Sunset Blvd. (1950) ****

 

Poster%20-%20Sunset%20Boulevard_02

 

"Sunset Blvd." er ein af þessum myndum þar sem hver einasti rammi er frammúrskarandi. Handritið er hrein snilld og leikurinn afbragð.

Handritshöfundinum Joe Gillis (William Holden) hefur ekki tekist að skrifa almennilegt handrit í langan tíma, og ræður því ekki lengur við að lifa í þeim stíl sem hann hefur vanist. Hann skuldar leigu bæði fyrir íbúð og bíl, og innheimtumenn eru á eftir honum. Á flótta undan innheimtumönnum springur á dekki hjá honum og honum tekst að renna bílnum inn að heimreið fyrrverandi stórstjörnu, á meðan innheimtumennirnir missa af honum og keyra fram hjá.

Hann leggur bílnum í opnum bílskúr og er boðið inn af þjóninum Max (Erich von Stroheim) sem hefur beðið eftir einhverjum til að kistuleggja dauðan apa. Eigandi apans og hallarinnar er engin önnur en Norma Desmond (Gloria Swanson), fyrrum stórstjarna þöglu myndanna sem getur ekki sætt sig við að aldurinn hefur færst yfir hana.

Þegar hún kemst að því að Joe er handritshöfundur, en ekki kistulagningamaður fyrir dauð gæludýr, býður hún honum starf; að endurskrifa handrit hennar um Salóme, sem á að vera leið fyrir endurkomu hennar inn í heim kvikmyndanna, því hún þráir ekkert annað en að vera í skotlínu athyglinnar, fyrir framan myndavélarnar, að lifa þykjustulífi sem þarf ekki að vera tengt veruleikanum.

Joe lætur til leiðast og fær laust herbergi til umráða, en fljótt áttar hann sig á að hún vill eitthvað meira en hann er tilbúinn að gefa. Á sama tíma stelst hann á næturnar og helgar til að skrifa sitt eigið handrit með hinni ungu og fögru Betty Schaefer (Nancy Olson), en hún er trúlofuð besta vini hans Artie Green (Jack Webb).

Dramað er trúverðugt og samtölin full af tilfinningu og dýpt. Þau augnablik sem gera persónurnar djúpar og áhugaverðar eru augnablikin þegar þær velja hlutverk sitt í lífinu, og maður áttar sig á að þetta er raunverulegt val sem fjöldi fólks hefur gert og staðið við, sjálfsagt vegna þess að auðvelt er að trúa því að ríkidæmi og frægð skapi umgjörð sem er mikilvægari en hamingjan og lífið. Þessar aðstæður leiða til morðs.

Spurningar sem koma upp í myndinni sem hverjum manni væri hollt að spyrja sjálfan sig einhvern tíma á lífsleiðinni:

  • Hvað gerist þegar stórstjörnur geta ekki lengur gert greinarmun á draumnum sem þau fengu uppfylltan og veruleikanum?
  • Hvað ef draumurinn verður veruleikanum sterkari, þrátt fyrir að frægðarsólin dofni?
  • Ef þú gætir valið um hamingjusamt og fátækt líf með manneskju sem þú elskar, eða glamúr og flott föt; hvað myndir þú velja?

"Sunset Blvd." var tilnefnd til 13 Óskarsverðlauna árið 1950 og vann aðeins ein af þeim stóru, fyrir besta handritið. Hún var einnig tilnefnd sem besta kvikmynd ársins, en "All About Eve" sigraði það árið, önnur mynd um klikkaða kvikmyndastjörnu. Mér finnst "Sunset Bldv." mun betri en "All About Eve" og að hún hafi elst mun betur.

Allir helstu leikarar myndarinnar voru líka tilnefndir til Óskarsverðlauna, þau William Holden, Gloria Swanson, Erich von Stroheim og Nancy Olson, en ekkert þeirra vann.

Frábær mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Hrannar, þú ert mikið að dæma og skrifa umfjallanir um gamlar myndir sem er hið besta mál, en mér er spurn, hvar nærð þú eiginlega í allar þessar gömlu bíómyndir?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.5.2010 kl. 17:24

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð spurning Rafn,

Ég hef keypt þetta sem DVD á amazon.com, amazon.co.uk, play.com og í verslunum hér og þar, í Bandaríkjunum, Mexíkó, Svíðþjóð, Noregi, Danmörku, Tékklandi, Englanndi og Íslandi (besta verðið yfirleitt í Elko), og eitthvað gegnum e-bay. Það eru stundum mjög góðar útsölur á play.com, og hægt að kaupa frábæra DVD stundum á 1 dollar í Bandaríkjunum, sem hentar þegar maður er þar á ferðinni. Til dæmis keypti ég stóran pakka af Óskarsverðlaunamyndum frá Kína gegnu e-bay fyrir nokkrum árum. Þá er gott að nota Google Translate og leita á ebay.cn (ebay í Kína). Sölumenn eru oftast með góða þjónustulund og tilbúnir að senda diskana með pósti til Íslands, þrátt fyrir smá auka fyrirhöfn. 

Einnig var ég duglegur á Íslandi að taka diska á bókasöfnum Reykjavíkur, en það er ókeypis. Það er líka hægt að leigja myndir á góðu verði í bókasöfnum Hafnarfjarðar og Kópavogs. Kíktu á gegnir.is til að finna myndir á bókasöfnum. Þar að auki hef ég verið að leigja myndir á bókasöfnum í Noregi, en það er líka frítt hérna. Mikið af gömlum og góðum myndum á þessum söfnum. 

Maður þarf að sýna útsjónarsemi á þessum síðustu og verstu. Fer næstum aldrei á leigur. Síðasta vídeóleiga sem ég notaði var Laugarásvídeó sem brann síðan til grunna nokkrum vikum síðar. 

Vonandi gagnast þessar upplýsingar.

Hrannar Baldursson, 2.5.2010 kl. 17:45

3 identicon

Já takk fyrir mig.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.5.2010 kl. 20:31

4 Smámynd: Ómar Ingi

Alltaf gaman að lesa Hrannar eða DON , eins og ég vil helst kalla þig ;)

Ómar Ingi, 3.5.2010 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband