Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?
25.7.2010 | 07:40
Ef hugsun á að verða eign margra, ekki forréttindi fárra, verðum við að losa okkur við ótta. Það er ótti sem heldur mönnum aftur - ótti við að eigin trú reynist blekking, ótti við að stofnanir sem þeir styrkja reynist skaðlegar, ótti við að þeir sjálfir reynist síður verðugir virðingar en þeir hafa fyrirfram talið sig vera. (Bertrand Russell 1872-1970 (Principles of Social Reconstruction))
Nokkuð sem ég hef greint í athugasemdum við síðustu færslum mínum er ótti, eins og fátt sé skelfilegra en að tapa eigin sannfæringu, að sjá að maður hafði rangt fyrir sér í mikilvægum málum og þurfi þar af leiðandi að endurhugsa eigin afstöðu til lífsins.
Þetta er eitt af því sem gerir heimspeki svo spennandi. Uppgötvun á því að við gætum hugsað betur um ákveðin grundvallaratriði getur kollsteypt okkar fyrri heimsmynd og krafist þess að við endurskoðum málið frá grunni. Það er mikilvægt að fólk skilgreini sig ekki útfrá lífsskoðunum sínum, hvort sem það er til trúar eða vantrúar, heldur gefi sér svigrúm til að vera það sjálft og meta, og síðan endurmeta þessar lífsskoðanir. Þegar maður hefur ekki nógu miklar upplýsingar eða hefur ekki velt málinu fyrir sér af nógu mikilli dýpt, þá getur verið betra að bíða aðeins með að taka afstöðu.
Það er reyndar afstaða í sjálfu sér að fresta afstöðunni, en þá afstöðu vil ég kenna við gagnrýna hugsun. Ég hef ekki mikið gert af því að tjá grundvallarskoðanir mínar hér á þessu bloggi, en hef bæði verið álitinn trúaður og trúlaus, og skiptir það mig í sjálfu sér engu máli hvorum flokkinum fólki finnst ég tilheyri. Hins vegar þegar kemur að gagnrýnni hugsun, þá er hægt að flokka mig sem einstakling sem gerir allt mögulegt til að skilja betur gagnrýna hugsun og til að dreifa boðskap hennar.
Heimspekingar, vísindamenn, sálfræðingar, námsfræðingar og aðrir hugsuðir hafa reynt að negla niður skilgreiningu á gagnrýnni hugsun, en það hefur reynst erfit, enda er hún margþætt og í fljótu bragði telur maður sig vita hvað gagnrýnin hugsun er og hvernig henni skuli beita, en eftir stutta og opna rannsókn kemur fljótt í ljós að hún hefur margvíslega eiginlega sem maður gerði ekkert endilega fyrirfram ráð fyrir.
Það að gagnrýnin hugsun þurfi að vera skapandi til að virka og að hún þurfi á umhyggju að halda til að leiða til góðs, er nokkuð sem manni dettur ekki í hug við fyrstu sýn. Að gagnrýnin hugsun krefjist auðmýktar þeirra sem ástunda hana og gífurlegrar þjálfunar á hlustun og rökhugsun, og einnig gagnrýni á hvernig hlustun og rökhugsun virka, liggur ekki alltaf á yfirborðinu. Eitt öflugasta einkenni gagnrýnnar hugsunar er einmitt að hún gagnrýnir gagnrýna hugsun, hún gagnrýnir bæði inn á við og út á við, og sá sem ástundar hana verður strax ríkari enda býr viðkomandi við stærri heim og margbreytilegri fljótlega eftir að hann hefur farið að beita hinni gagnrýnni hugsun á sjálfan sig.
Gagnrýnin hugsun er þannig eins og sjónvarpstæki með endalausar sjónvarpsstöðvar, nema að græjan er ókeypis og alls ekki sjálfsagt mál að skipta um stöðvar án smá áreynslu.
Ekkert er mikilvægara fyrir lýðræðisþjófélag en að þegnar séu gagnrýnir í hugsun, geti tekið vel mótaðar ákvarðanir og taki þátt í umræðunni. Þess vegna þykir mér sorglegt að sjá á sjálfu Alþingi hvernig starfsmenn þar sýna stöðugt skort á gagnrýnni hugsun í verki, skipta sér frekar í lið um málefni en að ræða grundvallaratriði þeirra. Þess vegna þykir mér sorglegt að gagnrýnin hugsun skuli ekki kennd í íslensku skólakerfi, að hún þyki ekki mikilvæg fyrr en komið er á háskólastig.
Hið rétta er að gagnrýnin hugsun á heima í hugum okkar frá blautu barnsbeini. Börn byrja snemma að spyrja gagnrýnna spurninga, en oft er þeim svarað með þeim tilgangi að slökkva í spurningunni og frekari spurningum, heldur en að halda loganum lifandi. Gagnrýnin hugsun reynir að halda þessum loga lifandi og hefur í margar aldir barist við það undir ýmsum nöfnum.
Gagnrýnin hugsun á sér þó heimili, skjól þar sem hún fer huldu höfði fyrir ofsóknum heimsins, en það er í háskólum, og þá einatt í heimspeki. Heimspeki og gagnrýnin hugsun eru nánast sama fyrirbærið, með einnig undantekningu. Heimspeki er fræðilegi hlutinn í að átta sig á veröldinni, en gagnrýnin hugsun er verklegi þátturinn.
Höfum við eitthvað að óttast? Er gagnrýnin hugsun afl sem getur sameinað fólk eða sundrað?
Gagnrýnin hugsun getur sundrað hugmyndum og áætlunum sem eru samansett af lygum, eiginhagsmunum og blekkingum, og geti aðeins sameinað fólk þegar unnið er af heilindum. Það er dapurlegt að stjórnmál á Íslandi skuli vinna án gagnrýnnar hugsunar, og að einungis fáir stjórnmálamenn á Íslandi skuli vera svo heilsteyptir að þeir geti beitt henni skammarlaust. Það er því miður hægt að telja þessa einstaklinga á annarri hendi, og mega þeir sín lítils gegn miklum fjölda þeirra sem skipa sér hugsunarlítið í lið, ákvarða eigin skoðanir fyrir lífstíð og líta aldrei til baka.
Við getum komið okkur upp úr þeim skítugu hjólförum og þykku leðju sem sjálfsblekkingin er, og það með gagnrýnni hugsun, en það er erfitt að innleiða gagnrýna hugsun með fólki sem þegar hefur tekið sína afstöðu á móti henni. Blogg og Internetið hefur gefið gagnrýnni hugsun byr undir báða vængi undanfarið, en það getur verið skammgóður vermir. Fjölmiðlar ættu að varðveita gagnrýna hugsun, en virðast of uppteknir af hagsmunavörnum til að sinna þeirri skyldu sinni.
Og á Íslandi er í skólum því miður aðeins kennd þrjú R, á meðan flest lönd eru farin að átta sig á mikilvægi hins fjórða R: rökhugsunar. Rökhugsun er ekki það sama og reikningur (eða stærðfræð).
Hin fjögur er R, eða undirstaða alls náms, eru annars:
- Reading (Lestur - þekking inn)
- Writing (Ritun - þekking út)
- Arrithmetic (Reikningur og rökhugsun - vinnsla hugmynda)
- Critical Thinking (Gagnrýnin hugsun - þjálfun dómgreindar)
Svar mitt við spurningu greinarinnar er að þeir sem telja sig hafa eitthvað, óttast að missa það sem þeir hafa. Þeir sem hafa hins vegar ekki sambærileg fyrirbæri, vita hins vegar að þeir hafa ekkert að óttast.
Hvort ætli sé veigameira þegar á heildina er litið: að maður hafi tök á gagnrýnni hugsun eða sterka skoðun á hvort eitthvað sé til eða ekki?
Gagnrýnin hugsun er öllum aðgengileg. Ágætis vettvangur til að þjálfa hana er að skrifa athugasemdir við þessa grein. Það kostar ekkert. Þó að hún kosti ekkert er gagnrýnin hugsun mikils virði, rétt eins og mörg önnur gildi sem miklu skipta - þau kosta okkur í raun ekkert en ef við kunnum ekki að meta þau, þá verða þau okkur einskis virði og við glötum þeim án þess að átta okkur á þeim verðmætum sem við höfðum.
Þér er velkomið að taka þátt með að skrifa athugasemd(ir).
Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:
- Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?
- Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Athugasemdir
Ég var búinn að skrifa langa athugasemd hér áður um trúarlega hlutann af því sem þú skrifaðir, Hrannar, en þá fraus þessi andskotans tölva og allt hvarf. Ég nenni ekki að skrifa allt upp aftur, en í stuttu máli:
Þar eð mín sannfæring byggir eingöngu á gagnrýninni hugsun sem ég hef þróað með mér gegnum langa ævi, óttast ég ekki að hún tapist, þvert á móti hef ég dýpstu samúð og samkennd með mjög trúuðu fólki, sem hlýtur sífellt að lifa með þá óþægilegu tilfinningu, að líf þeirra sé fullt af þverstæðum. Ég get ímyndað mér, að það óttist, að skynsemi og rökhugsun eitri fyrir trú þeirra á biblíunni og öðrum trúarritum. Það ég óttast mest, er að þeir verða fyrir gífurlegum vonbrigðum, þegar þeir loksins sjá ljósið.
Ég trúi hvorki á Jehóva eða annan yfirnáttúrulegan guð né Jesú sem guðdómlegan. Ég er sannfærður um að allt lúti náttúrulögmálunum, að líf á jörðinni hafi þróazt gegnum milljónir ára og að lífi hvers einstaklings er lokið, þegar líkaminn deyr. Ég umgengst trúað fólk daglega, en mig myndi ekki dreyma um að reyna að sannfæra það um mínar skoðanir, enda enginn sameiginlegur grundvöllur fyrir þannig samræðum. Fólk má trúa því sem það vill. Og þar eð ég er algjörlega ónæmur fyrir sköpunarsögunni og öllu öðru sem stenzt ekki skoðun, þá hræðist ég það engan veginn, að trúað fólk nái til mín hvað það snertir. En við getum rætt um pólítík, listir og önnur samfélagsmál í mesta samlyndi. Og verið sammála um flest.
Vendetta, 25.7.2010 kl. 10:01
Ég get nánast tekið undir hvert orð sem Vendetta segir nema ég er líka dálítið Óskars megin (þið vitið hver Óskar er) og trúi á afl sem verður ekki útskýrt í stuttu máli, ef þá orðum. Ég kalla þetta afl Guð enda þekki ég ekkert betra orð yfir það nema e.t.v. Splask eða Nort.
Hins vegar held ég að flestir viti um hvað afl ég er að tala, en það sér samt hver sitt "afl" frá sínum sjónarhól.
Hef haft afar gaman af að lesa þessar pælingar frá þér Hrannar sem kveikja í huganum og örva hugmyndavinnslu.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 10:26
Vendetta: Ég sé ekki betur en að viðhorf þín séu nokkuð traust. Hins vegar hef ég áhyggjur af tvennu:
1) Að þú teljir trúaða ekki beita skynsemi og gagnrýnni hugsun af ótta við að tapa eigin trú. Ég hef einmitt rætt við kaþólska presta um þetta atriði, og hef ég aldrei fengið önnur viðbrögð en þau að einmitt slík gagnrýni og skynsemi séu nauðsynleg í þroskaferli sérhverrar manneskju, hvort sem viðkomandi er trúuð eða ekki. Athugaðu að kaþólskri prestar verða að læra heimspeki á leið sinni í kragann, og hafa aðgang að mögnuðu bókasafni Vatíkansins sem flestum er lokað. Ég hef átt góðar samræður við prest sem fékk aðgang að öllum upphaflegum ritum Galíleó, á meðal þeirra sum rit sem ekki hafa verið birt opinberlega þó að ég telji þessa birtingu vera í vinnslu, og hafa slíkar samræður verið afar upplýsandi og áhugaverðar.
2) Líf einstaklings er lokið þegar líkaminn deyr. Ég efast ekki um það. En spurningin er hvort að einstaklingurinn sé ekkert annað en lífið á meðan hann lifir því.
Grefill: takk fyrir hrósið og gaman að þú skulir taka svona virkan þátt í þessum vonandi látlausu pælingum mínum.
Hrannar Baldursson, 25.7.2010 kl. 11:10
Hrannar, þegar ég nefndi mjög trúað fólk, þá var ég að tala um bókstafstrúarmenn, sem álíta það sem stendur í biblíunni vera óhagganlegan sannleika. Þótt ég sé ekki á neinn hátt kaþólskur (konan mín er kaþólsk að nafninu til), þá tel ég að löstur kaþólskra presta liggi ekki í skort á skynsemi, heldur óseðjandi valda- og fégræðgi. Þess ber að geta, að Vatíkanið er auðugasta trúarstofnun í heimi, en hefur aldrei látið eina líru af hendi til almúgafólks í kaþólskum 3. heims löndum. En á hinn bóginn veit ég svosem að þeir eru ekki bókstafstrúar, því að bókaforlag Vatíkansins gaf út bók fyrir nokkrum árum, þar sem ýmsar fullyrðingar í biblíunni eru hraktar.
Fyrst við erum byrjaðir að ræða hinar ýmsu trúarflokka innan kristni, þá get ég sagt að persónulega kemur mér betur saman við kaþólikka en Votta Jehóva. Mormóna þekki ég enga og hef engan áhuga á að kynnast þeim, enda er tvískinnungurinn í þeirra lífi yfirgengilegur. Ég þekki heldur ekki Kvekara, Amish og Húgenotta, en hefði hins vegar ekkert á móti því að kynnast þeirra lífsháttum, sem eru svo gjörólíkir kaþólskum sið.
Vendetta, 25.7.2010 kl. 11:43
Vendetta: Þetta er einmitt málið. Það er ekki fyrr en maður kynnist manneskjunum sem tengja sig þessum trúarbrögðum að maður áttar sig á að þetta er eitthvað meira en orðin ein. Þetta er leið sem fólk hefur fundið til að lifa lífinu í sátt og samlyndi, en er síðan að sjálfsögðu ógnað af breyttum tímum og ólíkum viðhorfum.
Þetta eru afar spennandi pælingar.
Hrannar Baldursson, 25.7.2010 kl. 12:03
Kunningi minn sem hefur farið víða sagði mér einu sinni að áberandi besta fólk sem hann hefði nokkurn tíma hitt væru hindúar.
Varðandi það sem Vendetta segir um að líf einstaklings sé lokið þegar líkaminn deyr þá er ég sammála því. Ég hef hins vegar ekki trú á að allt sem einstaklingurinn var hafi tapast. Hvað verður um alla þekkinguna sem einn mannlegur einstaklingur aflar sér á einni ævi? Erum við virkilega að safna þessu öllu til að þetta verði ekki a neinu um leið og líkaminn deyr?
Ég held ekki þótt ég hafi ekki hugmynd hvað ég á að halda. Mínar pælingar á þessu snúast voðalega mikið um að allt hljóti að fara í "hringi".
Annað: Ég er tiltölulega "næmur". Ef ég kem inn í herbergi þar sem t.d. rifrildi hefur átt sér stað fyrir stundu þá "finn" ég það ... eins og það liggi í loftinu. Sama með gleði og aðra slíka stemningu. Hún skilur eftir sig "trace" þar sem hún hefur átt ser stað.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 12:55
Ég óttast ekki neitt með þetta.. núll.
Ég bara veit að við erum ekki merkilegri en mý á mykjuskán frá sjónarhóli raunveruleikans, það er ekki neinn tilgangur með tilvist okkar.. það er ekkert æðra plan.
Við getum sett okkur einhvern tilgang.. eins og td að koma okkur af plánetunni... til að minnka líkur á útrýmingu alls mannkyns...
Tilganur okkar getur aldrei snúist um lygar, hopp og skopp í kringum tilbúna galdrakarla, tilbúna galdrakarla sem voru gerðir að formönnum stjórnmálaflokka í den.. :)
Við sjáum stundum fréttir þar sem tugir eða hundruð þúsunda láta lífið.. hvað gerir fólk, jú það hampar einum sem slapp, segja það til vitnis um galdrakarlinn ógurlega... eða, við vorum svo vond að Guddi geggjaðist.
DoctorE (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 14:23
DoctorE hver er þessi raunveruleiki sem á sér sjónarhól til að fylgjast með mýjunum á mykjuskánni og hver er staða hans gagnvart þessum mýjum?
Hólmfríður Pétursdóttir, 26.7.2010 kl. 01:47
Hólmfríður: góð spurning.
Hrannar Baldursson, 26.7.2010 kl. 05:26
Sælt veri fólkið.
Ef ég mætti blanda mér aðeins í umræðuna, þá vil ég a.m.k. fyrir mitt leyti koma einu á hreint: Ég er trúlaus. Punktur og basta. Ekki nóg með að ég trúi ekki að guð sé til, þá trúi ég ekki heldur að hann sé ekki til. Ef e-r segir við mig: ,,Guð er ekki til", þá segi ég á móti: ,,Sannaðu það!".
Sá sem kemur með fullyrðingu sem felur í sér staðreynd; sérstaklega ef um er að ræða staðreyndir sem varða grundvöll þekkingar eða tilveru, þarf að sýna fram á að hún sé sönn með e-m hætti. Ekki endilega að koma með óvéfengjanlega sönnun á borð við það sem stærðfræðingar þurfa að koma með, heldur einfaldlega sterka vísbendingu. Engu að síður er það háð trú að samþykkja fullyrðingu án beinnar sönnunar.
Þrátt fyrir að ég segizt vera trúlaus, þá þarf að taka inn í myndina skilgreiningu á trú. Ég er þarna að fjalla um trú á æðri máttarvöld, forlög eða e-ð í þeim dúr. Ég er ekki að tala um að trúa móður minni þegar hún segir mér að hún hafi eldað kjötbollur í kvöldmatinn. Ég hef ekki staðið móður mína að því að ljúga að mér og því trúi ég henni, þrátt fyrir að vera utan dyra og vita ekki með vissu að raunverulega séu kjötbollur í skálinni inni í eldhúsi. Ef hún segði mér hins vegar að hún hafi séð Ésú í kaffibollanum sínum, þá renna á mig tvær grímur. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að saka móður mína um lygar, en hún hefur þá upplifað e-a mynd eða mynstur í kaffibollanum sem líkingu af andliti Sússa. Hvernig fólk veit hvernig hann leit út, er mér hulin ráðgáta og líklega eru myndir af honum allt öðruvísi en raunmyndin, þar sem málverk eru og verða háð upplifun listamannsins hverju sinni, frekar en bein útprentun af raunmyndinni.
Ef guð myndi birtast mér núna og slá mig utanundir, þá yrði ég ekki lengur trúlaus. Ég óttast það svo sannarlega ekki að hætta að vera trúlaus, ef e-ð slíkt myndi gerast. Ég satt að segja myndi vera uppnuminn að vita að ég ætti eftir að lifa eftir dauðann, liggjandi á skýi að spila á hörpu og drekka bjór. En það þarf e-ð stórkostlegt að gerast til að svo verði.
Nú hef ég hlaupið út um víðan völl og ætla að láta þetta gott heita í bili, en vonandi hef ég lagt e-r lóð á vogarskálarnar.
Kv. Sigurjón
Sigurjón, 26.7.2010 kl. 14:59
Gud er hvorki geggjadur eda undarlegur a neinn hatt. Hann er jafn raunverulegur og segulsvidid eda thyngdaraflid. Engar visindalegar sannanir eru til. I minu tilfelli er thad bara personuleg upplifun sem er min sönnun. Og min sönnun passar endilega ekki neinum ödrum.
Ef eg elska einhverja manneskju og segi thad, get eg ekki sannad thad "visindalega" med einhverskonar efnagreiningu. Folk verdur bara ad taka ahaettuna af ad trua thvi, eda ekki.
Ad Gud hafi skapad manninn i sinni mynd er liklegast att vid innri eiginleika mannsins og ekki ytri. Thau koma thessir einföldu og vilja vita hvort Gud se hvitur eda svartur og ruglid byrjar.
Og DoktorE kemur og spyr hvort allir seu ordnir hringlandi vitlausir ad trua a einhvern galdrakarl i himninum...
Visindin eins og vid thekkjum thau er akaflega takmörkud og eiginlega ohaef i svona malum. Radiobylgjur eru osynilegar og eru samt til. Rafmagn er til og notad a hverjum degi. Thad yrdi undarlegt ad sja nokkurn afneita rafmagni a theirri forsendu ad hann skilji ekki hvad rafmagn se og noti thad ekki af theirri astaedu. Thad skilur engin yhvad rafmagn er.
Sanntruadadir tilbydja "rafmagnid" og byggja "risalampa" till ad gera Gud "synilegan" med allskonar ljosaperum og skrauti. Og thad vaeri allt i lagi ef thad vaeri ekki svona dyrt eda thetta tilbeidslufolk gaeti haett ad troda "sannleikanum" sinum ofan i kok a folki sem kaerir sig ekkert um spekina.
Thad er bara vitad hvernig a ad nota thad....sama a vid um Gud. Thad er kanski vandamalid med nafnid eins og Grefillinn segir, ad skipta thyrfti thvi ut. Ofsatruarfolk er buin ad berja nafn Guds nidur i svadid og hefur Gud fengid illt ord a sig theirra vegna ad minu mati og hraett folk fra thvi ad profa Gudstru.
Thad er ljotur leikur ad setja Gud fram eins og grimman einraedisherra med refsivöndinn a lofti og vidhalda thessu rugli fyrir 6 milljarda a ari. Er virkilega ekkert tharfara haegt ad gera fyrir tha aura? Eda erum vid enn svona rikir ad haegt se ad hafa folk a launum vid ad hraeda liftoruna ur folki sem kaupir allt hratt?
Óskar Arnórsson, 26.7.2010 kl. 16:48
Sælt veri fólkið aftur.
Ég sé ýmsa annmarka á máli Óskars hér ofar.
Fyrir það fyrsta er ekki hægt að segja að guð sé svona og hinsegin, eða ekki svona og hinsegin. Það er einfaldlega ekki hægt að vita.
Í öðru lagi eru til vísindalegar sannanir á þyngdarafli og segulsviði og þetta tvennt er mælanlegt með tiltölulega einfaldri tækni, þó það sé ekki sýnilegt mannsauganu.
Í þriðja lagi er trú á að e-r elski þig og trú á að æðri máttarvöld séu til, algjörlega sitt hvor hluturinn (eins og ég kom að í síðustu færzlu minni), alla vega skv. minni skilgreiningu á trú.
Í fjórða lagi hef ég ekki rekið mig á að margir deili um ytra útlit guðs, enda ætti það tæplega að skipta neinn máli. Við vitum að mannfólkið er mjög misjafnlega gert og sumt fólk er vont og sumt fólk gott. Flestir eru oftast góðir, en það blundar vont í lang flestum. Ef guð skapaði manninn í sinni mynd, þá er guð stundum góður og stundum vondur. Rétt eins og mannfólkið...
Í fimmta lagi er það alveg rétt að vísindin eru takmörkuð, en þau lúta lögmálum sem ekki er hægt að sveigja framhjá. Þess vegna eru vísindakenningar miklu meira en bara ágizkun. Þess vegna er farið fram á að kenningar séu sannaðar óvéfengjanlega og skoðaðar af öðrum jafningjum vísindamannsins til að teljast lögmál. Það er mjög léleg samlíking að líkja guði við rafmagn, sem sé ,,notað" á hverjum degi. Það er í raun ekki flókið að skilja rafmagn og hvað það gerir. Rafmagnið var uppgötvað og beislað fyrir hartnær 200 árum og fáir velkjast í vafa um hvernig það virkar, þó máski séu ekki allir með á hreinu nákvæmlega hvernig. Það þarf enga trú eða sérstaka forvitni til að ,,trúa" á rafmagn, en guð lýtur allt öðrum lögmálum.
Ef t.d. hægt væri að biðja bænir og fá þær uppfylltar í hvert sinn, þá væri auðveldara að átta sig á hvað guð er og hvað hann gerir, rétt eins og hægt er að kveikja á slökkvara og þá logar á perunni.
Það vill nú reyndar svo til að í upphafi neituðu margir að nota rafmagn af einmitt þeirri forsendu að þeir sáu ekki þörfina fyrir það og skildu ekki. Rétt eins og sólmiðjukenningin þótti guðlast á sínum tíma...
Það er svo beinlínis rangt að halda því fram að það skilji enginn hvað rafmagn er. Það eru mjög margir sem beinlínis hafa atvinnu sína af því að skilja það...
Í sjötta lagi er ég alveg sammála þessu með kirkjuna. Hún er óþörf þeim sem trúir milliliðalaust á guð og tilbiður hann. Það á ekki að þurfa að fara í e-t hús til að ná sambandi við guð (ef maður trúir á hann þá) og þaðan af síður á að eyða 6 milljörðum af skattfé í slíkt batterí.
Þarna er máski kominn mergurinn málsins, þ.e. umburðarlyndi manna í millum. Alveg er mér sama hverju annað fólk trúir. Svo framarlega sem það hringir ekki dyraböllunni hjá mér og boðar mér sína trú, eða fer til fátækra landa að boða kristni þar. Boða fólki sem þarf á allt öðru að halda en kirkjum. Á sama hátt ætla ég ekki að boða öðrum trúleysi, en er ávallt tilbúinn til að skeggræða trúmál, þó ég láti mér þau í léttu rúmi liggja.
Kv. Sigurjón
Sigurjón, 26.7.2010 kl. 17:45
Sigurjón og Óskar: Takk fyrir afar áhugaverð og vönduð innlegg.
Það er munur á að "trúa" og að "trúa á". Að trúa einhverjum felur í sér að treysta annarri manneskju til að segja satt. Að trúa á einhvern snýr hins vegar að möguleikum viðkomandi.
Þess vegna er talað um átrúnað, en ekki trúnað, þegar kemur að Guðstrú.
Það getur vel verið að Guð sé annað heiti yfir ólík gildi, eins og þekkingu, hið góða, hið fagra, og þar fram eftir götunum. Að trúa á þekkingu snýr að möguleikum þekkingar, að trúa á hið góða snýr að möguleikum hins góða, að trúa á hið fagra, möguleikum hins fagra.
Að sjálfsögðu eru þetta bara vangaveltur, en mér sýnist mikilvægt að gera þennan skýra grunarmun á því að "trúa" og "trúa á".
Það að gomma af peningum fara í þjóðkirkjuna á hverju ári er vegna þess að fólk er skráð í þjóðkirkjuna og hlutfall af skatttekjum rennur beint í kirkjusjóð. Hins vegar geta þeir sem vilja sagt sig úr þjóðkirkjunni og til dæmis óskað þess að peningurinn renni til Háskóla Íslands. Eða það held ég.
Þegar einhver trúir á Guð er viðkomandi að trúa á möguleika, ekki veruleika, og mér finnst nákvæmlega ekkert athugavert við það. Hins vegar þegar sumir yfirlýstir trúleysingjar gagnrýna þá sem þeir telja trúaða, þá er það á kolvitlausum forsendum, því þeim er svo annt um veruleikann.
Það getur verið holt að velta fyrir sér stöku sinnum í stóru samhengi muninum og sambandinu á möguleikum og veruleika.
Hrannar Baldursson, 26.7.2010 kl. 18:52
Gott komment hjá Sigurjóni. Ég hef nú engar útlitshugmyndir um Guð né reyni ég að persónugera hann. Enn ég get staðhæft með vissu fyrir mig hvernig Guð er. Le4ngra kemst ég ekki....
Óskar Arnórsson, 29.7.2010 kl. 17:23
"Hins vegar geta þeir sem vilja sagt sig úr þjóðkirkjunni og til dæmis óskað þess að peningurinn renni til Háskóla Íslands."
Nei, ekki lengur. Nú rennur það beint í ríkissjóð og þaðan í launaumslög prestanna.
Vendetta, 29.7.2010 kl. 17:35
> Það að gomma af peningum fara í þjóðkirkjuna á hverju ári er vegna þess að fólk er skráð í þjóðkirkjuna og hlutfall af skatttekjum rennur beint í kirkjusjóð. Hins vegar geta þeir sem vilja sagt sig úr þjóðkirkjunni og til dæmis óskað þess að peningurinn renni til Háskóla Íslands. Eða það held ég.
Er ekki betra að vita en að halda? Eða væri hrokafullt að telja sig vita?
Eins og Vendetta bendir á þá fara sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga nú beint í ríkissjóð - m.ö.o. þá borgar trúleysingjar og fleiri hærri skatta en trúmenn. Eflaust þykir þér ofstæki að fólk sé ósátt við það fyrirkomulag.
Auk þess myndi engu skipta þó allir landsmenn segðu sig úr ríkiskirkjunni, enn myndi hún fá milljarða á ári frá ríkinu, sóknargjöld eru bara hluti pakkanns. Eflaust þykir þér ofstæki að fólk sé ósátt við það.
Matthías Ásgeirsson, 29.7.2010 kl. 17:43
Nei Matthías. Það er ekkert ofstæki. Þó að ég styðji trúfrelsi, þá styð ég líka kröfur um aðskilnað ríkis og kirkju.
Hrannar Baldursson, 29.7.2010 kl. 18:09
Sælir.
Takk fyrir mig Óskar.
Ég vil útlista þá skoðun mína að trú eigi að vera persónulegt vistarband hvers og eins og eigi sá að borga fyrir sína trú. Að því leyti tel ég rétt að ríkið eigi ekki að skipta sér af trú og láta það hreinlega alveg vera. Þeir sem trúa eiga að borga. Þeir sem vilja tilheyra ákveðinni kirkju, borga uppihald og rekstur hennar. Þeir sem engu trúa, borga ekkert...
Einfalt, ekki satt?
Sigurjón, 30.7.2010 kl. 05:26
Fólk þarf að setja meiri pressu á þennan aðskilnað Ríkis og kirkju. Það er algjör skandall þessi 6 milljarða króna áskrift á ári á Guðsorð. Það er hægt að nálgast það á ódýrari máta.
Kirkjan elur á fanatism, peninga- og valdagræðgi. Hún eiginlega byggir á því um allan heim.
Óskar Arnórsson, 30.7.2010 kl. 06:32
Alveg sammála þér Óskar.
Góða helgi!
Sigurjón, 30.7.2010 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.