Clash of the Titans (2010) **1/2
19.4.2010 | 06:33
"Clash of the Titans" er endurgerð samnefndrar myndar frá 1981, en hefur flesta sömu gallana og fyrri myndin, þrátt fyrir uppfærðar tæknibrellur og að asnalega véluglan er ekki að þvælast fyrir, nema í stuttu atriði snemma í myndinni, sem virðist fyrst og fremst hafa verið hugsað til að láta áhorfendur vita að svo pirrandi persóna yrði ekki í þessari mynd. Það mistekst, því einn af félögum Perseusar er svona einhvers konar hávaxið galdratré sem áður var manneskja og kann ekki að segja nema eitt orð.
Vandamálið við upphaflegu myndina var að lítið var lagt í persónusköpun og því meira í tæknibrellur og hasar. Það sama á við hér. Það er synd, því styrkur grískra goðasagna felst einmitt í sterkri persónusköpun, og gaman væri að sjá hana vel útfærða.
Hades (Ralph Fiennes) er orðinn þreyttur á heljarvist sinni undir yfirborði jarðar og hefur sett af stað áætlun sem á að gefa honum meiri völd en Seifur (Liam Neeson). Hugmyndin er að gera mannfólkið afhuga Seifi, fá það til að berjast innbyrðis og síðan refsa þeim svo ógurlega að þeir verði hræddir við guðina í stað þess að lofa þá, en Hades nærist á ótta. Seifur á lofi.
Seifur barnaði drottningu fyrir einhverjum árum. Kóngurinn ætlaði að drepa bæði konu sína og barn, en tókst það ekki. Sonurinn, Perseus (Sam Worthington) lifði af, bjargað af sjómanni og einfaldri fjölskyldu.
Þegar Hades myrðir fjölskyldu Perseusar fyllist sá síðarnefndi heilagri reiði og ákveður að hefna sín á öllum guðunum, þar á meðal Seifi, sem hann fyrirlítur eins og alla aðra guði, þrátt fyrir að vera sonur hans.
Hades hefur fyrirskipað aftöku prinsessunnar Andrómedu (Alexa Davalos) til að stöðva skrímslið sem kallað er Krakki af einhverjum ástæðum, annars mun Krakkinn leggja borgina Argos í rúst. Eina von Andrómedu er Perseus, sem ákveður að fara á fund örlaganornanna eða véfréttarinnar (þessu er ruglað saman) og fá að vita hvernig hann geti drepið Krakkann.
Góður hópur fer með Perseus og lendir í ýmsum tölvuteiknuðum ævintýrum ásamt félögum sínum sem missa töluna ansi hratt fyrir minn smekk, og vængjaða hestinum Pegasus, sem eru, viðurkenni ég, afar vel gerð. Sérstaklega bardagar við sporðdreka og medúsu. Krakkinn sjálfur er aftur á móti frekar hlægilegur og engan veginn hægt að taka það skrímsli alvarlega.
Veikleikarnir felast í flatleika persónanna. Það er eins og ekkert skipti þær máli, þær séu bara til fyrir plottið og skipti í raun engu máli hvað um þær verður. Einnig eru sum bardagaatriðin svolítið ruglingsleg, því á tímabili hélt ég að hópurinn væri að berjast við einn risasporðdreka, á meðan þeir voru að berjast við tvo. Samböndin á milli persónanna eru algjörlega líflaus, og virðast leikararnir frekar hafa hugann við launaumslagið heldur en að skapa eftirminnilegar persónur, sambönd, og aðstæður sem gerir þær enn eftirminnilegri en áður.
Eftirminnilegasta persónan er Draco, hetja sem hefur heitið því að brosa ekki fyrr en honum hefur tekist að ná fram hefndum gagnvart guðunum. Hann er leikinn af Dananum Mads Mikkelsen, en hann fær ekki nógu mikinn tíma á skjánum til að gera eitthvað af viti við hlutverkið.
Það er svolítið skondið, að fantasía sem byggir á frjóum jarðvegi grísku goðsagnanna, skuli vera laus við innblástur og ímyndunarafl, og sína í stað heim sem mistekst að gera góð skil í þetta skiptið. Ég velti fyrir mér hvernig sama efni hefði spunnist í höndum einhverra eins og James Cameron, Steven Spielberg, Sam Raimi eða Peter Jackson, og er viss um að þeim hefði farnast margfalt betur.
Leikstjórinn, Louis Leterrier, hefur gert fjórar aðrar myndir: hasarmyndirnar "The Transporter" með Jason Statham og framhaldið "The Transporter 2", auk hinnar áhugaverðu "Danny the Dog" með Jet Li, Bob Hoskins og Morgan Freeman, og hina ágætu "The Incredible Hulk" sem Edward Norton gerði áhugaverða. Leterrier er einfaldlega ekki í þessum hágæðaklassa sem leikstjóri, þó að sjálfsagt eigi hann eftir að bæta sig í náinni framtíð.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.