Hvað gerir þig að þeirri manngerð sem þú ert?

Síðan byrjaði ég að hlæja -- fyrst í svefni, síðan vakandi, enda hefur mér verið sagt þetta um sjálfan mig og ég trúað því -- þó að ég muni það ekki -- enda ég hef séð sömu hluti í öðrum smábörnum. Síðan, smám saman, áttaði ég mig á hvar ég var og óskaði þess að segja öðrum óskir mínar, þeim sem gætu fullnægt þeim, en ég gat það ekki! Enda voru þarfir mínar fastar innan í mér, og þau voru fyrir utan, og þau gátu ekki með neinum af þeirra mætti komið inn í sál mína. Þess vegna sveiflaði ég handleggjum mínum og fótum, og grét, gaf þær fáu og veikburða vísbendingar sem ég gat, þó að merkin hafi vissulega ekki verið lík því sem ég þráði innan í mér og þegar ég var ekki sáttur -- bæði vegna þess að þau skildu mig ekki og vegna þess að það sem ég fékk var ekki gott fyrir mig -- varð ég sífellt ósáttari við að hinir eldri hlýddu mér ekki og að þeir sem ég réð engan veginn yfir þjónuðu mér ekki eins og þrælar -- ég hefndi mín á þeim með því að gráta. Það að smábörn séu svona, hef ég lært sjálfur með því að fylgjast með þeim; og þau, þó að þau þekktu mig ekki, hafa sýnt mér betur hvernig ég var heldur en þau sem gættu mín í æsku.

- Játningar Ágústínusar, I.8.

Mér sýnist þessi málsgrein vera sönn. Að svona sjái börn heiminn. Þau finna þörf og krefjast þess að henni sé fullnægt. Þegar börn vaxa úr grasi gerist eitt af fjórum hlutum sem gerir okkur að þeim manngerðum sem við erum:

  1. barnið sættir sig við að fá ekki öllum sínum þörfum fullnægt
  2. barnið sættir sig ekki við að fá ekki öllum sínum þörfum fullnægt
  3. barnið fær öllum sínum þörfum fullnægt og telur að þannig eigi lífið að vera
  4. barnið fær öllum sínum þörfum fullnægt en áttar sig á að þannig þurfi lífið ekki nauðsynlega að vera

Það barn sem tekur fyrsta valið er líklegt til að vera frekar rólegt barn, sem sættir sig við að ýmislegt í þessum heimi sé ekki endilega eins og því finnst að það eigi að vera, og sættir sig við að einhver skil séu á milli óska þess og veruleikans. Sjálfsagt eru flestir í þessum hópi, þar sem fæstir fá allt það sem hugur þeirra girnist. Grunar mig að trúarbrögð spretti út frá þessari ósk um að fá allt sem hugurinn girnist, ef ekki í þessu lífi, þá í því næsta - og trúarbrögðin setja saman reglur og vinnubrögð um hvernig hægt er að nálgast slíkan heim.

Það barn sem tekur val þrjú er líklegt til að krefjast sífellt einhvers af öðrum, og fær óskir sínar uppfylltar. Það verður stjórnsamt og áttar sig á að börn úr hópi eitt geta talið að hópur þrjú sé bara eitt af þessum fyrirbærum sem er ekki eins og maður óskar sér, og því finnur slíkt barn annað fólk til að fullnægja þörfum sínum og telur að þannig eigi heimurinn einfaldlega að vera. Ef einhver setur sig gegn óskum slíks barns, sættir það sig engan veginn við slíkt, og grætur með öllum sínum mætti þar til það fær nákvæmlega það sem það vill. Í hópi eitt og þrjú erum við komin með fyrirmyndir af stjórnendum og starfsmönnum í samfélagi, fólk sem trúir að þannig sé lífið og þannig eigi það að vera.

Þau börn sem lenda í hópi tvö, þau sem fá ekki þörfum sínum fullnægt og sætta sig engan veginn við það, eru líkleg til að verða frekar reiðir einstaklingar og leita leiða til að fá þörfum sínum fullnægt en finna þær hvergi. Einu svörin sem þessi börn finna eru tímabundin og öfgafull. Leiti þau í trúarbrögð, verður trúin að vera sterk. Leiti þau í dóp, fara þau alla leið.

Þau börn sem eru í fjórða hópnum byrja með mikið forskot í lífinu, því þau eru frjáls. Þau hafa fengið það sem þau óska sér og læra smám saman að þannig þurfi lífið ekki endilega að vera. Þau átta sig á að eigið val hefur áhrif á framtíðina og hvernig þau geta mótað eigin líf og samfélag með ólíkum hætti en þau sem eru í hópum 1-3.

Það sem gerir þetta spennandi, er að enginn er fastur í sínum eigin hóp af einhverjum ytri mætti, heldur verða viðkomandi fangar eigin viðhorfa og tilfinningar um hvernig lífið eigi að vera. Það er erfitt að breyta sér eftir að hafa alist upp á einn ákveðinn hátt, og það er fangelsi sem við lendum öll í. Við getum aðeins brotist út úr slíkri geymslu ef við viljum það, og hef ég ákveðnar efasemdir um að við myndum vilja það, enda höfum við sterka tilhneigingu til að trúa því að heimurinn sé eins og við upplifum hann, óháð því að upplifun okkar á heiminum er byggð á gjörólíkum forsendum.

Þó að börn þegar þau vaxa úr grasi átti sig á að þau eru öðruvísi en önnur börn, þá hafa þau enga sérstaka þörf til að verða eins og börnin í hinum hópunum, heldur eru líklegri til að leita uppi þá sem eru þeim líkari í lífsskoðunum.

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held því fram að við séum það sem við gerum.

Á hverju andartaki lífsins stöndum við frammi fyrir því að taka ákvarðanir.

Valið er þrenns konar:

1. Gera rétt eftir okkar bestu vitund hverju sinni.

2. Gera rangt af ýmsum ástæðum hverju sinni.

3. Gera ekkert af ýmsum ástæðum hverju sinni.

Allar þessar smáu ákvarðanir sem við tökum móta síðan líf okkar og gera okkur að þeim persónum sem við erum plús/mínus líkamleg og geðlæg áhrif.

Hef ekki tíma til að rökstyðja þetta nánar hér og nú, en kasta þessu fram ef einhver skyldi vilja grípa það.

Grefill (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 07:55

2 identicon

Ein spurning: er hægt að fá ÖLLUM þörfum sínum fullnægt? Það er talað um grunnþarfir eins og þörf fyrir mat og drykk. En svo er hægt að hafa þörf fyrir ást, virðingu, þekkingu. Er nokkur endir á öllum þörfunum?

Annað: Mér finnst þessi flokkun ekki svara spurningunni í fyrirsögninni. Er ekki "manngerð" eitthvað svipað og "skapgerð"? Ég held að skapgerð sé einhver blanda úr erfðum, uppeldi og sjálfstæðum ákvörðunum hvers og eins.

Þriðja: Sumir þurfa ekki mikið, þeir eru nægjusamir, láta sér nægja það sem þeir hafa. Aðrir vilja alltaf meira en þeir hafa þörf fyrir. Það er spurning um skapgerð.

Niðurstaða: Manngerð eða skapgerð útskýrir flokkana þína (sumir láta sér nægja það sem þeir hafa, aðrir vilja alltaf meira) ekki öfugt.

(Þetta þyrfti að vera skýrara en þú færð manni allavega eitthvað að hugsa um).

Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 11:07

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Skúli: ég sé ekki í fljótu bragði hver munurinn er á manngerð og skapgerð (enda nota ég þessi hugtök ekki oft í daglegu máli), en samt geri ég þann greinarmun að skapgerðin sé af náttúrunnar hendi en manngerð hins vegar lærð.

Kannski skiljum við þessi hugtök á ólíkan hátt?

Greinin átti reyndar upphaflega að heita "Hvað gerir þig að þér?" en á síðustu stundu, áður en ég rauk út úr íbúðinni og á hjólið og í vinnuna, breytti ég heitinu. Mér sýndist manngerð passa vel sem lýsandi orð yfir það sem einhver er.

Hrannar Baldursson, 13.8.2010 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband