noregi.
Ólafur: Já, sambandið á milli 9/11 og fjármálakrísunnar verður skýrt í þessu ljósi.
Hrannar Baldursson, 30.8.2010 kl. 05:38
Þetta átti nú að vera smá djók vegna temans. Það er ólöglegt skilst mér að hlaða niður svona myndum.
Enn þó ég hafi ekki séð þessa mynd þá þykist ég skilja boðskapinn. Ef menn bíða aðeins með að hella úr skálum reiði sinnar yfir spillingu og stúdera hana eins og hvert annað viðfangsefni, þá kemur margt áhugavert í ljós.
Criminallogi eins og hún er kennd í skólum kennir bara hluta af því sem þarf að vita. Um þessa tegund afbrotahneigðar sem menn kalla "spillingu" til að sleppa við að kalla fólk glæpamenn, er enn áhugaverðara.
Þess vegna fær spilling "aðstoð" frá þeim sem vilja hana burt...af hverju Jón Gnarr vildi að menn sæu þessa mynd, er vegna þess að Jón skilur að fólk lifir við hroðalegt skilningsleysi í "spillingarheiminum"...
Ég hefði sett sem kröfu að menn hefðu stúderað "CON" hugtagið út og inn. Enn það hefði gert folk móðgað og mér hefi verið nákvæmlega sama. Jón er diplomat og ég ekki...
Óskar Arnórsson, 30.8.2010 kl. 06:22
Óskar það er hægt að kaupa þær í Hagkaup og Elko á viðráðanlegu verði eða þar sem þú ert í heiminum.
Ómar Ingi, 30.8.2010 kl. 20:55
Ef þú ert í Bandaríkjunum geturðu keypt niðurhal gegnum Amazon.com eða iTunes.
Hrannar Baldursson, 31.8.2010 kl. 06:14
Ég er í Svíþjóð, vonandi á leið til Cancún í Mexikó sem fyrst...
Óskar Arnórsson, 31.8.2010 kl. 09:08
Í Cancun myndi ég skoða Comercial Mexicana og Sam's Club. Þar gætu þeir átt seríuna á góðu verði.
Er sjálfur á leið til Mexíkó í desember. Veit ekki hvort ég komi við í Cancun. Á góða vini þar.
Hrannar Baldursson, 31.8.2010 kl. 10:27
Ég fletti þessu upp að gamni. Verð bara i 5 daga eða 4 nætur ef af verður...
Óskar Arnórsson, 31.8.2010 kl. 12:28
Hrannar. Takk fyrir þennan ágæta pistil. Ekki veitir af að höggva á spillingar-hnútana og þöggun háttsettra foringja á raunverulega sannleikanum um óréttlæti heimsins. M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.9.2010 kl. 07:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.