Nærast stjórnmál og trúarbrögð á göfugum lygum?

"Það lítur út fyrir að leiðtogar okkar þurfi að notfæra sér í töluverðum mæli lygar og blekkingar til að vernda hagsmuni þegna sinna. Og við segjum að allar slíkar lygar væru gagnlegar sem einhvers konar lyf."

- Ríkið, Plató, 459d)

 

Þessa vikuna virðast lygar ráðherra vera mikið mál fyrir þjóðina og fjölmiðla, en lítið mál fyrir aðra ráðherra og stjórnvöld. Þetta lygamál var frekar gróft og lygin augljós en samt er látið eins og ekkert sé. Íslensk börn fá ókeypis kennslustund í gagnsemi þess að ljúga, en það voru nákvæmlega slíkar kennslustundir sem mótuðu hóp fólks sem við köllum í dag útrásarvíkinga.

Það er ekki mitt mál hvað íslensk stjórnvöld kenna börnum okkar. Mitt hlutvek er að vernda börn mín frá þeirra illsku. 

Ráðamenn kippa sér lítið upp við að upp komst um eina lygi og standa þétt við hlið hins uppvísa lygara. Og ég velti fyrir mér af hverju. Eftir smá umhugsun get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en að hin uppvísa lygi sé aðeins lítið brot úr miklu stærri lygi, og sé litla lygin viðurkennd, sé hætta á að stóra lygin verði afhjúpuð.

En ekki ætla ég að fjalla um íslensk stjórnmál í þessari færslu. Ég hef meiri áhuga á hinu almenna en því sértæka. Hið sértæka gefur vissulega eldsneyti og ástæður til að fjalla um hið almenna, en aðeins með því að fjalla um hið almenna og fjarlægjast þannig eigin skoðanir og tilfinningar um málefnin, getum við séð í gegnum þoku sjálfblekkinga.

Göfug lygi er þegar valdhafar eða leiðtogar setja fram ósanna mynd til að ná tökum á þegnum sínum eða fylgjendum. Þeim er gefin von um eitthvað annað og betra handan seilingar, eða þá að ákveðnar skoðanir eru festar í sessi sem óhagganlegur veruleiki. 

Dæmi um slíkar göfugar lygar eru margskonar sögur um uppruna heimsins, bæði trúarlegar og sumar jafnvel kenndar við vísindi, eins og kenningin um miklahvell. Þannig er hægt að vinna málum fylgi - þeir sem trúa frekar miklahvelli en öðrum sköpunarsögum eru líklegri til að styðja við vísindalegar framfarir, eins og þær séu veruleiki frekar en hugtak. Í stjórnmálum eru notuð hugtök eins og skjaldborg yfir heimilin, björgunaraðgerðir á strandstað, og ýmsar göfugar lygar notaðar til að vinna fylgi. 

Göfugar lygar er hvorki hægt að sanna né afsanna. Ef ég segist ætla að reisa skjaldborg um heimili landsins, hvernig er hægt að sýna fram á að sú skjaldborg sé ekki í byggingu eða hafi ekki verið byggð, þar sem að hún er hvorki mælanleg né til?

Þessar lygar eru til staðar og fólk lætur blekkjast, því það er verið að gefa þeim eitthvað til að grípa þegar veruleikinn er sá að það er ekkert til að grípa í. Þeir sem eru við það að detta ofan af húsþaki græða lítið á að grípa í ímyndaðan kaðal. Þeir sem eru hins vegar við völd græða heilmikið á að sýna fólki sem heldur að það sé að hrapa fram á ímyndaðan kapal sem það síðan rígheldur í og vil ekki sleppa, enda sjá þau fram á bráðan dauða sleppi það tökum.

Það er hægt að spyrja sig hvort að lygar séu einhvern tíma réttlætanlegar. Sumir telja svo ekki vera. En þá vakna spurningar eins og hvort réttlætanlegt sé að ljúga til að koma í veg fyrir að illmenni komist til valda eða vinni einhverjum skaða. Ég held ekki. Því að með lyginni umbreytirðu sjálfum þér og þínum flokki í eitthvað annað illt afl. Þýði sannsöglin það að þú tapir völdum vegna þess að hin illmennin svífast einskis, vakna spurningar um hvort að lygar séu nauðsynlegar til að vernda þá sem þú vilt vernda. 

Vandinn er sá að við fyrstu lygina verðurðu að holdgervingi þess sem þú vildir berjast gegn. Þú hefur orðið að óvini þínum, og verður stöðugt verri eftir því sem þú fléttar lygavefinn lengur. Þannig umbreytist hið besta fólk í skaðræðisskepnur við þátttöku í hinum grimmu stjórnmálum, og það er vegna þessa að ég sjálfur hef ekki viljað taka þátt í stjórnmálum, því ég vil halda í mín eigin heilindi og ekki spillast, og óttast að stjórnmál geti auðveldlega spillt mér eins og flestum öðrum, enda aðeins mannlegur.

Þessi grein sprettur úr vangaveltum mínum yfir lygum viðskiptaráðherra, manni sem virtist algjörlega heill í gegn sem fræðimaður fyrir aðeins tveimur árum síðan, en hefur nú glatað þeim trúverðugleika sem hann hafði, með því að halda fast og klaufalega í ímyndaðan kaðal sem allir sjá að er ekki raunverulegur, nema kannski hann sjálfur. Það að ríkið styðji við bakið á honum staðfestir aðeins að lygin sé miklu stærri og víðtækari en almúginn fær séð.

Einnig sprettur þessi grein úr þeim samræðum sem átt hafa sér stað í athugasemdakerfi síðustu færsla minna, þar sem hart er barist um sannleikann þegar kemur að trúarbrögðum. Þar hafa ólíkar fylkingar tekist á eins og tveir herir á gríðarstórum vígvelli sannleikans, slegið saman sverðum og skjöldum, og sumir komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu í einu liði, og aðrir í öðru liði, en ég sjálfur komist að þeirri niðurstöðu að þetta stríð sé sjónhverfing og ég geti áhyggjulaus ekki aðeins staðið fyrir utan það, heldur smellt á mig vængjum og svifið yfir átakasvæðið og virt fyrir mér fólkið sem slæst hvert við annað og velt fyrir mér hvernig heimurinn væri ef þetta fólk myndi vinna saman að betri heimi, og þá skil ég að hugtakið "betri heimur" getur verið sjálfsblekking ein, þar sem hugtakið sjálft er ekkert annað en göfug lygi.

Pælingar mínar um hinar göfugu lygar hófust þegar ég var barn, en móðir mín hafði sagt mér að ég ætti aldrei að ljúga, ekkert réttlæti lygar. Og ég spurði af hverju, en fékk ekki svör sem ég gat sætt mig við. Samt var þessi hugmynd vakandi í mínu hugskoti og ég velti fyrir mér áhrifum lyga og þess að segja alltaf satt. Ég komst að þeirri niðurstöðu að betra væri að segja alltaf satt vegna þess að ef ég reyndi að ljúga einhverju, þá komst það á endanum upp, þar sem minningin um sannleikann var alltaf sterkari en minningin um lygina. Það er auðveldara að gleyma lygum en hinu sanna. Þar að auki er svo vandasamt að greina hið sanna frá hinu ósanna og átta sig á samhengi þess sem er satt, að lygar eru eins og rafmagnstruflanir í herbergi þar sem þörf er á góðri birtu til að læra.

Það var ekki fyrr en ég fór að lesa heimspeki að ég áttaði mig á að ég var ekki einn í heiminum svo skrítinn að velta þessum hlutum fyrir mér. Og það var þegar ég las Ríkið eftir Plató að ég rakst á málsgrein sem einmitt fjallaði um hina göfugu lygi, og virtist réttlæting á lygum stjórnmálamannsins. Þessi málsgrein vakti furðu mína og reiði. Ég var svekktur út í Plató fyrir að koma með svona rugl, í fyrstu, enda hafði hann í fyrri ritum haldið uppi harðri baráttu gegn sófistum, eða þeim sem ástunduðu sannfæringalist og lygar sem atvinnugrein, og bjuggu til stjórnmálamenn sem gátu rætt mál frá öllum hliðum og notað rök til að koma sjálfum sér til valda, frekar en að leita sannleikans.

Ég velti fyrir mér hvort að einn mesti heimspekingur allra tíma hafi gefist upp í baráttu sinni fyrir sannleikanum. Að sannleiksást hans hafi dáið. Að hann hafi ekki lengur séð tilgang með baráttunni. Að hann hafi verið kominn í hring. Að lygar og blekkingar geti ekki annað en sigrað í stríðinu gegn sannsögli og gagnsæi.

Og að þessi saga hafi endurtekið sig á Íslandi í dag, um 2400 árum síðar.

 

"Hvernig gætum við komið í kring einni af þessum gagnlegu lygum sem við höfum þegar rætt um, göfuga lygi sem myndi, í besta falli sannfæra jafnvel leiðtogana sjálfa, en væri það ekki mögulegt, í það minnsta aðra borgarbúa?

Hvers konar lygar?

Ekkert nýtt, heldur sögu sem lýsir einhverju sem gerst hefur á mörgum stöðum. Það er að minnsta kosti það sem skáldin segja og þau hafa sannfært margt fólk um að trúa orðum þeirra líka. Það hefur ekki gerst meðal okkar og ég er ekki einu sinni viss um að það gæti gerst. Það þyrfti vissulega mikinn sannfæringarkraft til að fá fólk til að trúa því."

- Ríkið, Plató, 414c

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hmmm ég get nú ekki annað en tekið eitthvað af þessari grein til mín :) Mig langar samt að spyrja hvernig er hægt að gefa ósanna mynd af einhverju sem er ekki vitað?

Jónína (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 13:42

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð spurning Jónína. Ef við fáum að minnsta kosti tvær ólíkar myndir af einhverju sem ekki er vitað, þá hlýtur önnur þeirra að vera ósönn. Hugsanlega báðar.

Af hverju tekurðu eitthvað af þessari grein til þín, Jónína?

Ég hef vissulega lesið í gegnum svör þín við síðustu spurningum og viðurkenni fúslega að við hugsum á afar svipaðan hátt, en ég lofa þér að þessi grein er 100% ég, með áhrifum.

Hrannar Baldursson, 14.8.2010 kl. 15:12

3 identicon

En ef maður gefur ósanna mynd af einhverju sem er ekki vitað, þá er nú varla hægt að tala um göfuga lygi?

Ég var nú bara að hugsa um vangaveltur mínar við Val um Miklahvell, var að spá hvort þú værir að telja það sem göfuga lygi :)

Jónína (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 16:32

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jónína:

Ég hefði kannski átt að þýða alla grein Platós, þar sem hann útskýrir hina göfugu lygi, en hugmyndin er sú að komið sé inn hugmynd hjá fólki um hvernig hlutirnir eiga að vera, og ef fólkið trúir þessari hugmynd, verður það hluti af heimsmynd þeirra, sem verður ekki auðveldlega breytt. Fólk telur þessa hugmynd veruleikann sjálfan. Þessi grein í Ríkinu er hugsanlega uppspretta sjálfrar Kirkjunnar.

Í dæmi Platós var fólk fætt með ákveðna eiginleika inn í ólíkar stéttir og átti að lifa sátt í þeirri stétt sem það fæddist inn í. Þegar fólk fer að trúa slíkri lygi, eða goðsögn, og fyrir vikið lifir í sátt og samlyndi, og stefnir að sama marki, þá erum við að tala um göfuga lygi.

Á sama hátt planta stjórnmálamenn sífellt göfugum lygum, en í stað goðsagna, felur lygin í sér von. Hinar göfugu lygar núverandi ríkisstjórnar Íslands hljóma eins og englasöngvar, rétt eins og aðrar göfugar lygar: "skjaldborg fyrir heimilin" er slík lygi. "Gagnsæi" í stjórnsýslu er önnur slík lygi. "Jafnræði" er enn önnur göfug lygi.

Þetta eru allt ómælanlegar yfirlýsingar sem hægt er að rífast um endalaust án þess að þær skili niðurstöðu. Og lygin lifir af allar slíkar þrætur, og verður smám saman að gildi sem fólk stefnir að í lífinu og telur eðlilegt að sé til staðar.

Það er nokkuð ljóst að allir vilja "skjaldborg fyrir íslensk heimili" og jafnljóst að enginn veit hvað það þýðir.

Um Miklahvell: Það er afar göfug lygi, enda kemur þar fram kenning um hvernig heimurinn varð til sem vísar ekki í trúarbrögð, heldur taka vísindin við hlutverki trúarbragða um að sýna fram á uppruna heimsins. Munurinn á því að telja skapara hafa sett heiminn í gang og telja heiminn hafa byrjað með miklahvelli er sá að trúarleg rök (andlegar forsendur) eru flutt fyrir hinu fyrrnefnda en fræðileg rök (efnislegar forsendur) fyrir hinu síðarnefnda.

Það flækir síðan málið þegar siðferðilegum rökum (mannlegar forsendur) er blandað í málið og reynt að ákvarða sannleikann út frá þeim.

Ég sjálfur veit ekki hvort að heimurinn hafi verið skapaður, hafi orðið til af eðlisfræðilegum orsökum, hafi alltaf verið til eða sé einfaldlega ekki til. Síðastnefnda tillagan er ekki svo vitlaus, þó auðvelt sé að hafna henni í fyrstu, þar sem upplifun okkar á heiminum er allt annað en veruleikinn, hvort sem hann er til eða ekki.  

Hrannar Baldursson, 15.8.2010 kl. 07:22

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

"Ég sjálfur veit ekki hvort að heimurinn hafi verið skapaður, hafi orðið til af eðlisfræðilegum orsökum, hafi alltaf verið til eða sé einfaldlega ekki til..."???

Já, enn Hrannar. Eins og allir vita þá er ekki til neitt nema þú sjálfur. Allt annað og allar persónur, allt fólk, heimurinn og geimurinn allur er bara þín eigin ímyndun. Ég er t.d. bara til í þínu höfði sem ímyndun og hugmynd.

Ekkert er til nema þín eigin hugmynd og ímynd. Þú ert raubverulega aleinn í engu innan um hugmyndir sem þú sjálfur ímyndar þér sem efni...ekkert er til nema þú og þín ímyndum sem þú kallar "aðrir"...  

Óskar Arnórsson, 21.8.2010 kl. 18:27

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hehe... Óskar... Sólipsismi. :)

Hrannar Baldursson, 21.8.2010 kl. 18:58

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Sólipismi? Hvað er það?

Óskar Arnórsson, 21.8.2010 kl. 20:18

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Mín eigin þýðing á "Solipsism" en það er viðhorfið sem þú varst að lýsa, Óskar.

Í stuttu máli er Sólipismi það viðhorf að eina örugga vissan sem við höfum er tilvist eigin huga, að allt annað gæti verið manns eigin draumur.

Hrannar Baldursson, 21.8.2010 kl. 20:29

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ok, ég hélt að þetta væri úr einhverju sem heitir "Lila" og kallaður "leikur Guðs" og er eitthvað afbrigði í hindúisma eða einhverri gamalli trú frá Indlandi...ég man ekki lengur hvar ég las það eða hvenær. Ég ætla að grafa upp að gamni þetta með Sólipsism, það er þrælgaman að lesa um svona. Eða mér finnst það gaman..takk fyrir tipsið!

Óskar Arnórsson, 21.8.2010 kl. 22:06

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þegar ég sinni heimspekipælingum í samræðuhópi finnst mér gott að byrja slíkar samræður með spurningu eins og: hvað ef þið væruð bara ímyndun mín. Er nokkur leið til að sýna fram á að þið séuð það ekki? Eftir samræður í töluverðan tíma kemur síðan önnur spurning: hvað ef við erum bara ímyndanir í einum huga sem er ekkert okkar? Og enn önnur: hvað ef við erum ímyndanir í mörgum hugum hvert annars?

Þetta getur verið ágætis æfing í að komast út úr egóisma og átta sig á að heimurinn snýst ekki bara um mann sjálfan þó að sumir haldi það um sjálfa sig.

Hrannar Baldursson, 22.8.2010 kl. 06:46

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

"Lila" eða leikur Guðs eins og ég lærði þetta einhverntíma er einmitt um þetta. Að ekkert okkar er raunverulega til nema hugmynd Guðs. Broslegt þegar maður hugsar til þess að sjalf hugmyndin eða ímyndunin sjálf er að reyna að gera upp við sig hvort skapari þess er raunverulega til...eins og nýverpt egg sem byrjar að hugsa hvort það sé til hæna...og skilur ekkert nema það sem er til fyrir innan skurninna..

Óskar Arnórsson, 22.8.2010 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband