Getum við hugsað um ekkert?
7.8.2010 | 06:54
Fyrir nokkrum árum sökk ég í djúpar pælingar um ekkert og eftir marga daga, vikur, mánuði eða ár komst ég að þeirri niðurstöðu að hugmyndin um ekkert væri hugsanlega hvaðan hugmyndin um guði og Guð sprettur úr. Fátt er jafn gefandi fyrir mannshugann en að íhuga vandlega ekkertið og hvaða tengingar þetta hugtak hefur við veruleikann.
Þessi hugmynd kviknaði þegar ég var í þjálfun sem heimspekikennari í New Jersey árið 1993. Börnin voru sex ára og hugmyndin var að ræða saman um siðfræðileg mál eins og mikilvægi þess að íhuga af hverju reglur verða til, hvort réttlætanlegt sé að drepa dýr til matar, og hver munurinn er á manneskjum og dýrum er þegar kemur að hugtaki eins og slátrun. Ég vil taka það fram að þessar hugmyndir komu hvorki frá mér né kennsluefninu, heldur eru þetta pælingar sem spretta iðulega upp í samræðum sex ára barna.
Reyndar er oft talað um að börn séu mun grimmari en fullorðnir. Ég held að það sé satt, en ástæðuna tel ég einfalda. Þau eru öll manneskjur og hvert og eitt þeirra hefur sínar eigin skoðanir um lífið og tilveruna, og þessar skoðanir eru jafn réttmætar hjá börnum og hjá fullorðnum. Sex ára barn hefur gífurlega lífsreynslu, sem því miður er oft gert lítið úr. Ég held að börn séu oft grimm því þau fá ekki tækifæri til að vinna úr málefnum sínum með því að ræða saman. Þau kunna það ekki. Þau fá stanslausa ítroðslu á staðreyndum, kenningum og skoðunum kennara, en fá lítil tækifæri til að móta sínar eigin skoðanir, nema með undantekningum - og þaðan spretta snillingarnir.
En hvað um það. Í þessari kennslustund með sex ára börnum sem hófst með því að ég stóð fyrir framan þau og ætlaði að kynna mig, en þá stóð kennari barnanna upp og sagði að þau ættu eftir að flytja "Pledge of Alliegence" þar sem börn tjá virðingu sína fyrir föðurlandinu og fánanum, með algjörlega tómum svip þar sem ekki er hægt að sjá annað en orðin fara bara út um munninn og streyma út í buskann. Svipað og þegar maður situr í kirkju og hlustar á trúarjátninguna.
I pledge allegiance
to the flag
of the United States of America,
and to the Republic for which it stands:
one Nation under God,
indivisible,
With Liberty and Justice for all.
En hvað um það. Í sögu sem ég las fyrir hópinn situr stúlka fyrir framan spegil og veltir fyrir sér hvað andlit hennar er ófullkomið. Augun ekki nákvæmlega rétt staðsett og nefið aðeins á röngum stað, einhverjar tennur skakkar og svo framvegis, en foreldrar hennar höfðu gefið henni þennan innrammaða spegil í afmælisgjöf og hún var að velta fyrir sér hvort það væri vegna þess að þeim fannst að hún þyrfti að passa aðeins betur upp á útlitið. Margar aðrar hugmyndir eru settar fram í sögunni, en börnin festu sig við þessa málsgrein, og þá sérstaklega eina hugmynd sem kom frá þeim sjálfum.
Þessi lýsing er skrifuð eftir minni, og þar sem næstum tveir áratugir hafa liðið, hefur eitthvað af ímyndunarafli mínu tekið við þar sem gleymskan hefur tekið völd.
Spurning eins nemanda hljómaði þannig: "Hvað sjáum við í speglinum eftir að við slökkvum ljósið og horfum samt áfram í hann?"
Það komu bara þrjú svör:
- Svart
- Myrkur
- Ekkert
Ég spurði börnin hvað þessi fyrirbæri væru. Þau voru fljót að svara því að svart væri ekki litur, heldur fjarvera alls litar, og að myrkur væri fjarvera alls ljóss. Þegar kom að útskýringu á Engu, þá vandaðist málið.
- Eitthvað er eitthvað sem er ekki
- Eitthvað er fjarvera hluta
- Eitthvað er ósýnilegt
- Eitthvað er eins og hvítt, en líka eins og svart, samtímis
- Eitthvað er það sem kemur eftir dauðann
Allar þessar hugmyndir voru ræddar, en það að eitthvað væri eitthvað sem kemur eftir dauðann vakti mesta athygli barnanna.
"Það er ekki satt, við förum til himnaríkis þegar við deyjum," sagði eitt barnið. "Já, það kemur svona ljós í göngum og við förum inn í það."
"Nei," sagði einn svolítið kokhraustur strákur. "Það er vísindalega sannað að maðkar éta okkur. Hugsið ykkur hvað væri óþægilegt að vita af því. Þið sem haldið að ekkert sé eftir dauðann eða himnaríki, þið vonist bara til að komast hjá sársaukanum sem fylgir því að vera étinn af möðkum."
Óneitanlega var þessi hugmynd svolítið óhugnanleg, en þá sagði eitt barnið. "Við vitum ekki hvað verður um okkur þegar við deyjum, en getum við ekki útilokað ekkertið?"
"Nú? Af hverju?" spurði ég.
"Ekkertið getur ekki verið til. Ef ekkert væri til, þá væri ekki neitt annað. Við gætum ekki upplifað ekkert, því það er ekki til staðar, og ef það er ekki til staðar gætum við ekki heldur verið til staðar til að upplifa það."
"Nei," sagði annað barn. "Við getum ekki upplifað það því þegar við erum dauð erum við ekki lengur til. Þess vegna sjáum við ekkert."
"Hvað nákvæmlega er þetta ekkert?" spurði annað barn.
"Ekkert er ekki eitthvað. Þegar eitthvað er ekki lengur, þá er ekkert," sagði eitt barn.
"En ef það er ekki lengur, þá var það kannski og verður, og ef eitthvað var eða verður, þá getur það varla verið ekkert?" spurði annað barn.
"Hausinn á mér," sagði eitt barn. "Mig svimar, þetta er svo erfitt."
"Já," sagði ég. "Á meðan við veltum hlutunum fyrir okkar getum við fundið til þreytu og svima, rétt eins og í leikfimi, að líkaminn þreytist við mikla áreynslu. Við jöfnum okkur þegar við förum að hugsa um annað."
En það sem virðist gera eftir svona kennslustundir er að börnin fara með hugmyndirnar heim til foreldra sinna og ræða málin við þau. Flestir foreldrar eru þakklátir slíkum samræðum, en svo eru sumir sem hneykslast á að skólinn skuli leyfa börnum að hugsa um hvað sem er. Og kröfur þeirra foreldra hljóma oft ansi hátt og verður til þess að forðast er að nálgast frjálsa hugsun eins og þá sem heimspekin boðar.
Samræðurnar héldu áfram. Ekki fullkomnar. Engan veginn. Sum börn virtust vera með hugann við annað, og sum börn hvísluðust á, nokkuð sem kom í ljós eftir tímann að pirraði kennarann sem sat aftast í stofunni, gífurlega mikið. Hann heyrði ekki samræðuna, hann sá bara hegðunina. Það fannst mér merkilegt. Málið er að maður getur ekki reiknað með einum öguðum þræði í slíkum samræðum, heldur verður maður að hlusta eftir þeim hugmyndum sem hafa möguleika til að vekja aðrar hugmyndir. Hugmyndir sem erfitt getur verið að festa niður.
Eftir nokkrar mínútur þar sem börnin voru í raun að slaka á með því að fara út um víðan völl kom spurning sem hélt samræðunni um ekkert áfram:
"Getur ekkert verið til?"
Þögn sló á hópinn. Og annað barn spurði:
"Getum við gert okkur hugmynd um ekkert?"
Og annað barn sagði. "Ég bara hef ekki hugmynd um hvað ekkert er. Getum við hugsað um ekkert, ef það er ekki til og við getum varla gert okkur hugmynd um það?"
Þá hringdi bjallan og ég þakkaði börnunum fyrir þátttökuna. Þau stigu brosandi á fætur og ýttu stólum sínum í hefðbundnar raðir. Þau þökkuðu mér fyrir komuna og ræddu aðeins við mig um Ísland og hvernig Ísland hefði átt að heita Grænland og Grænland Ísland, og spurðu mig hvort ég spilaði körfubolta af því ég var svo stór, og þar fram eftir götunum.
Síðan ræddi ég aðeins við kennarann frammi á gangi. Þar sem ég hafði upplifað gífurlega flóru af spennandi hugmyndum, hafði hann upplifað frekar óagað umhverfi þar sem sum börn komust upp með að leika sér með blýant milli fingranna.
Jæja, þetta hafði nú bara verið fyrsta heimspekikennslustund mín með börnum, og ekki gæti hún verið fullkomin frekar en annað - þó að mér hafi fundist hún ákaflega spennandi og gefandi. Eftir þetta hef ég varið hundruðum klukkustunda á sambærilegan hátt, á Íslandi, í Bandaríkjunum, Mexíkó og Suður Ameríku. Og alltaf tekst samræðunum að taka á sig spennandi mynd.
En hvað segir þú?
Getum við gert okkur hugmynd um ekkert? Og ef þú getur gert þér hugmynd um ekkert, geturðu lýst henni? Það væri gaman að sjá tilraunir til þess á athugasemdakerfinu. Engu skiptir hvort hugmyndin sé fullmótuð eða ekki, fullkomin eða löskuð, klaufalega orðuð eða vel. Allar athugasemdir velkomnar.
Sumir hafa viljað þagga niður í umræðum um ekkert með því að kalla þær orðaleiki og einskis virði, en hvernig geta umræður verið einhvers virði nema þær séu ástundaðar?
Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:
- Eru trúaðir heimskari en trúlausir?
- Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?
- Eru vísindalegar sannanir mögulegar?
- Eru hvorki trúarbrögð né trúleysi til?
- Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?
- Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?
- Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Loks vil ég þakka Óskari Arnórssyni með athugasemd sinni númer 115 í færslunni Eru trúaðir heimskari en trúlausir? og öllum hinum sem virkan þátt hafa tekið í athugasemdum fyrir að hvetja mig áfram eftir þessum brautum. Mér finnst svona heimspekilegt blogg mun áhugaverðara en pólitískt gagnrýnið blogg, sem þó er vissulega nauðsynlegt og gagnlegt, en þetta er meira uppbyggjandi fyrir þá sem vilja þjálfa sig í því sem vantar mikið í samfélag okkar: samræður þar sem þeir sem eru ósammála geta fundið sameiginlegan grundvöll og hlustað hver á annan. Við eigum kannski ennþá langt í land, en þetta er leið sem mig langar að skoða.
Athugasemdir
Takk fyrir athugasemdina Hrannar. Gaman að sjá að þér finnist gaman að þessum vangaveltum og líka að sjá þetta svona uppraðað hjá þér.
Ég á erfitt með að koma orðum að því sem ég hugsa, enn hugsa oft þegar ég les pistlana þína: "Já einmitt svona" Aha! Svona hugsaði ég þetta sjálfur. Ég gat bara ekki komið orðum að því enn þekkti það strax og ég sá það niður skrifað með skipulögðum hætti....
Einmitt mín hugmynd um "ekkert" (meðan ekki finnst betra orð) verður skýrari hjá mér fyrir vikið. Frá mér séð er hugmyndin um "tómið" sem hægt að líta á sem landamæri okkar "raunveruleika" eða eins og hann er algengt þekktur í dag. Það á ekki samt við um alla.
Þetta verður eins og með tímann, sem er bara hugmynd búin til úr okkar eigin stjörnukerfi. Við eru að reyna að "mæla" allt allt útfrá pínulitlu stjörnukerfi sem er að stærð, miðað við það sem við vitum um geiminn í dag, bara sandkorn í Sahara.
Ég hef lesið að raunverulega noti við bara 10% eða minna af heilanum. Það hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir að nota restina í í eitthvað gagnlegt. Enn í hvað?
"tómið" er samkvamt mínu mati jafn raunverulegur og allt annað sem við köllum raunveruleika. "Tómið" er fullt af lífi. Bara ósýnilegu lífi við fyrstu sýn. Ef ég vildi bæta einhverju við á þennan lista hjá þér væri það meðvitund.
Ég nota að gamni 10% regluna um að manneskja sé cirka með 10% af meðvitund miðað við hugsanlega getu. Restin ur þessi fræga undirmeðvitund og ég trúi að hún sé tengd inn í "tómið".
Oftast er þessi s.k. undirmeðvitund stúderuð af sálfræðingum og svipuðum, hafa þeir næstum einkarétt á Undirmeðvitundinni.Auðvitað myndi margt skemmtilegt koma í ljós ef t.d. verkfræðingar og starðfræðingar myndu skoða undirmeðvitundinna af sma áhuga. Með "tómið" í huga.
Sem dæmi þá er auðvelt að álíta að þegar við sofum og dreymum þá hverfur allur s.k. "raunveruleiki", draumurinn verður "raunveruleiki stutta stund og við skiljum strax og við vöknum að þetta var draumur. Það eru samt til draumar þar sem maður er fullkomnlega meðvitaður um það að maður er bara sofandi, maður veit hvar og getur þess vegna haft mjög gaman af því að vera meðvitaður um þetta.
Enn venjulegast þá afgreiðum við bara drauminn og gleymum honum. Förum bara í vinnuna og allt er eins og áður. Sumir fá áhuga á að þýða þetta og kann ég ekkert um þau mál.
Mín skýring á "tóminu" þar sem t.d. er ekki útilokað að maður sæki hugmynd sína og tengingu við Guð, án þess að skilja það nánar. Eða frekar án þess að geta skilgreint það nánar.
Það er gömul skýring að lífið fari allt í hringi. Sjálft lífið sé endalaus endurtekning og jafneðlilegt að vitsmunalegt líf vakni aftur og aftur og er það hugmyndin um mörg líf. "tómið" setur fólki skorður að hugsa þetta með skipulögðum hætti. Krafa um "sannanir" setja þessu þröngar skorður því reglur um hvað sé sönnun er svo ófullkomin.
Alla vega svo ég bara tali um persónulega skoðun mína, þá er er að sjálfsögðu ekkert "tóm" til. Það lítur bara út fyrir að vera "tóm". Meðvitundin nær bara að skilgreina hlutina að þessum landamærum.
Takmarkið er að lyfta þessum landamærum í burtu. Sjá allt líf sem þar er. Það er óskaplegur heimur. Jafnraunverulegur og þessi sem við tilheyrum í dag. Hann er eins og spegilmynd af þeim sem við lifum í, enn samt öðruvísi.
Við veljum að að kalla hann "ekkert" eða "tóm", bara af því að efnið í honum er öðruvísi enn í þessum heimi sem við tilheyrum akkúrat núna. Kanski ætti maður að byrja á að gefa honum almennilegt nafn. Svo allir vit hvað sé talað um.
Það er bara hollt fyrir alla að skoða þetta mál. Það er fyrir mér stór hluti af meiningunni með lífinu. Ég gæti komið með mína lýsingu af þessum heimi enn sleppi því á blogginu. Þeir sem búa í "ekkertinu" eru flestir í sömu stöðu og við "hérna megin". Þeir hugleiða það hvort við sé um til.
Þeir sjá okkar heim eins og við þeirra. Sem ekkert eða bara tóm. Og þegar þekkinginn hefur gert þetta "tóm" skýrt og greinilegt, þegar þessir tveir ólíku "raunveruleikar" eru orðnir jafn fastir í sessi í hugum manna og landafræði nútímans, þá er hægt að leita enn lengra út...
Óskar Arnórsson, 7.8.2010 kl. 08:27
Ég skil reyndar ekkert og tóm sem ólík hugtök.
Að tóm hafi ytri takmörk, einhvers konar ramma utan um tómið, en ekkert hafi hins vegar engan slíkan ramma.
Pælingar þínar um drauma minna mig svolítið á "Inception", sem ég hef fjallað stuttlega um hérna, bestu bíómynd síðan Avatar kom út 2009, en í stað þess að skapa magnaðan ytri heim tekst höfundum að skapa magnaðan innri heim. Hafirðu ekki séð hana verðurðu að skella þér í bíó.
Hrannar Baldursson, 7.8.2010 kl. 08:52
Ég segi nú bara eins og barnið að mig fer hálfpartinn að svima þegar ég reyni að hugsa um ekkert. Ástæðan er sú að "ekkert" er óendanlegur óraunveruleiki sem kastast bara fram og til baka, svipað og ef maður horfir á gagnstæðan spegil í spegli.
Það fyrsta sem þú sérð þegar þú horfir í gagnstæðan spegil úr spegli er "aðrar veraldir" hliðstæðar þeirri sem þú ert í. Þar vantar ekkert í hinar veraldirnar sem er að finna í þinni veröld. Þú ert til staðar, speglarnir tveir eru til staðar og herbergið sem þú ert í er til staðar.
Það eina sem skilur á milli er raunveruleikinn - eins og þú sérð hann. Á meðan þú ert hér og önnur nákvæmlega eins veröld er í speglinum þá segir vitund þín þér að þín veröld sé sú raunverulega á meðan veraldirnar í speglinum séu óraunverulegar.
Og ef veraldirnar í speglinum eru í raun ekki til, þótt við getum greinilega séð þær með eigin augum - þá hljóta þær í leiðinni að vera þetta "ekkert" sem við erum að reyna að búa okkur til mynd af.
Þetta er kannski ekkert langt frá "draumapælingu" Óskars hér fyrir ofan og e.t.v. tengdt henni.
Göltur Smári (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 09:21
Ég er sammála Hrannari með að "ekkert" er allt annað en "tóm" í mínum huga. "Ekkert" er raunverulega til, meira að segja sjáanlegt, en er samt ekkert þegar betur er að gáð, eins og ég var að reyna að lýsa með spegladæminu hér fyrir ofan.
Göltur Smári (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 09:26
Athugasemd 3, Göltur Smári:
Eitt sem mér sýnist þú gleyma, er að reynsla okkar á fyrsta speglinum er líka endurvarp, en það er endurvarp þess sem við köllum veruleika gegnum skynjun okkar. Skynjun okkar er hluti af endurvarpsferlinu.
Þetta meina heimspekingar þegar þeir meina að skynjun okkar geti ekki verið þekking á veruleikanum. Því hefur verið reynt að ná tökum á veruleikanum verð rökhugsun fyrst og fremst.
Það eru stöðug átök milli þeirra sem telja mögulegt að festa hendi á veruleikann:
- út frá skynjunum (raunhyggja)
- út frá rökhugsun (rök- eða hughyggja)
- út frá hvoru tveggja og fleiri forsendum séu þær mögulegar (skynsemishyggja (?))
- út frá hvorugu (efahyggja)
Innlit þitt Göltur Smári er stórskemmtilegt. Velkominn í frekari samræður.Hrannar Baldursson, 7.8.2010 kl. 09:40
Þegar hlutir fara að snúast um hugtök og orð, er mikilvægt að skilgreina. T.d. var ég að lesa bók einu sinni á ensku sem ég vil helst ekki lenda í að skjýra neitt nána, enn þar kom fram orð sem hafði svo flókna merkingu að maður varð að lesa 15 blaðsíðna hefti til að fá meinunguna alveg á hreint.
Eftir það var miklu auðveldara að skilja hvað bókinn snerist um.
Orðið "ekkert" og "tóm" er það sama fyrir mér. Enn það má kanski nota það fyrir sitthvora meiningunna. Tökum dæmi um hugmyndamódell:
"Maður situr og ímyndar sér að maður geti minnkað sjálfan sig svo mikið að atom sé á stærð við fótbolta. Svo plokkar maður lítið gat á atómið og fer inn í það. Í fyrstu snúast prótrónur og neftrónur á miklum hraða um hvort annað og þá minnkar maður sjálfan sig enn meira.
Maður minnkar sig nógu mikið til að atómið séð innanfrá er að verða eins og heil veröld. Við minnkum okkur enn meira og förum á "sporbraut" og á sama hraða og t.d. ein neftróna. Eftir því sem við minnkum meira fer að koma í ljós að "efnið" sem er þarna óneitanlega, gisnar og verur að "sólkerfum?" og eftir því sem minnkuninn verður öflugri, þá fara "plánetur" að taka á sig mynd.
Ef við nennum og getum beitt huganum nógu mikið, "lendum" við í huganum á einni "plánetunni" og sjáum eitthvað sem líkist "sólkerfi" allt í kringum okkur."
Til að skilja marga hluti þarf fyrst að skapa "skýringamodell" og þau eru til í allskonar útgáfum. Eltingaleikurinn við að sanna eitthvað þarf að koma á EFTIR að menn eru búnir að koma sér saman um hvað hvert orð þýðir. Þá er fyrst hægt að rökræða hlutina.
Óskar Arnórsson, 7.8.2010 kl. 09:46
Athugasemd 6, Óskar:
Flott ferðalag inn í atómið. Takk. :)
Eitt vandamál: ef við þekkjum ekki merkingu hugtaks, og hugsanlega þekkir enginn viðkomandi hugtak, heldur aðeins nafn þess, og hefur aðeins mótað sér skoðun á hvað það þýðir, hvernig getum við komið okkur saman um hvað hugtakið þýðir án þess að þekkja annað en nafn þess? Ef við komum okkur saman um skilgreiningu á hugtakinu, sem er rétt, og gefum því svo villandi nafn, erum við þá fyrirfram dæmd til að bulla?
Eða er kannski einhver leið út úr þessu?
Mörg nöfn hugtaka eru gjörsamlega tóm af merkingu eftir aldalanga misnotkun, og stundum getur verið réttlætanlegt að finna nýtt nafn. En þá spretta upp ný vandamál, eins og hvort öll misnotkun nafnsins hafi hugsanlega verið réttlætanleg og unnið að frekari mótun á skilningi okkar um hugtakið sjálft.
Ég hef lesið töluvert eftir Charles Sanders Perice, en hann hafði svo miklar áhyggjur af þessu, að hann bjó oft til ný nöfn á gömul hugtök, til að þvo af þeim drulluna sem almenn notkun hefur sankað af sér.
Spurning hvort að hugtakahreinsun sé réttlætanleg. Ég veit það ekki.
Hrannar Baldursson, 7.8.2010 kl. 09:57
Það sem þú ert þarna að segja, Óskar, er hluti af þeirri hugmynd að allt sé í raun einhvers konar hringur. Ég hef oft hugsað mér þetta nákvæmlega svona eins og þú lýsir ... að það sé alveg sama hversu lítið eitthvað er frá þeim sjónarhóli sem við stöndum á að það er alltaf til eitthvað sem er minna. Sama gildir um hina áttina, það er alltaf til eitthvað stærra en það sem við sjáum.
Einhvern veginn, einhvers staðar, kemur þetta síðan í hring, frekar en að vera óendanlegt í báðar áttir ... eða hvað?
Við þurfum ekki að deila um hvað "tóm" þýðir, bara vera með það á hreinu hvernig hver okkar skilur það. "Tóm" fyrir mér er bara nákvæmlega það, tóm ... vegna þess að ekkert í því. En þetta "ekkert" finnst mér annað eins og ég var að reyna að lýsa með spegladæminu.
Það vill svo skemmtilega til að áður en þessi umræða kom upp var ég einmitt að velta því fyrir mér hvort hægt væri að búa til mynd af engu. Það liggur fyrir að ekki er hægt að teikna slíka mynd því um leið og þú reynir það þá er þetta "ekkert" orðið að einhverju og þar með fallið um sjálft sig.
Og ekki getur maður hugsað án þess að búa sér til mynd. Ef maður reynir það þá er það fyrsta skrefið að því að láta leggja sig inn. Þess vegna datt mér í hug þetta spegladæmi. Þar myndi ég geta teiknað upp mynd af einhverju sem væri í raun ekkert við nánari skoðun. Ég veit að myndlíkingin er ekki fullkomin, en hún er sú besta sem ég hef fram að færa.
Hrannar: Nei, ég ekki beint "gleymdi" þessu heldur skautaði framhjá því til að komast að punktinum. Í fyrstu myndinni sérð þú bara spegilmyndina sjálfa þeas andlit þitt. Í spegilmynd spegilmyndarinnar sérðu hins vegar hnakkann á þér og í öllum spegilmyndum eftir það sérðu hnakkann og andlitið til skiptis þannig að til samans verður það "heilmynd" á meðan fyrsta speglunin er bara "hálfmynd" ... ef þú skilur hvað ég meina.
Göltur Smári. (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 10:27
Afskaplega áhugaverðar pælingar hér á ferð. Hef engu við orð ykkar herramanna að bæta, en nýt þess því betur að fylgjast með.
hilmar jónsson, 7.8.2010 kl. 10:54
Fyrirgefðu að ég skuli skjótast aðeins í aðra átt frá þínum stórskemmtilegu pælingum.
Hvað er að sjá spegilmyndir? Ég meina, þegar þú horfir á spegilmynd af sjálfum þér sem speglast í öðrum spegilmyndum, og sérð þannig fjölda ólíkar spegilmyndir af heiminum sem engin er alveg eins og önnur, vegna þess að þær eru endurvörp, en jafnframt hlýtur sá sem skynjar að sjá allar þessar spegilmyndir og þar af leiðandi falla þær inn í hans veruleika.
Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort að við sjáum raunverulegar spegilmyndir af veruleikanum eða hvort það sem við sjáum sé skynjun okkar og túlkun á því sem við sjáum.
Getum við séð eitthvað án þess að túlka?
Og segjum þá að við reyndum að sjá ekkertið sem endalausar endurspeglanir af myrki eða tómi, gætum við það án túlkunar á ekkertinu sjálfu?
Hrannar Baldursson, 7.8.2010 kl. 11:04
Ég hef EKKERT.
Ómar Ingi, 7.8.2010 kl. 11:37
Hrannar, ég er ekki alveg að skilja hugsanabrautina sem þú ert á og ekki viss um að þú skiljir mína.
Þess vegna, í stað þess að svara þér, langar mig að reyna að útskýra hvert pælingin, þ.e. mín hugsanabraut um "allt og ekkert", hefur tekið mig.
Ég hef alltaf velt fyrir mér "tilgangi lífsins" eins og líklega flestir og hvaðan þetta "allt sem er" er komið.
Um nokkurt skeið, nokkur ár, hef ég gefið mér ákveðnar forsendur til að hugsa út frá, nokkurs konar grunn til að standa á. Ég er að vona að ég muni að lokum geta tengt hinar ólíku hugmyndir saman við þennan grunn.
Markmiðið er að geta útskýrt fyrir öðrum heildarmyndina af tilgangi lífsins.
Grunnur 1: Lífið og allt sem er, er í raun hringur, samt ekki þrívíður hringur eins og skynjun okkar þekkir heldur margvíður hringur sem nær yfir allt mögulegt rúm sem hægt er að hugsa sér.Ef rúmið eykst, stækkar hringurinn utan um það.
Grunnur 2: Tíminn er í raun bara stærð efnis, rúmið sem það er í og fjarlægð þess hvert frá öðru. Og þar sem stærð alls, rúm alls og fjarlægð alls breytist, að vísu mismunandi mikið eða lítið eftir afstæði okkar, þá finnst okkur sem tíminn líði. Hann "líður" hins vegar ekki af sjálfu sér, heldur eftir því sem allt hitt breytist (ef allt væri stopp, þá liði enginn "tími").
Grunnur 3: Þar sem allt sem gerist er innan í óendanlega víðum hring (það er aldrei til neitt rúm utan hringsins), þá gerist i raun allt aftur ... aftur og aftur ... en ekkert endilega á sama stað ... eða réttara sagt ALDREI alveg eins á sama stað.
Grunnur 4: Þar sem allt gerist aftur og aftur á mismunandi stöðum innan í óendanlega víðum hringnum þá gef ég mér að "alheimarnir" séu óendanlega margir, rétt eins og stærðfræðitala getur verið óendanlega stór (eða lítil).
Grunnur 5: Alveg sama hve okkur finnst eitthvað (hlutur, efni) vera stórt eða lítið, þá er alltaf til eitthvað sem er minna eða stærra. Stærð hluta stoppar hvergi heldur finnst okkur það bara vegna afstæðis okkar til hlutanna.
Grunnur 6: Samt getur ekkert verið óendanlegt þótt það líti út fyrir að vera það í fljótu bragði heldur endar allt alltaf þar sem það eða annað byrjar og þannig fari allt "að lokum" í hring. Það er hvorki til upphaf né endir á neinu, bara staða.
Út frá þessu hef ég verið að velta því fyrir mér hvort "ekkert" sé ekki í raun "allt" líka ... að "ekkert" sé ekki "ekkert" heldur þvert á móti "allt" ... og öfugt ... að"allt" sé í raun "ekkert".
Ég er ekki hálfnaður við að útskýra "hugsanabraut" mína, en þar sem ég vil ekki hafa innleggið allt of langt, stoppa ég hér, leyfi fleirum að komast að og öðrum að melta það sem ég hef þegar sagt.
Göltur Smári (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 12:10
Ég hugsa ekki :)
Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 12:11
Það er lítið mál að hugsa um "ekkert" Ólafur! ...þetta með orð og meiningu er mikilvægt. Sum orð er einmitt búið að "tyggja sundur" eða eru hreinlega rykfallinn. Og það verður að vera til orðaforði með orðum með meiningu. Annars verða orðin eins og merkingarlaus nöfn og ónothæf.
Ég tek undir með Göltur Smári um að allt fari í hringi. Það líkist mjög þessu sem ég er að tala um.
Enn aftur af þessu "ekkert" hugtaki. Ef við gefum öllum veröldunum þremur nafn og nafn og smá lýsingu.
Raunveruleiki 1 - Þar sem við erum núna og það sem við þekkjum best og köllum "hin eina rétta" af því við getum ekki séð á bakvið þessi hugmyndalandamæri.
Raunveruleiki 2 - Næsta veröld þar sem varð "sprenging" sem gerði að þessi "þettari heimur" varð til. Veröldin sem skapaði okkar svo að segja. Í trúarbrögðum kallaður andaheimur, heimur Guðanna, englaheimur og allt eftir því sem menn vilja og velja.
Raunveruleiki 3 - Efnisminnsta veröldin sem er samtímis einskonar "kjarni" og enn einu sinni er best að nota orðið Guð til að hafa nafn á þessum heimi yfirleitt. Oftast er þessi þriðja veröld ekki til hjá þeim útiloka Guð. Útilokun á Guði er einsa og að banna orð í bók sem maður er að lesa. Erfitt að lesa bækur þegar búið er að rífa blaðsíður úr þeim...
Að það sem maður talar raunverulega um er heil veröld sem ein heild. Nákvæmlega jafnstórar veraldir og þessi sem við eru í, þær tengjast og fara inn í hver aðra. Jafnlitrík og jafnlifandi. Og þessar þrjár "veraldir" geta ekki vera án hvor annarar. Og ein af þeim er næstum ósýnileg, fylgir öðrum lögmálum enn er samt tengd hinum báðum. Engar fjarlægðir eru raunverulega til.
Sem þýðir að við lifum í einni veröldinni, lítið mál að skoða næstu veröld enn það verður flóknara að skoða þá þriðju. Þessi hugmynd byggir á þremur skildum veröldum enn sem eru samt tengdar. Eina af þeim köllum við raunveruleikan, þá næstu ekkert og þá þriðju hugsa flestir lítið sem ekkert um.
Ferðin innávið færir okkur líklegast á sama stað aftur. Þ.e. að það sem gæti minnkað endalaus og horfið inn í atom, gæti hugsanlega byrst sem risaferlíki út í geimnum. Að allt tengist á þann hátt að "stæðir" á efni verði afsrætt fyrirbæri.
Þess vegna hefur í geimnum fundist t.d. antiefni, blackhole og allt þetta sem hlýtur allt öðrum lögmálum, enn samt lögmálum sem þarf að læra að eru jafn sjálfsögð og þyngdarkrafturinn á jörðinni.
Við lifum í þéttasta efnisheiminum af þessum þrem sem ég er að reyna að lýsa hér að ofan. Og sá næsti köllum við "ekkert". Og sá þriðji er enn efnisminni enn "ekkertið"...
Það má samt ekki gleyma því að þetta er hugsað sem skýringarmódell meðan "staðreyndir" eru ekki til staðar. Og hvað er þá þessi lifandi Sköpunarkraftur sem oftast er kallaður Guð inn í þessu öllu?
Mín hugmynd um Guð er að það er ekki til neitt annað. Ein manneskja er næstum eins og ein heilasella sem er sjálfstætt að reyna að gera sér grein fyrir hvernig heilin sem hún tilheyrir lítur út, hvernig maðurinn lítur út sem er með heilann sem sellar er í.
Getur ein heilasella hugsað þetta út alveg sjálfstætt? Kanski ekki gott dæmi enn mér dettur ekkert annað í hug í augnablikinu...það er þvottatími hjá mér og ég þarf að setja í vélina...
Óskar Arnórsson, 7.8.2010 kl. 15:10
Sá ég ekki einhverja frétt um daginn þar sem einhver var að segja að miðja vetrarbrautarinnar væri í raun svarthol þar sem finna mætti annan alheim?
Gætu svartholin einmitt ekki verið staðurinn þar sem fjölvíði "hringurinn" tengist þannig að það sem er agnarsmátt öðru megin verði risastórt hinum megin?
Göltur Smári (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 15:35
Í upphafi var enginn hlutur til
og ekkert sem er nú í kringum mig.
Þá skeðu þessi undur
sem ég alls ekki skil
að andi drottins fæddi sjálfan sig
og bjó til stóran heim
og gekk það greitt.
En efnið sem hann notaði var alls ekki neitt.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 7.8.2010 kl. 20:09
"Fátt er jafn gefandi fyrir mannshugann en að íhuga vandlega ekkertið og hvaða tengingar þetta hugtak hefur við veruleikann."
"Fyrir nokkrum árum sökk ég í djúpar pælingar um ekkert og eftir marga daga, vikur, mánuði eða ár komst ég að þeirri niðurstöðu að hugmyndin um ekkert væri hugsanlega hvaðan hugmyndin um guði og Guð sprettur úr."
Athyglisvert ad fá innsýn í hvad Hrannar Baldursson hefur fyrir stafni. Thótt ekki sé hann viss um hve lengi hann sekkur í djúpar paelingar...nei...ekki gott ad segja hvort um sé ad raeda daga, vikur, mánudi eda jafnvel ár.....tímaskynid virdist eitthvad brenglad. Nidurstadan er hins vegar kristaltaer: "hugsanlega"
Ákaflega gefandi. Ha? Taka ekki allir undir thad?
jyrr (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 21:11
Athyglisverðar pælingar. Það er okkur öllum nauðsynlegt að tæma hugann til að komast í samband við okkar innstu sannfæringu (stundum kölluð magatilfinning) sem er hvers og eins sanna og rétta skoðun! M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.8.2010 kl. 23:04
Þessar vangaveltur Hrannars varða grundvallarspurningu:
Hvers vegna er einfaldlega bara ekki neitt til?
Svarið er: Allt er til.
Gæti verið "ferlið"....
Jóhann (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 23:06
Athugasemd 17, jyrr:
Hversu lengi veit nokkur hversu mikinn tími getur farið í að velta fyrir sér ólíkum hugtökum?
Ég viðurkenni fúslega að tímaskyn mitt er eitthvað brenglað. Tímann upplifi ég á allt annan hátt en ég gerði sem barn, til að mynda. Mér finnst tíminn líða mun hraðar í dag, á meðan sannleikurinn er sjálfsagt sá að smám saman glatar maður hæfileikanum til að undrast alla mögulega hluti, nokkuð sem virðist lengja í tímanum.
Það getur verið einstaklega gefandi að hugsa um ekkert, allt, sumt og ekki sumt; eins og margir þeir þekkja sem vilja lifa í samfélagi við rökhugsun, en undirstöður rökhugsunar felast í hugtökum eins og öllu, engu og sumu.
Athugasemd 18, Anna Sigríður:
Já, hvað þekkjum við ef við þekkjum í það minnsta ekki sjálf okkur?
Athugasemd 19, Jóhann:
Sé allt til, hlýtur ekkert að vera til þar sem það er hluti af öllu, ekki satt? Og sé ekkert ekki til, þá getur allt varla verið til heldur, eða hvað?
Hrannar Baldursson, 7.8.2010 kl. 23:15
Allt er til
Ef aðrir heimar eru til, þá eru þeir hluti af okkar heimi.
Ef þeir eru ekki til, þá eru þeir hluti af okkar heimi.
Jóhann (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 23:38
Mér skilst að ef við hugsum ekkert, það er hættum að hugsa, láta hugann reika gerist eitthvað merkilegt. Menn upplifi eilífðina í núinu, guð og hvað eina. Annars veit ég svo sem ekkert um þetta. Og hugsa ekkert um það.
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.8.2010 kl. 00:00
Thessi ord sem thú nefnir hafa enga merkingu ef thau eru ekki í einhverju samhengi.
Ef thú ert ad tala um ordid ekkert eitt og sér og í sjálfu sér thá eru thad bara kjánar sem velta slíku fyrir sér af augljósum ástaedum tvhí ALDREI verdur komist ad thví hvad thad sem thú kallar ekkertid er. Ef ekkertid er til verdur thad aldrei upplifad thví thad segir sig sjálft ad hugurinn hefur ekkert til ad nema og thar fyrir utan ekkert til ad muna.
Thessu veltir thú fyrir thér í daga, vikur, mánudi eda ár. Thín nidurstada var: "hugsanlega bla bla bal" Thad tók mig 3 sekúndur ad komast ad réttri nidurstödu. Ergo: mitt samfélag vid rökhugsun er augljóst á medan thitt samfélag vid rökhugsun er vafasamt.
Good night
jyrr (IP-tala skráð) 8.8.2010 kl. 00:07
Athugasemd 23, jyrr:
ég hef til allrar hamingju haft þá gæfu að skoða ekki aðeins orðin, heldur líka hugtökin sem standa þeim að baki og hvernig þau tengjast inn í ólíkar fræðigreinar. Þannig tengist ekkert núlli stærðfræðinnar, og virðist tengja ótta í myndlist, svörtu efni í vísindum, grundvallarforsendum í tölvunarfræði, og þar fram eftir götunum.
Merkilegast finnst mér þó hugtakið ekkert sem fyrirbæri, því það virðist vera undirstaðan í trú fjölmargra sem kenni sig við guðleysi, trúleysi eða vantrú, að eftir lífið taki ekkert við. Það er sérstaklega vegna þessa sem áhugi minn á hugtakinu hefur aðeins vaxið með árunum heldur en slökknað. Því þegar við deyjum, og ef ekkert tekur við, í fyrsta lagi hvað er þetta ekkert, og í öðru lagi hvernig myndum við upplifa það?
Ég held að niðurstaða þín sé rökrétt, að samfélag mitt við rökhugsun sé vafasöm, enda stimpla ég sjaldan niðurstöður mínar sem óhagganlegar og endanlegar ef ég sé að hugmyndirnar hafa hugsanlega fleiri athyglisverða vinkla, jafnvel þær sem virðast augljósar við fyrstu sýn.
Hrannar Baldursson, 8.8.2010 kl. 08:02
það má máta hugtakið "ekkert" sem heila veröld út af fyrir sig. það er ósýnilegt fyrir þann sem ekki hefur persónulegt samband við Guð. Fyrir þann sem trúir er það heil veröld, heill geimur.
Fyrir mér er þetta með "lífið eftir dauðan" álíka og að trúa því að engin dagur sé eftir þennan dag. Væri það ekki fyrir minnið og reynsluna, þá væri það vafasamt að maður gæti trúað að nokkur yrði morgundagurinn.
Af hverju þarf fólk að sofa? Sama spurningin er um af hverju þarf fólk að deyja?
Sama svarið er þarna líka. Fólk þarf að "hlaða batteríið", safna orku og hvílast. Á sama hátt er dauði eðlileg endurnýjun.
Eða trúir fólk ekki á líf eftir svefninn?
Óskar Arnórsson, 8.8.2010 kl. 09:42
Ekkert er bara orð. Orð um það sem ekki er. Orð um eitthvað ólýsanlegt og ekkert lýsir því.
Samt er svo skrýtið að þrátt fyrir tilveruleysi Ekkertsins geta menn bæði átt og misst það, fundið fyrir því og sagt það, skilið það og hræðst......þannig að Ekkert er til......kannski er Ekkert bara bil ?
Anna (IP-tala skráð) 8.8.2010 kl. 23:21
Einu sinni "EKKERT" til rannsóknar í USA og fór hópur vísindamanna að elta efni sem er kallað var"OMEGA MINUS" löngu áður enn menn gátu sannað áð það var til.
Eftir margra ára leit og efasemdartímabil, náðu þeir mynd af fyrirbærinu. Það er nefnilega þannig að samkvæmt vísindunum hefði þetta haldi áfram að vera "EKKERT" ef það hefði ekki verið fyrir þessa mynd.
Og stærðinni er best á lýsa þannig svo menn skilji hana: Ef sólin og jörðin væru sitthvort atómið, sem er mjög smátt, og einhversstaðar þar á milli flýgur ögn á stæð við golfkúlu, þá eru menn með samanburð á Omega Mínus sem efnisögn....
Alltso þessi litli bolti breytti "EKKERT" í alla vega "EITTHVAÐ" sem nú er með þetta nafn, Omega Mínus...
Óskar Arnórsson, 9.8.2010 kl. 21:53
Gaman að þessu öllu, Hrannar. Mér finnst þú vera eins og maðurinn sem Wittgenstein talar um: hann er fangi tungumálsins, hugfanginn og töfraður af orðunum. Þegar orðið "ekkert" er tekið úr eðlilegu samhengi, gert að nafnorði ("ekkertið") fer maður að ímynda sér að það standi fyrir eitthvað sem sé hægt að upplifa eins og spegilmynd, myrkur eða tómt herbergi.
Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 11:52
Skúli, takk. Það gleður mig að þetta skuli gleðja þig.
Var það ekki Wittgenstein sem benti á að merking orða fælist í notkun þeirra?
Fyrir hvað ætli orðið "ekkert" standi í eðlilegu samhengi?
Ég kannast ekki við lýsinguna um manninn sem Wittgenstein talar um. Gætirðu bent mér á hvar hann minnist á þetta? Ég hefði gaman af að fletta þessu upp.
Hrannar Baldursson, 12.8.2010 kl. 16:15
Wittgenstein minnist á þetta í Heimspekilegum rannsóknum, grein 115. Hann bendir á að merking orða felst í notkun. Þessvegna er villandi að leita að fyrir hvað þau standa. Ef ég held að orðið "ekkert" standi fyrir eitthvað þá hef ég látið glepjast af sjónhverfingu. Rétta aðferðin er að skoða notkun, athuga hvernig orðið er notað í venjulegu máli. Þá fáum við yfirsýn yfir merkingu orðsins og vandamálið gufar upp.
Þakka þér annars fyrir lýsinguna á heimspekitímanum. Það eru svona stundir sem sýna að þetta sé allt til einhvers.
Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 16:47
Þakka þér, Skúli. Það er einmitt þessi notkun á "engu" í lýsingu á því sem verður eftir dauðann, sem mér finnst athyglisvert.
Í raun ertu að segja, ef ég skil þig rétt, að það að segja "ekkert" taka við eftir að við deyjum, sé í raun sjónhverfing. Er það rétt skilið?
En hvað er þá dagleg notkun hugtaka og hvað ekki? Þurfa slík hugtök að tengjast reynslu til að virka, eða mega þau vera huglæg?
Ég er ekki að þvinga þig til að svara, en þessar spurningar vakna hjá mér við að velta fyrir mér pælingum þínum.
Hrannar Baldursson, 12.8.2010 kl. 16:56
Sjónhverfingin kemur þegar maður heldur að "ekkert" standi fyrir eitthvað eins og stórt svart hol. Að segja "eftir dauðann tekur ekkert við" getur vel verið dagleg notkun orðanna. Ég hef oft heyrt fólk taka svona til orða. Orð mega vera jafn huglæg og verkast vill og tengjast reynslu mikið eða lítið. En þau þurfa að hafa hlutverk. Þau þurfa að vera hluti af einhverjum málleik. Sá sem segir "það er ekkert eftir í pottinum" er í öðrum málleik heldur en sá sem segir "eftir dauðann tekur ekkert við". Verkefnið væri að lýsa því hvernig fólk talar um dauðann, sjá hvernig fólk talar um siðferði, athuga hvort það tengist. Eitthvað í þeim dúr.
Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 17:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.