The Treasure of the Sierra Madre (1948) ****

treasure42
 

"Hvernig spillist sæmilega heiðarleg manneskja?"

"The Treasure of the Sierra Madre" er snilldarmynd í leikstjórn John Huston þar sem hann leikstýrir meðal annars föður sínum Walter Huston. Þeir unnu báðir Óskarshlutverk, John fékk tvö verðlaun, bæði sem besti leikstjóri og besti handritshöfundur, en Walter fékk verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki, þó að auðvelt væri að skilgreina hans hlutverk sem aðalhlutverk. Samt er Humphrey Bogart hið ógleymanlega afl sem keyrir "The Treasure of the Sierra Madre" áfram, hjarta hennar og sál, en án tilnefningar til Óskarsverðlauna það árið. Óskiljanlegt.

Kvikmyndin hefst í Mexíkóborg árið 1925. Charles C. Dobbs (Humphrey Bogart) er bláfátækur Bandaríkjamaður sem betlar peninga frá samlöndum sínum fyrir mat, en notar peninginn sem hann fær í áfengi, vændi og slíkt. Hann er líka algjörlega siðferðilega blankur, fyrir utan að hann telur sig vera heiðarlegan og heldur fast í þá ímynd, þó að hann lifi ekki eftir henni nema til sýndarmennsku.

Þegar Dobbs og félaga hans, Curtin (Tim Holt) er boðin ágætlega launuð vinna af svikahrapp sem borgar þeim ekkert eftir nokkurra vikna þrælerfiða vinnu, og þeir ná að lúskra á gaurnum og ná peningum sínum af honum (ekki umfram það sem hann skuldar þeim), ákveða þeir að nota peninginn til að leggja í ævintýraför og leita að gulli ásamt Howard (Walter Huston), eldri manni sem hefur mikla reynslu af gullgreftri og áhrifum þessa málms á sálarlíf fólks.

Howard minnist á að gullið geti spillt sálum besta fólks, að það þurfi alltaf meira, verði tortryggið, og erfitt að umgangast það. Dobbs veifar þessu frá sér sem tómri vitleysu og segir að sumar manneskjur geti orðið ríkar án þess að umbreytast, og hann sé einn af þeim. Hann hefur rangt fyrir sér.

Dobbs, Curtin og Howard fara í langa ferð upp í Sierra Madre fjöllin, en þau ná alla leið frá Acapulco til Puebla, ná yfir gríðarlega stórt svæði. Á leiðinni þurfa þeir að passa sig á ræningjaflokkum sem þeysast um svæðið og stela öllu léttara, og passa sig á að lögreglan uppgötvi ekki athæfi þeirra, gullgröft, þar sem þeir mega ekki hirða þennan eðalmálm sem með réttu er ein af náttúruauðlindum mexíkósku þjóðarinnar. Þeim stendur á sama um það og telja sig vera í fullum rétti, svo framarlega sem að ekki kemst upp um þá.

Þegar þeir finna loks gull, tekur raunveruleikinn við. Þeir þurfa að vinna hörðum höndum við að ná gullinu úr æð fjallsins, vinna sem tekur marga mánuði, og á sama tíma eykst vantraust þeirra gegn hverjum öðrum og tortryggni þeirra vex með hverjum deginum. Dobbs fer verst út úr þessu, en hann fer að sjá svik og launráð í hverri einustu hugsun og hreyfingu félaga sinna.

"The Treasure of the Sierra Madre" er mögnuð kvikmynd um það hvernig menn geta orðið af aurum apar, þegar þeir eru siðferðilega illa undirbúnir til að treysta félögum sínum, þegar verðmætamat snýst meira um efni frekar en anda.

Dobbs á sér enga drauma aðra en að margfalda allt það sem hann þekkir úr eigin reynslu, en Curtin og Howard reynast báðir vera í leit að einhverju verðmætara en peningum. Charles C. Dobb er útrásarvíkingur eins og þeir gerast bestir, sníkjudýr sem lifa á góðmennsku annarra og átta sig ekki á mikilvægi annarra gæða en þeirra sem þú getur haldið á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

100 % SAMmála þér

Þetta er fyndið , kannski ekki búin að skoða

http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/1045552/

Ómar Ingi, 21.4.2010 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband